07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

257. mál, hússtjórnarskólar

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég fagna að sjálfsögðu góðum undirtektum hv. 2. þm. Norðurl. e. undir frv., sem fyrir liggur. Erindi mitt í ræðustól er að leitast við að veita þau svör, sem unnt er, við fsp. hans um, hvar staður kunni að verða valinn fyrir handíðaskólann, sem um er fjallað í V. kafla frv.

Þar er því til að svara, að engin skipuleg könnun hefur farið fram á staðarvalinu. Það, sem ég segi hér, er aðeins almennt viðhorf mitt til þess máls. Það byggist á því, að gera má ráð fyrir, að þróunin verði sú, að ekki verði almennir heimilisfræðaskólar í öllum þeim húsmæðraskólum, sem reknir hafa verið. Því hljóti að koma til álita að nýta þau húsakynni, sem fyrir kunna að verða á einhverjum stað fyrir handíðaskóla. í öðru lagi tel ég liggja í augum uppi, að atvinnuhættir eru þannig, að sá listiðnaður og þær handiðir, sem þessi skóli á að kenna, eru í meira mæli stundaðar utan helsta þéttbýlissvæðisins. Þegar slík störf eru stunduð í atvinnuskyni, er það reynsla bæði hér og annars staðar, að slíkur atvinnurekstur á best skilyrði þar, sem ekki er of hörð samkeppni við stórrekstur af ýmsu tagi. Þess vegna tel ég öll rök hníga að því, sem mér er kunnugt um, að skólinn verði utan þéttbýlissvæðisins hér við Faxaflóa. Um nánara staðarval get ég ekki sagt að sinni, vil þó aðeins taka fram, að vegna þess, hversu tamt þeim er á Norðurl. e. að nefna Akureyri, þegar rætt er um, að stofnanir geti verið víðar en í Rvík, að landsbyggðin er ekki eintóm Akureyri.