01.11.1973
Neðri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

8. mál, skólakerfi

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði úr ræðu hæstv. menntmrh., sem ég vildi gera að umtalsefni. Hann lét þau orð falla, að þær till., sem ég hefði lýst hér, að sveitarfélögin og samtök þeirra fengju skólamálin í sínar hendur og verulegu leyti, væru lítt eða ómótaðar hugmyndir, sem hann gæti ekki látið í ljós skoðun sína um. Mér kemur þetta nokkuð á óvart, vegna þess að þetta mál hefur allmikið verið til umr. að undanförnu. M. a. hefur komið fram í álitsgerðum Sambands ísl. sveitarfélaga í mjög vel rökstuddu máli einmitt þetta sama, sem ég ræddi hér um. Á fulltrúafundi Sambands ísl. sveitarfélaga í sept. s. l. í Hornafirði var þetta mál rækilega rætt. Þar kom fram í ítarlegri álitsgerð, sem ég vænti, að hæstv. ríkisstj. hafi séð, að sveitarfélögin tækju ein að sér alla fræðslu á skyldunámsstigi að öðru leyti en því, að ríkið sæi um aukakostnað í dreifbýli vegna heimavistar og aksturs nemenda og ríkið hefði ákvörðun námsefnis og námseftirlit með höndum. Það eru einmitt þessi atriði öll, sem ég rakti í minni ræðu. Ég held, að hér sé ekki um lítt mótaðar eða ómótaðar hugmyndir að ræða, heldur hugmyndir, sem hafa tekið á sig nokkuð glögga og skýra mynd, og ætti þess vegna ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka þær upp.

Hitt atriðið er það, að hæstv. ráðh. taldi athugavert að búta með þessum hætti sundur ábyrgðina eða ábyrgðarhlutverkið, eins og ég held, að hann hafi komist að orði, og vitnaði þá til Vestur-Þýskalands, að þar mundu vera uppi sífelldar erjur vegna þess, hve ábyrgðinni væri dreift í skólamálum. Ég held, að hér sé um misskilning að ræða. Með því skipulagi, sem nú er í mörgum málefnum, að þau heyra bæði undir ríki og sveitarfélög, er það einmitt oft óljóst, á hverjum ábyrgðin hvílir, bæði um frumkvæði og framkvæmdir. Það er þetta, sem er stefnt að því að laga og lækna. Með þeim hugmyndum, sem Samband ísl. sveitarfélaga og margir aðrir hafa haft og hafa. Tilgangurinn er að draga hér skýrari línur á milli og stefna að því, að ábyrgðin á hverjum málaflokki verði aðallega eða eingöngu annaðhvort hjá ríkinu eða hjá sveitarfélögunum. Þessar till., sem hér var lýst, miða því ekki að því að búta sundur ábyrgðarhlutverkið, þannig að ekki sé hægt að vita, hver ber ábyrgðina, heldur þvert á móti að gera það skýrt og greinilegt, hvor aðilinn hafi ábyrgðina, og í því tilviki, sem hér er um að ræða, að sveitarfélögin taki að sér skólamálin og beri ábyrgðina á þeim.