13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

259. mál, skattkerfisbreyting

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti: Það munu hafa verið fleiri en ég, sem biðu þess með mikilli eftirvæntingu, að það frv., sem nú er til umr., sæi dagsins ljós.

Það eru einkum 3 atriði, sem mig langar til að ræða lítillega í sambandi við þetta mál: Það er í fyrsta lagi aðferðin við framlagningu þess. Í öðru lagi það atriði, að í þetta frv. skortir ákvæði, sem margir höfðu búist við, að þar væri að finna varðandi skattamál hjóna. Í þriðja lagi, að í frv. vantar ákvæði, sem margir höfðu einnig búist við eftir yfirlýsingum ráðherra um einföldun og nokkurt samspil milli skatta og tryggingakerfisins. Auk þess langar mig til að víkja lítillega að launaskattinum.

Ef ég vík fyrst að aðferðinni við framlagningu málsins, hlýtur það að vekja nokkurn ugg, að ekki sé meira sagt, að sú hugsun virðist eiga meira fylgi að fagna innan ríkisstj., að það sé engin sérstök ástæða til að vera að hafa áhyggjur af þessu Alþ. né hvað þar kunni að verða sagt eða gert. Hæstv. ráðh. segja frá því með hinni mestu rósemi, löngu áður en frv. til skattalaga er lagt fram á Alþ. eða nokkur alþm., svo að vitað sé, fær að sjá efni þessa frv., að uppkast að þessu frv. sé til athugunar hjá félagasamtökum úti í bæ. Hversu góðra gjalda verð sem þau samtök eru, þá er það fullkomin vanvirða við Alþ. að hunsa þingræðisreglur, að haga svo málum eins og þarna var raun á og þar á ofan að tilkynna Alþ., án þess að láta sér bregða, að frv. til nýrra skattalaga sé til athugunar hjá samninganefnd vinnumarkaðarins úti í bæ. Það má satt vera, sem hæstv. ráðh. sögðu hér þá, að vitanlega væri hagræði að því að vita, hver afstaða aðila vinnumarkaðarins yrði til slíks máls. En það breytir í engu því, að það er algert virðingarleysi við Alþ. að sýna alþm.a.m.k. ekki það mál. sem til athugunar var, og taka eins við þeirra till. og annarra.

Þegar málið hafði verið athugað hjá þessum samtökum utan þings, heyrðist það í útvarpi frá hinum ágæta hæstv. félmrh., að hann léti sér ekki til hugar koma, að það yrði fellt á Alþ., sem aðilar vinnumarkaðarins hefðu komið sér saman um. Slíkt hefði aldrei komið fyrir og það mundi vitanlega ekki koma fyrir nú.

En það er eins og þessi hæstv. ríkisstj. hafi ekki látið sér detta í hug, að þegar fjallað hefur verið um mál, löggjafarefni, utan þings, þá hafi einnig á sama tíma verið fjallað um þau innan þings, þm. sjálfir hafi lagt á ráðin, — jafnvel þó að málið hafi ekki verið lagt formlega fram, þá hafi menn a.m.k. getað athugað það sem trúnaðarmál, og ég sé ekki, að það sé minni ástæða til að sýna alþm. trúnað, heldur en mönnum á öðrum þingum.

En það er því miður ekki þetta eina mál, sem bendir til þess, að afstaða hæstv. ríkisstj. til almennra þingræðisreglna sé mjög háskaleg, ef ég má orða það svo. Það hefur áður verið rætt, og ég hef leyft mér að benda á það áður í umr. hér í vetur, hve það hefur færst í aukana, að ólíkum málum sé blandað saman í frv. til þess eins að koma einhverjum ákveðnum lagabreytingum í gegnum þingið á einhvern fljótlegri hátt en eðlilegt er. Ég mun ekki fara sérstaklega út í þau atriði núna, en eins og til að kóróna þessa afstöðu ríkisstj. virðist mér vera afskaplega athyglisverður leiðari, sem lesa mátti í dagblaðinu Tímanum í gær. Ég verð að segja það sessunaut mínum, hv. 4. þm. Reykv., til hróss, að þessi leiðari er dálítið skemmtilegur að mínu viti og vel skrifaður, og það má ráða hann á ýmsa vegu. Ég leyfi mér að lesa örfáar klausur úr þessum leiðara og vona, að mér verði ekki lagt það þannig út, að meining brenglist, þó að setningar séu svo teknar úr samhengi, því að sem betur fer er þessi leiðari þannig skrifaður, að samhengið helst allan tímann. Til þess eins að sýna hv. þm., hvað ég á við með því, að þarna taki út yfir í afstöðu ríkisstj., og ég hlýt að líta svo á, að afstaða ríkisstj. eða a.m.k. nokkurs hluta hennar birtist í þessum leiðara, þá hljóða nokkrar setningar úr honum svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan hefur sýnt, að minnihlutastjórnir hafa oft gefið skárri raun en reiknað hafði verið með. Sambræðslustjórnir, sem stuðst hafa við ólíka flokka, hafa oft ekki þótt gefa neitt betri raun, en galli á þeim þótt vera sá, að þá hefur stjórnmálamakk meira farið fram að tjaldabaki .“

Nú vil ég leyfa mér að skjóta hér inn, að það þarf engan veginn að vera um meirihlutastjórn að ræða, til þess að það séu ólík öfl að verki innan stjórnarinnar og nauðsynlegt sé, að ýmiss konar stjórnmálamakk fari fram að tjaldabaki.

Við búum við ríkisstj., sem er ekki alveg sýnt, hvern meiri hl. hefur, en hún er haldin öllum göllum sambræðslustjórnar sem meirihlutastjórn væri. Og hún hefur líka ýmsa galla minnihlutastjórnar, vegna þess að hún getur ekki komið fram mikilvægum málum, sem hún ætlar sér á þinginu.

Ég vil svo aftur vitna til þessa ágæta leiðara. Mér finnst of mikið að lesa heilan leiðara úr Tímanum hér í þingræðu. (Gripið fram í.) Hann er mjög vel skrifaður, prýðilega, og svo segir í leiðaranum:

„Það er hins vegar ljóst, að verði minnihlutastjórnir meira og minna algengar í þingræðislöndunum, hlýtur það að hafa ýmsar verulegar breytingar í för með sér. Hin stærri ágreiningsmál þokast þá meira til hliðar og verða að bíða. Flokkur eða flokkar minnihlutastjórnarinnar verða þá að sætta sig við, þó að þeir geti ekki komið ýmsum stefnumálum sínum fram.“ — Það þurfa kannske fleiri að sætta sig við það. — Þessum kafla lýkur með þessum orðum: „Stjórnarandstaðan verður jafnframt að sýna aukna ábyrgð og tillitssemi.“ Þetta var úr Tímanum: „Stjórnarandstaðan verður að sýna aukna ábyrgð og tillitssemi.“

Og síðasta klausan, sem mig langar til að lesa úr þessum leiðara, hljóðar svo: „Þær raddir heyrast nokkuð, að minnihlutastjórnirnar, sem nú fara með völd í nágrannalöndum okkar, séu merki um minnkandi stjórnmálaþroska og óheillavænlega stjórnmálaþróun. Svo þarf þó ekki að vera. Þær geta hins vegar verið merki um nýja tíma og breyttan hugsunarhátt, þannig að kjósendur láti ekki binda sig í tvær eða þrjár fylkingar, heldur ætli sér svigrúm og vilji vera sem mest óbundnir. Menn verða að forðast að hugsa þannig, að allt þurfi að falla í sömu farvegi og skapa þörf um tiltekið árabil, annars sé allt í voða. En breytingarnar mega ekki hafa það í för með sér, að ábyrgðartilfinningin minnki. Einkum gildir þetta um stjórnarandstöðuna.“

Það eru ýmsar setningar í þessu, sem eru ákaflega torskildar, og ég ætla mér ekki þá dul að ráða, hvað í þeim felst. En það fer þó ekki milli mála, hvað átt er við, þegar ritstjórinn segir: „Breytingarnar mega ekki hafa það í för með sér, að ábyrgðartilfinningin minnki.“ Vitanlega tökum við öll undir það. En þó finnst mér dálitið athyglisvert, að einkum gildir þetta um stjórnarandstöðuna. Mér finnst þessi setning, skoðuð í ljósi þess, sem á undan er ritað í þessari ritstjórnargrein, — hljóma eins og einhvers konar neyðaróp, einhvers konar hróp um hjálp.

Ef þess verður vart innan einnar ríkisstj., að það sé skortur á ábyrgð eða tillitssemi manna þar hvers til annars, þá er ósköp eðlilegt, að innan þeirrar ríkisstj. sé hrópað á hjálp og tillitssemi og ábyrgð frá stjórnarandstöðunni. En spurningin er: Er þetta ekki alveg nýr skilningur á þingræði? — Svo virðist mér. Ég get ekki séð, að það sé þingræðisleg stjórn, sem verður að byggja á því, að stjórnarandstaðan sérstaklega sýni hinni veiku stjórn tillitssemi.

Það kann að vera, og það dettur manni í hug, þegar hv. 4. þm. Reykv. ritar hér um minnihlutastjórnir í öðrum Evrópulöndum, að þannig sé í sumum þeirra. En þá stendur þannig á, að um það er samið, annaðhvort við stjórnarandstöðuna eða einstaka flokka utan ríkisstj. Ef við lítum til Svíþjóðar, sem hæstv. ríkisstj. er nú gjarnt að gera, sjáum við, að ríkisstj. þar semur við einn stjórnmálaflokk utan stjórnar um það, að ríkisstj. skuli varin falli, og jafnvel við stjórnarandstöðuna í einhverjum mikilvægum málum. En ég held, að það sé alveg nýr skilningur á þingræðinu, að minnihlutastjórn geti átt nokkurn minnsta rétt á því að sitja í valdastólum, ef um samning við aðra flokka er ekki að ræða um það að verja ríkisstj. falli. Slíkt er þá a.m.k. algert bráðabirgðaástand, sem öllum er ljóst, að hlýtur að ljúka mjög fljótlega með nýjum kosningum, eins og t.d. í Bretlandi, þannig að ég get ómögulega séð, að þessi líking við minnihlutastjórnir í öðrum löndum geti átt við, jafnvel þótt hæstv. núv. ríkisstj. uppgötvi það eftir 1 eða 2 daga, að hún sé, eins og hún er skipuð minnihlutastjórn.

Annars vil ég ekki fara hér frekar út í aðrar meiningar, sem e.t.v. mætti leggja í þennan snilldarlega skrifaða leiðara, en vildi sérstaklega vekja athygli á því, að mér finnst mjög varhugaverðar þessar hugleiðingar, sem benda til þess, að mönnum finnist ekki skipta máli, að þingræðið sé í heiðri haft, og það því heldur þegar við búum í landi, sem hefur eitt elsta þing veraldar og hefur talið þingræðið helstu prýði á stjórnarfari sínu frá upphafi.

Ef ég vík að öðru atriði, sem mér fannst ástæða til að benda sérstaklega á í sambandi við þetta frv., þá vil ég minna á það, að við umr. um tekjuskattsfrv. á þinginu 1971 var talsvert rætt um skattamál hjóna, ýmsar reglur um sérsköttun hjóna. Þær voru ekki að öllu leyti eins og þær till., sem um þetta efni komu fram. En í tilefni af þeim till., sem hér voru ræddar, gaf hæstv. fjmrh. yfirlýsingu, sem ég vil leyfa mér að minna á. Hinn 9. mars á því þingi, 9. mars 1972, sagði hæstv. fjmrh. m.a.:

„Við framhaldsathugun og vinnu við tekjuskattsfrv. eða tekjuskattslögin verður unnið að því að kanna um sérsköttun hjóna, athuga það mál alveg niður í kjölinn. Ég hafði óskað eftir því, þegar n. var að vinna að þessum málum í haust, að koma því inn í frv., en ekki var talið, að það væri hægt, of skammur tími væri til þess, að það væri hægt að koma því að, svo að fullunnið væri. Þess vegna“ — og ég vil biðja hv. þm. að taka vel eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði: „Þess vegna skal það vera tryggt af minni hendi, að þetta mál fái fullkomna athugun og afgreiðslu við framhaldsvinnu að tekjuskattslögunum.“

Það var því að vonum, að margir byggjust við því, að nú kæmu nýjar reglur um þetta efni, þegar boðuð var skattkerfisbreyting.

Þessar yfirlýsingar sínar ítrekaði svo hæstv. fjmrh, síðar í umr. um þetta sama frv. og sagði þá, að hann hefði lýst því yfir orðrétt, að við þá endurskoðun, þ.e.a.s. framhaldsathugun skattalaganna, verði stefnt að því, að þeir, sem tekna afla, og einnig þeir, sem skattskyldar eignir eigi, verði gerðir að sjálfstæðum skattþegnum án tillits til hjúskaparstéttar.

Það hefur oft verið á það bent, að það orkaði tvímælis réttlætið í þeim reglum, sem við búum nú við um skattlagningu hjóna. Það er að vísu svo, að hjón geta, ef þau telja sér það hagfelldara, óskað eftir því að verða skattlögð sitt í hvoru lagi. En langoftast mun raunin vera sú, að hjónum sé það hagfelldara, að 50% af tekjum eiginkonu séu dregnar frá, áður en skattur er á þær lagður, og þá að það, sem eftir er af hennar tekjum, leggist við tekjur bóndans og þau síðan skattlögð sameiginlega. Það vefst oft fyrir þeim konum, sem missa eiginmenn sina, af hverju þær búi eftir það við enn þá óhagstæðari skattlagningu, þessi frádráttur falli niður. Þær segja sem svo: „Af hverju mátti ég, meðan bóndi minn var á lífi, draga 50% frá tekjum mínum, áður en þær voru skattlagðar, en ekki lengur? Nú þarf ég miklu meira á því að halda,“ segir konan, sem þannig stendur á fyrir. Þetta hefur talsvert til síns máls, og þess vegna er það, að mönnum hefur þótt, að þarna hefðu þurft að koma reglur, sem skapa meira jafnrétti milli hinna ýmsu þegna, heldur en þær, sem við nú búum við. Og af öllum þeim reglum, sem athugaðar hafa verið, sem ég veit til, að athugaðar hafi verið í þessu sambandi, þykja mér vera réttlátastar þær, sem lagðar eru fram í tillöguformi núna í brtt. sjálfstæðismanna við þetta frv. Það er sú aðferð, sem kemst næst því að leggja að líku starf húsfreyju, sem vinnur á heimili, og starf hinnar, sem vinnur utan heimilis. Og það er líka þessi regla, sem kemst næst því að leggja það að líku, hvort hjónanna það er, sem innir heimilisstörfin af hendi, og hvort hjónanna það er, sem aflar teknanna utan heimilisins eða innan.

Ég vil gjarnan, ef hæstv. ráðh. hefur einhverjar upplýsingar um það, hvernig á þessu stendur, að þessu máli er ekki á neinn hátt hreyft í frv., að hann skýri þá þingheimi frá því. Það eru ýmsir, sem um þetta hafa spurt og fyllsta ástæða til, að hæstv. ráðh. sé minntur á það loforð, vil ég segja, sem hann gaf um það, að þessi mál hlytu nákvæma athugun ofan í kjölinn.

Þá er þriðja atriðið, sem ég vildi aðeins nefna í sambandi við frv., sem við erum að ræða, og það er það, sem hæstv. ráðh. nefndi í framsögu sinni, að með þessu frv. væri aðeins farið inn á þá braut að einfalda og sameina skatta- og tryggingakerfi. Þetta held ég, að sé alger misskilningur. Ég held, að það sé rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér í umr., að það er ekki verið að einfalda hlutina með þessu frv., það er verið að gera þá flóknari. Einfaldasta leiðin til þess að sameina skatta- og tryggingakerfi er í gegnum fjölskyldubæturnar. Vitanlega hefði þá þurft að liggja fyrir samtímis frv. til l. um breyt. á tryggingal., en þetta hefur oft verið boðað í svo mörgum ræðum ráðh., að ég hefði talið fyllstu ástæðu til þess að vænta, að inn á slíka braut væri farið í þessu frv. Með slíkri aðgerð, með því að afnema fjölskyldubæturnar í því formi, sem þær nú eru, og láta þær fremur verka í gegnum skattkerfið, — í slíkri aðferð fælist stórfelldur sparnaður fyrir hið opinbera og mikil einföldun. Á þann hátt kæmu fjölskyldubætur mest til góða þeim, sem tekjulágir væru og þyrftu mest á þessum greiðslum að halda, sem í raun og veru er varla hægt að kalla tryggingabætur í venjulegum skilningi, þó að ákvæði um þær séu nú í tryggingalögum. E.t.v. er slíkra breyt. að vænta einhvern tíma síðar, ef þessari hæstv. ríkisstj. verður lengri lífdaga auðið, en einhvern veginn finnst mér það ekki trúlegt, fyrst hér er á borð borin heil skattkerfisbreyting og ekki minnst á þetta atriði.

Fjórða atriðið, sem mig langaði til að leggja sérstaka áherslu á, er nauðsyn þess, að úr þessu frv. hverfi nokkur hluti af launaskattinum, sem gert er ráð fyrir, að áfram standi. Mér finnst það einhvern veginn afskaplega öfugmælakennt, að skattur, sem lagður er á til þess að stöðva verðlag í landinu, skuli enn þá vera til, þegar verðlag heldur með meiri hraða upp á við en við þekkjum nokkur dæmi til. En 11/2% launaskatturinn, verðstöðvunarlaunaskatturinn, sem síðan var lætt inn í tryggingalögin á sínum tíma, eins og menn muna, er þarna enn á ferðinni. Menn ætlast til, að hann haldi sér og íþyngi atvinnuvegum okkar áfram á þessum miklu verðbólgutímum.

Ég vona, að enginn lái mér, þó að ég minnist hér á verðbólgutíma eftir þá klukkutíma ræðu, sem hæstv. viðskrh. hélt í dag, þegar hann reyndi að afsanna fyrir okkur, að hér væri nokkur verðbólga. Hann gat þess, að í ritinu góða, Þjóðarbúskapnum, stæði, að smásöluverð á innfluttum neysluvörum hefði hækkað um 26% í krónum, en hann gat þess ekki, sem skiptir nú kannske dálitlu máli í því sambandi, hve stór hluti af öllum innfluttu vörunum þessar neysluvörur eru, og þá hve þungt þær vega í heildardæminu. Það stendur á næstu síðu í þessu sama riti, hinum megin á opnunni, að af 28% heildarverðhækkun vöru, þjónustu og húsnæðis á árinu 1973, olli erlend verðhækkun á innfluttum neysluvörum beint um 4%. Það er allt og sumt, sem erlenda verðhækkunin á innfluttum neysluvörum olli beint í heildarverðhækkuninni. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég les lengra. Þetta er sjöundi parturinn af allri verðhækkuninni. Svo les ég lengra. En hækkun landbúnaðarafurða og annarra innlendra neysluvara stafar einnig að talsverðu leyti af verðhækkunum erlendra aðfanga, auk þess sem innflutningsverðhækkunin veldur hækkun kaupgreiðsluvísitölu, sem aftur leiðir til frekari verðhækkana. Það er öllum ljóst, að verðhækkun á innfluttum vörum hlýtur að verka inn í fleira en þessi 4%, sem hún verkar beint. Það er alveg ljóst. En ef ég les enn þá lengra, stendur í þessu riti, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er þannig ljóst, að innflutningsverðhækkanir eiga drjúgan þátt í hinni öru verðbólgu að undanförnu, en að meiri hluta eiga verðhækkanirnar sér þó innlendar orsakir.“

Ég sé ekki, að það sé með nokkru móti hægt að komast fram hjá því, að það eru innlendu orsakirnar, sem eru langþyngstar á metunum, hvað sem líður allri hinni gífurlegu hækkun á ýmsum innfluttum vörum. Hvað sem henni líður, eru innlendu orsakirnar miklu þyngri á metunum. Þetta fannst mér ástæða til að lesa hér einu sinni enn, svo ákveðin fannst mér hæstv. viðskrh. í því að reyna að afsanna, að innlendar ástæður væru nokkrar fyrir hendi í sambandi við þessa verðbólgu, sem við eigum við að etja. Það var sérstaklega með þetta í huga, sem mér fannst það vera heldur andstætt að hugsa til þess, að skattlagning vegna verðstöðvunar stæði enn þá inni í íslenskum lögum þegar við erum óralangt frá öllum stöðugleika verðlags.