13.03.1974
Efri deild: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

46. mál, jarðalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hér er, eins og frsm. meiri og minni hl. landbn. hafa drepið ítarlega á, um mikið og víðtækt mál að ræða. Frsm. hafa þegar rakið frv. svo ítarlega og þá sérstaklega frsm. meiri hl. n., en þar stend ég ásamt honum að nál., að ég hef í raun og veru litlu við það að bæta. Ég vil aðeins taka það fram, að þegar þetta mál kom til 1. umr., fagnaði ég megintilgangi þessa frv. Það má segja, að e.t.v. séu öll atriði þessa frv., nákvæmlega öll, ekki eftir mínu höfði. Ég benti þá t.d. á kaflann um óðalsjarðirnar sérstaklega, sem væri mér nokkur þyrnir í auga og er það reyndar enn, þótt ég sjái ekki ástæðu til þess að leggja til. að sá kafli verði niður felldur. Ég tel hann óþarfan engu að síður og sé ekki út af fyrir sig neina ástæðu til þess, að hann sé þarna. En á það virðist vera lögð býsna mikil áhersla, m.a. af þeim bændum, sem ég hef sent þetta frv. til umsagnar, og því vil ég ekki gera þetta atriði út af fyrir sig að neinu ágreiningsefni.

Ég vil taka það fram, eins og reyndar kemur fram í okkar nál., meiri hl., og eins kom fram hjá frsm., að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt. en þarna eru gerðar. Þar á ég sérstaklega við till. hv. þm. Ragnars Arnalds, sem ég lýsti yfir fylgi við við 1. umr. og vonast til, að hv. þd. taki til greina og samþykki.

Ég gerði við 1. umr. nokkrar aths. við skipan byggðaráðanna. Ég taldi, að sýslunefndirnar væru of veikar og jafnvel deyjandi einingar í okkar stjórnkerfi. En úr því að þær eru nú enn við lýði og sums staðar auk þess í fullu fjöri og starfa vel. þótt það sé mjög misjafnt eftir sýslufélögum, þá finn ég kannske ekki heppilegri aðila og eðlilegri til þess að tilnefna mann í þessi ráð. Ég held sem sagt, að það sé hæpið að veita landshlutasamtökunum þennan rétt, vegna þess hve þau ná yfir stórt svæði, og það væri þá aðeins spurning um hvert einstakt sveitarfélag og þá kannske sérstaklega í hverju einstöku máli, sem snerti það út af fyrir sig, að byggðaráðin kölluðu til fulltrúa frá þeim sérstaklega. En það væri mjög erfitt í framkvæmd og þungt. Því held ég, að þrátt fyrir það, að ég hafi ekki verið sérlega hrifinn af þessu, m.a. með tilliti til vissrar reynslu af minni eigin sýslunefnd, þá mun ég fella mig við það; að sýslunefnd tilnefni mann í þetta byggðaráð.

Hér hafa verið raktar margar umsagnir um þetta frv. Ég var að vísu fjarverandi meginafgreiðslu málsins í n. og kynnti mér þessar umsagnir aðeins lítillega. Það er rétt, eins og hér hefur komið fram, að þessar umsagnir hafa verið mjög misjafnar og um sumar vil ég segja, einkennilega misjafnar, sérstaklega hvað snertir umsagnir landshlutasamtakanna. Það er ekkert undarlegt við það, að skoðanir séu eitthvað skiptar, en mér finnst álit manna, sérstaklega í þessum stofnunum, fara hér undarlega á mis vegna þess að þarna hefði mátt vænta þess, að hagsmunir væru líkir og sjónarmið þá nokkuð svipuð vegna þess. Eins verð ég að segja það, að það hefur komið mér nokkuð á óvart eftir þá eindregnu afstöðu, sem Búnaðarþing tók í málinu, að einstök félagasamtök bænda, landeigenda og annarra slíkra jafnvel hafa verið að koma með sterk og mikil mótmæli gegn þessu frv. Þetta er ósamræmi, sem mér gengur nokkuð illa að koma heim og saman, vegna þess að ég hef alltaf skilið það svo, að bændur almennt væru þessu frv. mjög samþykkir og um það væri mjög lítill ágreiningur og sá ágreiningur hefði þá átt að koma fram t.d. mjög glögglega og skýrt á Búnaðarþingi, en það mun hann ekki hafa gert.

Það má kannske dæma það út frá þessu, að Búnaðarþing sem slíkt gefi kannske ekki alveg fullkomna mynd af skoðunum bændastéttarinnar í landinu, og það er þá líka kannske til athugunar og umhugsunar, hvort skipan Búnaðarþingsins, sem er, að mér skilst, með einum fulltrúa eða svo frá flestum búnaðarsamböndunum, sé kannske of þröng. Það kann vel að vera. En samt dettur mér einna helst í hug í sambandi við þetta, að hér sé verið á eftir að blása upp einhverja jafnvel ímyndaða andstöðu við þetta frv., því að svo sterk orð eru nú höfð um ýmis atriði þess af einstökum talsmönnum bænda, að ég eiginlega furða mig á því.

Hér hefur verið nokkuð rætt um það, hvað þetta frv. til jarðalaga fer inn á hlutverk Landnáms ríkisins, og ég verð auðvitað að játa það út af fyrir sig, að það kann að vera rétt, að það sé óheppilegt að tengja ekki slík frv. um hliðstæð efni nokkuð saman, því að nú er búið að leggja fram í Nd. frv. einmitt til l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám og hvað sem það nú heitir. Kann að vera, að það sé að sumu leyti erfiðara að átta sig á þessu, þegar frv. eru lögð svona fram sitt í hvorri d. og jafnvel ekki á sama tíma, og það er kannske rétt, að það mál ætti að athuga eitthvað með tilliti til þess frv., sem nú er komið fram einmitt í Nd. varðandi Landnám ríkisins. Það kann vel að vera. En ég sé nú ekki samt sem áður beina ástæðu til þess að óska sérstaklega eftir því hér, því að ég hef talið þá skipan mála, sem lögð er til í þessu frv. og snertir Landnám ríkisins, vera nokkuð sjálfsagða og eðlilega.

Ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég vildi aðeins undirstrika það hér, að ég stend með megintilgangi þessa frv. Ég hef kannske ekki fengið allar þær breytingar fram víð frv., sem ég hefði viljað fá, eða fengið þær nákvæmlega eins og ég vildi hafa, en ég tel, að þær breytingar, sem við í meiri hl. höfum gert við frv., séu allar til bóta og muni gefa frv., ef að lögum verður, aukið gildi.

Ég vil aðeins ljúka þessu með því að segja frá því, sem reyndar er eins og hver annar sjálfsagður hlutur, að ég hef sent þetta frv. viða til umsagnar greinargóðra bænda. Ég tek sem sagt fullt eins mikið mark á hinum óbreytta bónda hingað og þangað um landið eins og á sjálfum forustumönnunum. Allir þessir bændur sem ég sendi þetta frv. til, — og þeir voru margir, og hafa tjáð sig um það, hafa verið á einu máli. Þeir hafa allir verið á því máli, að þetta frv. ætti að ná fram að ganga og þyrfti að ná fram að ganga. Frá þeim hefur engin neikvæð rödd komið beinlínis gagnvart frv. sjálfu, þótt þeir hafi gert ýmsar aths. við sumt, sem betur mætti fara, og sumt, sem hefði verið lagfært.

Ég vildi aðeins bæta við, að það, sem ég vildi helst segja um höfuðnauðsyn og kosti þessa frv., kemur fram í umsögn bónda eins á Austurlandi, aldins bónda þar, sem hefur verið mjög ötull og duglegur bóndi og jafnframt allstífur á rétti bænda einnig. Ég vil leyfa mér að taka hér að lokum örstuttan kafla úr hans umsögn um jarðalögin, með leyfi hæstv. forseta:

„Það frv.“, þ.e.a.s, jarðalögin, „tel ég stórum mikilvægara og hef því undirstrikað 1. gr. þeirra sérstaklega. Takist að ná þeim tilgangi með ótvíræðri lagasetningu, er stórt og afdrifaríkt skref stigið til verndar tilveru og hagsæld búnaðar og landsbyggð. Það er lífsnauðsyn þjóðarinnar að útiloka peningavaldið og braskarana frá ítökum í landinu. Í öllum greinum er það höfuðbölvaldurinn, en hvergi þó eins háskalegur. Mér sýnist, ef þetta frv. nær lögfestu, að verulegar skorður séu við því reistar, ef þeir, sem á verðinum eiga að vaka, bregðist ekki.“

Þetta geta verið mín orð einnig.