01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

8. mál, skólakerfi

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Grunnskólafrv. er nú lagt fram í þriðja sinn fyrir hv. þd., þannig að mikil vinna hefur legið að baki undirbúnings frv. og miklar umr. hafa farið fram um það. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara að ræða einstök atriði, sem snerta þetta frv., en ég tel þó rétt að minnast á nokkur atriði, sem mér hafa komið í hug nú þegar frv. er flutt í þriðja sinn.

Það, sem maður rekur strax augun í við lesturs þessa frv., er, hversu það er langdregið og erfitt yfirlestrar, og sumt í frv. virðist mér vera af þeim toga, að það ætti annaðhvort að fella það niður eða færa það yfir í reglugerð. Ég vil minna á, að hæstv. menntmrh. hefur orðið fyrir svipuðum hughrifum a. m. k. á einhverju stigi þessa máls, því að þegar hann tók við menntmrn., fól hann nýrri n. að endurskoða frv., og komst hann þannig að orði: „að athuga hvort ekki mætti stytta frv.“ Ég hef ekki kannað rækilega, í hverju þessi stytting hefur verið fólgin. En mér sýnist enn, að ekki hafi verið nóg að gert. Ég vil þessu til stuðnings benda á eitt, tvö atriði.

Við skulum taka t. d. 55. gr., sem fjallar um agamál í skólum. Nú er spurningin, hvaða erindi slíkt eigi inn í lög. Er ekki miklu skynsamlegra að hafa þetta í reglugerð, sem skapar sveigjanleik fyrir ráðuneytið, enda mun viðhorf manna til agamála vera mjög breytilegt?

Sumt í frv. er af þeim toga, að það eru sjálfsagðir hlutir. Við skulum taka t. d. þessi orð í 55. gr.: „Ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun, ber kennara að leita orsaka þess. Í ljósi fenginna upplýsinga skal hann í viðtali við nemanda og forráðamenn hans, ef við á, leitast við að fá bætt úr því, sem áfátt er.“ Þetta eru allt sjálfsagðir hlutir. Ef gengið er að því vísu, að kennari og skólastjóri hafi þá kennaramenntun, sem lög gera ráð fyrir, hafi nokkra þekkingu í uppeldisfræði og sálarfræði, þá segir það sig sjálft, að það er óþarfi að vera að færa þetta inn í lög. Þetta eru sjálfsagðir hlutir, ef skólinn á annað borð býr við hæfa starfsmenn, svo sem gera verður ráð fyrir.

Margt er af svipuðum toga. Í 6. gr. er talað um misbrest á skólasókn skólaskylds barns og síðan segir: „Fræðslustjóri kynnir sér málsatvik og ástæður á heimili og í skóla og beitir sér fyrir úrbótum“ o. s. frv. Ég hygg, að þetta megi stytta verulega og jafnvel fella úr. Þetta er að mínu viti mælgi.

Þá tel ég ekki óeðlilegt, að t. d. efni 43. gr., þar sem fjallað er um einstakar námsgreinar, — það má kannske deila um, hvort þetta eigi að vera í lögum, — ég tel ekki óeðlilegt, að þetta væru reglugerðarákvæði, því að það er nú mjög breytilegt.

En það, sem ég er nú að vega að, er t. d., að í 43. gr. segir: „Við setningu námskrár og skipulagningu námsefnis fyrir grunnskóla skal þess sérstaklega gætt í samræmi við markmið skólans, sbr. 2. gr., að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem skólinn komi til móts við og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasvið nemenda: Þetta eru allt sjálfsagðir hlutir. Þetta er í samræmi við hlutverk grunnskólans, og ég tel, að allt slíkt eigi að fara út úr frv. Þetta eru að mínu viti klausur, sem valda því, að menn hafa síður nenning í því að komast yfir öll lögin.

Ég man nú ekki nákvæmlega, hvernig norsku grunnskólafrv. líta út, en einhvern veginn rámar mig í það, að þau séu miklum mun styttri. Og þó að ég hafi alltaf dálítið horn í síðu lögfræðinga, þá er stundum gott að leita til þeirra. Ég hugsa, að hér hefði með dálítilli kunnáttu í vinnubrögðum við lagagerð mátt gera þetta frv. betur úr garði og taka dálítið öðruvísi á þessu. Ég tel, að ýmsar greinarnar mættu fara inn í reglugerð, það er miklu þægilegra fyrir ráðuneytið, og strika út ýmsar klausur, sem ég vil telja, að séu óþarfar.

En nú vík ég að öðru atriði. Eins og fram hefur komið, er tilgangur grunnskólafrv. tvíþættur: annars vegar að jafna menntunaraðstöðu æskufólks og hins vegar að leiða sérhvern Íslending til nokkurs þroska og fræðslu. Megininntakið eða meginnýjungin í frv. er að sjálfsögðu 9 ára skólaskylda og lenging skólaársins í 9 mánuði. Annað í frv. er frekast umbúnaður til þess að tryggja, að þessi ákvæði nái fram að ganga. Nú vaknar sú mikla spurning: Næst jöfnuður í námsaðstöðu með þessu ákvæði um 9 ára skólaskyldu? Enginn vafi er á því, að allir þm. eru á þeirri skoðun, að fullur jöfnuður eigi að ríkja. En næst þessi jöfnuður með frv.? Það er sú mikla spurning. Ég vil strax benda á, að í sjálfu frv. er í raun og veru í tveimur ákvæðum stuðlað að því, að ekki náist jöfnun í námsaðstöðu, og á ég þar við ákvæðið um, að það megi stytta skólaárið, og það verður að sjálfsögðu í dreifbýlinu, og í öðru lagi að kosta forskóla, þ. e. a. s. fyrir 6 ára börn, o,g það verður að sjálfsögðu í þéttbýlinu, en ekki í dreifbýlinu, ef að líkum lætur.

Það, sem ég á við, er þetta, að það eru þegar í raun og veru smugur til þess að viðhalda mismunun í námsaðstöðu eftir búsetu. Það er enginn vafi á því, að hér er ekki aðeins um menningarlegt atriði að ræða, heldur líka félagslegt. Og hin mikla spurning er: Hvaða félagsleg áhrif hefur þetta frv. á uppbyggingu landsbyggðarinnar. Það hefði verið æskilegt að mínu viti, að fram hefði farið einhver félagsleg könnun á því, hvaða áhrif þessi skólalenging hefði á dreifbýlið. Eins og þm. er kunnugt, eru um það mjög skiptar skoðanir, og sumir, sem hafa mikla reynslu af þessum málum og bera sérstaklega fyrir brjósti hag dreifbýlisins, telja, að með þessu sé uppbygging dreifbýlisins beinlínis stefnt í voða. Og þetta væri alvarlegt, ef rétt væri. Þess vegna tel ég, að félagsleg könnun, sem hygði einmitt að þessu, hvaða áhrif 9 ára skólaskylda og 9 mánaða skólaár hefðu á dreifbýlið, hefði verið mjög æskileg. Við stöndum frammi fyrir þeim vanda, að Stór-Reykjavík er að sjúga til sín ekki aðeins allan þorra landsmanna, heldur oft mesta mannvalið eða öllu heldur þá, sem hafa einhverja sérkunnáttu í ýmsum greinum. Spurningin er sú, hvort þetta frv., ef að lögum verður, geti leitt til þess að flýta fyrir því, að það fólk, sem gengur betur að læra, slitni frá sínum heimahögum og stundi langskólanám og skili sér ekki til sinna heimahaga. Þetta er meginvandinn. Þess vegna hygg ég, að það sé alveg bráðnauðsynlegt að reyna að búa þannig að dreifbýlinu og þeim héruðum, sem verst eru sett, þannig, að æskufólkið leiti aftur til heimahaganna að loknu námi og að þau skilyrði verði sköpuð fyrir þetta unga fólk, að það uni sér í heimahögum. Þetta er grundvallaratriðið. Þess vegna hefði verið mjög æskilegt að gera einhverja smáathugun einmitt á hinu félagslega vandamáli í sambandi við þetta frv.

Og nú kem ég að öðru, þ. e. a. s. hinu verklega námi. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, sem laut að því, að verklegt nám er í of lausum tengslum við þetta frv. Það er of óljóst, hvernig þessi uppbygging skólakerfisins, þessi leið til langskólanáms, tengist atvinnuháttum þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, að e. f. v. hefði verið réttara að taka öðruvísi á skólamálunum. Ef ég hefði haft þar nokkra íhlutun um gang mála, hefði ég fyrst og fremst viljað leggja áherslu á hið verklega nám, á tækninámið, á iðnaðarnámið, sem nú býr við þröngan kost. Ég er ekki sannfærður um, að það sé rétt stefna að veita 3 millj. til Tækniskólans til húsbyggingar, á meðan menntaskólarnir þjóta upp. Ég hygg, að það sé nauðsynlegt, að við leggjum meiri áherslu um þessar mundir á hið verklega nám, iðnaðarnámið, fræðslu í atvinnugreinum þjóðarinnar, þannig að við missum ekki það fólk, sem kann að vera hæfast, út í langskólanámið. Þetta hygg ég, að sé mikill vandi. Við verðum að skapa meiri virðingu fyrir verklegri vinnu, fyrir vinnu við íslenskar atvinnugreinar, og reyna að gera hana jafngilda á allan hátt við langskólanámið. Þess vegna vaknar sú spurning, hvort grunnskólafrv. kunni að flýta fyrir þeirri þróun að viðhalda virðingu langskólanámsins, reyna að færa sem flest á skrifstofur í Reykjavík, eða hvort ekki hefði verið réttara að takast á við verklega námið og iðnnámið, áður en styrktar væru undirstöður langskólanámsins. Með því að efla verknámið, iðnnámið, kennslu í atvinnugreinum þjóðarinnar, hefði mátt fá traustar stoðir úti í sveitinni og í fiskiplássum á landsbyggðinni við atvinnugreinarnar og fá þannig undirstöðu, í stað þess að með einhliða uppbyggingu langskólanámsins fer þetta fólk hér í sérfræðigreinar og langskólanám og skrifstofur í Reykjavík. Ég ætla ekki að segja, að þróunin verði svona. Ég er aðeins að láta í ljós, að mig grunar, að það hefði verið réttara og heppilegra að beita sér af alefli í uppbyggingu verklega námsins í greinum, sem snerta atvinnuhætti þjóðarinnar, og láta heldur uppbyggingu grunnskólakerfisins e. t. v. bíða um stund. Ekki síst stafar þessi hugmynd mín af því, að við höfum fyrir fræðslulög frá 1946, þar sem er heimild fyrir sveitarfélög að taka upp 9 ára skólaskyldu, þannig að þau lög eru fyrir hendi. Það hlýtur líka að vekja nokkra furðu að búa við fræðslulög, sem ekki hefur verið unnt að framfylgja um skólasetu unglinga úti á landsbyggðinni, og menn skuli ekki heldur kappkosta að reyna að fullnægja skólaskyldunni úti á landsbyggðinni, áður en þeir fara að setja lög um enn meiri lengingu hennar. Ég hygg, að það hljóti að vera eðlilegur gangur mála að tryggja framkvæmd fræðslulaganna frá 1946, áður en menn fara í skólalengingu sem er óskrifað blað.

Grunnskólafrv. er að sjálfsögðu fyrst og fremst form, og það veltur á öllu, að framkvæmdin sé góð. Ég vil strax víkja að kennaramenntuninni. Ég hygg, að eitt undirstöðuatriðið sé kennaramenntunin, og ég vil þá benda á, að Kennaraháskólinn var settur á laggirnar árið 1971 og átti að endurskoða lög um hann eftir 2 ár. Sú endurskoðun hefur ekki farið fram, og mér sýnist, að samskipti Háskólans og Kennaraháskólans séu alveg óleyst mál, sem þurfi að glíma við.

Forseti hefur óskað eftir því að fresta fundi, og ég skal ekki bregðast því, en það er aðeins eitt, sem ég vil segja að lokum. Mér virðist á sumum sviðum móta þetta frv. óraunverulegur hlær, einhver „útopiskur“ hlær, einhver framtíðardraumur fjarri veruleikanum. Ég skal nefna eitt dæmi. Menntmrn. á að hafa heimild til þess að veita kennurum ársleyfi eftir 5 ára starf. Spurningin er: Hvaða vit er í því að setja þetta inn í lög? Menntmrn. getur ekki einu sinni veitt þeim kennurum, sem hafa lokið 10 ára kennslu, orlof frá vinnu, nema brotabroti. Að setja svona ákvæði inn í lög tel ég fjarri lagi, enda tel ég það rangt. Til hvers á að fara að veita ársleyfi kennurum, sem búnir eru að vinna 5 ár? Ýmis önnur ákvæði sýnast mér þannig, að það sé óskhyggja og einhver framtíðardraumur, sem mótar þetta frv. engu að síður vonast ég til eins og aðrir ræðumenn hér, að þetta grunnskólafrv. verði þjóðinni til heilla og æskulýðnum til blessunar.