13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. 30. jan. s.l. var frv. til l. um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í S: Þing. vísað til iðnn. þessarar hv.d. Síðan hefur málið ekki fengið afgreiðslu frá n., þrátt fyrir það að brýna nauðsyn beri til þess, að þetta lagafrv. verði sem fyrst afgr., til þess að jarðhitadeild Orkustofnunar geti sett á fullan kraft þær rannsóknir og þann virkjunarundirbúning, sem fyrirhugaður er við Kröflu eða við Námafjall.

Þegar hæstv. iðnrh, mælti fyrir þessu frv., komst hann m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Með hliðsjón af orkumálum á Norðurlandi telur ríkisstj. æskilegt að afla sér nú þegar heimildar til að reisa og reka jarðgufuaflstöð á öðru hvoru þessara jarðhitasvæða og leggja þaðan orkuveitu til tengingar við meginorkuflutningskerfi Norðurlands. Þessi heimild er nauðsynleg, til þess að hægt sé að hraða framkvæmdum eins og unnt er.“

Eins og fram kemur í þessum ummælum hæstv. ráðh., er heimild Alþingis til þessara virkjana algjör forsenda þess, að unnt sé að hraða framkvæmdum eins og unnt er. Ég vil í því sambandi minna á, að nefnt hefur verið, að með því að láta undirbúning virkjana við Kröflu eða Námafjall hafa algjöran forgang, sé hugsanlegt, að unnt kunni að vera að taka slíka jarðgufuvirkjun í notkun síðast á árinu 1976 eða á árinu 1977, miðað við það, að frumhannanir slíkrar virkjunar yrðu gerðar í lok þessa árs. Hins vegar virðist svo nú sem horfið hafi verið frá því að hraða málinu eins og unnt er, og er nú rætt um það af Orkustofnun, að þessi virkjun verði ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1978, og það sé þó mjög vafasamt.

Ég vil benda á í þessu sambandi, að enn liggur ekkert fyrir um það, með hvaða jarðbor verði haldið áfram virkjunarborunum á jarðhitasvæðinu við Kröflu á sumrinu 1975, ef jákvæður árangur fæst af þeim rannsóknarborunum, sem fram eiga að fara í sumar. Mér er kunnugt um, að jarðhitadeild Orkustofnunar hefur haldið að sér höndum í þessu efni, á meðan heimildin frá Alþingi kemur ekki. En um leið og slík heimild lægi fyrir og ljóst væri, að það væri raunverulegur áhugi fyrir því af stjórnvöldum að hraða þessari virkjun, mundi jarðhitadeildin að sjálfsögðu þegar í stað gera ráðstafanir til þess að fá leigðan eða keyptan bor, sem mundi henta til slíkra borana.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð lengri. Ég átel þann seinagang, sem hefur orðið í þessu máli hjá iðnn., því að hér er um brýnt hagsmunamál fyrir alla Norðlendinga að tefla. Það er talað um að leysa orkuskortinn á Norðurlandi nú með byggðalínu, sem eigi að leggja norður. Slík byggðalina hefur þó ekki fengið samþykki Alþingis, er enn ekki fullhönnuð og algjörlega óvist, hvenær hún verður tilbúin, m.a. vegna langs afgreiðslufrests.

Ég vænti þess, að hv. iðnn. og form. hennar, sem er ekki við hér, því miður, muni taka tillit til þessara óska um að hraða þessu frv. vegna þeirra brýnu hagsmuna, sem hér eru annars vegar fyrir hinar norðlensku byggðir.