13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

259. mál, skattkerfisbreyting

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 481. Þær eru ekki stórvægilegar að efni til.

1. brtt. er við 4. gr. frv. Þar er fyrst undir staflið a umorðun á upphafi 3. mgr. í rómverskum II. Þessi brtt. er fram borin til þess að taka af öll tvímæli, og er í samræmi við grg. frv. að taka af öll tvímæli um það, að skattafsláttur skv. þessu lagaákvæði teljist ekki til skattskyldra tekna. Hér er skotið inn í greinina eins og hún var: „Þetta fé telst ekki til skattskyldra tekna, skv. 7. gr.“ Þetta er um staflið a.

Um staflið b er það að segja, að hann er einnig fram borinn til þess að gera ákvæði frv. skýrari. Það er litið svo á, að það sé a.m.k. mjög erfitt að framkvæma þetta ákvæði eins og það er orðað í frv. En þarna eru tekin af öll tvímæli með því að segja, að „til jöfnunar á námskostnaði, sbr. l. nr. 69 1972, og til Lánasjóðs ísl. námsmanna eða annarrar fjárhagsaðstoðar ríkisins við námsmenn, þegar í hlut eiga menn, sem telja fram á skattárinu til frádráttar kostnað vegna náms síns.“

Þá er stafliður c. Þar er um hreina leiðréttingu að ræða. Þar átti að standa eins og hér er lagt til: „Sé fé enn óráðstafað að loknum greiðslum skv. 1.–3. hér að framan, skal það greitt viðkomandi manni.“ Í frv. stendur „hann“ í staðinn fyrir „það“. Þetta er þess vegna hrein leiðrétting.

Þá er 2. brtt. um það, að á eftir 6. gr. frv. komi ný gr., er verði 6. gr. og orðist svo: „4. málsl. 5. málsgr. 15. gr. nr. 7 1972, um breyt. á 41. gr. l. nr. 68 1971 orðist svo: „Ríkisskattanefnd skal annast útgáfu úrskurða sinna árlega.“ Í tilvitnuðum l. er gert ráð fyrir því, að ríkisskattstjóri sjái um útgáfu þessara úrskurða, en það þykir eðlilegra að hafa þennan háttinn á.

3. brtt. er 13. gr. umorðun á 6. mgr., en þar er raunar eingöngu um leiðréttingu að ræða. Þar sem í frv. stendur „gr.“, á að standa „mgr.“

Ég hef þá með örfáum orðum gert grein fyrir þessum brtt. og mun ekki að öðru leyti blanda mér í umr. að þessu sinni.