01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

8. mál, skólakerfi

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég tek undir þá ósk hæstv. menntmrh., að þetta frv. og það, sem næst er á dagskránni, um grunnskóla, fái nákvæma yfirferð og athugun í n., og eru fulltrúar Sjálfstfl. í menntmn. að sjálfsögðu reiðubúnir og undirbúnir til slíkra starfa.

Þessi frv. um skólamál fela í sér ýmsar endurbætur, sem vert er að gefa gaum, m. a, þau tvö meginatriði, sem hæstv. ráðherra gerði hér að umtalsefni í upphafi síns máls, að jafna aðstöðu ungs fólks, bæði að því er varðar búsetu og efnahag, svo að allir sitji þar við sama borð. Af öðrum nýmælum í þessu frv. vil ég á þessu stigi benda m. a. á ákvæði um bókasöfn, um aðstoð við afbrigðileg börn, um námsstjórn, um forskóla, um fræðslustjóra. Þau ákvæði eru til bóta í meginatriðum, og skal ég ekki fara frekar út í þau atriði hér.

Ýmsar aðrar breyt. frv. orka hins vegar meira tvímælis, og er þá fyrst að geta lengingar á skólaskyldunni, sem miklum ágreiningi og deilum hefur valdið. Í frv. er gert ráð fyrir því, að skólaskylda verði lengd um eitt ár, verði 7–16 ára. Ég held, að það sé mjög til athugunar, hvort ekki á að greina sundur meira en gert er og gert hefur verið annars vegar skólaskylduna og hins vegar fræðsluskylduna, — skólaskylduna, sem felur í sér skyldu allra unglinga til að sækja skóla á þessum árum, og hins vegar fræðsluskylduna, sem venjulega er skilin og túlkuð þannig, að það sé skylda hins opinbera til þess að sjá fyrir skólahúsnæði og annarri nauðsynlegri aðstöðu handa unglingunum til fræðslu. Ég held, að það komi mjög til greina, að fræðsluskyldan verði miðuð við 7–16 ára, eins og gert er ráð fyrir, þ. e. a. s. miðuð við 9 ár, en hins vegar nokkru vafasamara, hvort á að lögbjóða nú þegar níu ára skólaskyldu fyrir alla unglinga. Til athugunar gæti verið að halda sér við 8 ára skólaskyldu, 7–15 ára, en sveitarfélögum væri heimilt að ákveða í sínu umdæmi einnig skólaskyldu fyrir síðasta árið, ef þær sveitarstjórnir teldu það æskilegt eða nauðsynlegt. En jafnvel þó að slíkt væri ekki ákveðið og slík skylda því ekki öllum unglingum lögboðin, væri hið opinbera skyldugt til að veifa þá aðstöðu, að allir unglingar, hvar sem þeir væru búsettir, gætu einnig notið þessarar fræðslu hið níunda árið.

Annað atriði, sem ég vil nefna hér, er samband skólaæskunnar og atvinnulífsins. Ég held það væri æskilegt að setja hrein og skýr ákvæði um það í frv., að þar sem nemendur eru virkir þátttakendur í atvinnulífinu, megi meta það til, jafns við a. m. k. verklegt nám, eftir því sem nánar yrði tiltekið.

Í þriðja lagi vil ég nefna 2. gr. frv., þar sem stefnumótun grunnskólans er ákveðin. Þar segir: „Hlutverk grunnskólans er, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi og lýðræðislegu starfi.“ Ég tel nauðsynlegt, að það sé skýrt tekið fram, að skólastarfið skuli hyggjast á því að innræta nemendum einnig kristilegt siðgæði. Það er mjög mikilsvert atriði, að slíkt sé ekki látið undan falla í þeim gr., þar sem meginverkefni skólans er markað.

Í fjórða lagi vil ég nefna það, að ég tel mjög vafasamt, hversu frv. rýrir valdsvið skólastjóranna, sem ég tel mjög varhugavert og þurfa að athuga miklu nánar, áður en frv. verður endanlega afgreitt.

Loks vil ég nefna kostnaðarhliðina. Mér sýnist, að henni hafi verið of lítill gaumur gefinn. Það er augljóst, að samþykkt grunnskólafrv. mun leiða til mjög aukins kostnaðar, bæði að því er stofnkostnað snertir og rekstrarkostnað, og hefur það atriði ekki verið mjög ofarlega í umr. manna um grunnskólafrv., en ég held að því þurfi að gefa miklu meiri gaum.

Með frv. er að mínu áliti stefnt að því að auka enn vald ríkisins yfir skólamálum frá því, sem verið hefur. Mönnum kann að virðast þetta einkennileg staðhæfing, þar sem svo kann að virðast eftir frv. og grg. þess, að einmitt sé verið að flytja vald frá ríkinu til héraðanna.

Í grg. grunnskólafrv., á bls. 30, segir í 1. lið: „Nokkur hluti af valdi menntmrn. verður fluttur út í 8 fræðsluumdæmi, þar sem fræðslustjórar starfi.“ Þetta litur ákaflega fallega út á pappírnum. En það er alger misskilningur að halda, að með þessu sé verið að auka vald héraðanna eða sjálfsforræði þeirra í skólamálum, svo að nokkru skipti, vegna þess að fræðslustjórarnir eiga að vera fulltrúar og erindrekar menntmrn. Það er ekki leiðin til þess að dreifa valdinu eða til þess að auka sjálfstæði héraðanna og verkefni þeirra að hafa þennan háttinn á. Enda er það svo, þegar nánar er skoðað í frv., að fræðslustjórinn er í flestum greinum háður menntmrn. og verður að hlíta valdi þess.

Í fyrsta lagi þótti höfundum frv. eða hæstv. ríkisstj. ekki fært að ákveða, að sveitarstjórnir eða landshlutasamtök skipuðu þennan fræðslustjóra, heldur er það ráðherra, sem á að skipa hann. Og yfirleitt er það svo, að úrskurðarvaldið er hjá ráðuneytinu. Það er ákaflega oft í frv. og einstökum gr. þess, þar sem rætt er um störf fræðslustjóra eða fræðsluráðs, að setningu eða málsgrein lýkur þannig, að þetta sé „háð samþykki menntmrn.“ eða „enda komi samþykki menntmrn. til“.

Það er að vísu í einu tilviki, sem fræðslustjóra er fengið endanlegt úrskurðarvald. Það er samkv. 14. gr. frv., ef ágreiningur kemur upp milli skólastjóra og kennararáðs. Þá kærir menntmrn. sig ekki um að fá það mál til sín. Þá er fræðslustjórinn nógu góður til að skera úr því máli.

Þessi yfirlýsing í grg. frv. um, að verið sé að færa vald menntmrn. út til héraðanna, fær því ekki staðist í reynd, heldur er hér um það að ræða, að menntmrn. sendir fulltrúa eða erindreka út í héruðin, sem rn. sjálft skipar og ræður hver verður, og hann er í flestum eða nær öllum greinum starfsins háður menntmrn. Með þessu er að mínu viti ekki verið að ganga til móts við þær óskir sveitarstjórnarmanna, sem mjög hafa verið uppi um margra ára skeið að auka vald héraðanna.

En það er fyrst og fremst eitt grundvallaratriði, sem ég vil gera hér að umtalsefni nú við 1. umr. Nú er ástandið þannig og hefur lengi verið, að ríkið og sveitarfélögin fara með skólamálin sameiginlega. Þetta skipulag er að mörgu leyti ákaflega flókið og óheppilegt. Þó að sveitarfélögin hafi komið þarna verulega við sögu, er það þó í flestum efnum þannig, að ríkið hefur úrskurðarvaldið. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur rætt þessi mál mjög rækilega, bæði almennt og í einstökum atriðum, og hann hefur komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að leggja til, að gagnger, róttæk breyting verði gerð í þessum efnum, — róttæk breyting á þá lund, að skólamálin, a. m. k. á skyldunámsstigi, séu fyrst og fremst verkefni sveitarfélaganna og samtaka þeirra, en ekki ríkisvaldsins. Hér á landi hefur mikið verið rætt um dreifingu valds, og hér er ákaflega mikil þörf á gagngerri endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitafélaga. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið það mál upp í stefnuskrá sína og hæstv. félmrh. hefur fyrir nokkru skipað nefnd manna til að endurskoða sveitarstjórnarlögin með þetta verkefni sérstaklega í huga, og svo hefur verið frá skýrt, að ætlast sé til að n. skili störfum það tímanlega, að frv. um þetta efni verði lagt fyrir yfirstandandi þing.

Um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er margt nú á annan veg, en æskilegt væri. Um sum sameiginleg verkefni er það svo, að það er í rauninni ákaflega óljóst, á hverjum skyldan hvílir t. d. um frumkvæði í þeim efnum. Fjármál eru meira og minna í samkrulli hjá báðum aðilum. Að vísu er reynt að leysa úr þeim vanda með oft og tíðum flóknum reglum. En stefnan í þessum málum á að vera sú, að áliti okkar sjálfstæðismanna, að miklu fleiri verkefni en nú er séu fengin sveitarfélögunum og samtökum þeirra, og í annan stað, að reynt verði, eftir því sem föng eru á, að láta annan hvorn aðilann, ríkið eða sveitarfélögin, fara með ákveðna málaflokka, en miklu síður báða saman, eins og nú er í allt of ríkum mæli. Það er grundvallarsjónarmiðið, eins og samband sveitarfélaganna hefur hvað eftir annað orðað það, — það er grundvallarsjónarmið í þessu efni, að saman fari á einni hendi frumkvæði. framkvæmd og fjármálaábyrgð.

Tilgangurinn með þessari endurskoðun á verkaskiptingu verður auðvitað einnig að vera sá að gera hana alla einfaldari og gleggri. Ríkið á að hafa með höndum verkefni, sem varða alla landsmenn nokkurn veginn jafnt án tillits til búsetu, og verkefni, sem fela í sér jöfnun á aðstöðu sérstakra byggðarlaga. Sveitarfélögin eiga að annast staðbundin verkefni, sem fyrst og fremst snerta íbúa sveitarfélagsins og varða daglegt líf þeirra meira og minna. Auðvitað verða sveitarfélögin að hafa samvinnu um að leysa tiltekin verkefni, það sem það þætti henta, t. d, í einstökum landshlutum. Landshlutasamtök hafa verið stofnuð, og væntanlega verður sett löggjöf á þessu þingi um starfsemi þeirra, þannig að þau fái stöðu í stjórnkerfinu.

Þau almennu rök, sem liggja til endurskoðunar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, eiga í rauninni hvergi meiri rétt á sér en í skólamálum. Eins og ég gat um, hafa ríkið og sveitarfélögin annast sameiginlega skólamál á skyldunámsstigi og allt til loka gagnfræðanáms, enn fremur iðnnám, húsmæðranám, framhaldsdeildir gagnfræðaskóla. Samskiptin eru bæði varðandi stofnkostnað skóla og rekstur þeirra, og skólamálin eru einn stærsti samskiptavettvangur ríkisins og sveitarfélaganna, og kostnaðarhliðin er með þeim hætti, að þessi viðskipti eru flókin og margslungin. Grunnskólafrv., sem hér liggur fyrir, er byggt á gildandi lögum um verkefnaskiptingu og kostnaðarsamskipti ríkisins og sveitarfélaganna.

Við teljum, að hér sé brýnt verkefni og þurfi að gerbreyta skipan skólamálanna að þessu leyti, það þurfi að auka hlut sveitarfélaganna svo verulega, að sveitarfélögin og samtök þeirra annist ein ákveðinn hluta fræðslumálanna og þá fyrst og fremst stofnkostnað og rekstur skóla á skyldunámsstigi, ríkið hins vegar greiði kennaralaun, kostnað vegna skólaaksturs og vegna heimavistar til að jafna aðstöðu milli sveitarfélaga. Enn fremur mun trúlega eðlilegt, að ríkið hafi með höndum ákvörðun námsefnis og námseftirlits.

Varðandi framhaldsskólana ætti svipað að gilda um skóla á framhaldsskólastigi, sem eru í nánum tengslum við skyldunámið, svo sem gagnfræðaskóla og fjölbrautarskóla, hins vegar reki ríkið skóla á háskólastigi og ýmsa sérskóla.

Ég ætla, að það, sem ég nú hef verið að rekja, sé mjög í samræmi við þær óskir og till. og álitsgerðir, sem fram hafa komið og verið til umr. hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Til þess að þetta megi verða, þurfa sveitarfélögin og samtök þeirra að sjálfsögðu að fá miklar viðbótartekjur. Það þarf að efla tekjustofna sveitarfélagana, svo að um munar, og fá þeim fleiri tekjustofna. Ég minntist á þá stjórnskipuðu n., sem hefur það verkefni að endurskoða sveitarstjórnarlögin. Í því felst endurskoðun á hlutverkaskiptingu og tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Með tilliti til þessa er einsýnt, að hagkvæmustu vinnubrögðin eru þau, að unnið sé að afgreiðslu grunnskólafrv. með hliðsjón af störfum þeirrar n., sem vinnur að þeirri endurskoðun.

Ég vil taka fram, að ekki er nauðsyn að leysa öll vandamál á sviði verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga í einu. Ég ætla, að ef eigi að leysa öll þau vandamál í einu, þá þýði það óæskilega bið og taki allt of langan tíma. Hér er hins vegar um að ræða afmarkað verkefni, þar sem er skyldunámsstigið, sem tiltölulega auðvelt ætti að vera að taka ákvörðun um nú á þessu þingi og miða þá afgreiðslu þessara skólafrv. við það nýja skipulag. Fyrir þessari umbót mun Sjálfstfl. beita sér á þessu þingi og telur æskilegt, að skólafrv. verði afgreidd með þeirri breyt. Slík breyt., að sveitarfélögin og samtök þeirra hefðu skólamálin á skyldur námsstigi með höndum, mundi færa skólamálin, sem snerta svo náið hverja fjölskyldu í landinu, nær fólkinu. Þau yrðu ekki eins fjarstýrð og nú er. Sveitarstjórnirnar þekkja miklu betur þarfirnar á hverjum stað. Viðhorfin eru ekki alls staðar þau sömu um allt land. Það yrði meiri sveigjanleiki í framkvæmd. Málin gengju síður eftir köldum línum og valdboðum frá ríkisvaldhöfum, sem stundum telja allt kerfið í voða, ef einhverja undanþágu þarf að veita eða tillit að taka til sérstöðu.

Ég hef þá trú, að ein merkasta og þarfasta umbótin varðandi aukið sjálfsforræði sveitarfélaganna sé einmitt þessi, að þau fái skólamálin sem mest í sínar hendur. Ég tel líklegt, — ég vil segja: ég tel nærri víst, að sú breyt. verði ein sú fyrsta á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að þessi breyting hljóti að verða gerð alveg á næstunni. Það eru því að okkar dómi ekki hyggileg vinnubrögð að afgreiða skólamálin svo, að byggt sé á hinum gamla grunni og hinu úrelta skipulagi, sem hefur lifað sitt fegursta. Hitt væri vitlegra, að fella þau nú þegar á þessu þingi í þann farveg, sem samtök sveitarstjórna og fjölmargir skólamenn óska eftir, og gefa þeim málum nú þá mynd, sem koma skal.