07.03.1974
Neðri deild: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

259. mál, skattkerfisbreyting

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru úrslitakostir, sem Alþingi Íslendinga eru settir í dag. Það kom glöggt fram af ræðu hæstv. fjmrh., kom þó enn þá gleggra fram í samtali hans s.l. föstudag, 1. mars, í sjónvarpinu, því að þar lýsti hæstv. ráðh. því skýrt og skorinort yfir, að annaðhvort verði þingfylgi við málið allt í heild, eins og samið var um, eða ekki. Það er ekkert annað sem dugir, sagði hæstv. ráðh. Og þegar fréttamaður spurði hann: Sem sagt, ef ekki fæst fylgi við 5 stiga söluskattshækkun, þá er tekjuskattslækkunin úr sögunni? — Já, kvað fjmrh.

Það er því augljóst, að hér er um úrslitakosti að ræða. Nú skyldi maður ætla, að þegar ein ríkisstj. leggur svo mikið undir, mundi hún gera ráð fyrir að segja af sér, ef hún fengi ekki fram slíkt stórmál, sem snertir hag hennar og heiður. En það er nú eitthvað annað, því að í þessum yfirlýsingum hæstv. fjmrh. hefur hann fyrirvara um, að hann ætli alls ekki að segja af sér né ríkisstj. Þegar hæstv. ráðh. var um þetta spurður í sjónvarpinu, komst hann svo að orði, út af spurningunni um það, að ef þetta mál færi ekki í gegn, mundi þá stjórnin segja af sér, — þá svaraði hæstv. fjmrh.: Ég sé ekki ástæðu til þess fyrir stjórnina að segja af sér, þó að þetta mál nái ekki fram að ganga. — Maður hefði haldið, að hún mundi leggja líf sitt við, en svo er ekki. Enda er það svo, eins og einn hæstv. ráðh. komst að orði ekki alls fyrir löngu, að það væri ótrúlega mikil teygja í þessari ríkisstj. Í rauninni virðist hún ætla að streitast við að sitja, þótt hún hafi glatað og fyrirgert trausti þjóðarinnar, og mér virðist, að það sé aðeins tvennt til um hennar líf. Hún yrði að sjálfsögðu að víkja fyrir vantrausti, ef það yrði samþ., eða þá, sem öllu er líklegra, að hún muni á sínum tíma sálast úr innanmeini.

En hæstv. ríkisstj. ætlar í fyrsta lagi alls ekki að segja af sér, þótt þetta frv. nái ekki fram að ganga. Hún ætlar að lifa lengi. Það kemur fram í þessu frv., að hún ætlar sér ekki aðeins að lifa út þetta kjörtímabil, heldur það næsta og fram á það, sem þar kemur á eftir, því að hún er búin að gera samning við fulltrúa verkalýðsfélaganna, þar sem m.a. segir svo, á bls. 11 í grg. þessa frv., í yfirlýsingu um húsnæðismál, að ríkisstj. lýsir því yfir, að hún muni beita sér fyrir því m.a.:

„að á árunum 1976–1980 verði framhald á byggingu hentugra íbúða fyrir efnalítið fólk í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands... og skal að því stefnt, að eigi minna en þriðjungur af áætlaðri íbúðaþörf landsmanna á þessu tímabili verði leyst á þessum grundvelli.“

Hún virðist gera ráð fyrir því að lifa a.m.k. til 1980.

Nú er það mál út af fyrir sig, þingræðismál, hvort ríkisstj. treystir sér til eða leyfir sér að skrimta, eftir að stórmál hafa ekki verið samþ. fyrir henni. Nú skal ég engu spá um það, hversu þessu máli reiðir af, hvort samkomulag næst um það. En ég tel ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. fái málið samþ. óbreytt, eins og hún leggur það fyrir. Það eru úrslitakostir, sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþ. Og hún byggir það á því, að þetta sé samkomulag við Alþýðusambandið og ef einhverju væri breytt í þessu frv., væri það óvirðing við verkalýðssamtökin á Íslandi. Nú er sjálfsagt, að hver ríkisstj. reyni að hafa sem allra best samband og samstarf við launþegasamtökin, og m.a. er eðlilegt og sjálfsagt, að hæstv. ríkisstj. kannaði það, hverjar væru óskir launþeganna í sambandi við skattamál. Raunar er það löngu ljóst, að fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Landssambands ísl. verslunarmanna, Verslunarmannafélags Reykjavíkur og ýmissa fleiri samtaka hafa látið frá sér fara alveg ákveðnar till. í skattamálunum og krafðist þar umbóta á tekjuskattsl. — umbóta, sem ganga miklu lengra en þetta samkomulag, sem hæstv. ráðh. hefur gert nú. Væri það óvirðing við alþýðusamtökin, ef Alþ. vildi t.d. lækka tekjuskattinn á alþýðu manna meira en hæstv. ráðh. hefur viljað ganga inn á og leggur til í frv.? Væri það óvirðing við verkalýðssamtökin eða brigð á samkomulagi við þau, ef söluskatturinn yrði hækkaður eitthvað minna en þessi 5 stig, sem ríkissjóður heimtar? Væru það brigð við alþýðusamtökin, ef reynt væri að ráðast á einn helsta verðbólguvald í þjóðfélaginu, hin ofboðsháu fjárlög, og draga eitthvað úr útgjöldum? — Nei, því fer fjarri, m.a. vegna þess að þetta eru allt saman atriði, sem fulltrúar alþýðusamtakanna hafa hreyft í viðræðunum við ríkisstj., en verið kveðin þar niður af hæstv. fjmrh. og hann ekki viljað sinna.

Þegar Alþ. er hins vegar sýnd sú óvirðing, að hæstv. ríkisstj. leyfir sér að setja því úrslitakosti eins og nú, verða alþm. að skoða hug sinn, og ég tel, að það sé skylda þess að kanna þetta mál ofan í kjölinn, — kanna, hvort það er nægileg lagfæring á þeim endemislögum um skattamál, sem núv. ríkisstj. hefur komið á, hvort fjárhagshorfur ríkissjóðs eru með þeim hætti, að nauðsyn beri til að stórhækka álögur á landslýðinn, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Allt þetta mál ber að sjálfsögðu að skoða og skoða það sem rækilegast. Það er skoðun mín, að það sé skylda Alþ. að gera það, vegna þess að það er Alþ. og það eitt, sem hefur heimild til að setja fjárlög, það er Alþ. og það eitt, sem hefur heimild til að ákveða skatta í landinu. Í stjórnarskránni, 40. gr. hennar, segir, að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum.

Það er líka alveg sérstök ástæða til að gæta nokkurrar varúðar við till. þessarar hæstv. ríkisstj. í skattamálum, þegar af þeirri ástæðu, að fyrir tveim árum beitti ríkisstj. sér fyrir því og knúði fram ný tekjuskattslög gegn alvarlegum aðvörunum stjórnarandstöðunnar, — tekjuskattslög, sem reyndust með þeim endemum, að þegar verkalýðssamtökin á s.l. hausti fóru að setja fram kjarakröfur sínar, var eitt aðalatriði þeirra krafna í fyrsta sinn í sögunni, að gjörbreyta yrði skattaálögum og létta af þeirri óþolandi skattabyrði, sem þessi ríkisstj. hafði á komið. Þegar þannig er höfð í huga skammsýni núv. ríkisstj., fljótfærni hennar og ábyrgðarleysi í skattamálum, ber ekki að taka því sem sjálfsögðum hlut og kyngja því athugasemdalaust, sem hún kann að leggja til í þessum málum. Þetta verður að skoðast allt nánar og það vandlega. Ég vísa algerlega á bug þeim ummælum og mótmæli þeim hugsanagangi ríkisstj., að þessi ríkisstj., eins og hún er nú á sig komin, sé þess umkomin að setja Alþingi úrslitakosti.

Á hitt er að sjálfsögðu að líta, að hér hefur orðið stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstj. Frá þeirri skattaáþján, sem núv. ríkisstj. lögleiddi og landslýðurinn hefur orðið að búa við í tvö ár, er nú orðin breyting, því að nú leggur hún til að lækka að töluverðu marki tekjuskattinn. Hvers vegna? Er það vegna þess, að hún hafi séð að sér, að hún hafi komist á þá skoðun, að of langt hafi verið gengið með skattaáþjáninni? Nei, því fer fjarri. Þetta stafar af því, sem einn orðhagur, merkur maður á sínum tíma kallaði hræðslugæði. Það er ótti ríkisstj. við almenningsálitið, það er þungi almenningsálitsins, það eru kröfur verkalýðssamtakanna, það eru kröfur, frumvörp og tillögur stjórnarandstöðunnar, sem valda því, að ríkisstj. hefur guggnað. Vissulega er ástæða til að lýsa ánægju yfir þessari stefnubreytingu, þó að um leið sé rétt að taka fram, að þessar breyt. á tekjuskattsl. ganga allt of skammt. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að þakka verkalýðssamtökunum á Íslandi fyrir að hafa þrýst ríkisstj. þó þetta frá villu síns vegar.

Mér virðist Alþ. verða að athuga meginatriði málsins, sem eru þessi að mínu áliti: Í fyrsta lagi vill Alþ. lagfæra tekjuskattsl. meira en gert er með þessu frv., og þá um leið vill Alþ. lagfæra tekjuskattsvitleysuna á annan veg en frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur þarf að skoða, hvort það sé rétt mat, sem fram kemur í frv. og það byggist á, að tekjuþarfir ríkissjóðs vegna hreyt. á skattal. sé 2700 millj. að viðbættum rúmum hálfum milljarði vegna skattauppbótanna eða svokallaðs skattafsláttar. Og Alþ. þarf að skoða, með hverjum hætti ætti þá að mæta því tekjutapi, sem ríkissjóður kann að verða fyrir við lækkun tekjuskattsins. Á að gera það með lækkun á útgjöldum ríkisins, útgjöldum fjárl. á þessu ári? Á að gera það með hækkun söluskatts, og þarf sú hækkun þá að vera 5 stig? Eða kemur hér til greina að líta á það atriði, hversu mjög tekjur ríkisins almennt aukast fram úr áætlun fjárl. á þessu ári? Ég skal víkja nokkuð að þessum atriðum.

Skoðun mín er sú, að lagfæringar á tekjuskattinum nái of skammt. Sjálfstfl. hefur lagt fram frv. fyrir þetta þing um gerbreytingu á l. um tekju- og eignarskatt. Stefnan, sem þar kemur fram, er fólgin í tvennu: annars vegar að Sjálfstfl. vill, að heildarskattabyrðin á landsfólkinu sé minnkuð, og í öðru lagi, að skattakerfinu sé breytt þannig, að horfið sé að verulegu leyti frá hinum beinu sköttum og yfir til óbeinna skatta. Fer því fjarri, að með þessu frv. sé gengið í áttina til hins fyrra atriðis. Skattabyrðin er ekki minnkuð, heldur ætla ég, að réttir útreikningar og samanburður sýni fram á, að það á að þyngja skattabyrðina með þessu frv. Um hitt atriðið er það að segja, að þessar lagfæringar á tekjuskattinum eru of smátækar til þess að þær séu á nokkurn hátt fullnægjandi.

Ef þetta er borið saman við það frv., sem sjálfstæðismenn lögðu fram á þessu þingi, kemur m.a. fram, að skattahlutföllin eru önnur. Í stað þess, að prósenturnar voru hjá okkur lægst 15%, eru þær í þessu frv. 20%, í staðinn fyrir 25% eru 30%, í staðinn fyrir 38% eru 40%. En það, sem er þó kannske alvarlegra, er það, hversu þrepin milli þessara prósenta eru þröng. Þetta kemur m.a. fram í því, að millistéttirnar í þjóðfélaginu verða miklu verr úti í skattlagningu samkv. þessu frv. heldur en frv. sjálfstæðismanna.

Ef við lítum á grg. þessa frv. til þess að leita að því, hvaða tekjur eru algengastar í landinu, kemur það fram á bls. 18, í yfirliti á fskj. I. í töflu 1 um breytingu skattbyrðar eftir fjölskyldustærð og tekjuhæð, — þá kemur í ljós, að brúttótekjur á s.l. ári, 1973, voru langsamlega algengastar 900 þús. og 1 millj. kr. Ef við litum á þessa skrá og tökum hjón með tvö börn, sem algengast er að miða við, er það 1331 framteljandi, sem hafði 900 þús., 2493, sem höfðu 1 millj. í brúttótekjur. Þetta eru langsamlega fjölmennustu tekjuflokkarnir. Á þessum tekjubilum m.a., — ég nefni þau vegna þess, sem kemur fram í þessari skýrslu, — er ljóst, að hér verður geysistórt bil milli till. ríkisstj. og frv. sjálfstæðismanna.

Í þetta frv. vantar m.a., því miður ákvæði um sérsköttun hjóna, sem við sjálfstæðismenn teljum sjálfsagt réttlætismál, að stefna beri að og lögleiða sem fyrst.

Ég vil nefna annað atriði, sem er mjög hæpið í þessu frv. Það er um skattvísitöluna. Þar er gert ráð fyrir að halda áfram því fyrirkomulagi, sem ég veit, að hefur verið þyrnir í augum verkalýðssamtakanna, að skattvísitalan sé ákveðin á hverju ári í fjárl., sem leiðir til þess, að ríkisstj., fjmrh., metur það eftir aðstæðum hverju sinni, hve mikið sé rétt að taka í tekjuskatt. Í frv. okkar sjálfstæðismanna var farin allt önnur leið. Í 6. gr. þess frv. var ákveðið, að skattvísitalan skyldi ákveðin af kauplagsnefnd ár hvert í samræmi við breytingar á almennum launatekjum, og er það sú trygging, sem launþegasamtökin óska eftir að fá.

Í þessu frv. er eitt merkilegt nýmæli. Það er hinn svokallaði neikvæði tekjuskattur, sem stundum hefur verið kallaður viðurkenningarskattur. Hér er talað um skattafslátt. Mætti kalla það tekjubót eða tekjutryggingu. Hér er farið inn á þá braut, og er það vissulega mjög athyglisvert. Hins vegar er, eins og í öðrum efnum þessa frv. að því er snertir kjarabætur eða umbætur, allt of skammt gengið og ákvæðin á ýmsa lund óheppileg. Þessi viðurkenningarskattur eða neikvæði tekjuskattur hefur verið að undanförnu til gagngerðrar athugunar hjá Sjálfstfl. Það mál var rætt nokkuð í sambandi við landsfund flokksins á síðasta ári, og um síðustu áramót lét þingflokkur,inn semja mjög ítarlega og gagnmerka grg. um þetta mál. En kunnugt er, að í sumum öðrum löndum hefur þetta mál verið mjög til umr. á undanförnum árum og alveg sérstaklega í Bretlandi. Það, sem hér er um að ræða, er auðvitað fyrst og fremst það, að í ýmsum löndum hafa skattkerfi og tryggingakerfi þróast hvort í sínu lagi. Engu að síður grípa þau hvort inn í annað á marga lund. Sú hugsun, sem liggur á bak við þetta kerfi, er fyrst og fremst sú almenna viðurkenning, að þjóðfélagið eigi að tryggja hverjum einstaklingi lágmarksviðurværi, lágmarkstekjur. Til þess að svo megi verða og um leið til þess að endurbæta og einfalda allt kerfið, sé rétt að slá saman tryggingakerfínu og skattkerfinu, m.a. þannig, að greiðslur fjölskyldubóta og persónufrádráttur í skatti falli saman.

Með því að vinna á þessum grundvelli, með samræmingu tryggingakerfis og skattkerfis, hyggjandi á því, að allir þjóðfélagsborgarar njóti vissra lágmarkstekna í þjóðfélaginu, er hægt, um leið og þessu félagslega markmiði er náð, að gera bæði skattkerfið og félagsmálakerfið allt einfaldara og ódýrara í sniðum.

Í sambandi við þetta er þó rétt að taka fram, að í rauninni er tómt mál að tala um framkvæmd þessa kerfis, nema um leið verði komið á staðgreiðslu opinberra gjalda, eða a.m.k. er það mjög mikilvægur liður í þessu máli. Að þessu teljum við sjálfstæðismenn, að beri að stefna. Og það er vissulega góðs viti, að í þessu frv. er stigið spor í þessa átt. Hins vegar er það skref of lítið og að ýmsu leyti gallað. Þetta merka mál hefði átt að bera að með öðrum hætti.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að allir fái vissan skattafrádrátt. Og þeir, sem eru skattlágir, skattlausir, hvað um þá? — Þeir eiga líka að fá þessa uppbót. En þó eru hér ýmsir annmarkar á, m.a. vegna þess, að eftir því sem tekjur manna minnka, skerðist tekjuuppbát, þannig, að mér skilst á frv., að ef tekjur manns fara niður fyrir 183 300 kr. brúttó, byrji uppbótin að skerðast. Ég ætla, að það séu ekki fáir borgarar í þessu þjóðfélagi, sem muni þannig verða að sæta skerðingu á þessari uppbót. Ég held, að það sé varlega áætlað, að það séu a.m.k. um 20 þús. borgarar, sem þannig mundu ekki ná þessum fullu bótum, líklega nokkru meira. Þeir, sem eru tekjulausir með öllu, eins og getur verið bæði um sjúka menn, um námsmenn, virðast eftir frv. enga uppbót fá. Á annan veg verður II. tölul. 4. gr. ekki skilinn. En annað atriði er vissulega vert athugunar og að mínu viti ámælisvert. Það er svo ákveðið í 4. gr. frv., að þessi skattafsláttur skuli í fyrsta lagi renna til þess að greiða þinggjöld o.s.frv., en síðan segir, að Lánasjóður ísl. námsmanna skuli hirða nokkuð af þessum afslætti. Það segir svo í 4. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

Þessu fé, — þessum afslætti, — skal fyrir hvern mann ráðstafa sem hér segir og í þessari forgangsröð, meðan það endist:

1. Til greiðslu þinggjalda.

2. Til greiðslu útsvars og annarra gjalda til sveitarsjóðs.

3. Þegar því er lokið eða þegar ekki er um það að ræða, þá til jöfnunar á námskostnaði, sbr. l. nr. 69 frá 1972, og til Lánasjóðs ísl. námsmanna eða annarrar fjárhagsaðstoðar ríkisins við námsmenn.

Þetta fólk, sem minnstar tekjurnar hefur og berst í bökkum, á að missa af þessum skattafslætti til ríkissjóðs. Ríkissjóður ætlar að hirða þetta af þessum smælingjum til þess, að því er virðist, að draga sem því svarar úr framlagi sínu til Lánasjóðs ísl. námsmanna eða til jöfnunar á námskostnaði. Mér finnst þetta furðulegt ákvæði, og ég vil beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann hafi látið gera áætlun um það, hversu mikið af þessum 550 millj., sem á að greiða í skattafslátt, ríkissjóður ætlar að hirða af þessum smælingjum til sín til þess að spara sér fé til námslánasjóðsins. Væntanlega hefur verið gerð athugun á því.

Um leið og ég geri þessar aths., vil ég endurtaka, að með þessu frv. er hreyft nýmæli, hinum svokallaða neikvæða tekjuskatti, sem er mjög athyglisvert og ég vona, að verði á næstunni skoðað í réttu samhengi og á víðtækum grundvelli.

Næsta atriði, sem rétt er að víkja að, er, hver yrði tekjumissir ríkissjóðs af þessari skattalagabreytingu. Þetta er reiknað út í grg. frv., og kemur það fram á bls. 9 í frv., þar sem segir, að álagður tekjuskattur einstaklinga, sem fjárlögin byggðu á eða væri forsenda fjárl. að óbreyttum lögum, væri 6400 millj. Forsendur þessara áætlana eru, að meðalbreyting tekna milli áranna 1972 og 1973 verði 25–26%. Sú lækkun tekjuskatts, sem frv. felur í sér, veldur því, að álagður tekjuskattur verður 3700 millj. miðað við forsendur tekjuáætlunar fjárl. M.ö.o.: ríkissjóður missir 2700 millj. — Þó að þetta sé rétt eins og það er orðað í grg. af hálfu sérfræðinganna, að það sé miðað við forsendur tekjuáætlunar fjárl. fyrir 1974, tel ég, að þessi samanburður sé rangur og þessar upplýsingar villandi, vegna þess að það er komið í ljós, að almenn tekjuhækkun í landinu frá árunum 1972–1973 er miklu meiri en gert var ráð fyrir, þegar fjárlög voru samin. Þessi tekjuhækkun verður ekki milli 25 og 26% heldur um 30% eða að því er margir ætla yfir 30%.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hafi ekki látið fara fram úrtaksathugun á framtölum þeim, sem þegar liggja fyrir, eins og oft hefur verið gert áður í sambandi við skattalög, og hvort þær tölur, sem ég nefni muni ekki fá fulla stoð í þeim úrtökum. Ég held, að enginn vafi sé á því, að þetta er rétt. Í síðustu grg. hagrannsóknastjóra, sem gefin var út í des., telur hann, að tekjuhækkun manna milli áranna sé ekki 25–26%, heldur er hann þar kominn upp í 29%, og ég held, að nýrri athuganir hafi sýnt, að hún sé a.m.k. 30%, væntanlega meiri. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að álagður tekjuskattur í ár verður ekki 3700 millj., eins og segir í grg. frv., heldur milli 600 og 700 millj. meira Þegar svo þessi upphæð er þannig dregin frá þeirri upphæð, sem komið hefði eftir gildandi lögum, 6400 millj., þá koma út þessar 2700 millj. En hin raunverulega tekjuminnkun miðað við fjárl. verður miklu minni, milli 600 og 700 millj. minni en þessi upphæð.

Hér er um að ræða mjög alvarlega skekkju. Ég vil taka fram, að sérfræðingarnir orða þetta réttilega þannig í grg., að þessir útreikningar séu miðaðir við forsendur tekjuáætlunar fjárl. En það var skylda hæstv. ríkisstj. að taka þennan útreikning og þessa áætlun einnig með inn í sitt dæmi.

Til viðbótar þessu má svo kannske spyrja, hvað hæstv. fjmrh. muni spara mikið af þessum framlögum, um hálfum milljarði, til skattafsláttar með þeim frádrætti frá þeim tekjulágu eða tekjulausu, sem ég gat um áðan.

Þegar þetta allt er virt, er augljóst, að grundvöllur þessa frv. og till. um 5 söluskattsstig er hruninn. Nú koma auðvitað mörg önnur rök, sem benda til þess, að ekki sé þörf á þessum 5 stigum til þess að bæta upp tekjumissi ríkissjóðs.

Ég vil þá í fyrsta lagi geta þess, að í rauninni hefði hæstv. fjmrh. átt að leggja fyrir Alþ. nú áætlun um það, hverjar tekjur ríkissjóðs yrðu, eftir því sem hægt er að gera sér grein fyrir nú, umfram áætlun fjárl. Það hefur vissulega komið í ljós, að m.a. vegna verðhækkana á ýmsum vörum erlendis og aukinnar veltu hér í landi og meiri tekjuhækkunar milli ára en fjárl. byggðu á, verða tekjur umfram fjárlög verulegar. Þetta er m.a. atriði, sem verður að skoða vandlega, þegar málið er til meðferðar í þinginu. Ég vil aðeins á þessu stigi halda því fram, að tekjur af aðflutningsgjöldum, af Áfengis- og tóbaksverslun, af núgildandi 11% söluskatti, af launaskatti, af tekjuskatti félaga og eignarskatti og öðrum tekjum, umfram fjárlög muni nálgast 3 milljarða, eftir því sem fyrir liggur nú. Ég vænti þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, muni kanna þetta til hlítar. Þegar verið er að leggja hér fram till. um stórfellda skattahækkun, söluskattshækkun, finnst mér skjóta nokkuð skökku við annars vegar, að hæstv. ríkisstj. telur tekjumissinn af tekjuskattinum miklu meiri en hann verður í raun og veru og í annan stað nefnir ekki þær tekjur, sem ljóst er í dag, að nást umfram fjárlög svo að milljörðum skiptir.

Nú mun hæstv. ráðh. vafalaust svara því, að það sé ákaflega mikið af útgjöldum, sem einnig verði umfram fjárlög, og það veiti ekki af þessum tekjum, sem komi umfram, til þess að mæta þeim. Virðist það raunar vera árátta hjá þessari ríkisstj., að hún má aldrei heyra niðurskurð á útgjöldum ríkisins nefndan. Ef koma einhver ófyrirséð útgjöld, þarf að hækka skattana, þá þarf að ná inn nýjum tekjum. En það virðist ekki hvarfla að hæstv. ríkisstj., að af 30 milljarða fjárl. sé hægt að spara einn einasta eyri.

Þegar þetta mál í heild er virt, koma auðvitað ýmsar leiðir til að bæta ríkissjóði það tekjutap, sem hann kann að verða fyrir af tekjuskattslækkuninni.

Fyrsta leiðin, sem manni kemur í hug, er að draga úr útgjöldum. Ég nefni þetta ekki aðeins vegna þess, að við sjálfstæðismenn höfum jafnan haldið því fram og tekið skýrt fram í grg. okkar skattalagafrv., að þessa leið beri að reyna fyrst. En ég nefni hana líka vegna þess, að mér er kunnugt um, að í viðræðum fulltrúa Alþýðusambandsins við hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. var því sérstaklega hreyft, hvort ekki væri unnt að mæta einhverju af þessari tekjuskattslækkun með því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Það mátti ríkisstj. ekki heyra nefnt, hún var ekki til viðtals um þá leið. Mér virðist, að mjög kæmi til orða, að um leið og ákveðið yrði að lækka tekjuskattinn, helst töluvert meira en gert er ráð fyrir í þessu frv., ákvæði Alþ. að draga úr ríkisútgjöldum á þessu ári um einhverja ákveðna upphæð, við skulum nefna sem dæmi 1.5 milljarð, sem er ekki meira en 5% af heildarútgjöldum fjárl. Þegar slíkt væri ákveðið, mundi að sjálfsögðu fjvn. og fjmrn. bera saman ráð sín til þess að framkvæma þennan sparnað, sem allir hv. þm. vita, að er vel hægt að gera ef vilji er fyrir hendi.

Annað atriði, sem vissulega kemur til athugunar, áður en farið er að samþ. stórfelldar nýjar skattaálögur, er matið á, hversu miklar tekjur verða umfram fjárlög, svo sem ég rakti hér nokkuð áðan.

Í þriðja lagi kemur það svo til. hvort og þá að hve miklu leyti ætti að hækka óbeina skatta eða söluskatt, til þess að dæmið gengi upp. Í þessu öllu ber þó að hafa í huga, að við lækkun á tekjuskatti er ljóst, að hann innheimtist betur en áður, og auk þess ber að hafa í huga, að sá skattafrádráttur, sem lagt er til, að lögfestur verði í þessu frv., á einnig að ganga til greiðslu á opinberum gjöldum. Allt þetta þýðir, að innheimtuprósenta ætti að verða hærri en hún hefur verið og reiknað hefur verið með.

Það, sem stefnt er að af hálfu okkar sjálfstæðismanna í skattamálum, eru réttlátir skattar, sem fólkið unir, — skattar, sem verða til þess að örva framtak manna, þar með auka þjóðartekjurnar og bæta lífskjörin, í stað þess að draga úr því og lama það, — skattar, sem særa ekki réttarvitund fólksins, — skattar, sem skapa það almenningsálit, að mönnum þyki sjálfsagt og rétt að telja heiðarlega fram. Í rauninni má segja, að allar umbætur í skattamálum missi nokkuð marks, — ég skal ekki segja, að þær séu unnar fyrir gýg, en missi nokkuð marks, meðan verðbólgan setur allt úr skorðum og kauphækkanir, kjarabætur og umbætur í skattamálum farast í flaumi verðbólgunnar.

Nú er það eitt af stefnuskráratriðum hæstv. ríkisstj. að draga úr verðbólgunni, og það er orðað svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur ríka áherslu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum.“

Nú hefur þetta tekist með þeim hætti, að vísitala vöru og þjónustu hefur, frá því að stjórnin tók við á miðju ári 1971 og þangað til í febr. 1974, hækkað úr 161 stigi í 268 eða um 66.5%. Þetta mun vera að meðaltali 261/2% á ári. Hækkun sams konar vísitölu vöru og þjónustu eða neysluvöruvísitala í nágrannalöndum hefur verið þetta 5–6% fyrra árið og nú á síðasta ári nokkru meiri eða milli 8 og 9%. Samtals er því óhætt að segja, að vöxtur dýrtíðarinnar hér hafi verið a.m.k. þrefaldur og upp í fjórfaldur á móts við það, sem er í helstu nágranna- og viðskiptalöndum. Hér virðist því hafa slæðst inn smávilla í stefnuskrá ríkisstj., átti að standa: Stjórnin vill leitast við að tryggja, að hækkun verðlags verði ekki nema þrefalt eða fjórfalt meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum.“

En þegar ríkisstj. lagði ríka áherslu, eins og það er orðað, á að hverfa frá braut gengislækkana og stöðva óðaverðbólgu eða hafa nokkurn hemil á henni, þá þekkjum við allir alþm. og þjóðin raunar öll. hversu ríkisstj. er gersamlega andvaralaus í þeim efnum og máttlaus. Þetta furðulega andvaraleysi og skilningsleysi hæstv. ríkisstj. í þessum málum kom í rauninni fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan, því að hann sagði, að það hefði nú gripið um sig kaupæði. Það varð ekki vart við, að honum þætti það svo slæmt, að öðru leyti en því, sem hann hafði við kaupæðið að athuga, að þegar liði á árið, mundi söluskatturinn kannske ekki verða eins mikill og annars, ef kaupæði væri ekki. — Þessar eru áhyggjurnar út af óðaverðbólgunni og kaupæðinu.

Herra forseti. Ég læt þessar aths. nægja. Að sjálfsögðu verður að skoða málið allt vandlega milli 1. og 2. umr. og fá sem gleggstar upplýsingar, og ég vona fastlega, að þær upplýsingar fáist og að skoðun þeirra leiði til þess, að hæstv. ríkisstj. sjái að sér, hætti við þau áform að setja slíka úrslitakosti eins og hún hefur hingað til orðað, hún fallist á, að þetta mál verði afgreitt með eðlilegum hætti, þannig að tekjuskatturinn verði lækkaður meira en frv. gerir ráð fyrir og söluskatturinn hækkaður miklu minna en frv. gerir ráð fyrir.