11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti Það er í sjálfu sér leiðinlegt að þurfa að vera að ræða um þetta mál hér, því að sjáanlega er verið að reyna að gera úr því allt annað mál en raunverulega er um að ræða.

Á s.l. sumri var skipuð n. til að athuga möguleika á því, hvernig ætti að tryggja það, að Vestmannaeyjaflotinn hefði örugga höfn þegar á þessum vetri, ef svo færi, sem gert var ráð fyrir, að Vestmannaeyjahöfn yrði ekki komin í það gagn, sem síðar mundi verða. Ástæðan til þess, að þessi n. var skipuð, var m.a. sú, að fyrir lá boð frá Alþjóðabankanum um að lána íslendingum fé til hafnargerða vegna áfallsins í Vestmannaeyjum. Og var þá miðað við það, að út í aðrar hafnargerðir yrði að fara í bili til þess að trygg,ja, að Vestmanneyingar yrðu ekki fyrir meiru tjóni af eldgosinu en þörf væri á. Í þessari n. voru með leyfi hæstv. forseta — Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri, sem var formaður, Aðalsteinn Júlíusson vita- og hafnamálastjóri, Björn Guðmundsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, sem var tilnefndur af Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, Högni Magnússon gjaldkeri sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, sem var tilnefndur af sjómanna- og verkalýðsfélögum í Vestmannaeyjum, séra Ingimar Ingimarsson í Vík, sem var tilnefndur af Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi, Jón Bergsson verkfræðingur í Hafnarfirði, tilnefndur af skipulagsstjórn ríkisins, og Magnús H. Magnússon bæjarstjóri, sem var tilnefndur af bæjarstjórn Vestmannaeyja. Í þessari n. voru m.a. þrír Vestmanneyingar, sem fjölluðu um þetta mál. Þessi n. vann verk sitt af miklum dugnaði og skilaði áliti með tiltölulega miklum hraða, og niðurstöður hennar er að finna m.a. á bls. 7 og 8. Hér segir svo, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 8 neðan til:

„Fjórar hafnir eru á suðurströndinni frá Dyrhólaey og vestur um: Stokkseyri, Eyrarbakki, Þorlákshöfn og Grindavík. Af þessum 4 stöðum er Stokkseyri talin síst til hafnarbóta fallin og aðstæður til hafnargerðar slíkar, að útilokað má telja, að hún komi til greina. Hugsanleg stækkun og endurbætur Eyrarbakkahafnar til þess að ná þar aðstöðu fyrir nokkra tugi báta eru að öllu leyti ígildi byggingar nýrrar hafnar, og tæki rannsóknarundirbúningur og framkvæmdir, er fýsilegar teldust, því allt að 5–6 ár. Þá eru í rauninni aðeins Þorlákshöfn og Grindavík eftir. Innsiglingin í Grindavík er þröng og viðsjárverð, sérstaklega í sunnan- og suðvestanveðrum. Þegar inn er komið, er höfnin kyrr, en viðlegurými skortir. Ekkert er því til fyrirstöðu að auka viðlegurými inni í höfninni strax á þessu ári, þannig að þar mætti fá viðlegu fyrir 20–30 fleiri báta en nú er. Raunar er þegar unnið að slíkum framkvæmdum að nokkru.“ En það er alkunna, að í fyrravetur var byrjað að vinna að slíkum framkvæmdum fyrir fé, sem Viðlagasjóður lánaði. „Þá eru taldar líkur til þess,“ segir hér áfram, „að hægt sé að gera verulegar bætur á innsiglingunni með dýpkun og breikkun á hafnarmynninu og betri siglingamerkjum á 6–12 mánuðum. Hvort þetta er mögulegt á svo skömmum tíma, ræðst þó af gerð botnsins, sem ekki er fullkönnuð. Grindavík býður þannig upp á möguleika til endurbóta, sem kæmu að gagni strax næsta vetur.

Hins vegar er það álit Vestmanneyinga, að Grindavík liggi mun verr við fiskimiðum þeirra en Þorlákshöfn, og kom það t.d. fram á s.l. vetri í því, að innan við 10 Eyjabátar höfðu fasta hafnaraðstöðu í Grindavík, en sennilega 40–50 bátar í Þorlákshöfn, þrátt fyrir mikil þrengsli. Möguleikarnir til skjótra hafnarbóta í Þorlákshöfn munu vera lakari en í Grindavík, en þó er talið, að þar megi á 18 mánuðum skapa um 30 bátum til viðbótar þolanlega aðstöðu og bæta hafnaraðstöðuna í heild, þótt erfitt verði að bygg,ja þar á svo skömmum tíma örugga allra veðra höfn.

Fulltrúar Vestmannaeyja í nefndinni leggja á það mikla áherslu, að hafnaraðstaðan í Þorlákshöfn verði bætt sem allra fyrst, með það í huga, að þaðan sé heppilegast að sækja á hefðbundin mið Eyjabáta, meðan ekki er hægt að hafa fulla aðstöðu í Eyjum. Þá benda þeir og á, að í framtíðinni sé Þorlákshöfn heppileg höfn fyrir ferju milli Eyja og lands.

Nefndarmenn eru sammála um, að ef tæknilegar aðstæður og kostnaður leyfa, kæmu skjótar hafnarbætur í Þorlákshöfn að beinustu gagni fyrir Eyjabáta, og einnig, að hafnarbætur í Grindavík, sem kæmu fljótt í gagnið, geti beint og óbeint verið þáttur í lausn vandans, einkum með því að létta ásókn á Þorlákshöfn. Í þessu sambandi er og til þess að lita, að í sumum veðrum, t.d. suðaustanátt, er Grindavíkurhöfn betur sett en Þorlákshöfn, sem alltaf verður erfið í þeirri átt. Eins eru áraskipti og mánaða að því, hvar fiskgengd er mest fyrir suðurströndinni, og hafnirnar tvær geta því bætt hvor aðra upp að nokkru leyti.

Nefndin leggur til, að þegar verði hafist handa með nauðsynlegan undirbúning skjótra hafnarbóta á báðum þessum stöðum, sem miði að því að skapa sem fyrst viðunandi aðstöðu fyrir a.m.k. 20–30 báta til viðbótar á hvorum stað. Nefndin bendir á, að mikilvægt sé, að hafnarbætur þessar komi í gagnið, ef þess er nokkur kostur, strax á næstu vetrarvertíð. Þessa tillögu nefndarinnar mætti án efa bæði rökstyðja ítarlegar en hér hefur verið gert — og sennilega gagnrýna — en nefndin bendir á nauðsyn skjótra ákvarðana í þessu efni og telur, að á báðum þessum stöðum geti þessar hafnarbætur fallið inn í eðlilega framtíðarþróun, þegar tímabundin vandræði Eyjabáta verða afstaðin. Hér yrði þessari þróun aðeins flýtt.“

Alþjóðabankinn gaf ríkisstj. kost á láni til bættrar aðstöðu fyrir Eyjabáta í nágrenni við þeirra fiskimið. Ríkisstj. samþ. málið fyrir sitt leyti. Bankinn fór fram á skjóta ákvörðun í þessu máli. Það lá líka fyrir, þegar þessi afgreiðsla var gerð, að það yrði erfiður vandi úr að leysa fyrir okkur Íslendinga að láta í þessar tvær hafnir, því að það eru raunar tvær hafnir, sem taka þá fjármuni, sem um er að ræða, — það mótframlag, sem við þyrftum að láta á svo skömmum tíma sem um væri að ræða. Ríkisstj. gerði sér einnig grein fyrir því, að þessi ákvörðun mundi kalla á aukin framlög til hafna annars staðar á landinu enda held ég, að hv. þm. eigi að vera minnugir þess, að þegar umr. fóru hér fram á s.l. hausti um þessi mál, kvað við þann tón hjá mörgum hv. þm., að hér væri um mikla rausn að ræða af hálfu ríkisstj., sem aðrir hlytu að verða að njóta líka. Þetta var talið því aðeins framkvæmanlegt, að ákvörðun hafði ekki verið tekin um það, hvernig með yrði farið aðflutningsgjöld af Viðlagasjóðshúsunum. Þau höfðu ekki verið gefin eftir. Hins vegar hafði verið leyft að afgreiða þau án þess að tollafgreiðsla færi fram. Og af hálfu ríkisstj. var talið, að hér væri verið að tengja þetta inn sem þátt í einum hluta Vestmannaeyjamálsins, enda er það svo. Verður að telja, að þeir Vestmanneyingar, sem stóðu að þessu nái., hafi haft sömu skoðun, að hér væri um mál að ræða, sem varðaði Vestmannaeyjar ekkert síður en þá staði, sem þarna ræðir um. Þess vegna held ég, að hv. þm., hvað sem þeir vilja nú um þetta segja eða hvaða orð sem þá langar til að nota um mig eða aðra ráðh. í sambandi við þetta mál, megi þeir gjarnan hafa það hugfast, á hverju ríkisstj. byggði sína ákvörðun. Það var hennar skoðun, að hún væri með þessari ákvörðun að tryggja það, eins og n. áleit, að Vestmannaeyjaflotanum væri greiði gerður með ákvörðuninni, en ekki hið gagnstæða. Hitt er jafnljóst, að ef á að ráðstafa þessum tekjum í annað, þá lenda þessi verk í vandræðum, því að þau eru byggð á því að fá þennan hluta af aðflutningsgjöldunum af Viðlagasjóðshúsunum, og ýmsir hafa gert sér grein fyrir því, að það gæti farið svo, að yrði að brúa það bil með öðrum hætti, þangað til þetta innheimtist. Og þegar ákvörðun var tekin í fyrravetur um að fara í framkvæmdirnar í Grindavík, var það gert alveg án tillits til nýafgreiddra fjárl., vegna þeirrar nauðsynjar, sem var vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Þáv. samgrh. var eins og við aðrir í ríkisstj. sanntrúaður á, að hann væri að vinna gott verk til þess að aðstoða Vestmannaeyjaflotann við sitt úthald á vertíðinni í fyrravetur og síðar, ef á þyrfti að halda. Og ég held, að þess vegna sé alveg óþarfi að vera með nokkur brigslyrði í þessu sambandi. Sem betur fór leystust málefni Vestmannaeyja fyrr og betur en n. reiknaði með í þessu nál. En ákvörðunum um þessar framkvæmdir var ekki hægt að hætta, eins og þá var komið. Það var búið að ganga frá lánamálum og búið að undirbúa málin á allan þann veg, sem hægt var að undirbúa, og það leiddi náttúrlega til mikilla leiðinda, ef til þess þyrfti að grípa að stöðva slíkar framkvæmdir, eftir að af stað er farið.

Það hafa ekki verið um það deilur hér á hv. Alþ. að vilja leysa málefni Vestmannaeyja. Það var t.d. á einum fundi í hæstv. ríkisstj., sem ég lagði fyrir bréf hv. þm. Sunnl. um ábyrgð vegna Vestmannaeyjaskipsins, og það var afgreitt á þeim fundi samtímis af þeirri einföldu ástæðu, að þar sem fyrr vildu ráðherrarnir leggja sig fram um að koma til móts við óskir Vestmanneyinga. Og ég held, að það megi segja, að það hafi verið reynt að gera það á flestum sviðum, þar sem þær hafa komið fram. Hitt getur mönnum yfirsést, og það má vel vera, að það hafi verið yfirsjón að sjá það ekki fyrir, að gosið væri að hætta og höfnin kæmist fyrr í not en reiknað er með í þessu nál, en öryggið, var meira virði að dómi þeirra, sem í n. sátu, og þess vegna var samþykktin gerð.

Hitt er svo jafnljóst, að það skapar ekkert nema erfiðleika, ef frá þessu ætti að hverfa, og ég trúi því ekki, að hv. þm. ætlist til þess. En eins og annars staðar verða menn að gera sér grein fyrir þeim afleiðingum, sem það hefur að byggja slíkar hafnir eins og þessar. Tvær hafnargerðir, sem kosta nærri milljarð, eru meira en við höfum gert, Íslendingar, áður. Það er miklu meira átak heldur en við höfum gert áður. Ég efast ekkert um, að fjárveitingar til hafnarmála á yfirstandandi ári voru langtum meiri en nokkru sinni fyrr, og þetta mál hafði þar sitt að segja, því að auðvitað fór eins og vitað var, að á það var sótt úr öllum áttum að fá fjárveitingar til sinnar hafnar, þegar svo vel var gert við tvær hafnir sem hér var lagt til.

Ég ætla mér ekki að fara að eyða miklum tíma í að ræða um þessi mál. Ég er búinn að gera það hér á hv. Alþ. áður, gerði það fyrir jólin, þegar var verið að margræða þetta mál. Ég efast ekkert um það, að hv. þm. átta sig á, að hér er ekki verið að gera neitt að gamni sínu, hér er ekki heldur verið að reyna að sniðganga Vestmanneyinga, hér er ekki einu sinni verið að blanda saman fjárreiðum ríkissjóðs og þessara mála, því að þessu máli er haldið alveg sér, og hefði ekki verið tekin ákvörðun um það í þessu skyni á þeirri stundu, sem það var gert, nema vegna þess, að það þurfti að ákveða sig í sambandi við þessar hafnarframkvæmdir, og þær voru tengdar Vestmannaeyjum, en ekki venjulegum hafnarframkvæmdum. Og það er líka ljóst, að það hefði ekki verið farið út í svo stórstigar framkvæmdir í þessum höfnum þegar á þessum árum, sem ætlast er til, ef þetta hefði ekki komið til.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði hér fyrir jólin í vetur, að fari svo, að tekjur af Viðlagasjóðshúsunum reynist meiri en gert er ráð fyrir eða framlag til þessara hafna þarf að vera, þá ganga þeir peningar til Vestmannaeyja og ekkert annað, að því leyti sem ég kann um það að ráða, og gætu menn fengið staðfestingu á því, hvar og hvenær sem væri. Það er ekki hugur manna, að þetta sé notað nema í tengslum við Vestmanneyinga og Vestmannaeyjar. Það var hins vegar skilningur ríkisstj., að hér væri verið að nota féð eingöngu í tengslum við Vestmannaeyjar samkv. till. n., sem starfaði út frá Vestmannaeyjagosinu og 3 Vestmanneyingar áttu sæti í og skiluðu einróma áliti.