12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

418. mál, endurskoðun á tryggingakerfinu

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka svör ráðh. Ég var nokkurn veginn ánægður með, að þessari þáltill. var vísað til ríkisstj. í fyrra. Ég veit það af kunnugleika mínum við hæstv. trmrh., að hann hefur gott höfuð, og ég álit, að til þess að leiðrétta þetta allt saman hafi hann ekki þurft að fá vit að láni. Þetta er ákaflega einfalt mál, ef maður vill ekki gera málið flókið. Okkar gamla tryggingakerfi var uppbyggt samkv. tryggingakerfi Dana. Svo benti ég á í þáltill., að Norðmenn færu nokkuð aðra leið. Nú er núv. ríkisstj. búin að breyta þessu tryggingakerfi, afnema þetta danska tryggingakerfi, nú á ríkissjóður að borga allt saman. Ég hef ekkert við það að athuga, þótt ríkissjóður borgi almannatryggingagjöldin. En það var yfirsjón að taka lögreglukostnað og sjúkratryggingar, vegna þess að þeir liðir verða miklu dýrari, ef ríkið hefur með það að gera. En hvað um það.

Þá benti ég á það í þáltill., að það er ósköp einfalt að taka upp norska eða sænska kerfið. Það er svipað, og þá eru þessi iðgjöld látin ganga beint inn í heildartryggingakerfið. Í Noregi eru 8.8%, sem atvinnurekandinn greiðir, 4% greiðir launþeginn, auðvitað er þetta sama sem kaup allt saman, og atvinnurekendur eru tryggðir þannig, að 7.8% eru greidd af nettótekjum. Þetta rennur allt í einn sjóð, og þetta er aðaltryggingaféð og ríkið greiðir sama og ekkert, nema dálítið til sjúkratrygginga. Ef þetta kerfi væri tekið upp, gætum við sparað verulegan hluta af tryggingagjöldunum, sem núna eru, og ef hálf sjúkrasamlagsgjöldin væru færð heim í byggðirnar, þá gætum við sparað þau að hálfu. Þá þyrfti ekkert að vera að jagast hér yfir söluskatti og lækkun á tekjuskatti. Það væri hægt að lækka tekjuskattinn án þess að koma með nokkurn söluskatt. Og meira að segja bara með því að taka hálf sjúkrasamlagsgjöldin og lögreglukostnað, er hægt að lækka útgjöld ríkisins svo mikið, að það væri hægt að lækka þennan blessaðan tekjuskatt. En nú er tryggingakerfið gert eins dýrt og erfitt í framkvæmd og mögulegt er. Það er eðlilegt, að það þurfi mikla peninga til þess að standa undir þessari vitleysu. En eins og ég segi, þá er það alveg ólíkt betra að taka upp norska kerfið. Það er einfalt fyrir ráðh. að fá bara þessa löggjöf, hann er fluglæs á erlend tungumál. Hann getur fengið einhvern góðan mann til að þýða þetta og yfirlesa það. Hann þarf enga n. og allra síst n. manna, sem ekki hafa kynnt sér þessi mál. Í fyrsta lagi þarf góðan haus til að skilja þetta. Í öðru lagi þarf mikla vinnu í það. Ég er búinn að leggja mikla vinnu í þetta kerfi. En það þýðir lítið að vera að skipa ótal nefndir til að koma með vitlaus frv., svo verður þingið að strita við að koma í veg fyrir, að þessi frv. verði samþ., eins og núv. ríkisstj. hefur gert allt of mikið að.

Um það, hve gáfulegt þetta kerfi er, má benda á, að lögin um lífeyrissjóð bænda voru svo vitlaus, að það er ómögulegt að framkvæma þau, og það er kosturinn við þau.

Ég skrifaði ríkisstj. afar vinsamlegt bréf í fyrra og benti henni á, hvernig hún gæti lagað þetta með hægu móti. Þetta er ákaflega einfalt fyrir trmrh., og það væri mikið verk, sem lægi eftir hann, ef hann semdi, — og væri best, að hann gerði það sjálfur og hefði enga n. til að gera allt vitlaust, — ef hann semdi löggjöf um þetta efni. Jafnvel þó að frv. lægi bara fyrir, þegar hann yfirgæfi stólinn, þá væri það mikið og virðulegt verk, sem hann hefði unnið, jafnvel þó að það væri ekki komið í gegnum þingið, því að það gengur nú alltaf tregt að koma því, sem viturlegt er, í gegnum þessi blessuð þing. Þetta væri mjög þarft verk, ef hann vildi gera það. Og ef ég gæti léð honum eitthvert lið til þess, þá skyldi ég vera með honum eina eða tvær kvöldstundir fyrir ekki nokkurn skapaðan hlut til að gera þetta.