07.03.1974
Neðri deild: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

259. mál, skattkerfisbreyting

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 449 er frv. til l. um skattkerfisbreytingu. Um skattamál hefur verið allmikið rætt á því þingi, sem nú stendur yfir, og reyndar nokkuð lengur, því rekja má umr. um skattamál og tekjur ríkissjóðs allt aftur til þess, þegar ákvörðun var tekin hér um að ganga í EFTA, og þá var um leið mörkuð sú stefna, að tolltekjur ríkissjóðs mundu verða minni þáttur í ríkistekjunum heldur en áður hefur veríð. En umr. þær, sem átt hafa sér mest stað innan veggja þessarar hv. d. og Alþ. yfirleitt, hafa að verulegu leyti snúist um það, að hve miklu leyti ætti að mæta tekjum ríkissjóðs með beinum sköttum og að hve miklu leyti með óbeinum sköttum. Ég minnist þess frá umr. um skattalagafrv. ríkisstj. á árinu 1972, að hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, flutti þá ræðu, sem var málefnaleg, eins og hans er oft von og vísa, og ræddi þá þennan þátt skattamálanna meira en aðrir þm. gerðu.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um skattamál, hefur það jafnan komið fram og svo hefur verið í því, sem ég hef talað hér af hálfu hæstv. ríkisstj., að það, sem skorti á fyrir stjórnvöld í landinu til þess að meta, hvort beinir eða óbeinir skattar ættu að ráða meiru í tekjuöflun ríkissjóðs, það væri valið á milli þess að fá skattana án vísitöluáhrifa eða með vísitöluáhrifum og væri ekki hægt að gera þessa ákvörðun upp, nema vísitöluáhrifa gætti ekki í skattheimtunni.

Í ársbyrjun 1973 fóru fram viðræður á milli mín og forustumanna Alþýðusambands Íslands, þáv. forseta þess og formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar, um breytingu á skattakerfinu í þá átt að lækka beina skatta, en hækka óbeina, og það yrði gert með þeim hætti, að vísitalan hefði ekki áhrif á óbeinu skattana. Þessar umr. voru nokkuð á veg komnar, þó ekki verulega, þegar gosið kom upp í Vestmannaeyjum, en eftir það féllu þær niður.

Á s.l. hausti hafa verið flutt hér á hv. Alþ. till. til þál. frá Alþfl., sem hefur gengið í þá átt að lækka beinu skattana og hækka óbeina skatta og frv. frá Sjálfstfl., sem gekk í þá átt að lækka beina skatta. Á kjaramálaráðstefnu ASÍ í Reykholti 27. og 28. ágúst s.l. og í Reykjavík 12. og 13. okt. s.l. voru samþykktar ályktanir um skattamál. sem fólu í sér ósk um lækkun tekjuskatts einstaklinga, eins og það var orðað, og þessar till. voru sendar ríkisstj. Ríkisstj. ákvað því að taka upp viðræður við forseta ASÍ og formann samninganefndar ASÍ um kjaramál á grundvelli þessara ályktana, sem gerðar hefðu verið á þessum ráðstefnum. Þeim var svo auðvitað í sjálfsvald sett, hvaða fleiri aðilar kæmu inn í þessar umr.

Þessar umr. hófust á s.l. hausti og urðu alllangar og veigamiklar. Þær snerust um það, að tekjuskattur einstaklinga yrði lækkaður verulega, en á móti því kæmi aftur hækkun á söluskatti, svo að ríkissjóður yrði skaðlaus af þessum kerfisbreytingum og söluskatturinn, sem innheimtur væri vegna þessara breytinga, gengi ekki inn í kaupgjaldsvísitölu. Allmargir fundir voru um þetta mál haldnir, og vorum við þrír ráðh. úr ríkisstj., sem tókum þátt í þeim, auk mín þeir hæstv.ráðh. Björn Jónsson og Lúðvík Jósepsson. Inn í þessar umr. kom það einnig, að nauðsyn bæri til, ef að þessu ráði yrði horfið, að tryggja það, að þeir tekjulægstu og skattlausu, sem yrðu að greiða söluskatt að einhverju leyti, yrðu ekki bara fyrir barðinu á söluskattinum, heldur yrði þeim bætt það með öðrum hætti, — það yrði að taka upp nokkurs konar neikvæðan skatt, sem bætti þeim upp kostnaðaraukann af söluskattshækkuninni. Framhald þessara viðræðna varð svo í framkvæmdinni það, að af hálfu ASÍ voru kjörnir sérstaklega fulltrúar til þess að vinna að málinu frá þeirra hendi, — það voru þeir Björn Þórhallsson, Guðmundur J. Guðmundsson og Þórólfur Daníelsson, af hálfu ríkisstj. Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri og Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri í fjmrn. Ásamt þeim unnu að málinu Ólafur Davíðsson hagfræðingur og Höskuldur Jónsson skrifstofustjóri.

Árangurinn af þessum viðræðum er yfirlýsing sú um skattamál. sem er að finna í grg. þessa frv. sem fskj. á bls. 7–9 og er undirrituð af okkur þeim þremur ráðh., sem ég vitnaði til áðan. Sú yfirlýsing, sem þar er gefin, var síðan samþykkt af 30 manna samninganefnd ASÍ með miklum meiri hl. atkv., en yfirlýsingin er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirlýsing um skattamál:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir, að breyt. verði gerðar á skattal. í samræmi við eftirfarandi: 1. Tekjuskattur einstaklinga 1974 verði lækkaður, þannig að heildarfjárhæð álagðra skatta á forsendum tekjuáætlunar fjárl. lækki um ca. 2700 millj. kr., sbr. breyt. á skattstiga og persónufrádrætti samkv. 2. tölul. hér á eftir. Á móti þessari lækkun komi hækkun söluskatts frá 1. mars 1974 að telja, 5%-stig.

2. Við lækkun tekjuskattsins verði miðað við skattstiga og persónufrádrátt sem hér segir:

a. Skattstigi tekjuskatts verði: 0–100 þús. kr. 20%, 100-20Ð þús. kr. 30%, og 200 þús. kr. þar yfir 40%.

b. Persónufrádráttur eða önnur persónuívilun verði þannig, að hún sé ígildi persónufrádráttar: hjóna 425 þús. kr., einhleypur 280 þús. kr. og barna 58 þús. kr. — Endanlegar tölur um skattprósentur og/eða persónufrádrátt ráðist af því, hvernig nauðsynlegar hliðarráðstafanir vegna hinna tekjulægstu verða framkvæmdar, en við það verði miðað, að tekjuskattur verði ekki greiddur af lægri tekjum en ofangreindur persónufrádráttur segir til um.

3. Í lögum um breyt. á l. um tekjuskatt verði ákvæði til þess að tryggja, að engum launþegahópum verði íþyngt með þessari kerfisbreytingu. Lagt er til, að þær hliðarráðstafanir, sem til þessa eru hugsaðar, verði í formi sérstaks skattafsláttar, sem nýtist bæði til þess að lækka tekju skatt og önnur opinber gjöld. Við ákvörðun skattafsláttarreglna verði við það miðað, að þær hagsbætur, sem í kerfisbreyt. felst, verði sem jafnastar fyrir alla launþega án tillits til tekna.

Ef reiknaður skattafsláttur nýtist ekki til lækkunar skatta eða annarra skulda viðkomandi gjaldþegns við ríkis- eða sveitarsjóð, má t.d. verja eftirstöðvum til að auka með félagslegum hætti fjárhagsaðstoð við námsmenn eða til beinnar útgreiðslu, ef þannig stendur á.

4. Útreikningi kaupgreiðsluvísitölu verði breytt þannig, að hækkun framfærsluvísitölu vegna framangreindrar söluskattshækkunar verði ekki reiknuð með í kaupgreiðsluvísitölunni. Frekari viðræður um K-vísitölukerfið og stöðu skattbreytinga í því verði teknar upp á öðrum vettvangi.

5. Endurskoðun tekjuöflunar ríkisins. Haft verði samráð við fulltrúa launþegasamtakanna um endanlega gerð lagafrv. þess (eða þeirra), sem ríkisstj. hyggst flytja til þess að framkvæma liðina 1.–4. hér að framan. Með till., sem lýst er hér að framan, er mikilvægt skref stigið í þá átt að lækka beina skatta og taka upp almennt skattafsláttarkerfi. Við framhaldsendurskoðun yrði unnið að því að einfalda tekjuskattinn og e.t.v. sameina algengustu bætur almannatryggingakerfisins (einkum fjölskyldubæturnar), þeim vísi að skattafsláttarkerfi, sem hér er ráðgerður. Þar með væri stefnt að því að sameina og samræma tekjuskiptingarafskipti ríkisins í almennu tekjujöfnunarkerfi. Við þessa endurskoðun yrði tryggt, að byrði beinna skatta þyngdist ekki frá því, sem að er stefnt með till. 1. og 2. hér að framan. Endurskoðun söluskatts með upptöku virðisaukaskatts í hans stað á næstu árum fyrir augum yrði einnig liður í þessu samráði. En með þeim breyt. yrði m.a. stefnt að því að létta óbeinum sköttum af framleiðslunauðsynjum.

Fulltrúar ASÍ leggja á það áherslu, að með því að fallast á 5%-stiga hækkun söluskatts sé tekið mið af skertri álagningu á árinu 1974. Á árinu 1975 verði því að taka tillit til þess við skattákvarðanir, þannig að þá verði metið, hvað 5%stiga hækkun á söluskatti nemi yfir árið, og jafnframt, hvað skattalækkun þá nemi miklu samkv. nýja skattstiganum, og að því leyti sem söluskattur verður talinn nema hærri upphæð, þá verður sá hluti, sem umfram er, metinn inn í kaupgjaldsvísitölu.“

Þetta er sú yfirlýsing, sem þetta frv. byggist á, eins og ég hef áður greint frá. Vinnubrögð við samningu þessa frv. hafa verið þau að, Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri hefur haft forustu um undirbúning málsins og þeir embættismenn, er greindi áðan, hafa unnið verkið með honum. Þó forfallaðist Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri vegna veikinda, en Árni Kolbeinsson fulltrúi í fjmrn. bættist í hópinn. Af hálfu ASÍ tilnefndi forseti ASÍ þá sömu menn og áður greindi til að vinna að gerð frv., og einnig fékk forseti ASÍ málið í sínar hendur á undirbúningsskeiði. Ríkisskattstjóri hefur og farið yfir frv. á síðasta stigi þess, þegar það var í prófarkalestri. Algert samkomulag var um gerð frv. af hálfu starfsmanna ríkisstj. og fulltrúa ASÍ, og töldu þeir, að frv. væri í fullu samræmi við áðurgreinda yfirlýsingu. Til viðbótar er á bls. 11 miðri að finna svo hljóðandi yfirlýsingu, er þeir gáfu fyrir hönd ASÍ, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samráði við fulltrúa ASÍ við endanlega gerð frv. kom fram, að þeir telja fleiri aðferðir koma til greina til að jafna mun söluskattshækkunar og tekjuskattslækkunar (ásamt skattafslætti) á árinu 1975, ef til kæmi, en hækkun kaupgreiðsluvísitölu. Þessi met mætti jafna með hvers konar skattbreytingum.“

Í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að lýsa helstu atriðum frv., en þau eru fólgin í fyrsta lagi í persónufrædrætti og persónuafslætti. Eins og greinir á 1. síðu frv., er persónufrádráttur einhleypra 238 þús., hjóna 355 þús., og fyrir hvert barn er hann 50 þús. Enn fremur kemur það fram í 4. gr. frv., hvernig skattafsláttur sá, sem um ræðir í yfirlýsingunni, hefur verið framkvæmdur, og kemur fram á bls. 8, hvað raunverulegur persónufrádráttur er, þegar honum hefur verið bætt við. En í II. lið í 4. gr. frv., bls. 2, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilisföstum mönnum hér á landi, sem skattskyldir eru samkv. l. þessum, sbr. 1. gr., skal veita skattafslátt frá tekjuskatti eins og hann er ákveðinn samkv. I. tölul. þessarar greinar. Skattafslátturinn skal vera sem hér segir:

A. Fyrir einstaklinga 11000 kr.

B. Fyrir hjón 18500 kr., telji þau fram hvort í sínu lagi 11000 kr. hjá hvoru.

C. Fyrir hvert barn, sem er á framfæri skattþegns og ekki er fullra 16 ára í byrjun þess almanaksárs, þegar skattur er á lagður, 3300 kr. Hér með teljast stjúpbörn, kjörbörn og fósturbörn, sem meðlag er ekki greitt með. Ef foreldrar búa saman ógift, skal skattafsláttur vegna barna skiptast til helminga milli þeirra. Búi foreldrar ekki saman og annað þeirra hefur barnið hjá sér, en hitt greiðir meðlag, skal skattafsláttur einnig skiptast til helminga milli þeirra.

D. Fyrir einstætt foreldri, sem heldur heimili og framfærir þar börn sín, 6500 kr. auk afsláttar samkv. A-lið og 600 kr. fyrir hvert barn auk afsláttar samkv. C-lið.“

Þegar þetta dæmi hefur verið gert upp á þennan hátt, sem hér greinir, lítur það þannig út, að til þess að fara að greiða tekjuskatt þarf einhleypur maður barnlaus að hafa tekjur, sem eru hærri en 293 þús. í nettótekjur. Barnlaus hjón þurfa að hafa tekjur, sem eru hærri en 448 þús. Hjón með tvö börn þurfa að hafa tekjur, sem eru hærri en 572 þús., og einstætt foreldri með eitt barn þarf að hafa hærri tekjur en 500 þús., áður en til skattlagningar kæmi. Þetta ákvæði er eins og ég sagði áðan haft til þess að jafna metin á milli þeirra, sem hafa það lágar tekjur, að þeir hafa ekki möguleika á því að greiða skatt af tekjum sínum, af því að tekjurnar eru svo lágar.

Til frekari áherslu um framkvæmd á þessum lið vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér áfram á bls. 2 í 4. gr. um skattafsláttinn, en þar segir:

„Skattafsláttur samkv. liðum A–D að framan má þó aldrei verða meiri en 6% af skattskyldum tekjum framteljanda samkv. 7. gr.

Þetta ákvæði er sett inn í gr. til þess að koma í veg fyrir það, að hlutaðeigandi skattgjaldandi hafi beinlínis hag af því umfram það, sem hann hefur kostnað af söluskattinum, að þessi skattbreyting er gerð. Svo kemur hér áfram:

„Sé manni ákveðinn hærri skattafsláttur samkv. liðum A–D og málsgr. næstu hér að framan en nemur tekjuskatti samkv. I. tölul. og þá eins þegar tekjuskattur samkv. I. tölul. er enginn, skal ríkissjóður leggja fram fjárhæð, sem þessum mun nemur. Þessu fé skal fyrir hvern mann ráðstafað sem hér segir og í þessari forgangsröð, meðan það endist:

1. Til greiðslu þinggjalda, sem á manninn eru lögð á greiðsluárinu.

2. Til greiðslu útsvars og annarra gjalda til sveitarsjóðs, sem á manninn eru lögð á greiðsluárinu, að undanskildum fasteignagjöldum.

3. Sé framlag ríkissjóðs samkv. 3. mgr. þessa liðar hærra en greiðslur samkv. 1. og 2. lið hér að framan, skal því, sem umfram þær er, ráðstafað sem hér segir: a. Til jöfnunar á námskostnaði, sbr. lög nr. 69/1972“, — en þar er átt við lög um jöfnun námskostnaðar vegna nemenda utan af landsbyggðinni, sem ekki geta dvalið heima hjá sér, þegar þeir eru við nám, — „og til Lánasjóðs ísl. námsmanna eða annarrar fjárhagsaðstoðar ríkisins við námsmenn, þegar í hlut eiga menn, sem njóta frádráttar vegna námskostnaðar á skattárinu.“ — Hér er um aukna aðstoð að ræða við unga fólkið í landinu og er þá átt við námsfólkið. Áfram er svo haldið: „b. Til greiðslu ógoldinna þinggjalda mannsins frá fyrri árum og síðan til greiðslu fasteignagjalda hans og ógoldinna gjalda til sveitarsjóðs frá fyrri árum, þegar í hlut eiga aðrir menn en um gat í a hér að framan.

4. Sé fé enn óráðstafað að loknum greiðslum samkv. 1.–3. hér að framan, skal það greitt viðkomandi manni.“ — Vil ég vekja athygli á því, að hér er prentvilla í þskj., þar á að standa, að fé, sem þá er eftir, að það skuli greitt viðkomandi manni. Þetta „hann“ og „greiddur“ er rangt, það á að koma: „skal það greitt viðkomandi manni“.

„Ráðh. ákveður með sérstakri reglugerð alla meðferð skattafsláttar samkv. þessum lið.“ Eins og ég gat um áðan, er hér um að ræða aukna aðstoð við unga fólkið í landinu, en áður hafa í tíð þessarar ríkisstj. verið felldir niður persónuskattar þess til trygginga og sjúkrasamlaga, sem mundu hafa numið, eins og fjárl. gerðu ráð fyrir þeim greiðslum, 22 þús. hjá ungri konu og 24 þús. hjá ungum karlmanni, en mundu hækka á árinu vegna þess að þessi gjöld koma til með að aukast, lífeyristryggingar á yfirstandandi ári, vegna þeirra hækkana, sem orðið hafa bæði við kjarasamninginn og hækkun vísitölu. Auk þess hafa svo námslánin verið hækkuð um einar 400 millj. kr. og svo aukið verulega við námsaðstoðina við dreifbýlisfólkið samkv. því, sem ég áður greindi frá hér um. — Það er gert ráð fyrir því, að reglugerð um þetta ákvæði, hvernig með skuli fara, verði sett í samráði við stjórnir þessara námssjóða.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að skattstigarnir breytist svo: 1. Að frá 0 til 100 þús. kr. verði greiddur 20% skattur, en áður var það svo, að þar var 25% skattur upp í 77 þús. 2. Að frá 100–200 þús. kr. verði greiddur 30% skattur, en þar var um að ræða 35% skatt, sem náði ekki eins langt upp og hér er gert ráð fyrir. 3. 40% skattur af þeim skatttekjum, sem eru hærri en 200 þús. hjá einstaklingi.

Um skatt hjá öldruðu fólki er það að segja, að það heldur fullkomlega öllum þeim fríðindum, sem það áður hafði, í samræmi við þær breyt., sem á slíku verður nú með þessari löggjöf.

Þetta eru aðalatriði frv., sem snúa að tekjuskattsbreytingunni.

Eins og áður hefur verið boðað eða hefur komið fram í ræðum mínum, t.d. í fjárlagaræðunni á s.l. hausti, og kemur fram í skýrslu þeirrar n., sem unnið hefur að tekjuöflun ríkissjóðs, er gert ráð fyrir því að reyna að fella tekjustofna ríkissjóðs saman í eina heildarlöggjöf, og má segja að þetta frv. sé spor í þá átt, þó að það sé ekki nema að litlu leyti. Þess vegna er gert ráð fyrir, að í þessu frv. séu allir þeir þættir, sem um var samið í sambandi við nýgerða kjarasamninga, bæði að því er varðar lækkun tekjuskatts, hækkun söluskatts og launaskattinn.

Sá hluti frv., sem snýr að söluskattinum, er fyrst og fremst sá, að tekin er upp hækkun á honum með þeim hætti að taka upp söluskattauka, sem er 5%, og sá hluti, sem þar er tekinn upp, rennur óskertur í ríkissjóð, en af 11%, sem fyrir eru af söluskatti, ganga 8% í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Aðalákvæðin, sem snúa að söluskatti, eru í sambandi við framkvæmd á söluskattsinnheimtu og eftirlit með söluskattinum. Er gert ráð fyrir því að herða mjög öll viðurlög, er víkja að söluskatti, enda er hægt að segja, að nauðsyn beri til þess, þar sem þau ákvæði eru síðan söluskatturinn var upphaflega settur um 1960 og þegar hann var þá 3%. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að hægt verði að taka upp í öllum fyrirtækjum, þar sem söluskattur er innheimtur, sérstaka peningakassa, þar sem stimplaður er inn allur söluskattur, svo að starfsmenn fjmrn. eigi auðvelt með að fylgjast með, hvort skattinum er skilað, og auðvelda þannig eftirlitið með skattinum frá því, sem það nú er. Þetta ákvæði komst í lög fyrir nokkrum árum, þó að takmörkuðu leyti, en nú eru hins vegar tekin af öll tvímæli um, að fjmrh. hefur heimild til að koma þessu í framkvæmd og gefa fyrirskipun um, að þessi háttur skuli á hafður viðvíkjandi söluskattsinnheimtu. Þá eru og sektarákvæði um söluskatt hækkuð verulega, og getur farið svo, að sekt vegna brota á söluskatti, ef um umfangsmikið mál er að ræða eða ítrekun, geti orðið allt að 10 millj. kr. Enn fremur er það atriði tekið upp í frv. að gera refsingu við broti á söluskattsl. eins og um refsingu væri að ræða í almennum hegningarl. fyrir auðgunarbrot, sem getur verið starfssvipting og fangelsisvist allt að 6 árum. Þetta ákvæði er nýmæli og er í samræmi við það, sem áður hefur verið skýrt hér frá, að eðlilegt væri varðandi söluskattinn að herða það eftirlit svo, að með þetta sé farið eins og hvert annað tilvik, þegar viðkomandi aðili skilar ekki því fé, sem hann hefur innheimt og ríkissjóður á.

Þá er og í þessu frv. ákvæði að finna um samkomulag, sem varð milli ríkisstj. — og undirritað er af sömu aðilum og ég greindi hér áðan, — og alþýðusamtakanna um launaskatt, sem gangi til húsbygginga. Er gert ráð fyrir því, að þessi skattur muni gefa á þessu ári ca. 300 millj. kr., ef hann verður lagður á frá 1. apríl. Gengur hann eingöngu, eins og ég áður sagði, til Byggingarsjóðs ríkisins.

Um málið að öðru leyti vil ég svo sérstaklega að því er varðar tekjuöflunina gefa nokkra frekari skýringu en ég hef þegar gert í því, sem ég hef sagt hér á undan, enda hafa nokkrar umr. orðið um tekjuöflunina, en hún er bundin í þessu samkomulagi alveg eins og skattlækkunin. Hvort tveggja þetta er í samhengi hvort við annað, og ber að láta það fylgjast að, því að það er málið í heild sem um er að ræða og algert samkomulag var um.

Ég vil í þessu sambandi gera hér frekari grein fyrir söluskattinum og styðst ég þar við álitsgerð Hagrannsóknadeildarinnar en á vegum þeirrar stofnunar voru útreiknaðar allar þær tölur sem eru í þessu frv., er varða tekjuöflun og kostnað við útgjaldaaukningu vegna frv. Um það segir svo í grg. frv., á bls. 10, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárl. ársins 1974 er innheimtur söluskattur í ríkissjóð áætlaður 6 milljarðar 702 millj. kr. eða nær 610 millj. kr. fyrir hvert stig söluskatts. Áætlun þessi var miðuð við, að álagður söluskattur á árinu 1974 að meðtöldum hluta Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nemi nær 7400 millj. kr. eða um 670 millj. kr. fyrir hvert stig söluskatts. Af þessari upphæð koma um 616 millj. kr. í hlut ríkissjóðs. Þar sem söluskattur er innheimtur mánaðarlega eftir á, kemur desemberálagning ársins ekki til innheimtu fyrr en í jan. á næsta ári, en í ár er hins vegar innheimt álagning í des. á s.l. ári. Í fjárlagaáætlun var miðað við verðlag, eins og það var í des. s.l. óbreytt.

Í þjóðhagsspá hagrannsóknadeildar fyrir árið 1974, sem birtist í riti deildarinnar, Þjóðarbúskapurinn, nr. 4, des. 1973, var sett fram mat á þjóðhagshorfum ársins, byggt á ýmsum forsendum um helstu þjóðhagsstærðir, sem nánar er greint frá í skýrslunni. Meginforsendur um kauplag og verðlag á árinu 1974 voru þær, að kaupmáttaraukningin yrði í átt við aukningu þjóðarframleiðslu og þjóðartekna til lengri tíma lítið, og áætlun um hækkun verðlags og verðlagsbóta á laun var reist á mati á innlendum og erlendum verðhækkunartilefnum, eins og þau voru metin í lok árs 1973. Í þjóðhagsspánni var hins vegar ekki gerð nein tilraun til þess að spá beinlínis niðurstöðum almennra kjarasamninga, sem þá stóðu yfir. Hækkun söluskattstofnsins var áætluð 9% meiri en lagt var til grundvallar tekjuáætlun fjárl., sem eins og áður sagði tók beint mið af verðlagi í des. 1973.

Niðurstöður framangreindrar þjóðhagsspár lágu til grundvallar í viðræðum ríkisstj. við launþegasamtökin um breytingu á tekjuöflun ríkisins. Samkv. þessari áætlun nemur hvert stig í álagningu söluskatts nær 730 millj. kr. á öllu árinu 1974, að teknu tilliti til ráðgerðrar lækkunar tekjuskatts og þeirrar veltuaukningar, sem henni fylgir. Miðað við álagningu frá 1. mars (sem þó ekki næst, þar eð lagasetningunni er ekki lokið fyrir þann tíma), nemur álagningin 610 –620 millj. kr. fyrir hvert stig á árinu 1974. Samkv. þessu nemur 5 stiga hækkun söluskatts frá 1, mars, sem öll renni í ríkissjóð, um 3050–3100 millj. kr. í álagningu á árinu 1974. Af þessari upphæð innheimtist desemberálagning ekki fyrr en á næsta ári, þannig að af framangreindri fjárhæð koma um 2750–2800 millj. kr. til innheimtu á árinu, og þar af greiðir ríkissjóður sjálfur nær 100 millj. kr. vegna aukinna söluskattsútgjalda.

Nú er ljóst, að almenn veltubreyting verður meiri í ár en gert var ráð fyrir í forsendum þjóðhagsspár frá í des. s.l. Niðurstöður nýrra kjarasamninga fela í sér mun meiri hækkun kauplags en þá var gert ráð fyrir, en afar erfitt er að spá um verðlagsáhrif samninganna og þar með um frekari kauphækkanir. Auk þess ríkir óvissa um bæði innlendar og erlendar verðhækkanir af öðrum toga. Mjög lauslegar áætlanir benda til þess, að almenn veltubreyting (án verðlagsáhrifa söluskattshækkunar) gæti numið 8–10% umfram forsendur þjóðhagsspár. Miðað við slíka veltuaukningu gæti hvert stig söluskatts numið nær 800 millj. kr. í álagningu á öllu árinu 1974 eða um 680 millj. kr. á tímabilinu marsdesember. Í þessum tölum hefur verið gert ráð fyrir veltuaukningu í kjölfar tekjuskattslækkunar samkv. I. kafla þessa frv. Hækkun söluskatts um 5 stig næmi þannig 3400 millj. kr. á árinu 1974, og þar af kæmu rúmlega 3000 millj. kr. til innheimtu á árinu. Af þeirri upphæð greiðir ríkissjóður þó sjálfur nærri 100 millj. kr. vegna aukins söluskatts af útgjöldum hans.

Af því, sem hér hefur verið rakið, er ljóst, að sé miðað við áætlaða innheimtu á árinu 1974, er fyllilega þörf á 5% hækkun söluskatts til þess að vega á móti ráðgerðri lækkun tekjuskatts og þeim hliðarráðstöfunum, sem skattafsláttarkerfið felur í sér hinum tekjulægri til hagsbóta. Þannig má sjá af tölunum hér að framan, að þótt gert sé ráð fyrir, að 5 söluskatts %-stig gefi á ársgrundvelli um 4000 millj. kr., innheimtast ekki í ríkissjóð nema um 3000 millj. kr. á árinu 1974 (og raunar ekki nema 2900 millj. kr., því að útgjaldaauki ríkissjóðs á árinu vegna söluskattsaukans nemur um 100 millj. kr.), og er þá raunar miðað við, að söluskatturinn taki gildi 1. mars 1974. Með sama hætti eru nettótekjur ríkissjóðs á álagningargrundvelli 1974, miðað við 10 mánuði (sem þó nást ekki að fullu) um 3300 millj., eða því sem næst sama tala og lækkun tekjuskattsálagningar og útgjaldaauki vegna skattafsláttar nemur. Áhrifin á afkomu ríkissjóðs vegast því nokkurn veginn á, og er óhætt að fullyrða, að tæpara má dæmið ekki standa, því við ríkjandi verðbólguástand væri full ástæða til að styrkja stöðu ríkissjóðs fremur en veikja, ekki síst þar sem verð- og launahækkanir valda ríkissjóði fyrirsjáanlega miklum útgjaldaauka á árinu.“

Í sambandi við þetta er rétt að geta þess, hvað gert er ráð fyrir, að þessi tekjuskattslækkun nemi á árinu 1974, og er þá einnig miðað við áætlun fjárl., því að ljóst er, að ef tekjuskattur reynist meiri en þar er ráð fyrir gert, reynist afslátturinn einnig meiri en hér er gert ráð fyrir. Vil ég í því sambandi leyfa mé að vitna enn í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárlögum ársins 1974 er innheimtur tekjuskattur einstaklinga áætlaður 5864 millj. kr. að meðtöldu byggingarsjóðsgjaldi. Þessi áætlun er á því reist, að álagður tekjuskattur einstaklinga verði um 6400 millj. kr. Helstu forsendur þessara áætlana eru þær, að meðal breyting tekna á milli áranna 1972 og 1973 verði 25–26% og að innheimta tekjuskatts verði með líkum hætti og 1973“ – þ.e. 75%.

Sú lækkun tekjuskatts, sem frv. felur í sér, veldur því, að álagður tekjuskattur einstaklinga verður 3700 millj., miðað við forsendur tekjuáætlunar fjárl. um tekjur skattþegna á árinu 1973.

Hér er þannig um að ræða lækkun álagðs tekjuskatts um 2700 millj. kr. eða um 42%.

Auk lækkunar tekjuskatts hjá þeim, sem tekjuskatt bera, gerir frv. ráð fyrir „neikvæðum“ tekjuskatti, þ. e. skattafslætti, sem einnig kemur þeim til góða, sem ekki bera tekjuskatt.

Kostnaður ríkissjóðs af skattafsláttarkerfinu á árinu 1974 er áætlaður 550 millj. kr., en megintilgangur þess er að tryggja hag hinna tekjulægri.“

Þegar þetta er borið saman, sést, að mismunurinn á þessari upphæð, sem hér er greind, er um 350 millj. kr. ríkissjóði i óhag. Þá er því við að bæta, að við kjarasamningana, sem gerðir voru fyrir stuttu, var fallist á að láta tollalækkun þá, sem átti að koma til framkvæmda 1976 hjá iðnaðinum, taka gildi núna, og mun sú lækkun verða nokkrir tugir millj., sem ekki er reiknað með í þessu dæmi.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt, en vil að lokum leggja áherslu á nokkur atriði, er máli skipta í sambandi við það mál, sem hér er til umr.:

1. Hér er um stórkostlega tekjuskattslækkun að ræða, a.m.k. 42% og reyndar hærri, ef miðað er við álagningu skattsins.

2. Meiri afsláttur en 2700 millj. kr. verður af tekjuskattinum, ef hann fer fram úr áætlun fjárl. Þá gefur það auga leið, að það verður um hærri upphæð að ræða.

3. Söluskattur er miðaður við algert hámark. Meiri áhöld eru um, að hann skili sér sem tekjustofn, heldur en tekjuskatturinn, því að hann er lagður á þær tekjur, sem aflað var í fyrra og nú eru þekktar. Í sambandi við söluskattinn ræður árferðið og afkoman mestu um, hvernig til tekst, og það kaupæði, sem átt hefur sér stað nú síðustu dagana, mun að sjálfsögðu draga úr sölunni, þegar eftir að þessi skattbreyting hefur tekið gildi.

4. Ég held, að það verði ekki með nokkrum rökum sagt, að það sé hægt að beita meiri samviskusemi um áætlun við að meta mínus og plús af þessum skattkerfisbreytingum heldur en gert er í þessu frv., enda er hagrannsóknastjóri og hans stofnun þekkt að sérstakri vandvirkni í öllum slíkum dæmum. Það sýnir sig líka fullkomlega, að það hefur verið gert, og allt tal um, að ríkissjóður kunni að hagnast af þessum skiptum, er talað út í bláinn. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þeir hv. þm., sem vilja láta taka orð sín alvarlega og leiða rök að máli sínu, leyfi sér slíkan málflutning.

5. Þá vil ég vekja athygli á því, að samkomulag var um það, að málið yrði endurskoðað á næsta ári, þegar söluskatturinn gæfi tekjur á heilu ári, miðað við árið 1975, og þá gengi ekki inn í vísitölu eða því yrði ráðstafað á annan hátt, með skattafslætti eða slíku, sem fram yfir væri talið, að söluskatturinn gæfi meira en tekjuskatturinn mundi þá gefa. En að sjálfsögðu mundi hann þá gefa meiri fjárhæð en hann gefur við álagningu á þessu ári.

6. Með þessu frv. er í fyrsta sinn tekinn upp neikvæður skattur til að jafna á milli gjaldenda og þá fyrst og fremst þeim í hag, sem ekki hafa tekjur til þess að geta greitt skatt. Er þetta spor í þá átt að tengja saman tryggingakerfið og skattakerfið til þess að gera tryggingakerfið að raunverulegu tryggingakerfi fyrir þá þegna þjóðfélagsins, sem minna mega sín.

7. Ég vil vekja athygli á því, að öll viðurlög og eftirlit með söluskatti eru hert mjög frá því, sem verið hefur. Ber brýna nauðsyn til þess, þegar skatturinn er orðinn svo hár eins og raun ber nú vitni um. Ég er sannfærður um það, að framhaldið í skattamálum í þessa átt verður það að taka upp virðisaukaskatt. Þetta verður undanfari þess. Verður þá að góðu liði að hafa hert þetta eftirlit.

Nokkuð hefur verið um það rætt, hvort þessar till. og þetta frv. kunni að hafa þingfylgi til þess að ná fram að ganga hér í hv. d. Út í spádóma skal ég ekki fara að þessu sinni, en tel mig þó hafa rökstuddan grun um það, að svo muni verða, enda fyndist mér það vera að fara aftan að siðunum, ef það væri ekki miðað við allt tal hv. þm. um að hverfa frá of háum beinum sköttum yfir í óbeina skatta. Ég vil líka vekja athygli á till. Alþfl., sem flutt var í vetur þar um, þar sem einmitt er vikið að þessari leið, raunverulega alveg eins og hún er útfærð hér. Í þingtíðindunum, 8. hefti 1973, 26.–29. nóv., er að finna ræðu 1. flm., hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar. Þar gerir hann grein fyrir því og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Augljóst er, að jafnstórfelld lækkun á tekjuskatti til ríkisins og hér er gert ráð fyrir mun hafa í för með sér verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Í gildandi fjárl. er gert ráð fyrir því, að einstaklingar greiði 4.1 milljarða í tekjuskatt. Sú lækkun tekjuskatts, sem gert er ráð fyrir í till., mundi samkv. áætlunum, sem gerðar hafa verið, lækka þessa eða hliðstæða tekjuskattsinnheimtu um 2/3 hluta, þannig að tekjutap ríkissjóðs mundi verða 2.5–3 milljarðar kr., miðað við fjárlög þessa árs. Þennan tekjumissi þarf að sjálfsögðu að bæta ríkissjóði. Till. um tekjuskattslækkun, sem ekki gerðu ráð fyrir því að bæta ríkissjóði tekjutapið, mætti með réttu nefna sýndartill. Slíkar till. gerir þingflokkur Alþfl. ekki. Þess vegna er í till. einnig um það fjallað, hvernig ætlast sé til, að ríkissjóði sé bættur tekjumissirinn.

Aðalatriðið í því sambandi er, að gerð verði till. um, að sú hækkun söluskatts, sem runnið hefur í Viðlagasjóð, skuli haldast, en hún nemur sem kunnugt er 2% og ætti að falla niður 1. mars að óbreyttum lögum. Ef söluskattinum, sem rennur nú í Viðlagasjóð, yrði haldið og söluskatturinn hækkaður um 2–3 stig umfram það, sem hann er nú, yrði ríkissjóði bættur sá tekjumissir, sem hann yrði fyrir vegna lækkunar tekjuskattsins. Jafnframt er bent á það að kanna möguleika á, að söluskattur sé ekki innheimtur af brýnustu nauðsynjum.“

Um þetta vil ég segja það, að þarna er einmitt bent á, að það þurfi um 5% söluskattsstig til þess að mæta tekjuskattslækkun, sem nemur svipaðri fjárhæð og hér er á ferðinni, eða um 3000 millj. kr., en það er rúmlega það, þegar á hvort tveggja er litið, bæði tekjuskattslækkunina og einnig skattafsláttinn. Ég tel, að hér sé mætt þessu máli með skilningi, enda tel ég mig hafa orðið varan við það, þegar ég hef rætt þetta mál við formann og varaformann Alþfl., sem ég hef gert og gert þeim grein fyrir því, hvernig þetta mál stæði. Ég tel líka fullkomna ástæðu til að ætla, að margir hv. þm. Sjálfstfl. beri fullkominn skilning og velvilja til þessa frv., því að það gengur í þá átt, sem þeir hafa lýst, að stefna Sjálfstfl. væri, og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en þeir vilji fylgja henni eftir. Sama hefur hv. þm. Bjarni Guðnason gert. Hann hefur talið nauðsyn bera til að lækka tekjuskattinn, svo að allt ber að sama brunni.

Ég vil að lokum undirstrika það, sem ég gat um áðan, að þetta frv. er samkomulag milli ríkisstj. annars vegar og alþýðusamtakanna hins vegar. Ég tel, að þeir fulltrúar alþýðusamtakanna, sem unnu að þessu máli, hafi verið fullkomlega færir um að gera sér grein fyrir málinu í heild og hafi gert það, enda var unnið fyrir þá og greitt úr öllum þeim spurningum, sem þeir báru fram, og þeir fengu allar þær upplýsingar, sem þeir óskuðu eftir og nauðsyn bar til. Ég tel, að það hafi því verið rétt metið af þeirra hálfu, að það þyrfti að mæta tekjumissinum með 5 söluskattsstigum, enda hefur þegar komið í ljós, að þar mun heldur halla á en hitt. Ég teldi, að það væri óvirðing, sem alþýðusamtökunum væri sýnd, ef hv. Alþ. mæti ekki þetta samkomulag, og þeir hafi verið færir um að meta fullkomlega sína stöðu út úr þessu máli í heild. Ég verð því að segja það, að ég tel mig ekki hafa ástæðu til neinnar svartsýni um þetta mál. Fari svo, að þingið felli það, þá bý ég að sköttunum, sem nú eru til staðar, eins og þeir hafa verið, og þá hafa þeir fengið meira traust en ég hafði gert ráð fyrir hér á hv. Alþ. Út af fyrir sig hef ég svo sem ekkert við því að segja. En ég mun beita mér, að því leyti sem ég get, til þess að ná því, að þetta samkomulag nái fram að ganga, því að i þeim tilgangi var það gert.

Svo leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn., og leyfi mér að fara fram á það við formann fjh: og viðskn. þessarar d., að hann óski eftir því, að fjh.- og viðskn. Ed. vinni með þeim við athugun þessa frv.