13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Út af þessum ummælum í sambandi við vinnubrögð í n. vil ég leyfa mér að mótmæla þeim harðlega varðandi þá n., sem ég veiti forstöðu, þó að mér sé málið skylt.

Það er auðvitað enginn mælikvarði á það, þótt frv. hafi verið lagt fram í des. og síðan bætt við þeim mánuði frá miðjum des. og fram yfir 20, jan., sem þarna er um að ræða. Þar af leiðandi má nú segja, að þarna sé um tvo mánuði að ræða, en ekki þrjá, eins og ræðumaður sagði hér áðan.

Í öðru lagi var ég, form. n., fjarverandi í mánuð, og á meðan var enginn fundur haldinn í þessari n., enda mun þetta hafa verið eina málið, sem þar lá fyrir. En það, sem skiptir máli, er það, að þessi n. mun sennilega hafa hvað hreinastan skjöld allra n. í þinginu. (Gripið fram í: Nokkrar undantekningar þó.) Er það? Það er gott. Það er sem sagt búið að afgreiða frá henni öll mál nema þetta eina, sem var sent til umsagnar og ég hafði hreinlega sagt gleymt. Ég skal biðja hv. ræðumann afsökunar á því, að ég hafði gleymt þessu máli, vegna þess að ég hafði verið lengi fjarverandi. En það er ekki til marks um nein slæm vinnubrögð í n., því að n. hefur starfað á fullkomlega eðlilegan hátt og ekki verið neitt að hennar störfum umfram aðrar nefndir a.m.k. Ég vil þess vegna mótmæla þessu algjörlega, og taka það fram, að ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því, að þetta mál fái þinglega meðferð. En það er miklu meira en hægt er að segja um fjölmörg mál önnur, sem eru til meðferðar hér í þinginu.