12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

416. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti: Ég hef á þskj. 399 leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til forsrh.:

„1. Hvað líður gerð landshlutaáætlunar fyrir Norður-Þingeyjarsýslu?

2. Til hvaða þátta atvinnulífs og þjónustu er ætlað, að áætlunin nái?“

Með þál. frá Alþ. 25. apríl 1972 var ályktað, að gera skyldi landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu og sveitirnar þar austur af eða nyrstu sveitir N: Múl. Héruðin á Norðausturlandi, þau sem ganga upp af Öxarfirði, Þistilfirði og Bakkaflóa, hafa vissa sérstöðu. Þar er aðallega um landbúnað að ræða, en einnig um nokkur heldur smá sjávarþorp. Því er ekki að leyna, að menn hafa haft vissar áhyggjur af þróun byggðar á þessu svæði. En það er ekki vegna þess, að þarna skorti landkosti. Þarna eru góð landbúnaðarhéruð og óvíða er betra til sauðfjárræktar, þó að markaðir séu þarna nokkuð fjarri, sérstaklega fyrir mjólkurafurðir. Fiskimið eru þarna góð og liggja nærri, bæði frá Þórshöfn og Raufarhöfn. Allir þekkja þátt Raufarhafnar í síldveiðisögu landsins. Þar bárust á land óhemjumikil verðmæti fyrir allt þjóðarbúið. Hins vegar er það staðreynd, að þar varð lítið eftir af þeim verðmætum, sem þar voru borin á land, og þykir mörgum heimamönnum þar, að þjóðin eigi nokkra skuld að gjalda.

Því er ekki að leyna, að þessi héruð eru ekki í höfuðalfaraleið um landið, eins og straumar hafa legið, og þess vegna finnst mönnum sem þau séu nokkuð út úr. Benda má hins vegar á hringveginn um landið. Hann er ekki aðeins að opna leið um Skaftafellssýslur, hann er raunverulega þjóðfélagsleg hugmynd. Hann er sú hugmynd, að í kringum allt landið sé óslitin byggðakeðja og þar liggi leiðir, sem tengja eina byggð við aðra, þannig að þessi keðja sé hvergi rofin. Héruðin eiga að vera hlekkir í þessari keðju og þessi héruð, sem ég hef hér minnst á, eru þannig landkostum búin, að þau geta verið þar styrkur hlekkur. En það, sem veldur því, að þau hafa staðið höllum fæti, eru alveg sérstakar náttúrlegar aðstæður. Ég hef nefnt það, þegar síldin hvarf, var það geysilegt áfall fyrir þessi héruð. En á sama áratug herjaði þar mjög mikið kal, veðrátta versnaði, og það hafði mjög mikil áhrif á þessi héruð, sem liggja nyrst á landinu, þannig að þegar veðrátta versnar, sverfur þarna meira að en annars staðar. Þetta er allt saman tímabundið. Þrautseigja fólksins í þessum héruðum hefur verið mjög mikil. Bændurnir þraukuðu af kalið, og íbúarnir í þorpunum byggðu upp aðra atvinnuvegi, þegar síldin brást. Þess vegna þykir full ástæða til þess, að komið sé til móts við þessi héruð. Og það má aðeins minna á það, að það eru ekki landkostirnir, sem skortir. Það er öllu meira það, sem þjóðfélagið í heild lætur af hendi, svo sem eins og heilbrigðisþjónusta, samgöngur, jafnvel hlutir eins og sími, rafmagn, póstþjónusta, sjónvarp, útvarp o.fl. Menn hugsa sérstaklega til þess, að þessi héruð eru vel í stakk búin hvað snertir landkosti. Þar eru stundaðir ágætir frumatvinnuvegir, en þarna þyrfti að koma meiri þjónusta og meiri þjónustuiðnaður. Þetta vildi ég nefna, um leið og ég legg fram þessa fyrrgreinda fsp.