14.03.1974
Efri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

259. mál, skattkerfisbreyting

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er nú orðið að samkomulagi, að umr. verði heldur stuttar við 1. umr., og vildi ég fá að vita um það, hvort hæstv. fjmrh. hefur orðið að hverfa af fundi, — en þarna gengur hann aftur í fundarsalinn, svo að ég get þá beint orðum mínum strax til hans.

Mig langaði til að víkja að síðustu orðum í ræðu hans, þar sem hann gerði því skóna, að enn væri von um fylgi við upphaflegt frv. þrátt fyrir þá staðreynd, að sjálfur forsrh. lagðist á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni í veigamiklu atriði, sem var sett inn í Nd. s.l. nótt. Ég undrast það, að hæstv. fjmrh. skuli hafa þessa bjartsýni uppi, hún er algerlega órökstudd og vonin ein, það vil ég undirstrika rækilega. Og hann gaf það í skyn ótvírætt, að fari svo, að það verði ekki fylgi í þessu efni, þá ætti að hefja baráttu með þjóðinni. Ég skil auðvitað þessi orð sem ábendingu um það, að hæstv. ríkisstj. ætli að rjúfa þing og kjósa um málið. Þá væri svolítill dugur í ráðh. Þá stæðu þeir við orð sín og sýndu, að þeir væru sannfærðir um, að þeir hefðu hér á réttu að standa, en féllu ekki fyrir því að segja: Allt eða ekkert, — eftir það, sem skeð hefur í Nd., því að frv. tók það miklum breytingum þar, að þeir verða að hugleiða stöðuna eins og hún er í dag. Hún er staðreynd í dag. Það er engin óskhyggja, hún er staðreynd. Og ef þeir trúa því ekki, þá eiga þeir eftir að reka sig á aftur í Nd. á morgun, því að mér skilst, að það sé hugmynd þeirra að fá breytingar í gegn hér í Ed. miðað við það, sem maður sér á öðrum vettvangi, og reyna á það í annað sinn í Nd., hvort slíkt gengur. En það er borin von að mínu mati.

Það er nú einu sinni svo, að verðbólgan ætlar að verða þessari hæstv. ríkisstj. gersamlega ofviða, þrátt fyrir það að staða ríkissjóðs samkv. óyggjandi mati sérfræðinga batnar að ýmsu leyti við vaxandi verðbólgu, þó að undarlegt sé. En stjórnleysið almennt er svo gífurlegt í þjóðfélaginu, að þeir ráða ekki við það, og verðbólgan verður sú þúfa, sem veltir hlassinu, hæstv. ríkisstj.

Það var á s.l. hausti, sem við þm. Alþfl. lögðum fram þáltill., sem markaði nýja stefnu í skattamálunum. Það var orðið tímabært að gera gagngera breyt. á skattkerfinu. Það höfðu komið fram óskir um það hjá launþegasamtökunum, að núv. skattalög væru svo þrúgandi, að þau væru óhafandi lengur, og það yrði að koma fram gagnger breyt. í þá átt. Við töldum það rétt í Alþfl. að móta hér ákveðna stefnu strax í haust, og hæstv. ríkisstj. hefur tekið í þetta frv., sem við erum að ræða hér, mikilvæg sjónarmið, sem þar voru sett fram, og það er þess vegna, sem hæstv. fjmrh. gerir sér von um það, að við fylgjum frv. í einu og öllu, en það er allt annað heldur en að geta fylgt ákveðnum þáttum í frv.

Frv. gerði ráð fyrir því, þegar það var lagt fram í Nd., að söluskattur yrði 5 stig, en það er nú borin von. Raunverulega liggur það hér fyrir, án þess að tekjutrygging sé nokkur, þó að skattalækkunin sé komin í gegn á þessu stigi. En bara til þess að gefa mönnum hugmynd um, hversu óhemjuleg verðbólgan er og hversu aukning á söluskattinum er gífurleg miðað við þessa miklu veltuaukningu, sem við sjáum, vil ég nefna það, að 1973 var febrúarsöluskatturinn 314 millj., en var skilað í des. 545 millj. kr., þ.e.a.s. aukning á árinu um 231 millj. frá skilum í febrúar til skila í des. Þetta er engin smáræðishækkun, enda kemur það fram, ef við lesum frv. eða grg. frv. og fjárlög, að í fjárl. er gert ráð fyrir og byggt á þeirri þróun, sem menn hugðu, að mundi verða, að þá gæfi 1 söluskattsstig á mánuði 630 millj. að meðaltali, en í frv. er þessi upphæð komin upp í 800 millj., eða 170 millj. kr. meiri á rúmlega tveggja mánaða tímabili. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég var ekki búinn að ljúka máli mínu alveg. Þetta er ákveðin forsenda. Svo kemur nokkur frádráttur frá, eins og hæstv. ráðh. benti á með að grfpa fram í, en þetta er ótvíræð vísbending um þá þróun, sem hér á sér stað í verðþenslu. Við getum svo deilt um það, hvort hún gefur 10–20 millj. kr. meira á mánuði eða ekki, en það er staðreynd, að það má vænta þess vel rökstutt, að í árslok verði stigið um eða yfir milljarð bókstaflega talað. Þess vegna erum við inni á því í Alþfl., að 5 stig séu ofætlun til að tryggja ríkissjóði þá tekjuöflun, sem fram kemur við lækkun eða breyt. á skattstiga, og þess vegna höfum við staðnæmst við 31/2 stig.

Það er nauðsynlegt að lækka skattana. Við erum allir sammála um það. Þessi stighækkandi tekjuskattur eftir gildandi lögum frá hæstv. ríkisstj. var það mikill og það þrúgandi, að menn vildu orðið bókstaflega ekki vinna eðlilega vinnu, menn forðuðust að vinna bæði til sjós og lands umfram það, sem nauðsynlegt var og menn bókstaflega voru píndir til, vegna skattaáþjánar,.Og það er staðreynd, hvað sem hæstv. ráðh. reynir að segja í því efni, að þá eru skattal. þannig, að þau eru ekki verjandi lengur undir neinum kringumstæðum. Það væri miklu skynsamlegra að meta aðstöðuna í rólegheitum og reikna með því, að 31/2 stig mundu hrökkva, miðað við því miður þá þróun, sem við sjáum fram undan og ekki er samstaða um í þjóðfélaginu að hamla nægilega á móti, þrátt fyrir það að nú næst inn eða á að nást inn hækkun á víni og tóbaki fyrir utan vísitölu og einnig á þessari hugsanlegu söluskattshækkun eða skattgjaldshækkun, þannig að nú eru launþegasamtökin farin að sjá, að ekki er heilbrigt að láta þetta allt vega fullkomlega hvað á móti öðru og kynda þannig undir verðbólgubálinu. En fyrr hefðu þau eða forustumenn þeirra mátt átta sig á slíkum hlutum.

Þessi skattkerfisbreyting, sem við erum hér að ræða um, á ekki að gilda bara út þetta árið, þó að hæstv. ráðh. hafi gefið í skyn, að það geti verið hugsanleg lausn á málinu, 5 stig þannig. Ég vísa henni nú gersamlega frá (Gripið fram í.) Ja, lögin gildi aðeins út árið. Ég tel, að við eigum hér að fjalla um grundvallarskattkerfisbreyt., sem gildi meira en út árið. Málið er það viðamikið og það er samstaða hjá öllum þingfl. og launþegasamtökunum, að slík kerfisbreyt. verði gerð, sem gildi meira en í 8 eða 9 mánuði. Hún á að gilda í mörg ár. Hins vegar gaf hæstv. fjmrh. í skyn í ræðu sinni, að allir væru líka sammála um eða hefðu a.m.k. áhuga á að koma á virðisaukaskatti og tek ég undir það sjónarmið, en það er í alllangri seilingarfjarlægð og þýðir ekki að ræða það á þessu stigi málsins.

Við álítum í Alþfl., eins og síðasti ræðumaður drap á, að hér eigi að nota tækifærið til að afla ríkissjóði allmikilla tekna fram yfir beina nauðsyn, sem fælist í þessari breyt., vegna þess að staða ríkissjóðs er ekki svo slæm sem ætla mætti þrátt fyrir verðbólgu. Ég saknaði þess í framsöguræðu hæstv. ráðh., hver staða ríkissjóðs væri eftir árið 1973. E.t.v. kemur það fram við 2. umr., en það kom ekki fram núna á þessu stigi, og vitum við það ekki. Hitt vitum við, að tekjur ríkissjóðs urðu óvænt nálægt 3 milljörðum hærri en reiknað var með. Hins vegar vita allir, að útgjöld ríkissjóðs jukust verulega einnig. Hvort þessar tölur eru mjög svipaðar eða jafnar, legg ég ekki dóm á að þessu sinni.

En þrátt fyrir það er það staðreynd, að aukin verðbólga hefur fært ríkissjóði betri stöðu samkv. lauslegri áætlun, sem við höfum fengið í fjh.og viðskn, frá hagrannsóknadeildinni og ég held rn. að nokkru leyti líka. Hins vegar má búast við því, að á vissum tímabilum ársins geti staða ríkissjóðs verið erfið. Það er ekkert nýtt, vegna þess að söluskattur skilar sér nú yfirleitt að langmestu leyti á 3 síðustu mánuðum ársins og desember–söluskattur kemur inn í jan., eins og menn vita. Verðhækkanirnar, sem dynja yfir núna, og verðbólgan er svo gífurleg, að það má búast við því, að bara verðið á landbúnaðarvörum núna þýði 25 þús. kr. útgjaldaaukningu á meðalfjölskyldu yfir árið. Og það sjá allir menn, að þetta er gersamlega stjórnlaust. Við erum því á móti því í Alþfl., að við séum að koma á ónauðsynlegri hækkun á söluskatti vegna þess fólks, sem á að njóta þess, — sem borgaði ekki beina skatta eða tekjuskatt áður. Teljum við, að ríkissjóður hafi svigrúm á öðrum vettvangi til þess að mæta þessum 500–550 millj. í útgjaldaaukningu, sem verður við þessa skattbreyt., og á ég þar við hinn neikvæða skatt. Þegar við sjáum, hver áhrif verðbólgunnar verða á lífsnauðsynjar manna, þá er nauðsynlegt að hafa þessar hækkanir söluskatts í fullkomnu lágmarki, eins og framast verður hægt. Og þegar það nálgast 1/5 af heildarveltu fyrirtækja, sem er raunar innheimtufé ríkissjóðs, þá er, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., freistingin orðin slík að hagnast á þessari innheimtuaðferð, að rökrétt er að þyngja viðurlög mjög og koma því í höfn, að allur álagður söluskattur skili sér. Menn freistast til þess, þegar verðbólga er, og eru sumir nauðbeygðir til þess vegna rekstrarfjárskorts að nota allt veltuféð til innkaupa á nýjum lager til að halda rekstri sínum áfram, og hér liggur gífurleg hætta í. Þegar verðbólgan er svona ör, er í vissum tilfellum a.m.k. útsala á vöru eða þjónustu ekki nægileg til að tryggja eðlilega endurnýjun á hliðstæðum efniskaupum aftur. Og þeir, sem standa í svona almennri innheimtu fyrir ríkissjóð, lenda í meiri og minni vandræðum með að skila innheimtum söluskatti. Þetta er mjög alvarlegt vandamál, þegar verðbólgan er svona gífurleg.

Það verður að koma í veg fyrir það með öllum hugsanlegum ráðum, að menn freistist til þess að nota þetta fjármagn í eigin þágu og um langan tíma, og þess vegna stend ég að því og við allir hér á Alþ. að herða viðurlög og eftirlit í þessu sambandi.

En verðhækkunin er svo gífurleg á neysluvöru, að það er ekki verjandi að áætla einu sinni einu stigi of mikið í söluskattshækkun til þess að tryggja ríkissjóði auknar tekjur umfram það, sem nauðsyn er.

Það má búast við, að allt að 40% af launahækkuninni étist upp í hækkuðu verðlagi á næstu mánuðum. Þetta er önnur staðreynd, en þessar tölur hef ég frá Hagstofunni, miðað við það, sem þeir best sjá eða sá fulltrúi, sem fer með þessi mál. Þegar svo framfærslukostnaðurinn vex svo sjálfkrafa, þá er von, að launþegasamtökin vilji gera eitthvað til þess að tryggja, að launin étist ekki upp, en enn hefur ekki myndast samstaða um að koma á því kerfi, er tryggi launþegum réttan kaupmátt í þessum efnum.

Fyrir samningana í nóv. 1971 var vísitala framfærslukostnaðar 156 stig, en í febr. s.l. var hún komin upp í 242 stig, og sjá allir, hversu gífurleg verðbólgueinkenni hér eru á ferðinni. Enda er það staðreynd, að einmitt þessa dagana þurrkast búðirnar af vissum vöruflokkum: heimilistækjum, húsgögnum, svo að ekki séu nefndir bilarnir, en það mun hafa verið út af sögusögnum um gengisbreytingu, söluskattshækkun, að það voru fluttir inn hvorki meira né minna en yfir 900 bílar í jan. s.l., en í fyrra nokkuð á þriðja hundrað. Það er eins og ég sagði hér um daginn í umr. um annað frv., að sá gamli góði málsháttur, sem var einu sinni í heiðri hafður á Íslandi: Græddur er geymdur eyrir, — hann er nú liðinn, en í staðinn er kominn: Glötuð er geymd króna.

Hitaveitugjöld hækka um 57%, rafmagn hefur hækkað um 64%, póstur og sími hefur hækkað um 100%, og nægir hvergi nærri til, hann er í gífurlegum rekstrarvandræðum og fer fram á mun meiri hækkun. Hljóðvarp og sjónvarp hækka stórkostlega um 100%, strætisvagnarnir um 35%, og svona má halda áfram að telja upp.

Ég held, að það hafi jafnvel verið meira en 35%, jafnvel nærri 40%, sem þeir hækkuðu núna um s.l. helgi, farmiðarnir með strætisvögnunum.

Við sjáum á þessu stutta yfirliti, að verðbólgan er æðisgengin og því miður hefur hæstv. ríkisstj. enga möguleika eða getu til þess að ráðast að vandanum. Þetta frv., sem hér er, leysir þann vanda alls ekki, og þrátt fyrir það, að gerðar hafa verið á því veigamiklar breyt. í Nd. í gær, er frv., eins og það liggur fyrir, ekki aðgengilegt. Við verðum að tryggja ríkissjóði einhverjar tekjur, og við í Alþfl. höfum viljað standa að 31/2 stigs hækkun og lagfæringu á beinum sköttum og munum fylgja slíkri breyt. eftir. Fari svo hins vegar, að aftur komi fram tilraun til 5 stiga hækkunar, tel ég það fyrir fram vonlausa baráttu. Það er ekki nægilegt að vitna hér í ræðu, sem haldin var í haust af form. Alþfl., þar sem bann segir, að auðvitað þurfi að bæta upp tekjur ríkissjóðs. Við höfum sagt og munum standa við það að segja: króna móti krónu. Hafði hann aðrar forsendur fyrir sér í haust en ríkja í dag, en grundvallaratriðið, sem við munum standa við, er, að við viljum, að söluskatturinn nemi nákvæmlega sömu tölu og skattlækkunin gefur, og viljum þá ekki miða við 8 eða 9 mánuði, heldur að þessi kerfisbreyting gildi til framtíðar. Meðan ekki verður sýnt fram á óyggjandi, að staða ríkissjóðs sé gjörsamlega vonlaus, þýðir ekki að vera að gera því skóna, að um samstöðu um hærra prósentustig sé að ræða, og framast sem ég veit, þá er ekkert það, sem við höfum fengið í hæstv. fjh: og viðskn., er gefur það til kynna, að rök séu fyrir hærri prósentu. Ég held mér því mjög ákveðið við það, að 31/2 stig fái byr hjá okkur í Alþfl., en ekki meira.

Það hefur heyrst utan sala hér, að vilji sé sums staðar fyrir að fara að semja um jafnvel 4% og þess háttar. Svo segja aðrir, að ef talað er um að fara að breyta þessu „samkomulagi“, þá fari allt úr böndunum, svo að ekki ber nú saman tóninum í vissum mönnum varðandi þetta samkomulag gagnvart launþegasamtökunum. Ég tel, að launþegasamtökin geti ekki reiðst því við einn eða neinn, þó að þau fái minni álögur en gert var ráð fyrir, þegar þetta var rætt á sínum tíma við þau, vegna þess að aðstaðan hefur breyst það mikið, að það er eðlilegt, að menn leiti að því, sem best verður séð í dag. Forsendurnar, því miður, hafa breyst það verulega, að við getum með fullum rökstuðningi sagt, að 31/2 stig sé nægilegt. Frv. gerir ráð fyrir því, að 800 millj. að meðaltali náist inn í söluskatti á hvert stig á ársgrundvelli. Það gerir líka ráð fyrir, að lækkun á tekjuskatti, sem mun koma fram við skattkerfisbreyt., sé 2.7 milljarðar. Þarna er jafnvægi á milli hlutanna. Við höfnum hins vegar í Alþfl. að vera að leggja á aukaskattstig, eins og það er orðað, vegna þess að það er fyrir það fólk, sem á ekki að taka á sig auknar byrðar, alls ekki undir neinum kringumstæðum. Það er okkar grundvallarkrafa. Þess vegna getum við ekki fallist á hærri söluskatt til þess að afla þessara tekna.

Það var athyglisverð atkvgr. í Nd. s.l. nótt. Veigamiklum þáttum í frv. var breytt, og það stendur nú þannig við þessa umr., að raunverulega veit maður ekki, hvaða þróun það mun taka, nema þá að þeir setjist niður í rólegheitum, meiri hl., og geri sér grein fyrir því, hvað hægt er að fá í gegn, meti það eftir staðreyndum, sem liggja á borðinu í dag, en ekki óskhyggju. Ef á að trúa hæstv. fjmrh. svo ákveðið, að hann segi: allt eða ekkert — eins og frv. var í upphaflegri mynd, þá er það fallið. Hann lauk máli sínu með því, að þá ætti að láta málið fara til þjóðarinnar og hefja baráttu í því sambandi. Ég óttast þá baráttu alls ekki, ekki undir neinum kringumstæðum, og væri því bara feginn, að það gerðist sem fyrst. En þora þeir að fara að heyja slíka baráttu, þótt þeir gefi það í skyn? Það er kannske ekki langt í klukkustundum talið, þangað til slíkt mun koma fram, en á meðan mun þjóðin bíða í ofvæni eftir að vita, hvort mennirnir þora að standa við eigin orð í þessum efnum sem fleiru.

Í hinum margrómaða málefnasamningi var því heitið, — en einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar, sem þó brást á erfiðu augnabliki, sagði í gær, að óskynsamlegt hefði verið að lofa svona miklu, — en þar var því heitið, að verðbólga á Íslandi ætti ekki að vera meiri eða vera mjög litlu meiri en gerðist í nágrannalöndunum. Allir vita nú, hver reyndin hefur orðið. Og það er spá mín, að einmitt verðbólgubálið muni brenna upp hæstv. ríkisstjórn og hún heyri senn sögunni til.