13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

259. mál, skattkerfisbreyting

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að breyta gildandi ákvæðum í skattal., sem snerta sérstakan skattfrádrátt sjómanna, og þar er gert ráð fyrir því, að þeim frádrætti, sem tilgreindur er í 14. gr. skattal., verði breytt til samræmis við skattvísitölu. En þar er ekki gert ráð fyrir neinni frekari hækkun. Fulltrúar sjómannasamtakanna hafa rætt við ríkisstj. að undanförnu og óskað mjög eftir því að fá nokkra hækkun á þessum liðum, og það hefur verið til sérstakrar athugunar. Ég hef því leyft mér að flytja hér brtt. við þessa gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að í stað 1232 kr. komi 1500 kr. og í stað 7700 kr. komi 9500 kr.

Hér er um að ræða sérstakan skattfrádrátt, sem sjómenn fá, og þessi skattfrádráttur gildir fyrir alla sjómenn, jafnt fiskimenn sem aðra. Hér er ekki um mikla hækkun að ræða, en mundi þó að sjálfsögðu kosta ríkið þó nokkuð. Það er sennilegt, að hver sjómaður, sem stundar starf sitt svo að segja allt árið, gæti fengið samkv. þessari till. aukinn skattfrádrátt, sem næmi 20 þús. kr. eða rúmlega það, og það gæti þá þýtt í kringum 8–10 þús. kr. aukna lækkun í skatti. Og hér gæti verið um heildarfjárhæð að ræða, sem gæti numið í kringum 50 millj. kr. fyrir ríkissjóð í skattalækkun til sjómanna.

Með þessari till. er sem sagt gengið til móts við þessar óskir sjómannasamtakanna, og ég tel, að það liggi margvísleg rök fyrir því og það geti orðið samkomulag um þessa till.

Ég vil geta þess, að þessi till. er flutt af mér hér í fullu samráði við fjmrh. Till. hefur þegar verið útbýtt, og er að finna á þskj. 495.