07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

256. mál, Hússtjórnarkennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands á þskj. 445 er samið af sömu n. og gekk frá frv. um heimilisfræðaskóla á þskj. 446. í störfum n. varð niðurstaðan, að breytingar á húsmæðraskólunum, sem gert er ráð fyrir í frv., þurfi og eigi að haldast í hendur við breytingar á Húsmæðrakennaraskólanum.

Meginnýmælið í þessu frv. er það, að af Húsmæðrakennaraskólanum skuli taka við stofnun, sem nefnist Hússtjórnarkennaraskóli Íslands og skuli hann skiptast í tvær deildir, önnur annist menntun hússtjórnarkennara, en hin menntun matráðsfólks, en síðan séu ýmsar greinar sameiginlegar báðum þessum aðaldeildum. í kennaradeildinni skal búa nemendur undir kennslu í heimilisfræðum, en í matráðsdeild mennta starfsmenn til að veita forstöðu mötuneytum sjúkrahúsa, heimavistarskóla, vistheimila og annarra slíkra stofnana. Í 3. gr. er kveðið á um, að lokapróf frá Hússtjórnarkennaraskóla Íslands skuli veita réttindi til þeirra starfa, sem talin eru í 2. gr. Gert er ráð fyrir, að Hússtjórnarkennaraskólinn sé þriggja ára skóli og námstími alls 110–120 vikur.

Í II. kafla eru ákvæði um inntökuskilyrði og er, eins og fram kemur í grg. n., höfuðviðmiðunin sú, að inntökuskilyrði sé stúdentspróf ásamt 20 vikna hússtjórnarnámskeiði. Síðan er nánari útlistun, hvað talið er samsvara þeirri undirbúningsmenntun.

Eins og fram kemur einnig í grg., eru starfsmenn í menntmrn., sem um málið hafa fjallað, ekki eins sannfærður og n. um, að hér skuli við stúdentspróf miðað, og er þetta atriði, sem ástæða er til fyrir þn. að gefa sérstakan gaum, þegar hún fjallar um málið.

Þau nýmæli, sem lagt er til í frv. að leidd verði í lög, leiðir í einu orði sagt að því breytta hlutverki, sem ætlast er til að þessi skólastofnun gegni. Kveðið er á um kennsluæfingar utan skólans og sér í lagi um verklega kennslu fyrir nemendur matráðsdeildar, sem gert er ráð fyrir að fari fram í stofnunum ríkis og Reykjavíkurborgar eftir samkomulagi við forstöðumenn þeirra.

Ég hirði ekki að rekja í einstökum atriðum ákvæði um skipun skólanefndar né kennararéttindi, þau eru að mínum dómi sjálfsögð, eins og þeim er komið fyrir í þessu frv. Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.