11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til að leiðrétta það, sem hv. 2. þm. Reykn. vildi halda fram, að hér væri um tvö óskyld mál að ræða, annars vegar tolltekjur af Viðlagasjóðshúsunum og hins vegar framlag Norðurlandanna. Ég vil benda á, að framlag Norðurlandanna nemur um 1530 millj. Af því hefur verið notað sem innkaupsverð Viðlagasjóðshúsanna röskur 1 milljarður. Þá er eftir um 1 milljarður ónotaður af því fé. Og það vill svo til, að þetta er að heita má nákvæmlega sama upphæðin og Viðlagasjóður þarf að greiða út til ríkissjóðs í tolltekjur og söluskatt af húsunum. Ég sé ekki, hvernig þessi hv. þm., sem vissulega gerði það, sem ætlast var til af honum, þegar hann stóð upp á fundi Norðurlandaráðs og bakkaði fyrir framlagið og þann drengskap, sem Norðurlöndin sýndu með því að veita það framlag, ætlar að fara að verja hér á Alþingi Íslendinga að taka þriðja hlutann af framlaginu til handa ríkissjóði til almennra útgjalda.

Framlög úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda, hvort sem er í Grindavík eða annars staðar, eru almenn útgjöld. Ég vil sjá þennan hv. þm. standa upp í Norðurlandaráði og standa frammi fyrir því, að þegar Norðurlöndin eru að leggja á sína skattþegna stórar kvaðir til þess að aðstoða Íslendinga, þá ætlar hann að standa að því hér á hv. Alþ., að það verði ríkissjóður Íslands einn, sem beinlínis græðir á eldgosinu í Vestmannaeyjum. Ég hélt satt að segja, að maður þyrfti ekki að segja þetta á hv. Alþ. eða benda neinum þm. á, í hvaða aðstöðu er verið að setja Íslendinga, ef á að nota þá heimild, sem er að finna í 6. gr. fjárl.

Þessi hv. þm. sagðist ekki trúa því, að þm. úr Reykjaneskjördæmi mundu vilja standa gegn því, að þetta fé yrði notað til hafnarframkvæmda í Grindavík. Ég vil benda á, að einn af aðalforsvarsmönnum í Grindavík, Tómas Þorvaldsson, hefur ritað forseta Sþ. bréf, ítarlegt bréf, þar sem hann gerir kröfu til þess, að aðflutningsgjöld og söluskattur af Viðlagasjóðshúsunum verði látin renna til Viðlagasjóðs, en ekki ríkissjóðs, og ég hygg, að það sé rétt, sem kom fram hér hjá hv. 1, þm. Sunnl., að það sé mjög almennur vilji fyrir því í Grindavík, að þetta fé verði ekki notað þar í hafnarframkvæmdir. Við skiljum auðvitað aðstöðu Vestmanneyinga betur en kannske hv. síðasti þm., sem hér var að tala, virðist gera. Þeir gera sér grein fyrir því, að þarna er um hlut að ræða, sem ég tel, að ekki megi henda Alþ. Íslendinga, að það stuðli að því, að ríkissjóður einn græði á eldgosinu, þegar ríkisstj. annarra Norðurlanda leggja kvaðir á skattþegna sína til að létta undir byrðina með þeim Íslendingum, sem urðu fyrir þessu áfalli.