13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Jón Árnason:

Herra forseti. Þó að það sé ekki beint í sambandi við þetta mál, sem hér var verið að vekja athygli á, sé ég í sambandi við vinnubrögð í n. ástæðu til þess að taka til máls. Ég tel það fyrir neðan allar hellur, hvernig vinnubrögð eru í n. við að skila málum, sem komin eru til n., og það megi ekki eiga sér stað, að það séu söltuð mál og ekki skilað áliti um þau til þingsins. Vitanlega geta verið skiptar skoðanir um einstök mál. Alltaf er í þinginu andstaða við frv., sem flutt eru, en að það réttlæti það, að mál, sem flutt eru, séu söltuð ár eftir ár og ekki skilað áliti frá n., slíkt er ekki hægt að láta óátalið.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega víkja að frv., sem ég flutti um miðjan desembermánuð, ásamt hv. 6. þm. Sunnl. um breyt. á l. nr. 67 1971, um almannatryggingar. Þetta frv. var flutt mjög svipað að efni til á síðasta þingi og þá sjálfsagt sent til umsagnar, þannig að það hefði átt að ganga greiðara fyrir sig nú að afgreiða málið frá n. Samt sem áður bólar ekkert á, að málið fái afgreiðslu eða komi hingað til þingsins aftur. Ég tel þetta alveg óforsvaranleg vinnubrögð. Það geta, eins og ég sagði, verið skiptar skoðanir um málið, en ég tel, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, og við hv. 6. þm. Sunnl., leiðréttingu varðandi þátttöku hins opinbera í að greiða kostnað við lyf og annað þess háttar, sem kemur sérstaklega þungt niður á öldruðu fólki og fólki, sem á við langvarandi vanheilsu að stríða og er því háð mikilli lyfjanotkun. Ég vænti þess því, að hv. form. þessarar n. láti ekki undir höfuð leggjast að afgreiða nú málið sem fyrst, svo að Alþingi geti þá tekið afstöðu til málsins, hvort sem um er að ræða með eða móti.