12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

418. mál, endurskoðun á tryggingakerfinu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég get í mörgu tekið undir þau sjónarmið, sem fram komu hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég tel, að það lífeyrissjóðakerfi, sem við höfum nú hér á Íslandi, sé hreinn vanskapnaður, frumskógur, sem komið er upp af sögulegum rökum, eins og menn vita, vegna þess að verkalýðshreyfingin fékk ekki nægilega snemma þau réttindi, sem menn áttu rétt á, og það leiddi til þess, að félögin sjálf tryggðu sér viss lífeyrisréttindi í sambandi við kjarasamninga. Það hefur komið í ljós, að það er mjög erfitt að fá verkalýðsfélögin til þess að samþykkja það á þessu stigi, að ástæða sé til að sameina þetta kerfi allt saman, m.a. vegna þess, að það er ekki aðeins lífeyristryggingarétturinn, sem þarna er um að ræða, heldur einnig margvíslegir lánamöguleikar og fjárhagsleg fyrirgreiðsla, sem veitt er í gegnum þessa sjóði, þannig að þetta er orðið ákaflega erfitt vandamál og torvelt á því að taka. Það mun taka sinn tíma að ná einfaldari og betri skipan þessara mála. En ég er alveg sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að á þessu vandamáli verðum við að taka á sama hátt og á þessu hefur verið tekið hér í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum.

Að því er sjálfa fsp. snertir, hvað gert hafi verið í tilefni af þeirri ákvörðun Alþingis að vísa til ríkisstj. þáltill. hv. þm., vil ég geta þess, að ég skipaði haustið 1971, n., sem fékk það verkefni að endurskoða allt tryggingakerfið. Í upphafi fjallaði n. nokkuð um lífeyrissjóði og almannatryggingakerfi, og m.a. fengu hv. alþm. þá grg. Þóris Bergssonar tryggingafræðings um lífeyrissjóði. Síðan hefur n. hins vegar að mestu fjallað um önnur atriði tryggingamála og undirbúið einstök lagafrv., eins og alþm. kannast við.

Í fyrravor fól ég n. að taka til athugunar till. þá til þál. um endurskoðun á tryggingakerfinu, sem samþ. var að vísa til ríkisstj. 14. apríl 1973 og hv. fyrirspyrjandi innti eftir meðferð á. N. fékk Guðjón Hansen tryggingafræðing til þess að gera grein fyrir, á hvern hátt mætti tengja saman almennar tryggingar og lífeyrissjóði í samfellt tryggingakerfi. Tryggingafræðingurinn hefur skilað n. ítarlegri álitsgerð. Hann telur þar vart koma til greina að stofna allsherjarlífeyrissjóð með þátttökuskyldu fyrir alla, sem atvinnutekjur hafa, og innlima núverandi lífeyrissjóði í þann sjóð. Hins vegar bendir hann á þrjár hugsanlegar leiðir til þess að koma á samfelldu tryggingakerfi.

Það er þá fyrst um að ræða allsherjar lífeyrissjóð með þátttökuskyldu fyrir alla, sem atvinnutekjur, og réttindavinnslu frá stofnun sjóðsins. Samkv. þessu kerfi mundu núverandi lífeyrissjóðir sjálfir þurfa að standa við skuldbindingar sínar vegna liðins réttindatíma í samræmi við lög og reglugerðir hlutaðeigandi sjóða. Væntanlega mundu flestir þeirra hins vegar hætta starfsemi sinni að öðru leyti, þótt þeim yrði heimilt að starfa sem viðbótarsjóðir við almannatryggingar og hinn nýja allsherjarsjóð. Þetta er sú leið, sem Svíar og Norðmenn völdu, þegar þeir settu löggjöf um heildarkerfi grunntryggingar og allsherjar lífeyrissjóð.

Önnur leiðin, sem bent er á í þessari álitsgerð, er sú að stofna lífeyrissjóð fyrir þá, sem ekki eru þegar orðnir félagar í einhverjum þeirra sjóða, sem nú eru starfandi. Þessi leið mundi hafa það í för með sér, að núverandi lífeyrissjóðir gætu starfað áfram með þeirri breytingu, að lokað yrði fyrir þátttöku nýrra sjóðsfélaga. Starfandi sjóðsfélögum þessara sjóða mundi fækka smám saman, og meðalaldur þeirra mundi fara hækkandi. Allsherjarsjóðurinn mundi lengi vel verða að mjög miklu leyti skipaður ungu fólki, og það yrði ekki fyrr en að röskum 50 árum liðnum, að allir, sem atvinnutekna öfluðu, yrðu orðnir félagar í honum.

Þriðja leiðin, sem tryggingafræðingurinn bendir á, er að stofna lífeyrissjóð með þátttökuskyldu fyrir þá, sem ekki eru skyldugir að vera í öðrum lífeyrissjóðum eða eiga með öðrum hætti aðild að þeim. Þessi leið er í samræmi við frv., sem samíð var vorið 1971 að tilhlutan þáv. fjmrh. Er þar gert ráð fyrir, að núverandi lífeyrissjóðir geti starfað áfram og jafnframt verði heimilt að setja á stofn nýja sjóði.

N., sem fjallar um tryggingamál á vegum rn., hefur ekki enn tekið afstöðu til þessara till., en ég sé ekki ástæðu til þess að rekja niðurstöðurnar í álitsgerð Guðjóns Hansen ítarlega hér. Ég hef gert ráðstafanir til þess, að grg. hans verði send hv. alþm. mjög fljótlega. Í henni er mikinn fróðleik að finna, og ég hygg, að þar sé um að ræða gagnlega vitneskju fyrir þá, sem áhuga hafa á þessum málum, sem vissulega eru mjög brýn og valda mikilli mismunun í þjóðfélaginu þar að auki. Ég vil afhenda hv. fyrirspyrjanda eintak af þessari skýrslu Guðjóns Hansens, en hún mun verða afhent þm. síðar.