08.03.1974
Efri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú alllangt um liðið, síðan ég kvaddi mér hljóðs, en mér þótti ástæða til að gera það að lokinni ræðu hv. 1. þm. Vestf. Mér þótti rétt að tjá míg um nokkur atriði varðandi frv., sem hér er til umr., áður en það fer til nefndar.

Frv. byggist á þeirri hugsun, að það eigi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að efla íbúðarhúsabyggingar í strjálbýlinu til jafnvægis í byggð landsins. Ég er algerlega samþykkur þessari hugsun og þessari stefnu, en ég er óánægður með það, hvernig þetta frv. er. Mér þykir það hvergi nógu vel sniðið til þess, að það geti stuðlað að lausn á svo mikilvægum vanda sem hér er um að ræða.

Í þessu frv. segir, að starfa skuli við Byggðasjóð íbúðalánadeild, sem veiti lán til sérstakrar örvunar almennum íbúðabyggingum til viðbótar lánum úr Byggingarsjóði Húsnæðismálastofnunar ríkisins, þar sem skortur á íbúðarhúsnæði stendur í vegi fyrir eðlilegri byggðaþróun. Hér er mótuð stefna þessa frv., og það er þetta, sem ég er efnislega sammála.

En það segir lítið meira í þessu frv. Það segir ekkert um það, hvað hér er um miklar aðgerðir að ræða, hvað þessi örvunarlán eiga að vera mikil, hver eiga að vera lánskjör þeirra, hvað eigi að verja miklu fjármagni til þeirra eða hvernig eigi að afla fjármagns, nema að því leyti, að í 3. gr. frv. segir, að Byggðasjóði sé heimilað að afla íbúðalánadeildinni lánsfjár allt að 100 millj. kr. á ári næstu 5 árin. En það er gert ráð fyrir því í frv., að um hin mikilvægu atriði, sem ég gat um, að engin ákvæði væru um, ætti að kveða á í reglugerð. Hvernig sú reglugerð verður, er ekki hægt að ráða af þessu frv. Það er því hendi næst að glugga í grg. Og þó að grg. sé alllöng og með ýmsum upplýsingum, segir hún ekki mikið um þessi efni, nema að því leyti, að það hlýtur að verða um stórkostleg vonbrigði að ræða.

Það er talað um það í grg., að komið geti til greina, að þessi lán, hin svokölluðu örvunarlán, nemi 30% til viðbótar við lán Húsnæðismálastofnunar ríkisins, og þá er gert ráð fyrir, að húsnæðismálalán, hin almennu lán, verði 1200 þús. kr. á íbúð. Það er fyrst að geta þess, að þó að ég hafi lagt til. bæði í þáltill. og í frv. á þessu þingi, að íbúðarlánin yrðu hækkuð í 1200 þús. á íbúð, og þó að hv. 1. þm. Vestf. virðist hafa talið það sjálfsagða till., því að hann miðar við þá upphæð, hafa stjórnvöld eða húsnæðismólastjórn ákveðið að gera þetta ekki. Ákveðið hefur verið, að lánin verði 1060 þús. kr., í staðinn fyrir 1200. Þetta gerir nokkurt strik í reikninginn. En þetta er kannske ekki aðalatriðið. Það er frá mínu sjónarmiði alger óhæfa, ef menn meina eitthvað með því að gera veruleg átök í þessu efni, að miða við, að örvunarlánin nemi 30% af hinum almennu lánum Byggingarsjóðs ríkisins, hvort sem þau eru í ár 1060 þús. kr. á íbúð eða 1200, því að þær upphæðir eru ekki hærri en það, að lánin eru milli 30 og 40% og nær 30% af byggingarkostnaði. Ef 30% bætast við það, lætur nærri, að það, sem verið er að tala um og verið er að gera skóna með þessu frv., sem sérstaklega er ætlað að aðstoða strjálbýlið til eflingar byggðajafnvægis, sé ekki meira en svo, að lánið nemi 50% af byggingarkostnaði. Þetta er gert á sama tíma sem lánuð eru 80% af byggingarkostnaði Breiðholtsíbúðanna hér í Reykjavík. Það er furðulegt, að menn skuli hreyfa slíkum hugmyndum, og enn þá furðulegra, að þeir skuli telja, að hér sé um stórar aðgerðir að ræða til að rétta hlut dreifbýlisins. Og það er ekki hugsað hærra eða stefnt hærra með þessu frv. en svo, að fólkið úti á landsbyggðinni, sem þarf að aðstoða, sé hálfdrættingar á við það fólk, sem sérstakar ráðstafanir eru gerðar til að aðstoða hér í Reykjavík.

Ég held og leyfi mér að vona, að hv. 1. flm. frv., hv. 1. þm. Vestf., hafi í raun og veru ekki gert sér grein fyrir, hvað hann var að tala um. Það er mjög miður, að hann skuli ekki vera hér, því að ég held, að hann hefði gott af því að fá nokkrar upplýsingar um þessi mál. Ýmislegt, sem hann ræddi um í sinni framsöguræðu, fannst mér vægast sagt bera vott um það, að hann hefði ekki kynnt sér sem skyldi ýmsar hliðar þess máls, sem hann var að ræða um. Kannske er það í samræmi við það, sem þessi hv. þm. sagði á síðasta Alþ., þegar við vorum að ræða um þessi mál, að húsnæðismálalöggjöfin væri svo flókin, að það væri í raun og veru ekki á neins eins manns færi að setja sig inn í hana. En eins og ég sagði þá er hér um mikinn misskilning að ræða. Það getur hver og einn gert með því að gefa sér aðeins örlítinn tíma til að hugsa málin.

Mér þótti rétt að benda á, að hér er ekki um að ræða neitt verulegt átak til að bæta úr mikilli þörf, og það er nánast sagt háðung, að þetta skuli vera lagt til og ekki tekið af meiri myndarskap á málinu.

Ég sagði, að sumt af því, sem hefði komið fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf., bæri kannske vott um það, að hann hefði ekki hugsað þetta mál eins og vert væri. Hann lagði í ræðu sinni og í grg. mikla áherslu á, að það væri mikil bót að því að hækka lánin til húsbygginga úti á landsbyggðinni. Þetta er sjálfsagt mál. Hann benti á í því sambandi, að það hefði líka verið miklu minna lánað út á landsbyggðina hlutfallslega en á Reykjavíkursvæðið. Hann benti líka réttilega á það, að menn veigruðu sér oft og tíðum við að fjárfesta í íbúðarhúsabyggingum úti á landsbyggðinni, þar sem mikil húsnæðisekla er og sérstakra aðgerða er þörf til þess að efla jafnvægi í byggð landsins, vegna þess að þeir óttuðust að tapa á þeirri fjárfestingu, ef þeir þyrftu að flytja í burtu. Þetta er alveg rétt.

En það kom fram hjá hv. þm. að eina leiðin væri að hækka lánin. Ég vil ekki gera lítið úr þýðingu þess að hækka lánin, þó þessi hv. þm. geri nú till. í því efni, sem mega sín lítils. En hér kemur annað til, sem þarf að gera. Það þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir það, að einstaklingar haldi að sér höndum um íbúðarhúsabyggingar úti á landsbyggðinni af þeim ástæðum, að þeir geti ekki treyst því að fá sannvirði sinnar fjárfestingar, ef þeir þurfa að flytjast burt. Það eru þessar ráðstafanir, sem þarf að gera. Það er augljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða.

Það er misskilningur, ef menn halda, að húsnæðismálastjórn mismuni landsbyggðinni miðað við Reykjavíkursvæðið í lánveitingum. Það er ekki gert. Þar sitja allir við sama borð í þessum efnum. En staðreyndin er sú, að það er sótt um hlutfallslega miklu færri lán utan af landsbyggðinni heldur en af Reykjavíkursvæðinu af þeim ástæðum, sem ég hef greint frá.

Í grg. þessa frv. er gerð grein fyrir þessum vanda, en ekki lausn á þessum vanda. Það er augljóst, að það verður ekki horft fram hjá þessu vandamáli og verður að snúast gegn því, og skal ég koma lítillega að því síðar.

Þá eru í grg. með þessu frv. hugleiðingar um, að það þurfi að endurskoða lögin um verkamannabústaði, til þess að þau geti þjónað betur tilgangi sínum. Ég veit ekki, hvers vegna er farið sérstaklega að tala um verkamannabústaði í sambandi við ráðstafanir til þess að efla jafnvægi í byggð landsins, vegna þess að verkamannabústaðakerfið er algerlega sérstaks eðlis og þjónar því hlutverki að aðstoða þá þegna þjóðfélagsins, sem eru verst settir og eiga erfiðast með að koma sér upp þaki yfir höfuðið, og þetta fólk er jafnt í þéttbýli sem strjálbýli. Að mínu viti á ekki að gera á þessum vettvangi neitt meira fyrir strjálbýlið heldur en þéttbýlið. Það er algerlega óraunhæft að vera að tala um slíkt. Fátækur maður er alltaf fátækur, hvort sem hann býr í Reykjavík eða úti á landi, og við berum skyldur við báða.

Hv. 1. þm. Vestf. segir, að núgildandi lög um verkamannabústaði séu óraunhæf, vegna þess að sveitarfélög hafi ekki bolmagn til að hagnýta sér þessa löggjöf. Þetta þarfnast skýringar. Það var viss galli á l. frá 1970 að því leyti, að það voru sett takmörk fyrir því, hvað sveitarfélögin gætu lagt í miklar framkvæmdir, og þau takmörk voru miðuð við, að framlag sveitarfélagsins mætti ekki nema meiru en sem svarar til 400 kr. á hvern íbúa. Ég og hv. 1. þm. Vestf. og fleiri góðir menn fluttu till. til breytinga í þessu efni, þannig að í staðinn fyrir 400 kr. á íbúa var miðað við 1200 kr. á íbúa. Þetta bætti mikið úr, enda hafa orðið samkv. hinni nýju löggjöf töluverðar framkvæmdir í verkamannabústaðabyggingum. En það er ekki nóg að gert. Það er ekki heldur þetta formsatriði, sem mest kreppir að, heldur það, að sveitarfélögin hafa í raun og veru mjög takmarkaða möguleika fjárhagslega til að standa undir sínum hlut af byggingu verkamannabústaða. En hlutur sveitarfélaganna samkv. núgildandi l. og allt frá því að verkamannabústaðakerfið var stofnað fyrir um 40 árum hefur verið 50% á móti 50% frá ríkinu. Ég held, að það þurfi í raun og veru litið að endurskoða lögin. Menn ættu að sjá, að það, sem þarf að gera, er að auka hlut ríkisins og minnka hlut sveitarfélaganna í framlaginu til Byggingarsjóðs verkamanna, að óbreyttum tekjustofnum sveitarfélaga. Ég kem aðeins inn á þetta að gefnu tilefni, vegna þess að hv. 1. þm. Vestf. ræddi sérstaklega um þetta og það hefur verið rætt sérstaklega um þetta í grg., þó að þetta efni sé ekki í beinum tengslum við efni frv.

Ég sagði hér áðan, að ég væri algerlega samþykkur stefnumörkun þessa frv., þ.e.a.s. að gerðar séu sérstakar .ráðstafanir til þess að efla íbúðahúsabyggingar til jafnvægis í byggð landsins, en hér væri því miður um algerlega ófullnægjandi aðgerð að ræða, eins og frv. er, vil ég leyfa mér í því sambandi að benda á frv., sem ég hef sjálfur flutt um þessi efni og er til meðferðar í hv. félmn. Þar er í fyrsta lagi lagt til, að hin almennu lán Húsnæðismálastofnunar ríkisins verði 1200 kr., eins og hv. fyrri flm. þessa frv. virðist gera ráð fyrir, að sé eðlilegt, þar sem hann miðar við þá upphæð. Þá er gert ráð fyrir í mínu frv., að veitt séu sérstök lán til þeirra byggðarlaga, sem þarf að efla til jafnvægis í byggð landsins, þannig að þau lán fái allir aðilar, hver sem byggir húsið, hvort sem það er einstaklingur, byggingarfélag eða sveitarfélag og hvort sem um eigin íbúðir er að ræða eða leiguíbúðir. Það er tekið fram, hver kjör eigi að vera á þessum lánum, og það eru nákvæmlega sömu kjör og sama lánsupphæð og ákveðið er nú í Breiðholti hér í Reykjavík, þ.e.a.s. gert ráð fyrir því, að hlutur dreifbýlisins verði ekki minni en hlutur þeirra Reykvíkinga, sem njóta góðs af Breiðholtsframkvæmdum ríkisins. Í þessu frv. er svo tekið upp nýmæli um verðtryggingu íbúða, og þannig tel ég, að verði rofinn vítahringur sá, sem nú er fólginn í því, að fólk úti á landsbyggðinni veigrar sér við að leggja fjármuni í íbúðabyggingar, vegna þess að menn eru hræddir um, að þeir fái ekki sannvirði slíkrar fjárfestingar, ef þeir flytjast í burtu.

Ég ætla ekki að fara að lýsa þessu frv. mínu, en ég bendi á þessi atriði í frv. mínu til áréttingar og áherslu þeirri skoðun, sem ég lét í ljós áðan, að þetta frv., sem hér er til umr., gengi allt of skammt og væri nánast efnislega, hvorki fugl né fiskur, þó að þar væri mörkuð rétt stefna í almennu orðalagi.

Að lokum aðeins nokkur orð um úrlausn í sambandi við verkamannabústaði. Hv. 1. þm. Vestf. talaði um, að það eigi að endurskoða þetta. En ég hygg, að ef hann hefur athugað þetta mál. sem hann hefur haft aðstöðu til eins og aðrir þm., þá hljóti hann að vera sammála um, að það er ákaflega einföld lausn á þessu máli. Lausnin er sú, eins og ég legg til í frv. mínu um breyt. á verkamannabústaðakerfinu, að breyta hlutfallinu milli framlags ríkisins og sveitarfélaga til Byggingarsjóðs verkamanna. Í frv. mínu er lagt til, að í staðinn fyrir, að sveitarfélögin leggi fram 50% af fjármagni til Byggingarsjóðs verkamanna, leggi þau fram einungis 25%, en ríkið 75% í stað 50%, sem nú er. Nú er gert ráð fyrir í fjárlögum, að ríkið veiti til byggingar verkamannabústaða 100 millj. kr. í ár gegn jafnháu framlagi frá sveitarfélögunum. Ef till. mín verður samþ., þýðir það þreföldun á framlagi ríkisins að óbreyttu framlagi sveitarfélaganna eða samtals 400 millj. kr. til verkamannabústaðakerfisins. Ég hygg, að það sé naumast hægt að gera meiri kröfur í þessu efni en felast í þessum till. En svo er að sjá sem hv. 1. þm. Vestf. vilji gera jafnvel meiri kröfur, eftir því sem greinir í grg frv. og hann gat um í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli. Hann sagði, að hann teldi jafnvel eðlilegt, að fjöldi verkamannabústaða verði ekki bundinn við framlag, heldur við þörf. En hvað er meint með þörf í þessu efni? Það verður að hafa í huga, hvers eðlis verkamannabústaðakerfið er og hvaða þörfum því hefur verið ætlað að þjóna. Það hefur alltaf verið reiknað með því, að verkamannabústaðakerfið ætti að sinna þörfum hinna verst settu, þ.e.a.s. að því væri beitt aðeins á takmörkuðu sviði. Þetta hefur verið gert með því að setja ákvæði bæði um hámarkstekjur og hámarkseign þeirra, sem hefðu aðstöðu til að njóta þessara hagkvæmustu lána, sem þjóðfélagið hefði að bjóða í húsbyggingarmálum. Þegar lögin um verkamannabústaði hafa verið endurskoðuð á undanförnum árum, hefur verið lagt til grundvallar, að um 10% eða rúmlega 10% íbúðahúsabyggjenda á landinu ættu að njóta aðstoðar þessa kerfis, ekki fleira fólk, vegna þess að kerfið og þjóðfélagið í heild hefði ekki efni á því að gera svo vel við fleiri, og til þess að geta gert vel við þá, sem verst eru settir, yrði að takmarka þetta þannig.

Ég minni á þetta vegna þess, að mér fannst liggja í orðum hv. 1. þm. Vestf., að það ætti að rýmka verkamannabústaðakerfið frá því, sem það hefur verið allt frá stofnun þess. Ég held, að það sé ekki rétt stefna að leggja höfuðáherslu á það, heldur, að það sé hægt að gera sem best og hafa lánin sem stærst og hagkvæmust fyrir þá, sem njóta þessara sérstöku kjara. Við skulum vona, að hægt verði í framtíðinni að bæta almennt lánakjörin, svo að það verði ekki eins skörp skil á milli verkamannabústaðakerfisins og annarra lánveitingarkerfa til íbúðahúsabygginga. En enn þá er langt í land í þeim efnum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins, að þessar almennu athugasemdir kæmu hér fram þegar við 1. umr. málsins.