07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

247. mál, skattaleg meðferð verðbréfa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér þótti ræða hv. alþm. Ragnars Arnalds að mörgu leyti athyglisverð, eins og m.a. sú fullyrðing hans, að hæstv. fjmrh. hafi enn ekki uppgötvað, að það stjfrv., sem hann sjálfur flytur, þurfi lagfæringar við, það sem fulltrúar fjmrn. hafi einnig talið, að þyrfti lagfæringar við. Sýnir það að sjálfsögðu nokkuð undarleg vinnubrögð í því háa rn., ef undirmenn ráðh. geta tekið með þeim hætti jákvæða afstöðu til breytinga á frv., sem sjálfur hæstv. ráðh. hefur áður flutt. Ég verð að segja, að ég trúi því tæplega, að þannig geti þetta verið, en viðurkenni hins vegar, að ef vinnubrögðin eru með þessum hætti, þá gæti það skýrt margvíslegan málatilbúnað hér á hinu háa Alþingi.

Hv. þm, segir, að þetta sé smásmugulegt tilefni. Mér finnst það ekki smásmugulegt tilefni, þegar upplýst er, að opinberar stofnanir hafi fengið þetta frv. til laga til umsagnar og gert till. og breytingar við það, sem síðan hafi skolast til og villst með inn á hið háa Alþingi. Mér þykir þetta ekki smávægilegt tilefni, og ég verð að segja, að þó að ég hafi kannske ekki gert mér háar hugmyndir um frumvarpsgerð og tillöguflutning hæstv. ríkisstj., þá hef ég þó aldrei nokkurn tíma fellt neinn slíkan áfellisdóm yfir vinnubrögðum hennar. Það hefur mér aldrei hvarflað í hug, og ég hygg, að slíkt eigi sér ekkert dæmi í þingsögunni, að yfirlýsing af þessu tagi hafi komið fram frá einum af aðalleiðtogum stjórnarflokka.