13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið rætt í sjútvn. og n. orðið sammála um að mæla með því óbreyttu.

Þegar lögin um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi voru afgreidd á Alþingi 19. des. s.l., urðu þau mistök, að ekki var tekið tillit til grunnlínupunkta, sem áður höfðu verið niður felldir. Það eru grunnlínupunktarnir Siglunes, Flatey og Lágey. Af þessari ástæðu voru þau fylgiskjöl. sem fylgdu frv., ekki í fullu samræmi við það, sem átti að vera. Það var alltaf ætlun fiskveiðilaganefndarinnar, að 12 sjómílna línan, sem getið er í 2, gr. fiskveiðilaganna, yrði sú sama og landhelgislínan var fyrir útfærsluna í 50 mílur. En eins og nú er háttað, er þetta þannig, að skapast hefur ósamræmi milli togveiðiheimilda íslenskra og breskra togara á tveimur svæðum suðaustur og suðvestur af Grímsey, þar sem íslenskir togarar njóta minni veiðiheimilda en þeir bresku. Til þess að leiðrétta þann misgáning, sem varð þarna við afgreiðslu fiskveiðilagafrv., er þetta frv. flutt, og sjútvn. hefur orðið sammála um að mæla með því óbreyttu.