08.03.1974
Efri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki í raun og veru miklu að svara, en mér þykir þó rétt að standa hér upp.

Ég vil leyfa mér að þakka hv. síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánssyni, fyrir það, sem hann sagði m.a. í sambandi við frv. það, sem ég flyt um húsnæðismál, og hefur komið hér lítillega til umr. Ég hygg, að þær skoðanir, sem komu fram hjá honum, séu einmitt mjög almennar hjá þeim mönnum, sem mest hafa hugsað um þessi mál úti á landsbyggðinni og mest hefur mætt á í sambandi við húsnæðismálin. Ég held, að það sé nánast vandfundinn sá maður, sem mótmælir því, að æskilegt væri, að gera þær ráðstafanir, sem ég legg til í þessu efni. Annað mál er það, að menn hafa, eins og oft er, kannske mismunandi skoðanir á því, hvað sé framkvæmanlegt, og menn hafa mismunandi skoðanir á því, hvað sé hægt að treysta núv. ríkisstj. til þess að gera mikið í þessu efni. Ég er kannske of bjartsýnn í því efni, þegar ágætir stuðningsmenn ríkisstj. treysta sér ekki til þess að reyna að stefna fram á við í þessum málum, eins og ég hefði viljað að gert væri.

Hv. 1. þm. Vestf. sagði í raun og veru ekki mikið, sem ég þarf að svara. Ég vona, að við séum sammála um, að það þurfi að gera raunverulegt átak til þess að efla íbúðarhúsabyggingar úti á landsbyggðinni og þar með að efla jafnvægi í byggð landsins.

Ég tók það fram í minni fyrri ræðu, að ég væri algerlega samþykkur þeirri stefnumörkun, sem fælist í þessu frv. Ég margtók það fram. Og ég verð að segja, að mér þótti hálf undarleg ræða, sem hv. þm. Helgi Seljan flutti, þar sem hann virtist leggja höfuðáherslu á að gera orð mín tortryggileg í því efni, að ég væri ekki samþykkur þessari stefnu. Ég sagði ekki að hún væri háðung. Ég sagði hins vegar, að það skorti á raunhæfar aðgerðir samkv. þessu frv. til þess að framkvæma þessa stefnu. Það var meginkjarninn í þeirri ádeilu, sem ég flutti hér. Og ég held, að það hljóti allir að vera mér raunverulega sammála um þetta, þegar menn hafa í huga, að samkv. þeim hugleiðingum, sem settar eru fram í sambandi við þetta frv., verða þessar sérstöku ráðstafanir við landsbyggðina ekki meiri en þær, að það verði lánað um 40% af byggingarkostnaði íbúða, á sama tíma og hin sérstaka aðstoð til hinna verst settu í Reykjavík, þeirra sem byggja hinar svokölluðu Breiðholtsíbúðir, er sú, að það eru helmingi hærri lán eða 80% af byggingarkostnaðinum. Þetta er það, sem mér þykir háðung, og ég fyrirverð mig ekki fyrir að segja það: þetta er háðung.

Hv. 1. þm. Vestf. og raunar hv. þm. Helgi Seljan komu inn á Breiðholtsíbúðirnar og hlut fyrrv. ríkisstj. í því sambandi og í húsnæðismálunum yfirleitt, eins og mér skildist, að hv. þm. Helgi Seljan vildi gera. Ég ætla nú ekki að fara að hefja eldhúsdagsumræður um svo viðamikið mál sem þetta. Ég vil aðeins leiðrétta misskilning. Þegar lögin, sem heimiluðu Breiðholtsframkvæmdirnar, voru sett, voru þau ekki einungis miðuð við Reykjavík, heldur var það almenn löggjöf, og ríkisstj. gat staðið fyrir hliðstæðum framkvæmdum, hvar sem var á landinu. Hins vegar var hafist handa í Reykjavík af sérstökum ástæðum, vegna þess að þessar framkvæmdir bar að sem lið í kaupgjaldssamningum 1965. En það var alltaf hugmynd mín o. fl., að það ætti að halda áfram á sömu braut úti á landsbyggðinni og það yrði að gera. Það kann að vera, að fyrrv. ríkisstj, hafi ekki brugðið nógu fljótt við til að hefja slíkar framkvæmdir úti á landsbyggðinni, jafnvel þó að ekki væri lokið þessu mikla átaki hér í Reykjavík. En þegar núv. ríkisstj. ætlar að fara að gera hluti til stuðnings við dreifbýlið, er það ekki í stærra formi en það, eins og ég hef hér bent á, að það er helmingi minni aðstoð en veitt var í Breiðholtinu og hægt var að gera samkv. hinni almennu löggjöf, sem Viðreisnarstjórnin fékk setta, ef það væri manndómur í núv. stjórnvöldum, til þess að framkvæma slíka löggjöf. Þetta er sannleikurinn og samanburðurinn um þennan þátt húsnæðismálanna. Ég held, að ég hlífi hv. þm. Helga Seljan við að gera almennan samanburð á frammístöðu Viðreisnarstjórnarinnar í húsnæðismálunum og núv. ríkisstj. Það er á allra vitorði, hvernig ástandið er í þessum málum. Eftir að við erum smám saman búnir að sækja fram í tíð Viðreisnarstj. til þess að efla íbúðalánastarfsemina, hækka lánin, lengja lánstímann, gera þau meiri hluta af byggingarkostnaði en áður var, hefur á síðustu árum allt snúist í þessu efni á öfuga hlið. Þetta eru staðreyndir, sem ekki þarf að rekja hér, og ég skal ekki angra hv. dm. með því að rifja það frekar upp.