11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að flytja neina ræðu um þetta mál að þessu sinni. Ég sagði mína meiningu um fjármagnsskort Viðlagasjóðs hér fyrir skömmu, þegar rætt var um það, hvort Viðlagasjóður ætti að halda 2% söluskattsstofni eða aðeins að fá 1%. En ég vil leyfa mér að gera örfáar aths. við það, sem hér hefur verið sagt.

Það virðist svo, að þegar hinir þaulvönustu stjórnmálamenn koma hér í pontuna til að færa rök fyrir máli sínu, þá er eins og þeir hafi einhverja þörf fyrir að reyna að koma sér hjá að segja allan sannleikann, reyna að sleppa einhverju, jafnvel þó að það skipti talsverðu máli.

Hæstv. fjmrh. las upp úr nál. frá n., sem skipuð var af ríkisstj. til þess að athuga um staðsetningu nýrrar hafnar á Suðurlandi. Hluti af því, sem hann las upp úr þessu áliti, fjallaði um álit þessara manna, hvað gera þyrfti nauðsynlega og það sem fyrst í Grindavík og Þorlákshöfn, fyrir vertíðina, sem er að líða, þ.e.a.s. á þessu ári. Ég vil aðeins segja það í sambandi við þetta lán, sem miðað er við þrjá staði, Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði, að í nál. er hvergi minnst á Höfn í Hornafirði, a.m.k. ekki af Vestmanneyinga hálfu, en samt er það inni í lánsupphæðinni. Þær framkvæmdir, sem þegar hefur orðið af í Grindavík og Þorlákshöfn, eru ekki fyrir þessa vertíð, að þeim var ekki unnið nema að mjög litlu leyti fyrir þetta lánsfé, nema um sprengingarnar í Grindavík sé að ræða. En um aðrar hafnarbætur, þ.e.a.s. bætt viðlegurými í Grindavík og dýpkun í Þorlákshöfn, var unnið fyrir annað fé, — það fé, sem Viðlagasjóður lánaði til framkvæmdanna.

Ég greip fram í fyrir hæstv. fjmrh., þegar hann flutti hér sitt mál, og spurði, hvenær hefði verið ákveðið að taka lánið, en hæstv. ráðh. gat ekki svarað því, sagðist ekki hafa með sér dagsetningarnar. En dagsetningarnar skipta talsverðu máli í þessum efnum, vegna þess að gosinu lauk í júní á s.l. ári og meira að segja er samþykkt um að það sé hætt, löglega útgefin 3. júlí á s.l. ári. En hvenær var svo samið um lánið? Það var samið um lánið dagana 10.–14. sept. á s.l. ári, löngu eftir að séð er, að gosið er hætt, lánssamningur undirritaður 26. okt., sem tók ekki gildi fyrr en annan í jólum, 26. des. 1973, og þá voru næstum því eins margir fluttir til Vestmannaeyja og eru þar nú í dag. Þetta finnst mér, að hefði mátt koma fram í ræðu hæstv. ráðh., vegna þess að það skiptir ákaflega miklu máli, hvenær ákveðið er að taka peninga af þessum tolltekjum.

Ég heyrði ekki betur en hæstv. fjmrh., sem því miður virðist ekki hafa tíma til að hlusta hér á aðra þm. og lætur sér nægja eigin rök í málinu, eins og ýmsum stjórnmálamönnum er því miður tamt, hann segði, — ég er víst ekki með það orðrétt, — en hann sagði eitthvað á þá leið, að framkvæmdir við þessar hafnir uppi á landi byggðust hreinlega á þessum tolltekjum. Ég hefði viljað leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh: Hvaðan hefði þetta mótframlag ríkissjóðs komið, ef Viðlagasjóður hefði ákveðið að byggja eingöngu hús hér innanlands úr innlendu efni og þessar tolltekjur hefðu alls ekki komið til?

Mér er alveg fyllilega ljóst, að Viðlagasjóð vantar tekjur, eins og ég sagði hér á dögunum, þegar það var til umr. Nú hefur hins vegar verið ákveðið, að 1% skuli gilda, og hv. 1. þm. Sunnl. lýsti því hér yfir áðan í ræðu, eins og hann gerði reyndar við þær umr. einnig, að ef til þess kæmi, að Viðlagasjóð vantaði tekjur, þá hefur því verið lýst yfir, að þá skuli lögin aðeins framlengd, þegar þar að kemur.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að málefni Vestmanneyinga hefðu leyst fyrr og betur en nokkurn hefði órað fyrir. Þó að margt hafi vissulega farið miklu betur í Vestmannaeyjum en menn grunaði, þá er nú svo, að það er mitt álit, að nú sé einna mestur vandinn eftir, þ.e. öll uppbyggingin og að útvega það fjármagn, sem til hennar þarf.

Annar hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. hefur sagt, að húsnæðismálakerfið ráði ekki við það að lána húsnæðismálalán út á innfluttu húsin. En einmitt í þessum innfluttu húsum er bundið fjármagn upp á næstum því tvo milljarða kr., og það er fjármagn Viðlagasjóðs. Hæstv. félmrh. hefur einnig sagt, að hæpið sé, að framkvæmdalán eða húsnæðismálalán geti fengist á þær íbúðir, sem kemur til með að þurfa að reisa í Vestmannaeyjum í sumar. Röksemdir hans eru einfaldlega þær, að uppbyggingin í Vestmannaeyjum og allt þar að lútandi sé lögum samkv. hlutverk Viðlagasjóðs, en Viðlagasjóður getur að sjálfsögðu ekki tekið á sig meiri byrðar en hann hefur tekjur til að standa undir.

Hv. 3. þm. Sunnl. lét þau orð falla í sinni ræðu, að það væri mikilvægt, að Viðlagasjóður héldi öllum sínum tekjum, bæði þessum tekjum, þ.e.a.s. tolltekjum, og öðrum. Og eins og ég hef oft sagt, er ég alveg sammála honum í því, að Viðlagasjóður þarf á tekjum að halda. Þess vegna varð ég undrandi, að hann skyldi fallast á að fara þá leið, sem farin var hér, að fara niður í 1% af söluskattsstofni. Hitt er svo annað mál, ég skal viðurkenna, að það kemur ekki beint þessu máli við, — það er verið að ræða um það, hvert tollarnir eigi að renna. Það er mál út af fyrir sig.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason kom hér í pontuna glansandi af skemmtilegheitum, sem voru reyndar eins og fyrri daginn á annarra kostnað, og lét nú þingheim enn einu sinni heyra, að hann væri þess umkominn að leggja fyrir menn rökfræðilegar gátur eða skrýtlur. Það var álit Gylfa Þ. Gíslasonar og stjórnarandstöðunnar á sínum tíma, að Viðlagasjóður þyrfti ekki nema 1%, og Gylfi sagði eitthvað á þá leið: Ef ríkisstj. hefur talið, að það þyrfti 2% af söluskattsstofni í Viðlagasjóð, þá væri þeirri sömu ríkisstj. kærkomið tækifæri að fá þessa viðhót, þessar 500 millj. af tolltekjunum. En þá vil ég spyrja hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason: Ef hv. stjórnarandstaða hefur talið nægilegt fyrir Viðlagasjóð að fá 1%, hvernig stendur þá á því, að nú örfáum dögum síðar telur hún nauðsynlegt að bæta þessum 500 millj. við? Mér er auðvitað alveg ljóst, eins og alltaf er verið að segja og kannske aldrei of oft, að Viðlagasjóður þarf á auknum tekjum að halda. Til uppbyggingarinnar og til húsnæðismálalána úti í Vestmannaeyjum og einnig til þess að greiða fyrir sölu Viðlagasjóðshúsanna úti á landi þarf fjármagn. Mér er út af fyrir sig alveg sama, hvort það fjármagn kemur með þessum tolltekjum eða öðrum hætti, en það er eitt, sem víst er, að ef það kemur ekki af þessum tekjum, þá verður hæstv. ríkisstj. að lýsa því yfir, hvaðan eigi að taka þá peninga.