11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það kemur fram hjá hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni nákvæmlega sami misskilningur og gætir í þeirri grg., sem ég var að lesa upp hér áðan, og ég sé, að mér hefur ekki tekist að koma því inn í höfuðið á honum með þeim fáu orðum, sem ég var að segja, að málflutningur hans er byggður á röngum forsendum, eftir því sem ég best veit. Aðalatriði þessa máls er það, — og ég skora á hv. þm. að sýna mér það, ef það er rangt, og afsanna það, — að ég veit ekki til þess, að eigi að skerða Norðurlandahjálpina í Viðlagasjóðnum um eina einustu krónu. Ég veit ekki betur en hundrað millj. danskra kr. eigi að ganga þangað. Hitt er annað mál, eins og ég sagði áðan, að tolltekjum af þessum húsum„ sem keypt eru fyrir hluta af þessari aðstoð, er mál. sem er annars eðlis. Ég veit ekki til þess, að það hafi veríð ákveðið að taka þær tolltekjur af Norðurlandaráðsframlaginu. Þetta er aðalatriði málsins. Ég veit ekki til þess, að það eigi að skerða aðstoðina um eina einustu krónu.

Mér þykir það satt að segja dálítið harðir kostir, bæði fyrir okkur hv. alþm. og þá ekki síður þjóðina, að þrástagást sé á því, að ríkisstj. og þá væntanlega þingmeirihl. vilji græða á því óhappi, sem gerðist í Vestmannaeyjum, þegar jarðeldar brutust þar út. Það þarf talsvert mikla kokhreysti til þess að halda því fram, að þjóðin og þ. á m. ríkisstj. og þingmeirihl. sá, sem hana styður, hafi ekki viljað gera það, sem hægt hefur verið að gera og með nokkrum rétti hægt að krefjast af þeim að gera til þess að bæta það tjón, sem Vestmanneyingar hafi orðið fyrir. Mér finnst satt að segja dálítið hart að þurfa að hlýða á þetta ítrekað, eins og við höfum þurft hér á hv. Alþ. Ég veit ekki betur en það liggi fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna, m.a. hæstv. ráðh., að ætlunin sé að útvega Viðlagasjóði allt það fé, sem nauðsynlegt er, til þess að ljúka megi endurreisnarstarfinu í Eyjum. Þetta hygg ég, að hv. þm, viti alveg eins vel og ég. Við erum nýbúnir á hv. Alþ. að ganga í það að framlengja tekjustofn, sem átti að hverfa út 1. mars, framlengja hann að hluta vegna þeirra þarfa, sem fyrir hendi eru í Vestmannaeyjum til uppbyggingar. Ég segi fyrir mig, að ég læt ekki bjóða mér það, að ég sé ásakaður um að vilja ekki leggja það á mig og þá, sem ég kann væntanlega að tala fyrir, — að við viljum ekki gera allt, sem í okkar valdi stendur og við getum á nokkurn hátt gert til þess að stuðla að uppbyggingu í Eyjum. Svo mikið eigum við undir því, að blómleg byggð rísi aftur í Eyjum og þar verði hægt að stunda kraftmikla útgerð og mikla fiskvinnslu. Það væri skrýtinn Íslendingur, sem vildi ekki standa að því að gera þetta mögulegt eins fljótt og verða má.