13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

261. mál, dýralæknar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 460 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 31 5. maí 1970 um dýralækna, síðasta mgr. 9. gr. þeirra laga orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd eftirlits þessa og nauðsynlegar ráðstafanir til að stöðva sölu á mjólk, sem vegna sjúkdóma eða óþrifnaðar gæti talist varasöm fyrir heilbrigði neytenda.“

Þetta er efni frv., og ástæðan til þess, að það er flutt, er sú, að eitt af verkefnum dýralækna- er að fylgjast með framleiðslustöðum mjólkur og heilbrigði nautgripa. Mjólkin er vandmeðfarin matvara, eins og kunnugt er, og við framleiðslu hennar verður að gera hinar ströngustu kröfur um hreinlæti og heilbrigði gripa. Nauðsynlegt er, að dýralæknar hafi heimild að lögum til þess að stöðva sölu á mjólk frá þeim stöðum, sem fullnægja ekki kröfum laga og reglugerða um hreinlæti og heilbrigði. Heimild dýralækna til slíkra aðgerða hefur verið véfengd, og til þess að taka af öll tvímæli er þetta frv. flutt. Á ekki að orka tvímælis, að þetta er hlutverk dýralækna.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.