07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

247. mál, skattaleg meðferð verðbréfa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við þau vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa í frammi í sambandi við meðferð mála hér á hinu háa Alþingi. Þannig er það nú farið að koma fyrir oftar en einu sinni, að upplýsingar, sem gefnar eru í þskj., eru ýmist villandi eða beinlínis rangar, svo sem er um aths. við í. gr. þess frv., sem hér er til umr., en þar er komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, um 1. gr.:

„Engin efnisbreyting er hér gerð frá fyrri lögum og ákvæðið um nafnskráningu er óbreytt.“ Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds, var frv. sent til umsagnar ríkisskattstjóra, og í umsögn hans við 1. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í öðru lagi er hér um að ræða happdrættisskuldabréf, sem gefin verða út samkv. 6. gr. LXVI. lið fjárlaga fyrir árið 1974. Ákvæðin um, að verðbætur þeirra og vinningar skuli undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé, sbr. 21. gr. l. nr. 68 1971, svo og ákvæðin um nafnskráningu þeirra eru alger nýmæli.

Í 2. gr. l. nr. 99 1971 eru skýr ákvæði þess efnis, að happdrættisskuldabréfin eru út gefin til handhafa, og í 5. gr. greindra laga segir svo orðrétt: „Skuldabréfin eru undanþegin framtalsskyldu og eignarsköttum, en vinningar svo og verðbætur undanþegin tekjuskatti og tekjuútsvari.“ Þau happdrættisskuldabréf, sem heimiluð var á útgáfa samkv. 5. gr. l. nr. 8 1973 lúta þessum sömu ákvæðum.

Framtalsfrelsi bréfanna, þar með skattfrelsi til eignarskatts, svo og tekjuskatts og tekjuútsvars, og frelsi vinninga og verðbóta er á engan hátt tengt eða háð skilyrðum 21. gr. l. nr. 68 1971 og kemur því aldrei til skattlagningar, jafnvel þótt eigendur þeirra uppfylli ekki skilyrði 21. gr. l. nr. 68 1971 varðandi skuldir.“

Það verður að átelja,eins og ég sagði áðan, að slík vinnubrögð séu höfð í frammí hér á hinu háa Alþ. Hlýtur að valda röskun eða jafnvel truflun og töfum á þingstörfum, ef stjórnarandstaðan þarf að vera undir það búin hverju sinni að athuga sérstaklega, hvort rétt sé farið með staðreyndir í grg. hæstv. ríkisstj.

Eins og fram kom í ræðu frsm. n., voru það hans óbreyttu orð um frv., eins og það var lagt fram, með leyfi hæstv. forseta: „Kom í ljós, að það var ekki þannig úr garði gert, að við svo búið mætti standa.“ Jafnframt gat hv. þm. þess, að fulltrúar fjmrn. hefðu einnig verið þeirrar skoðunar, að gera þyrfti lagfæringar.

En það er ekki aðeins, að frv. ríkisstj. séu illa úr garði gerð að þessu leyti, heldur hefur það einnig komið fram, m.a. í sambandi við 210. mál þingsins, frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, að þar virðist einnig sem vinnubrögðin séu nokkuð undarleg.

Í því frv. er lagt til, að leggja skuli nýjan skatt á landsmenn, en þó virðist svo nú sem þetta atriði hafi ekki verið full rætt innan stjórnarflokkanna, og þetta ákvæði ásamt ýmsum öðrum hefur svo valdið því, að afgreiðsla frv. hefur dregist, þó svo að lög þessi hefðu þurft að taka gildi eigi síðar en 1. mars s.l.

Í sambandi við það frv., sem hér er til umr., vil ég svo að lokum aðeins segja það, að það orkar tvímælis, hvort rétt sé að binda það í l., að nýjar útgáfur ríkisskuldabréfa skuli lúta ákvæðum þessara laga. En það er annað mál, og um það var ekki gerður ágreiningur í n.