14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

201. mál, kosningar til Alþingis

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur gengið í gegnum Ed. og verið samþ. þar, að ég best veit shlj. og án þess að breyt. hafi þar á verið gerðar. Frv. er flutt samkv. þál., sem samþ. var á Alþ. 27. mars á fyrra ári. Sú till. til þál. var svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. til breytinga á kosningalögunum með það fyrir augum, að auðvelda utankjörstaðaratkvgr.“

Af grg, með þáltill. og einnig umr. um hana kom glöggt fram, að það, sem fyrst og fremst var haft í huga, var að auðvelda þeim, sem dveljast erlendis, og þá fyrst og fremst íslenskum námsmönnum, að neyta kosningarréttar síns, en einnig gera þeim, sem ekki geta vegna heilsubrests ferðast til kjörstjóra, kleift að neyta kosningarréttar. Þær breyt., sem felast í þessu frv., miða að því að auðvelda þessum tveim hópum námsmönnum að neyta kosningarréttar síns, er gert með þeim hætti, að fjölgað er kjörstöðum, þar sem kjósa má utan kjörfundar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að það verði nein breyting á kosningaathöfninni sjálfri.

Samkv. núgildandi kosningal., 63. gr. þeirra, getur utankjörstaðaratkvgr. farið fram á skrifstofu sýslumanns eða bæjarfógeta, í Reykjavík borgarfógeta; á skrifstofu sendiráðs eða útsends aðalræðismanns og svo útsends ræðismanns eða vararæðismanns Íslands eða kjörræðismanns, sem er íslenskur ríkisborgari eða af íslensku þjóðerni og mælir á íslenska tungu; á skrifstofu eða heimili hreppstjóra eða um borð í skipi í millilandasiglingum eða á fjarlægum stöðum. Eins og fram kemur, er þeim, sem vill kjósa utan kjörstaðar, samkv. þessu ætlað að koma á fund kjörstjóra á tilteknum stað. Þeim, sem ekki hafa tök á því að koma til fundar við kjörstjóra og ekki heldur geta sótt kjörfund, er því gert ómögulegt að neyta kosningarréttar síns. Þetta á að sjálfsögðu fyrst og fremst við þá, sem vegna sjúkdóms, líkamlegrar bæklunar eða af öðrum ástæðum dvelja á sjúkrahúsum eða dvalarheimilum aldraðra, en að sjálfsögðu einnig með sama hætti við þá, sem dvelja í heimahúsum, en eiga ekki heimangengt af sömu ástæðum.

Með þessu frv. er lagt til, að heimilað verði að framkvæma utankjörfundarkosningu í sjúkrahúsum og á dvalarheimilum aldraðra. Um skilgreiningu á því, hvaða stofnanir falli undir þessi heiti, vísast til laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 56 1973, og l. um dvalarheimili aldraðra, nr. 28/1973. í þeim kemur fram, við hvaða stofnanir hér er átt, og samkv. þessum lögum, sem vitnað var til, má enginn setja slíkar stofnanir á fót eða reka slíkar stofnanir nema með leyfi ráðh.

Eins og áður er sagt, er gert ráð fyrir, að kosningaathöfnin sjálf fari að öllu leyti fram með sama hætti og þegar kosningar fara fram í skrifstofum eða á heimakjörstöðum, hjá hreppstjóra o.s.frv. Er gert ráð fyrir því, að viðkomandi kjörstjóri, sýslumaður, bæjarfógeti, borgarfógeti eða hreppstjóri, ákveði í samráði við stjórn viðkomandi stofnunar, hvenær atkvgr, geti farið þar fram, en um þetta efni mundi dómsmrn. sjálfsagt setja nánari reglur, þ. á m. hvernig kunngera eigi kosningu í þessum stofnunum.

Eins og ég drap á áðan, eru fleiri sjúkir eða eiga erfitt um ferð til kjörstjóra en þeir, sem dvelja í sjúkrahúsum eða á dvalarheimilum aldraðra samkv. þeirri skilgreiningu, sem þar á finnst. En þetta frv. gerir samt ekki ráð fyrir því að breytt verði ákvæðum um utankjörfundaratkvgr. á þá lund, að þeir, sem í heimahúsum dvelja, geti neytt kosningarréttar síns þar. Mið að við þær ströngu reglur um framkvæmd sjálfrar atkvgr. þykir ekki fært að heimila utankjörfundaratkvgr. í heimahúsum. Það er að vísu svo, að slík heimild var á sínum tíma sett í lög varðandi atkvgr. um sambandsslit við Dani, en það hefur ekki verið skoðun rn., að það væri rétt að hverfa að því. Það má taka fram, að það munu gilda um þetta mismunandi reglur í nágrannalöndum okkar. Í Noregi mun vera heimilt að framkvæma atkvgr. í heimahús um. Í Danmörku hefur hins vegar verið gerð samsvarandi takmörkun og felst í þessu frv.

Íslendingum, sem dveljast erlendis við nám eða af öðrum ástæðum og eiga kosningarrétt hér, hefur á undanförnum árum fjölgað mjög, og þeir hafa verið mun dreifðari um lönd en áður var. Þess vegna er það, að þeim er í reynd í mörgum tilfellum fyrirmunað að neyta kosningarréttar síns vegna mikillar fjarlægðar við næsta kjörstjóra. En miðað við gildandi lagaákvæði getur utankjörfundaratkvgr. nú farið fram á nítján stöðum erlendis og í 10 löndum, en það er í 9 íslenskum sendiráðum og hjá einum útsendum ræðismanni, og að auki hjá 9 kjörræðismönnum, sem eru íslenskir ríkisborgarar eða af íslensku bergi brotnir og mæla á íslenska tungu. Utankjörfundaratkvgr. getur ekki farið fram hjá einum fulltrúa Íslands erlendis, fastafulltrúa Íslands hjá Fríverslunarsamtökunum í Genf, en það byggist á svissneskri löggjöf.

Í þessu frv. er lagt til, að ákvæðunum um þetta efni verði breytt, og er lagt til, að felld verði niður krafan um það, að kjörræðismennirnir séu íslenskir ríkisborgarar eða af íslensku þjóðerni og mæli á íslenska tungu, en þess í stað er gert ráð fyrir því, að utanrrn. verði falið að ákveða, hverjir kjörræðismenn skuli vera kjörstjórar, og auglýsi ákvörðun sína þar um hverju sinni. Það mun vera talið svo um þessa kjörræðismenn, að þeir séu ekki skyldir til að vera við alltaf á venjulegum skrifstofutíma, og er þess vegna gert ráð fyrir því, að utanrrn, hafi samráð við viðkomandi kjörræðismann og auglýsi, hvenær geti farið fram atkvgr. hjá honum, en líklega mundi best henta, að slík atkvgr. færi fram t.d. á síðasta hálfum mánuðinum fyrir kjördag, en e.t.v. þó eitthvað mismunandi eftir f,jarlægð frá Íslandi. Þar sem þessir ræðismenn flestir skilja hvorki íslenska tungu né mæla á þeirri tungu, þarf að útbúa kosningaleiðbeiningar fyrir þá, a.m.k. á einu erlendu tungumáli auk þess sem þýðing á texta þyrfti að fylgja með kjörseðlinum.

Það er álit þeirra manna, sem þetta hafa kynnt sér, að með þessari fjölgun kjörstaða, sem hér yrði komið við með þessum hætti, mundi mega leysa þau vandamál, sem upp hafa komið á undanförnum árum vegna erfiðleika þeirra, sem dvelja erlendis og ekki hafa getað neytt kosningarréttar síns vegna þess, hve langt þeir þurftu að ferðast til þess, og vegna kostnaðar, sem slíkt mundi hafa haft í för með sér.

Í þessu frv. er sem sagt ekki um neins konar allsherjar endurskoðun á kosningalögum eða jafnvel ákvæði kosningal. um utankjörstaðaatkv. að ræða, heldur beinast ákvæði frv. að og eru einskorðuð við þau atríði, sem sérstaklega var miðað við í þeirri þáltill., sem ég drap á í upphafi míns máls. Er talið, að með þessu sé gerð sú tilslökun á þeim ströngu kröfum, sem annars hafa gilt í þessum efnum, og greitt fyrir þeim, sem eiga að hafa möguleika á því að neyta kosningarréttar síns, án þess þó jafnframt að slakað sé svo á í þessu efni, að það sé nokkur hætta á misnotkun. Auðvitað eru hugsanlegar fleiri leiðir í þessu sambandi. En það er ekki hægt að segja annað en sumum þeirra getur e.t.v. verið samfara einhver hætta á misnotkun. Hitt getur svo vel verið, að það sé ástæða til þess að skoða fleiri ákvæði í kosningalögum og láta fara fram á þeim allsherjarendurskoðun, en það hefur sem sagt ekki verið gert með þessu frv. Það hefur hins vegar verið hugsunin, að þetta frv. gæti náð afgreiðslu á þessu þingi og svo tímanlega, að það gæti komið til framkvæmda við þær kosningar, sem fram fara nú í vor. Þess vegna er það tilmæli mín til þeirrar hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún hraði afgreiðslu þess, eftir því sem hún telur föng á.

Ég vil svo, herra forseti, ekki fara um þetta frv. fleiri orðum. Ég held, að það skýri sig alveg sjálft og sú grg., sem því fylgir, og ég þurfi ekki að hafa fleiri orð því til útskýringar, en leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.