13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

259. mál, skattkerfisbreyting

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, hafði hér uppi allmikinn hávaða í málflutningi, þegar hann ræddi um þetta frv., og náði sér allhátt upp, þegar hann fór að tala um vöxt dýrtíðarinnar eða verðbólgunnar í tíð núv. ríkisstj. og taldi, að vöxtur verðbólgunnar einmitt nú upp á síðkastið sannaði best, að ríkisstj. væri ekki vaxin sínum vanda. En það var eins og með annan talnaleik hjá hv. 7. þm. Reykv. í þessu tilfelli, að það fær ekki mikið staðist af því, sem hann sagði, ef betur er að gáð. Ég hef nokkrum sinnum bent á það áður í umr., þegar rætt hefur verið um vöxt verðbólgunnar, hversu fráleitt það er, ef menn vilja í rauninni ræða um það mál í fullri alvöru, að taka mjög stuttan tíma og mæla þær verðhækkanir, sem verða á þessum mjög stutta tíma, og leggja síðan út af því, að það sé tákn um það, hver verðbólguvöxturinn í raun og veru er. Þeir, sem ætla að villa nm fyrir mönnum, geta auðvitað valið þessa leið, tekið t.d. verðhækkanir, sem verða eftir slíkar breytingar sem þær, sem nú hafa gengið yfir hjá okkur, geysilega miklar kauphækkanir jafnhliða erlendum verðhækkunum, og taka svo nógu stuttan tíma og leggja út af því, hvað verðhækkanirnar hafa orðið miklar. Nú geri ég mér grein fyrir því, að það er enginn tími til þess hér við þessa umr. að fara að ræða þetta mál ítarlega við hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason, en ég ætla aðeins að benda hér á einfaldar staðreyndir í þessu máli.

Það er í fyrsta lagi þetta, að á tímabilinu frá l.jan. 1968 var gerð hér ný skráning á okkar vísitölu og vísitalan sett 100, Fram til 1. nóv. árið 1970, þ.e.a.s. í tæp 3 ár, vantar 2 mánuði upp á 3 ár, — þetta var síðari hlutinn af stjórnartímabili viðreisnarstjórnarinnar, — óx verðbólgan í landinu — (Gripið fram í.) Jú, hún sat lengur við völd, en lét bara ekki skrá vísitöluna, hún bara festi verðlagið, hún hreyfði það ekki, og ég ætla einmitt að koma að því. En fram að þessum tíma, 1. nóv. 1970, þegar sett var á verðstöðvun, þá sem sagt liðu tæp 3 ár, og á þessu tímabili hækkaði framfærsluvísitalan um 18,6% að meðaltali á ári. Ég vil nú sérstaklega biðja hv. 7. þm. Reykv. að skrifa þessa tölu hjá sér. Hann þarf að læra hana. Um 18.6% á ári hækkaði framfærsluvísitalan á þessu tímabili. Sé hins vegar tímabilið tekið frá þessum mörkum, þ.e.a.s. frá því að verðstöðvunin var ákveðin 1. nóv. 1970, og fram að deginum í dag, kemur í ljós, að framfærsluvísitalan hefur á þessu tímabili hækkað á ársgrundvelli um 16.4%. Hún hefur á rúmlega 3 ára tímabili hækkað um minna að meðaltali á ári en hún gerði í tíð fyrrv. ríkisstj. nokkru áður en hún fór frá völdum. Það verður ekki hægt að flýja frá þessum tölum. Þær liggja opinberlega fyrir.

Ég veit, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vill vitanlega ekki ræða um málið á þessum grundvelli. Hann vill taka örfáa mánuði út úr og leggja út af því. En það, sem er meira um vert, er, að á þessu síðasta tímabili, sem verður að skrifast á reikning núv. ríkisstj., að því leyti til sem hún getur þar um ráðið og ríkisstjórnir geta borið ábyrgð á þróun verðlags, þá hafa orðið gífurlegar erlendar verðhækkanir. Það hefur verið áður vitnað í það í þessum umr., að í riti hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins er bent á það, að á s.l. ári, árið 1973, hafi meðaltalshækkun á innfluttum neysluvörum verið 26%. Það var engu slíku til að dreifa á fyrra tímabilinu. Þá hækkaði erlent verðlag ekki. Það voru hreinlega innlendar ráðstafanir, sem leiddu til þess, að dýrtíðin jókst jafnmikið á þessu tímabili og raun varð á. (Gripið fram í.) Það er rétt. Þar komu að sjálfsögðu kauphækkanirnar inn í líka eins og nú. En það komu ekki til gífurlegar erlendar verðhækkanir.

En eins og ég sagði, ég ætla ekki að eyða of löngum tíma í það nú að ræða við hv. þm. um verðbólguna nú og verðbólguna í tíð fyrrv. ríkisstj. Það er hægt að gera það kannske, þegar betri tími er til. En það mun koma í ljós, að í tíð núv. ríkisstj. hefur meginhlutinn af hækkandi verði hér innanlands stafað beinlínis af gengisbreytingum erlendis, sem við gátum ekki ráðið við á nokkurn hátt, og af erlendum verðhækkunum, sem áttu sér stað almennt séð. En þessar verðhækkanir eru þannig, að þær hafa auðvitað áhrif hér á verðmyndunina innanlands, ekki aðeins í formi þeirra vara, sem inn eru fluttar og reiknað er beint, heldur koma hér einnig til hækkanir, þar sem eitt leiðir af öðru í því kerfi, sem við búum við. Það liggur t.d. alveg ótvírætt fyrir, að allverulegur hluti af hækkuninni á verði innlendra landbúnaðarafurða stafar beinlínis af erlendum verðhækkunum, því að áburður hefur hækkað, af því að fóðurbætir hefur hækkað, af því að allar byggingarvörur hafa hækkað. Af þessum ástæðum stafar verulegur hluti af hækkun á landbúnaðarafurðum. Það er ekki hægt að segja, að þetta sé eingöngu af innlendum toga spunnið. M.ö.o.: það, sem hv. 7. þm. Reykv. var að segja í þessum efnum, var algerlega út í hött og hrynur um sjálft sig, ef komið er við það.

En svo ætla ég að víkja að því frv., sem hér liggur fyrir, og þá alveg sérstaklega að afstöðu stjórnarandstöðunnar til þessa frv. Þá verður fyrst að hafa það í huga, að þeir sjálfstæðismenn höfðu prédikað það um alllangan tíma, að stefna þeirra í skattamálum væri sú, að það ætti að lækka beinu skattana, en innheimta þess í stað óbeina skatta. Það væri lítill vandi að lesa hér upp úr Morgunblaðinu, úr hverjum leiðaranum á fætur öðrum alveg fram á síðasta ár, þar sem þessari stefnu var haldið fram og þar var ekkert dregið undan. í þessum leiðurum var beinlínis sagt: Í staðinn fyrir beinu skattana, í staðinn fyrir tekjuskattinn á að koma söluskattur. — En svo er það auðvitað hrunið niður eins og annað í röksemdafærslum þeirra sjálfstæðismanna. Þegar annað vakir fyrir þeim, þá á bara að lækka beinu skattana og ekkert á að koma í staðinn, — ekkert.

Þeir Alþfl: menn eru eilítið betri. Sérstaklega fengu þeir rösklegan kipp, þegar Glistrup náði sinni góðu útkomu í Danmörku. Þá fengu þeir kipp í skattamálum, fluttu till. um það hér á Alþ. að lækka tekjuskattinn verulega og að í staðinn fyrir þennan tekjuskatt ætti að koma söluskattur. Og form. Alþfl. hefur auðvitað haft mörg orð um það, hvað þetta væri réttlátt og nauðsynlegt. Og það má hann eiga, að hann heldur við það enn þá, hann kann ekki við að hlaupa algerlega frá því, að þetta sé réttlátt og nauðsynlegt. Það segir hann enn.

En svo gerist það, að ríkisstj. tekur undir þessa stefnu, m.a. vegna þess, að fulltrúar í verkalýðshreyfingunni töldu, að það væri orðið sér hagstætt að skipta á þennan hátt, og m.a. vegna þess, að það væri svo erfitt að gera tekjuskattinn réttlátan. Hinir almennu launamenn yrðu þar að greiða tekjuskatt svo að segja af hverri krónu, sem unnið væri fyrir. Þeir ættu ekki gott með að skjóta sér undan. En ýmsir aðrir í þjóðfélaginu, sem greiða tekjuskatt, hefðu aðstöðu til að skjóta sínum tekjum undan. Og m.a. vegna þessa lögðu þeir áherslu á, að það væri rétt að skipta hér um form. Og þá hélt maður, að það ætti ekki að standa á stjórnarandstöðunni að fallast á þetta, með tilliti til alls þess, sem á undan var gengið. En það var nú öðru nær. Þá kom annað hljóð í strokkinn. Þá gerðist það, jafnvel, þótt aðeins væru liðnir tveir mánuðir eða þar um bil síðan fulltrúar Sjálfstfl. höfðu haldið hér langar ræður og margar ræður á Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þar komu allir helstu sérfræðingar flokksins fram og töldu, að afgreiðsla fjárlaga væri í rauninni algerlega ábyrgðarlaus, eins og staðið væri að henni af hálfu ríkisstj., og hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, taldi, að í raun og veru væru þessi fjárlög, eins og þau ætti að afgreiða af hálfu ríkisstj., gersamlega botnlaus og í rauninni ekkert annað en pappírsgagn, vegna þess, eins og þeir höfðu stagast á, að það vantaði augljóslega tekjur til þess að standa á móti umsömdum útgjöldum. Frsm. af hálfu Sjálfstfl. við afgreiðslu fjárlaga flutti hér langt mál um marga útgjaldaliði, sem vantaði að taka inn á fjárlagafrv. Það skipti þó nokkuð yfir einn milljarð, og hann benti á það og sjálfstæðishersingin öll í einum kór, að það væri í rauninni ekkert að marka þessi fjárlög, þetta væri allt botnlaust. Raunverulega væri verið að afgreiða fjárlög með stórfelldum tekjuhalla.

Og sjálfur leiðtoginn, hv. 2. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, þegar hann var búinn að endurtaka allt þetta, sem hinir spekingarnir höfðu sagt, þá bætti hann við af vísdómi sínum á þessa leið, svo að ég lesi orðrétt upp úr ræðu hans. Hann sagði: „Í þriðja lagi skyldi maður ætla, að það væri markmið við stjórn efnahagsmála, eins og nú standa sakir, að ríkisbúskapurinn væri rekinn með myndarlegum greiðsluafgangi, og tekjur væru mun hærri en gjöld.“ Það var það, sem hann vildi. En sannleikurinn er samkv. þessu fjárlagafrv., að gjöld eru hærri en tekjur. Svo liðu aðeins tveir mánuðir eða svo, þá kemur öll heila hersingin hér fram og á ekki nógu mörg orð og stór yfir það, hvað út úr ríkiskassanum fljóti. Raunverulega sé enginn vandi að lækka tekjuskattinn um rúma 4 milljarða, án þess að nokkuð komi í staðinn, því að umframtekjur verði svo stórkostlegar á öllu. Er slíkt framsýni, — þetta var rétt fyrir jól, — að sjá það ekki, að tekjustofnarnir væru svona drjúgir? Nei, svona geta menn farið í gegnum sjálfa sig, þegar verið er að reyna að hylja það, sem þeir eru raunverulega að stefna að. Þetta er nákvæmlega það sama, sem gerist í þessu máli, eins og það, sem gerðist hjá fulltrúum Sjálfstfl. í sambandi við lækkunina á tollum til iðnaðarins, frv., sem horfið var frá að samþykkja hér fyrir jól. í fyrrv. ríkisstj. hafði Sjálfstfl. staðið að því og reyndar Alþfl. líka, að Ísland gengi í EFTA og skuldbindi sig þar til þess að lækka tiltekna tolla hér eftir ákveðinni áætlun, og því var hátíðlega lýst hér yfir, bæði í þskj., svo að það er ekki hægt að hlaupa frá því, og í mörgum ræðum, að um leið og tollalækkunin gengi yfir yrði söluskattur að hækka á móti.

Þegar fyrsti spretturinn var tekinn í tollalækkuninni, tóku þeir viðreisnarmenn 3 söluskattsstig í einu. Það kom auðvitað í ljós á eftir, að þeir höfðu tekið helmingi meira en þörf var á. En þó að þetta hafi verið yfirlýst stefna þeirra, að það ætti að lækka tollana og í staðinn ætti að koma söluskattur stig af stigi, þó að þetta lægi hér allt fyrir í þskj. og þeir væru búnir að gera samning við erlenda aðila um þetta, þegar svo átti að framkvæma þennan samning hér og lækka tollana samkv. honum og farið var fram á að hækka söluskatt á móti tekjulækkuninni, þá snerust þeir öndverðir gegn sinni fyrri kenningu, þá hlupu þeir frá henni eins og fyrri daginn.

Vegna hvers gerðu þeir þetta? Einfaldlega vegna þess, að þessir menn vilja gera allt, sem í þeirra valdi stendur, allt mögulegt, til að koma ríkisstj. frá. (Gripið fram í.) Allt. Það er ekkert „nema“, það er allt. En málið er nefnilega þannig vaxið, að þessi ábyrga stjórnarandstaða, sem segist vera, hún er svo ábyrg í öllum greinum, að þegar hún sér, að það dugi ekki, jafnvel þó að hún hafi fengið Bjarna Guðnason til að ganga á eftir sér í öllum málum, til að koma ríkisstj. frá, þá er leiðin orðin sú. Nú er um að gera að reyna að ná af ríkissjóði öllum tekjum og láta hann verða tekjulausan og vita, hvort er ekki hægt að svæla þá út á þann hátt. Þetta er tilgangurinn. Það skipti auðvitað engu máli um það, hvernig fer með ríkissjóð og hvernig fer með afkomu þjóðarinnar. Það skiptir engu máli, ef það væri hægt bara að koma ríkisstj. frá. Þetta heitir „ábyrg stjórnarandstaða“ og „samkvæmni í málflutningi“. Og það vantar auðvitað ekki á það, að þeir Alþfl.-menn feti þarna á eftir íhaldinu eins og fyrri daginn.

Í því nál., sem hér liggur fyrir og form. Alþfl. hefur skrifað um afstöðu sína og síns flokks til þessa máls, segir hann, margendurtekur, að það hafi verið mikið fagnaðarefni hjá þeim Alþfl: mönnum, þegar þeir sáu frv. Nú væri ríkisstj. að fallast á allar skoðanir Alþfl., lækka tekjuskatt, hækka söluskatt, taka upp endurgreiðslukerfi á sköttum, — allt eintómt fagnaðarefni. Og hann bætir því svo við, að á milli sín og ríkisstj. sé ekki um neinn ágreining að ræða í meðferð talna, hann fallist algerlega á þá talnalegu meðferð, sem fyrir liggi, En samt kemur upp ágreiningur við hann. Þá er það, sem hv. þm. reiknar með þessum eindæma hætti. Hann segir, að það verði að skipta hér á sléttu, króna fyrir krónu, jafnmargar krónur eigi að koma í ríkiskassann eftir söluskattshækkunina og ríkissjóður tapi með lækkun tekjuskattsins. Maður skyldi nú halda, að það ætti að geta tekist samstaða milli Alþfl. og ríkisstj., fyrst svona er. Það er ekki neinn ágreiningur um tölur. Og þetta er einmitt yfirlýst afstaða ríkisstj. Hún vill afgreiða þetta mál á þessum grundvelli, króna fyrir krónu, skipt á sléttu. En um hvaða misskilning er þá að ræða? Er það virkilega rétt, að við notum ekki sömu samlagningaraðferð eða ekki sömu margföldunaraðferð? Hvað er að?

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason segir: Það verður vitanlega að jafna hér saman einu ári í söluskatti og einu ári í tekjuskatti. — Og allt þetta dæmi, sem hann er að reikna út og setur upp, er fyrir árið 1974. Uppsetningin á hans dæmi nær ekki lengra, enda er verið að bjóða honum, að lögin skuli bara ná yfir árið 1974 og ekki meir. En þá virðist hv. þm. skjótast yfir það, að það sé eitthvað liðið af þessu ári. Það er eins og hann hafi ekki tekið það með í reikninginn, að janúar er liðinn og febrúar líka og komið þó nokkuð fram í marsmánuð. Ekki dettur honum í hug, að það sé hægt að innheimta söluskattinn fyrir janúar og febrúar, fyrir þetta liðna tímabil. Ég sé ekki, að það sé með nokkru móti hægt að hafa, hvernig sem kreist er, meira út úr þessu ári héðan af en 91/2 mánuð til áramóta eða þar um bil. En geti Alþfl. fengið út úr þessu 12 mánuði og það raunverulega, þá er sjálfsagt að skoða þá leið.

Hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, varð það á að segja í sinni ræðu, að það mætti segja, að hér yrði á jöfnuður, ef þessi skattlagning ætti bara að gilda fyrir þetta ár. Þá mætti segja, að það yrði á jöfnuður. Svo hefur verið upplýst, að það er búið að bjóða Alþfl. að láta lögin aðeins gilda fyrir þetta ár og þannig komi króna fyrir krónu og fullum jöfnuði verði náð. Hvernig stendur á því, að Alþfl. getur ekki fallist á þetta? Hvernig stendur á því? Af hverju segir hann nei við þessu? Er nú Sjálfstfl. að verða hræddur um Alþfl.? Ég veit, að það stóð hér einn hv. þm. Sjálfstfl. upp fyrir nokkrum dögum og sagði, að form. Alþfl. hefði bara verið að bjóða ríkisstj. samning upp á 31/2%, og hann sagðist hafa séð, að ríkisstj. hefði glaðst við þetta tilboð. Það var svo sem greinilegt, að sjálfur var hann orðinn dauðskelkaður, að það mundi líklega takast samkomulag. Og eins er það með þennan hv. þm., sem hér er að gripa fram í fyrir mér, að þegar hann heldur, að ég sé að verða búinn að sannfæra Alþfl., þá auðvitað ókyrrist hann í sætinu. En ég spyr: Hvernig stendur á því, að Alþfl. getur þá ekki samþ. till. um það, að þessi skattkerfisbreyting skuli að sinni gilda bara fyrir þetta ár, og þá verði skipt á sléttu? Af hverju segir hann nei við því? Getur það verið vegna þess, að hann stefni að sama marki og Sjálfstfl., — hann vilji allt til vinna, hvað sem er, bara til að fella ríkisstj., ef það væri hægt með því að ná tekjum af ríkissjóði, og það væri allt markmiðið? (Gripið fram í.) Já, það er hárrétt, það er eflaust rétt. Sjálfstæðismenn vita, hvernig þeir hugsa í Alþfl.

Það er enginn vafi á því, að þó að fallist sé á það í þessum líkindareikningi, að tekjurnar af hækkuðum söluskatti í desembermánuði eigi að tilheyra þessu ári, þá er augljóst mál, að það þarf a.m.k. 5 söluskattsstig til þess að ná jöfnuði í þessum útreikningi, sem Gylfi Þ. Gíslason fellst á, að eigi að leggja til grundvallar. Hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni verður auðvitað ekki kápan úr því klæðinu að halda því fram, að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafi látið blekkja sig. Ég get sagt honum það, að þeir menn úr forustu verkalýðshreyfingarinnar, sem höfðu fjallað um þetta mál í langan tíma, í nokkra mánuði, höfðu með sér góða kunnáttumenn í þessum efnum, og ég fullyrði, að þeir eru kunnugri þessum málum og miklu öruggari reikningsmenn en hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason. Það, sem gerðist í þessum efnum, var, að þeir fengu nákvæmlega sama út úr sínu dæmi og forstöðumaður hagrannsóknadeildar, Jón Sigurðsson. Og ég dreg í efa, að hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sé orðinn svo harður, að hann þori að segja það í ræðustól á Alþingi, að það, sem Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri reiknar út í þessum efnum, sé rangt. Ég held, að hann ætti heldur að viðurkenna, að það, sem hann er sjálfur að reyna að segja hér, sé rangt.

Það er algjörlega rangt, að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafi nokkuð látið snúa á sig í þessum samningum. Þeir vissu alveg, hvað þeir voru að gera, og þeir höfðu, eins og áður hefur verið sagt, fengið allar upplýsingar varðandi málið, sem þeir óskuðu eftir.

Það var býsna athyglisvert, að það, sem gerðist svo hjá hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, í röksemdafærslu hans í þessu máli, var, að hann sagði, að það bæri auðvitað að forðast að blanda saman skattkerfisbreytingunni, sem væri alveg sjálfstæð aðgerð og ætti að gerast upp út af fyrir sig, og fjárhagslegri afkomu ríkissjóðs. Það er eins og fyrri daginn. Við erum auðvitað alveg sammála um þetta, við í ríkisstj. og hv. 7. þm. Reykv. Það á að forðast þetta. Það á eingöngu að skipta þarna á sléttu varðandi kerfisbreytinguna. En hvað gerði svo hv. 7. þm. Reykv. í þessum efnum. Hann varð að fara inn á þá braut til þess að reyna að hleypa einhverjum rökum undir mál sitt um það, að verið væri að taka meira með þeirri tekjuöflunarleið, sem ráðgerð er, heldur en það, sem látið væri af hendi, þá fer hann þannig að, að hann fer að ræða um, hvað ýmsir tekjupóstar samkv. fjárl. muni fara mikið fram úr áætlun, að áætlaður tekjuskattur muni reynast meiri á árinu en gert hafi verið ráð fyrir við afgreiðslu fjárl. Þá ætlar hann að fara að taka það til að bæta hér ofan á sinn útreikning því, sem gæti orðið í umframtekjur samkv. áætlun fjárl. M.ö.o.: hann er hér farinn að blanda saman því, sem hann sagði, að mætti ekki blanda saman. Hv. þm. var auðvitað ekkert að minnast á það, að þó að ýmsir tekjuliðir samkv. fjárl. muni fara fram úr áætlun, eins og t.d. það, að söluskatturinn muni reynast hærri á árinu en ráð var fyrir gert við afgreiðslu fjárl. eða að tekjuskatturinn muni reynast hærri en gert var ráð fyrir, tekjurnar verði meiri, — hann var ekkert að minnast á það, að gjöldin yrðu líka meiri hjá ríkinu. Hann var ekki að hafa eftir upplýsingar, sem koma fram í nál. meiri hl. þar sem sagt er m.a., að nýjar upplýsingar um það, hvernig muni fara um tekjur ríkissjóðs á árinu til hækkunar og lækkunar, bendi til þess, reiknaðar út af þessari sömu stofnun, sem hefur reiknað út afkomuna á fjárl., miðað við núv. aðstæður, að útgjöldin muni hækka um 3655 millj., en tekjurnar aukast um 3088 millj., eða m.ö.o., að allt bendi til þess, að gjöldin fari meira fram úr áætlun en tekjurnar. Nei, hv. þm. þurfti auðvitað að hlaupa yfir þetta, af því að það passaði ekki í hans röksemdafærslu. Þó sagði hv. 7. þm. Reykv., að þessar upplýsingar frá ráðunautum ríkisstj. í þessum efnum bentu einmitt til þess, að málflutningur hans væri réttur, en ekki ríkisstj., vegna þess að tekjurnar á síðasta ári mundu hafa hækkað meira en ráðgert var við afgreiðslu fjárl., og því mundi tekjuskatturinn fara fram úr áætlun. Hann ætlaði auðvitað að hirða það og taka ekki neitt tillit til þess, þó að útgjöldin hækkuðu. Hann hljóp auðvitað alveg yfir það, að ef tekjurnar á árinu 1973 reynast allmiklu hærri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárl., þá þýðir líka tekjuskattstapið fyrir ríkissjóð mun meira en gert var ráð fyrir í því samkomulagi, sem gert var við verkalýðshreyfinguna. Tekjutapið með lækkuninni á tekjuskattinum, sem átti að þýða 2700 millj., var miðað við það, að tekjurnar 1973 hefðu ekki hækkað nema um 26%. Ef tekjurnar hafa hækkað um 30% eða 32%, er augljóst, að tiltekinn tekjuskattsstigi og tiltekinn persónufrádráttur þýðir það, að tekjutap ríkisins verður enn þá meira.

En það er í rauninni alveg óþarft að tala um það í þessum efnum, hvernig tölur kunna að hreyfast upp og niður vegna breytts verðlags. Það er ekki það, sem skiptir máli. Það eru engar verulegar líkur til þess, að tekjur ríkissjóðs komi til með að vaxa meira en útgjöldin, þó að verðlag breytist í landinu. Því er það, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, á vitanlega eingöngu að gerast upp á þeim grundvelli, að það sé verið að skipta á jöfnu, með því að lækka tekjuskattinn, eins og lagt er hér til. þurfi að koma söluskattstekjur jafnháar á móti.

Það er auðvitað öllum hv. þm. ljóst, að þeir útreikningar, sem hér liggja fyrir og eru gerðir af hagrannsóknadeildinni eru réttir. En hitt er svo allt annað mál, þessi sérkennilega pólitík hjá stjórnarandstöðunni að halda eftir því striki að reyna að vinna ríkisstj. ógagn eins og hún getur á öllum sviðum, reyna að hafa af henni tekjur, ef það er mögulegt. Það er allt annað mál, og það er rétt, að það komi fram, að hverju menn eru að stefna í þessum efnum.

Það hefur einnig verið sagt í sambandi við þessar umr., að ríkisstj. ætli með því að standa fast á þeirri söluskattshækkun, sem gert er ráð fyrir í frv., að setja Alþingi kosti og það sé ekki viðeigandi. En er þetta nú svona? Er ekki sannleikurinn sá, að hér er á Alþingi 31 þm., sem styður þetta frv.? Hins vegar eru líka á Alþingi 29 þm., sem vilja ekki fallast á frv., eins og það er. Þessir 29 þm., minni hluti á Alþingi, það er hann, sem segir: Ef ég fæ ekki allt mitt fram, skal ég fella allt saman, þá fær meiri hlutinn á Alþingi ekki að ráða. — Mönnum dugir það ekki eins og við venjulegar atkvgr. hér á þingi, að þeir beri fram sínar brtt., sýni þar með þá afstöðu, sem þeir hafa til málsins, sætti sig við það, að þær falli, ef þær hafa ekki meiri hl., og þær hafa í hvorugri deild meiri hl. Þá hefði vitanlega verið eðlilegt, að menn hefðu sætt sig við þessi úrslit, ef þeir vildu fallast á það, að meiri hl. ætti að ráða. En þá er það, sem það gerist, að menn segja, jafnvel þeir, sem hafa mikil lofsyrði uppi um meginefni frv., það stefni í rétta átt og sé mörgum til hagsbóta, þá er það sem þeir segja: Við sættum okkur ekki við þetta við venjulega atkvgr., þá skulum við heldur fella allt, ef þessir 31 beygja sig ekki fyrir 29, — þá skal heldur allt falla. — Það er þessi hótun, sem er uppi núna. Og það á vitanlega að reyna á þetta, það á að leyfa alþjóð að fá að sjá það og heyra, hversu ábyrg stjórnarandstaðan er, hversu miklir lýðræðissinnar það eru, sem halda uppi málflutningi af þessu tagi. Við því er vitanlega ekkert að segja, þó að menn noti þessa aðstöðu á Alþingi. Ef þeir telja sér það sæmandi, geta þeir vitanlega gert það. Þessi málflutningur gekk svo langt hér fyrir nokkrum dögum, að þá var um það að ræða að afla nokkurs fjár til þess að greiða niður óhóflegan olíukyndingarkostnað hjá fólki viða á landinu, sem verður að hita upp hús sín með olíu með stórhækkandi verðlagi. Þá hafði tekist hér nokkurt samstarf milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, en vegna þessa áróðurs, sem hér er hafður uppi í tíma og ótíma, gerðist það, að einn hv. þm. Sjálfstfl., að sjálfsögðu sá yngsti og minnst reyndi, skammaði sina flokksmenn og stjórnarandstöðuna fyrir linkind: Nú hefði átt að fella þetta mál og koma í veg fyrir niðurgreiðslu á olíu til þeirra, sem bjuggu við háa verðið, og það hefði vitanlega átt að sýna stjórninni það, að hún hefði hér ekki meirihlutaaðstöðu, og fella málið. Þetta hefði stjórnarandstaðan getað gert. — Það er sem sagt þessi hugsun, að nota allar leiðir bara til að reyna að fella ríkisstj., hvernig svo sem málið er. (Gripið fram í.) Já, þeir sem hafa siðferði af takmörkuðu magni, geta haldið slíku fram. Ég hefði svo sem haft gaman af því að sjá framan í hv. 4. þm. Austf., þegar hann hefði greitt atkv. gegn því, að ráðstafanir væru gerðar til þess að greiða niður olíu hjá þeim, sem verða að hita upp hús sin með rándýrri olíu. (Gripið fram í: Það stóð aldrei til.) Það stóð aldrei til. En það var einn af flokksmönnum þínum, sem var að brýna ykkur á því, að þetta hefði átt að gera. (Gripið fram í.) Ég segi það, að þessi hv. þm. Austf., sem hér talar, hefði auðvitað aldrei þorað að gera þetta, aldrei, því að hann veit, að hann hefði verið flengdur, þegar hann kæmi í sitt kjördæmi. (Gripið fram í: Og er þó kjarkmaður.) Já, og er þó kjarkamaður, það má bæta því við: er þó kjarkmaður. En ég bendi aðeins á þetta, að þessi vinnubrögð Alþfl. og Sjálfstfl. leiða auðvitað í þessar ógöngur, fullkomið ábyrgðarleysi, og engu skeytt um það, sem menn hafa sagt áður, sem liggur fyrir skrifað áður um afstöðu þeirra. Það er hlaupið frá því öllu saman. Þó að þeir haldi því fram við hátíðleg tækifæri, að á tímum eins og þeim, sem við lifum á nú, væri ástæða til þess að hafa nokkurn tekjuafgang hjá ríkissjóði, þá skirrast þeir ekki við að leggja það til og reyna að berjast fyrir því að ganga þannig frá fjármálum ríkissjóðs, að hann verði rekinn með verulegum halla á árinu.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði hér um það í ræðu sinni, að það væri nokkur slagsíða á ríkisstj. Ég verð að segja það, að mikil finnst mér slagsíðan á hans röksemdum eins og þær hafa verið í þessu máli. Ég held, að hv. þm. verði að gæta að því, að hann er enn þá í býsna merkilegu starfi, á að kenna mönnum eitthvað í útreikningi og eitthvað í meðferð talna, og hann getur ekki leyft sér hvaða endileysu sem er, en eins og ég hef sýnt hér fram á, gerði hv. þm. það hér í málflutningi sínum. Það, sem hann sagði hér, var augljóslega rangt, og hann verður að finna eitthvað annað til en það, sem hann hefur látið hér í veðri vaka, að hann ætlaði að vera á móti þessu máli, vegna þess að hér væri ekki skipt á sléttu. Hér er óumdeilanlega verið að bjóða upp á það að skipta á sléttu, og hann hefur viðurkennt sjálfur, að það standi til boða að skipta á sléttu. Það hefur hann viðurkennt sjálfur, og þá stendur auðvitað hitt eftir, að hv. þm. er að leita hér að allt öðru en því að gera samkomulag um þetta mál, koma þessu máli fram, sem hann taldi sér til góða að hafa boðað hér á undan öðrum, þ.e.a.s. að taka upp þá skattkerfisbreytingu, sem er hér um að ræða.

Það er svo einnig mál út af fyrir sig, að hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, vill skilja frá meginmálinu þá fjáröflun, sem vitanlega þarf að fylgja í sambandi við tekjuskattslækkunina, að ríkið verður að gera gagnráðstafanir til að koma í veg fyrir það, að þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu tapi á skattkerfisbreytingunni. Það er ómögulegt að komast fram hjá því, að ríkið verður að greiða út allverulegar fjárhæðir og varla undir þeim 550 millj., sem gert er ráð fyrir í grg. frv., að gangi til þess að bæta þeim tekjulægstu upp þessa skattkerfisbreytingu. En hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sleppir þessari upphæð og talar eingöngu um tekjuskattslækkun upp á 2700 millj., en ekki 2700 millj. plús 550 millj., sem er óaðskiljanlegur hluti í þessum efnum og verður að fylgja hér með. Það er einn hluti af breytingunni að bæta þeim upp, sem ekki hafa borgað tekjuskatt, og ómögulegt að víkja sér undan því. Ég hef tekið eftir því, að hv. 7. þm. Reykv., og reyndar þm. Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hafa ekki sagt enn þá, að þeir ætli sér að greiða atkv. á móti frv. og fella allt frv. Þeir ætla ekki að styðja það. Það þarf enginn að biðja þá um að styðja þetta, það eru hér nægilega margir þm., sem styðja þetta frv., þannig að það nær fram að ganga, ef þeir beita ekki þessum sérstöku brögðum að láta 29 þm. koma í veg fyrir það, að 31 þm. fái að ráða á Alþingi, ef þeir ætla ekki að verða þær lýðræðiskempur, sem lengi munu verða í minnum hafðar. Það verður gaman, þegar upp rennur sú stund, að atkvgr. um þetta mál fer fram.