07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

247. mál, skattaleg meðferð verðbréfa

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um skattalega meðferð verðbréfa, en samkv. frv. er um að ræða ríkisskuldabréf, spariskírteini og happdrættisskuldabréf, sem hafa verið gefin út samkv. heimildum í fjárlögum fyrir árið 1974.

Spariskírteinin hafa verið gefin út um alllangt skeið með sömu fríðindum og felast í frv. því, sem hér liggur fyrir. Þó er það ekki nema þriggja ára gamalt, að farið er að skrá skírteinin á nafn eiganda. Happdrættisskuldabréfin, sem hér um ræðir, eru, eins og kunnugt er, fyrst og fremst tengd ákveðnum framkvæmdum, sem eiga sér stað, þ.e.a.s. lagningu hringvegarins, og ákvæði um þau hafa ávallt verið með nokkuð öðrum hætti en ákvæði um spariskírteinin og ríkisskuldabréfin. En rétt er að geta þess, að ríkisskuldabréf hafa ekki verið gefin út með þeim fríðindum, sem hér um ræðir, og í raun og veru hefur því aðeins verið um spariskírteini að ræða, þótt heimildin hafi verið bundin við ríkisskuldabréf einnig og sé það líka í því frv., sem hér liggur fyrir.

Eftir að frv. kom til n., hafði n. samráð við fulltrúa í fjmrn. og við ríkisskattstjóra og ræddi ýmis atriði frv., og kom í ljós, að það mundi ekki þannig úr garði gert, að við svo búið mætti standa. Var þar einkum um að ræða 1. gr. frv., þar sem stillt er saman í einu lagi ríkisskuldabréfum, spariskírteinum og happdrættisskuldabréfum. Virðist einhver misskilningur hafa ráðið gerð þessarar 1, gr., og leikur enginn vafi á því, að eðlilegast er að fella happdrættisskuldabréfin úr 1. gr., þannig að hún eigi eingöngu við ríkisskuldabréf og spariskírteini.

Í ítarlegri grg. og umsögn, sem n. fékk frá ríkisskattstjóra, er bent á það misræmi, sem er í aths. við frv. annars vegar og svo hins vegar í 1. gr. frv., og hann mælir mjög eindregið með því, að gerðar séu tilteknar breytingar á frv.

Fulltrúar fjmrn. voru einnig þeirrar skoðunar, að gera þyrfti lagfæringar á frv. til samræmis við þær reglur, sem gilt hafa um þessi bréf. Þess vegna hefur niðurstaðan orðið sú hjá fjh.- og viðskn. að mæla með samþykkt frv. með tilteknum breytingum.

Breytingarnar koma fram í nál. á þskj. 448, og þær eru í því fólgnar, að orðið happdrættisskuldabréf er fellt út úr 1. gr. frv., svo að hún á einungis við ríkisskuldabréf og spariskírteini. Síðan er gerð breyting á 2. gr. frv., að ekki er aðeins sagt, eins og stóð í frv. í 2. gr., að happdrættisskuldabréfin skyldu lúta ákvæðum laga nr. 99 frá 1971 um verðtryggingu og aðra skilmála, eftir því sem við getur átt, heldur hefur verið bætt við þetta ákvæði, að viðkomandi skuldabréf lúti ákvæðum viðkomandi laga um framtalsfrelsi, skattfrelsi og verðtryggingu og aðra skilmála, eftir því sem við getur átt. Sem sagt, viðbótin er í því fólgin, að tekið er skýrt fram, að um framtalsfrelsi og skattfrelsi happdrættisskuldabréfanna gildi sömu reglur og eru fram settar í lögum nr. 99 1971.

Með þessum breytingum mælir n. með því, að frv. verði samþ.