13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2724 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

262. mál, mat á sláturafurðum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 461, sem flutt er sem breyt. á l. nr. 61 19. maí 1971 og breyt. á eldri l. um mat og skoðun á sláturafurðum, er flutt vegna þess, að um s.l. áramót rann út frestur sá, sem ráðh. hafði heimild til að veita slátrun í ólöggiltum sláturhúsum. Þó að mikið hafi áunnist í endurbyggingu sláturhúsa, er fyrirsjáanlegt, að enn um sinn verður að leyfa slátrun í ólöggiltum húsum, þar sem slátrun verður framkvæmd á viðunandi hátt að maí yfirdýralæknis og héraðsdýralæknis. Ber því brýna nauðsyn til að framlengja heimild ráðh. til þess að leyfa slátrun í slíkum sláturhúsum.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, að samhljóða meðmæli yfirdýralæknis og viðkomandi héraðsdýralæknis þurfi að vera til grundvallar undanþáguleyfi til slátrunar. Ákvæði þetta er að þessu leyti aftur samhljóða 2. málsgr. 2. gr. l. nr. 30 frá 1966, en greininni var breytt með l. nr. 61 1971 á þann veg, að nægjanlegt var þá talið, að annaðhvort yfirdýralæknir eða héraðsdýralæknir mælti með slátrun í viðkomandi húsi, til þess að ráðh. gæti veitt slíkt sláturleyfi. Það þykir hins vegar henta, að það sé hvort tveggja héraðsdýralæknir og yfirdýralæknir, sem mæli með því, að þetta leyfi sé gefið.

Efni frv. er ekki annað, en það, sem ég hef hér greint. Ég vil því leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.