13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., því þótt sitthvað hafi komið fram, sem ástæða væri til að gera aths. við, mun ég láta flest það liggja á milli hluta, enda samkomulag um að hafa ekki langar umr. hér. Flokkarnir hafa komið sér saman um vissa tilhögun á afgreiðslu málsins, sem þýðir það, að menn geta ekki leyft sér löng ræðuhöld, og þar sem hv. stjórnarandstæðingar gæta ekki síður þess samkomulags en við í stjórnaraðstöðunni, þá skal ég ekki taka mjög langan tíma að þessu sinni.

Ég held, að ég láti það liggja á milli hluta að ræða um þá forustugrein, sem ég skrifaði fyrir nokkrum dögum í Tímann og snertir ekki beint þetta mál, en hv. sessunautur minn, 12, þm. Reykv., hefur gert hér að allskemmtilegu umtalsefni. Ég held, að það sé betra, að við ræðum um það við annað tækifæri.

Það, sem hefur verið eitt helsta deiluefnið í þessum umr. og kemur til með að verða, er það, hvað tekjuskattslækkunin verði raunverulega mikil, — sú lækkun, sem er í frv. Hvað er það mikið, sem tekjuskattsgreiðendur koma til með að fá út úr þessu? Um þetta hafa verið fluttir hér mjög mismunandi útreikningar, og það liggur í því, að menn velja sér mismunandi forsendur. Það er hægt að taka þetta þannig, að taka það, sem kallað er álagður skattur, það, sem raunverulega er lagt á launþega, eða innheimtur skattur á viðkomandi ári, en það er að sjálfsögðu ekki á sama árinu innheimt allt, sem á er lagt, og það er hægt að taka fleiri tölur, sem þannig eru til komnar. En til þess að fá réttan samanburð verðum við að fylgja einhverri einni ákveðinni reglu í báðum tilfellunum, bæði þegar við berum saman núgildandi skatta og skattkerfisbreytinguna. Það er t.d. skrýtið, að hv. stjórnarandstæðingar hafa fengið mjög mismunandi tölur í þessum efnum. Hv. talsmaður Alþfl. hefur fengið það út úr þessu, að tekjuskattslækkunin mundi nema 2.7 milljörðum. Talsmenn Sjálfstæðisfl. hafa hins vegar fengið það út úr þessu, að tekjuskattslækkunin mundi ekki nema nema 1.7 milljarði kr. Þarna ber ekki minna á milli en um einum milljarð. Og það liggur í því, að þeir leggja fram mjög mismunandi forsendur. Ég held, að það rétta í þessu sé að athuga, hvað álagður tekjuskattur er hár í báðum tilfellunum, því að það er það, sem skattgreiðendur verða raunverulega að borga, hvort sem það er innheimt á þessu ári eða eitthvað af því verður innheimt á næsta ári. Og ég held, að í þessum efnum sé skynsamlegast, að stjórnmálamennirnir reikni þetta ekki sjálfir, heldur leggi þær tölur til grundvallar, sem sérfræðingar hafa lagt fyrir okkur og hafa áreiðanlega reiknað það af hinni mestu samviskusemi.

Samkv. nýjustu útreikningum, sem þeir hafa gert, mun álagður tekjuskattur á einstaklinga á þessu ári nema 7 milljörðum kr. Ég hef ekki heyrt neinn vefengja þessar tölur. Það hafa stjórnarandstæðingar ekki gert. Samkv. núgildandi skattal. og þeim upplýsingum, sem eru fyrir hendi um tekjurnar á síðasta ári, mun álagður tekjuskattur á þessu ári nema 7 milljörðum kr. Þetta er það, sem ríkið kemur til með að fá samkv. núgildandi skattal. Með því að leggja sömu tekjur til grundvallar, er það niðurstaða sérfræðinga, að samkv. skattkerfisbreytingunni mundi álagður tekjuskattur ekki verða nema 4100 millj. kr. Þessi tala hefur ekki heldur verið vefengd af neinum. Þegar við erum búnir að fá þannig tölurnar í báðum tilfellum, bæði í samræmi við núgildandi skattalög og í samræmi við skattlagabreytinguna, þá getum við séð, hver mismunurinn er og hvað það er, sem tekjuskattsgreiðendur fá raunverulega í sinn hlut, og það eru 2.9 milljarðar kr. Ástæðan til þess, að þessi tala er heldur hærri en sú, sem talsmaður Alþfl. komst að niðurstöðu um, er sú, að hann byggir sína tölu á grundvelli fjárl., sem er rétt út af fyrir sig og var lagt til grundvallar, þegar samkomulagið var gert við Alþýðusambandið, en síðan hafa komið fram upplýsingar um, að tekjurnar á síðasta ári voru hærri en gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru samin, og þess vegna hækkar þessi mismunur nokkuð, sá hagnaður, sem skattgreiðendur mundu fá samkv. skattkerfisbreytingunni. Það er óumdeilanlegt, að þessi upphæð, sem skattgreiðendur fá út úr tekjuskattslækkuninni, miðað við álagðan tekjuskatt, er að sjálfsögðu það eina, sem hægt er að leggja til grundvallar í þessu sambandi.

Þær tölur hafa ekki verið vefengdar, sem sérfræðingar hafa reiknað út, að svokallaður skattafsláttur muni hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, sem nemi 550 millj. kr. Það er ekki vefengt. Og það er ekki heldur vefengdur sá útreikningur sérfræðinga, að vegna söluskattshækkunarinnar, þessara 5%, muni útgjöld ríkissjóðs aukast um 100 millj. kr., þannig að samanlagt verður sú upphæð, sem ríkið missir af, ýmist sem tekjutap eða útgjaldahækkun, um 3.6 milljarðar kr. Þetta er upphæð, sem ekki er hægt að vefengja.

Það er líka staðreynd samkv. þeim útreikningum, sem sérfræðingar hafa gert, að 5% söluskattshækkun í 10 mánuði gefur í kringum 3.4 milljarða kr., svarar tæplega til þeirrar upphæðar, sem ríkið verður að láta af hendi. Ég held, að það sé alveg rétt í þessu sambandi, sem hefur komið hér fram og t.d. hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, lagði áherslu á, að í þessu tilfelli þarf ekki að taka sjálft fjárlagadæmið inn í, heldur hitt, hvað fæst út úr því samkomulagi, sem hér er um að ræða, hvað það er mikið, sem ríkið lætur af hendi, og hvað það er mikið, sem það fær á móti, og þá eru réttar tölur þessar, eins og ég hef nú gert grein fyrir. Þetta verður ekki vefengt.

Það hefur líka verið sýnt fram á það, að til að mæta þessum 3.6 milljörðum; sem ríkið verður að láta af hendi, ýmist sem tekjumissi eða sem útgjaldaaukningu, fást ekki upp í það samkv. till. Alþfl. nema 2.4 milljarðar á þessu ári, þannig að hallinn verður kringum 1.2 milljarðar.

Samkv. þeim till., sem Sjálfstæðisfl. hefur lagt fram, verður þetta dæmi miklu óhagstæðara. Ég hef reynt að gera mér nokkra grein fyrir því, hvað till. Sjálfstæðisfl. þýða í reynd. Eins og ég sagði áðan, er álagður tekjuskattur á þessu ári samkv. núgildandi skattalögum áætlaður 7 milljarðar kr. Samkv. till. Sjálfstæðisfl. verður álagður tekjuskattur ekki nema 2.2 milljarðar kr. Í þeirra eigin frv. er gert ráð fyrir því, að álagður tekjuskattur verði ekki nema tæpir tveir milljarðar, en þetta hækkar nokkuð vegna þess, að tekjurnar, sem lagt verður á í ár, verða hærri en þá var gert ráð fyrir. Þeir miða þessa áætlun sína við fjárlagaáætlunina, svo að það má reikna með því, að samkv. þeirra till. verði álagður tekjuskattur 2.2 milljarðar kr. Ef það er nú nálægt 7 milljörðum, koma út 4.8 milljarðar. Það er tekjuskattslækkunin, sem verður samkv. þeirra till., 4.8 milljarðar. Þá leggja þeir enn fremur til, að 1.5% launaskattur verði felldur niður og það mun ódrýgja tekjur ríkissjóðs um 450 millj. Þá gera þeir ráð fyrir nokkrum skattafslætti, sem er að vísu minni en í till. stjórnarinnar. Og svo kemur einnig til greina nokkur útgjaldahækkun ríkisins vegna þessarar 2% hækkun söluskatts, sem þeir gera ráð fyrir. Má gera ráð fyrir, að þessi upphæð samanlagt nemi um 200 millj., kr., þannig að samanlagt nemur tekjutap og útgjaldaaukning ríkisins samkv. till. Sjálfstæðisfl. um 5.5 milljörðum kr. Hvað ætlast þeir til, að ríkið fái á móti þessum 5.5 milljörðum? Ríkið á að fá á móti 2% söluskatt, sem gefur um 1400 millj., og þar að auki á það að fá útgjaldalækkun, sem gefur 1500 millj. Samanlagt eru þetta 3 milljarðar, sem ríkið á að fá í staðinn fyrir 51/2, þannig að hallinn á till. Sjálfstæðisfl. er óumdeilanlega um 2.5 milljarðar. Það er útkoman, sem mundi verða fyrir ríkissjóð á þessu ári, ef till. þeirra yrðu samþ., því að hér er eingöngu um að ræða tekjur, sem falla til á þessu ári. Það skiptir ekki aðalmáll í þessu sambandi t.d., hvort tekjuskatturinn, sem lagður verður á í ár, innheimtist ekki allur á þessu ári eða það verða einhverjar eftirstöðvar af honum.

Þetta held ég, að þurfi ekki að vefengja, svona mundu till. stjórnarandstæðinga koma út, ef farið væri alveg eftir þeim. Tapið á till. Sjálfstfl. er 2.5 milljarðar, en á till. Alþfl. 1.2 milljarðar. Liggur í augum uppi, að það getur engin ríkisstj. gengið að slíku, enda líka algerlega rangt, þar sem hér er um það að ræða að skipta á jöfnu, að á móti tekjulækkuninni, sem ríkið afsalar sér, komi jafnmikil tekjuhækkun annars staðar að.

Ég ætla svo ekki að ræða öllu frekar um þetta atríði. En ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á sparnaðartill. Sjálfstfl., sem ég fordæmdi í fyrri ræðu minni, þ.e.a.s. aðferðina, og geri enn. Mér finnst þetta algerlega röng aðferð í sambandi við það, þegar á að lækka greiðslur, sem eru ákveðnar á fjárl., og greiðslur, sem eru ákveðnar með sérstökum lögum. Ég skal koma að því, sem ég veit, að hv. þm. á við, brbl Þingið á ekki að afsala sér því í hendur ríkisstj. að ráða eingöngu um það, hvað verður gert í þeim efnum. Þingið á sjálft að taka ákvörðun um það. Og þeir, sem hafa áhuga á einhverri útgjaldalækkun og telja sig geta bent á hana, eiga að flytja frv. um hana og koma með ákveðnar till. um hana. Og það má viðreisnarstjórnin eiga, að hún kom í eitt eða tvö skipti með lækkun á fjárl., eftir að þau höfðu verið samþ., og hún gerði það í bæði skiptin í frv.- formi hér á Alþ., eða a.m.k. man ég eftir því, að í annað skiptið kom alveg sérstakt frv. fram hér á Alþ., þar sem gert var ráð fyrir vissum útgjaldalækkunum á fjárl. Þetta er rétt aðferð. Hér hafði viðreisnarstjórnin alveg rétt fyrir sér, og þessa leið ættu sjálfstæðismenn að fara núna, ef þeir treystu sér til að benda á ákveðnar útgjaldalækkanir.

En ég skal þá víkja að því, sem hv. 1. þm. Reykn. minntist hér á og var að gefa mér ábendingu um hér áðan, að hæstv. núv. ríkisstj. setti sérstök brbl. um efnahagsaðgerðir í júlímánuði 1972 og ein gr. í þeim lögum er nokkuð svipaðs eðlis og þessi gr. í till. Sjálfstæðisfl. En það var alveg sérstakt mál. sem lá þar á bak við og var þess eðlis, að ríkisstj. átti í samningum við Atvinnuleysistryggingasjóð, að hann felldi niður vissan hluta af því framlagi, sem hann átti að fá úr ríkissjóði á því ári og var ekki öllu meiri upphæð en 100 millj. kr. Var rætt um þetta bæði við Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, þau stéttasamtök, sem hér eiga hlut að máli alveg sérstaklega, og þessir aðilar virtust ekki hafa neitt sérstakt við það að athuga undir þeim kringumstæðum, sem þá voru. — Það var líka rætt um þetta við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. En þrátt fyrir það, þó að lægi fyrir samþykki þessara aðila, þurfti ekki annað til að koma þessu í framkvæmd en fá til þess sérstaka lagaheimild. Þess vegna var sú leið farin í þessu tilfelli, að inn í þessi brbl. var sett grein, sem hljóðar nokkuð svipað og umrædd till. Sjálfstæðisfl. En það var eingöngu til að tryggja, að það væri hægt að gera mögulega þessa lækkun á framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs, þó að það lægi fyrir samþykki þessara aðila.

Niðurstaðan varð svo sú, að þessi lagaheimild var aldrei notuð. Það var að vísu samið um það, að Atvinnuleysistryggingasjóður gæfi eftir 100 millj. af sínu tillagi á þessu ári, en það bara færðist á milli ára og hefur verið borgað seinna. En heimildin til þess að fella þetta alveg niður, var aldrei notuð, og ríkisstj. notaði ekki þessa heimild sína, svo að ég viti, til þess að breyta nokkrum lögum, sem hafa áhrif á fjárl.

Endalok þessara brbl. urðu þau, að þau voru lögð fram hér í annarri d. og dagaði svo uppi, þannig að Alþ. í heild hefur aldrei lagt blessun sína yfir það, að slík aðferð væri höfð eins og felst í þessari till. Sjálfstæðisfl. Jafnvel þótt sjálfstæðismenn gætu bent á þetta fordæmi hjá núv. ríkisstj., sem er allt annars eðlis en í raun og veru þeirra till. og var bundið fyrst og fremst við eitt ákveðið mál, sem búið var að ná samkomulagi um við viðkomandi aðila, þá er það þannig lagað, að það á ekki að vera fordæmi að lagasetningu um þessi efni í framtíðinni. Alþ. á ekki að afsala sér valdinu í hendur ríkisstj., ef það á að lækka fjárl. eða er talið nauðsynlegt að lækka fjárlög, að ríkisstj. geti gert það upp á eigin spýtur, án þess að Alþ. sé þá nokkuð kvatt til ráða.

Ég get vel hugsað mér það, og er því í raun og veru samþykkur, að það verði athugað mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé hægt að lækka ýmsa útgjaldaliði hjá ríkinu, og ég gæti verið því fylgjandi, að það yrði sett sérstök n. allra flokka til þess að íhuga slík mál. En ég vil ekki gefa ríkisstj., jafnvel þó að ég treysti þessari ríkisstj. vel, heimild til að ráða því, hvaða útgjaldaliði hún lækkar. Ég vil, að slík n., að íhuguðu máli, leggi fram sínar till., þær verði bornar undir þingið og afgreiddar hér á þinglegan hátt, ríkisstj. geri það ekki. En það er alveg útilokað að gera það í sambandi við afgreiðslu þessa máls, það tekur allt of langan tíma. Ég er ekki farinn að sjá það heldur, þó að Sjálfstfl. varpi fram till. eins og þessari, þegar að því kæmi hér í þinginu að samþykkja ákveðnar útgjaldalækkanir, að hann væri þá reiðubúinn til að gera það. Ég vil sjá það, og ég vil kanna það. Að mínu áliti er alveg sjálfsagt að taka það til athugunar, hvort ekki sé hægt að koma fram einhverjum sparnaði og lækkun á ríkisútgjöldum og m.a. lækkun á þeim ríkisútgjöldum, sem eru lögbundin. En ég álít, að til þess þurfi svo mikla athugun, að slíkt sé í raun og veru óhugsandi, svo að gagni sé, nema í sambandi við gerð næstu fjárlaga. En að ætla að fara að ákveða það nú á þessari stundu er alveg útilokað og algerlega óábyrg málsmeðferð.

Ég veit það, að þegar maður sleppir þessu máli, þá bera margir þm. Sjálfstæðisfl. og leiðtogar hans mikla virðingu fyrir þingræði, að mínum dómi, og þess vegna álit ég, að þeir gerðu það réttast að draga þessa till. aftur til að sýna það, að þeir vilji hafa þingræðið í heiðri og ekki láta þingið afsala sér jafnmiklu valdi og því að ákveða lækkun fjárlaga.

Það er alveg sjálfsagt, eins og ég sagði áðan, að taka það til athugunar, að það verði sett sérstök athugun um það, hvernig sé hægt að lækka útgjöldin. En ég álít, að það sé ekki hægt að afgreiða það í sambandi við þessi mál. Við getum ekki nefnt neina ákveðna upphæð. Eru kannske sjálfstæðismenn tilbúnir að nefna það á dag, hvaða útgjöld eigi að lækka? Eru þeir tilbúnir til að segja, að þeir vilji lækka atvinnuleysistryggingabæturnar um svona mikla upphæð? Eru þeir tilbúnir að segja, að þeir vilji lækka skólamálin? Eru þeir tilbúnir að segja það, t.d. dreifbýlisþm., að þeir séu reiðubúnir til að fella niður svo og svo miklar verklegar framkvæmdir úti um land? Ef þessir hv. þm. eru tilbúnir til þess að koma með ákveðnar till. um þetta efni, hreinar till.: við skulum lækka Norðurlandsáætlun um svona mikið, við skulum lækka Djúpveginn o.s.frv., — ég segi, ef sjálfstæðismenn eru tilbúnir til að koma fram með svona till., þá skulum við lita á þær. Það er annað mál. hvort við samþykkjum þær eða ekki. Ef þeir eru tilbúnir til þess að segja: Við skulum ekki hækka tryggingabæturnar eins mikið og gert var nú á dögunum, við skulum hækka þær eitthvað minna, við skulum draga úr framlögum til spítalanna, við skulum lækka framlögin til samgangna o.s.frv., — ef þeir koma fram með slíkar till., þá er sjálfsagt af stjórnarliðinu að athuga þær. Það er annað mál, hvort við föllumst á þær. En að kasta fram svona plaggi, þar sem engir ákveðnir útgjaldaliðir eru nefndir, það er vitanlega óforsvaranlegt.

Ég endurtek það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég tel slík vinnubrögð alveg ábyrgðarlaus, enda finnst mér rétt að láta þá viðurkenningu koma hér fram, að Alþfl. hefur ekki í sínum till. farið inn á þessa braut. Þó hygg ég, að í ýmsum efnum væri hann ekkert ófúsari til þess að vera með ýmsum útgjaldalækkunum, sem eru taldar skynsamlegar, heldur en Sjálfstfl. En hann vill þó ekki fara inn á þessi vinnubrögð, hann hefur ekki flutt till. um það. Það verður líka að játa, að þó að hans till. séu ekki fullnægjandi til þess að mæta þeirri útgjaldalækkun, sem ríkið verður fyrir, eru þær ólíkt ábyrgari en þær till. því miður eru, sem Sjálfstfl. hefur gert.

En ég verð líka að líta þannig á, að hér sé ekki um að ræða endanlegar till. Sjálfstæðisfl. Ég lít þannig á, að þessar till. séu fluttar hér af Sjálfstfl. til að sýna stefnu hans, til að sýna það, hvernig hann vildi lækka skattamálin, geta sagt kjósendum sínum, að hann vildi lækka tekjuskattinn svona og svona mikið og hann vildi spara svona og svona mikið, þó að hann hafi ekki ákveðnar till. um það, en hann geri sér sjálfur vel ljóst, að þetta eru ekki ábyrgar till. á þessu stigi. Þess vegna trúi ég ekki öðru en því, að ef þetta mál kemur hér til frekari athugunar, t.d. í Ed., þá taki Sjálfstfl. þessa afstöðu sína til endurskoðunar og sýni í verki, að hann sé ábyrgari flokkur en þessar till. bera merki um. Og ég vil vænta þess sama af Alþfl.

Ég skal nú ekki eyða öllu meiri tíma en orðið er. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki viðstaddan hér fornkunningja minn, hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslason, því að ég hefði þurft að segja ýmislegt í tilefni af því, sem hann sagði. En það gildir víst bæði um hann og hæstv. forsrh., að þeir eru eðlilega forfallaðir. Ég tek a.m.k. þau forföll til greina. Ég held, að ég komist samt ekki hjá því að svara einu atríði í ræðu hans. Hann var að leggja fyrir mig ákveðið dæmi sem hann ætlaðist til, að ég svaraði. Ég held, að ég svari því einna best með því að koma með annað dæmi.

Það er ung stúlka, sem kemur inn í búð hjá kápukaupmanni, sér þar ljómandi fallega kápu, sem hún vill fá, og spyr hann að því, hvað hún kosti. Kaupmaðurinn nefnir einhverja ákveðna upphæð, við skulum segja, að hann nefni 3500 kr. eða eitthvað þessu líkt. Stúlkan telur það vera of dýrt. Kaupmanninum líst vel á hana og vill ganga eins langt til móts við hana og hann treystir sér, og hann segir: Ég skal láta þig hafa þessa kápu alveg álagningarlaust, þú skalt fá hana á 3000 kr. Svo að maður fylgi sögunni eins og var hjá hv. 7. þm. Reykv., þá fer stúlkan heim með þetta erindi til föður síns og biður hann að láta sig hafa 3000 kr. Karl segir, að hún skuli bara prútta meira og reyna að koma kápunni meira niður og hún skuli fá hjá sér 2000 kr. Með þessar 2000 kr. fer hún til kaupmannsins. Hvað á kaupmaðurinn þá að gera, þó að honum lítist vel á stúlkuna? Á hann að láta kápuna á 2000 kr. og tapa á því 1000 kr. eða á hann ekki að láta stúlkuna fá kápuna? Hvað mundi prófessorinn í rekstrarhagfræði í háskólanum segja nemendum sínum, að þeir ættu að gera undir þessum kringumstæðum? (Gripið fram í: Hvað mundi ræðumaður hafa gert?) Ja, ég mundi telja það alveg sjálfsagt undir þessum kringumstæðum, — get svarað þeirri spurningu alveg hiklaust, og það átti að vera svar mitt til hv. 7. þm. Reykv., — ég mundi ekki láta stúlkuna fá kápuna. Hún yrði að borga hana á sannvirði, hún yrði að láta sínar 3000 fyrir hana, hún fengi hana ekki á 2000 kr.

Það gildir nákvæmlega sama um afgreiðslu þessa máls. Við, sem stöndum að ríkisstj., göngum ekki að því, að ríkissjóður, svo að maður haldi þessu dæmi áfram, fórni 3000 og fái ekki nema 2000 í staðinn. Þetta er mitt svar til hv. 7. þm. Reykv.