14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

45. mál, sameining Flugfélags Íslands og Loftleiða

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Um þetta mál á ekki að þurfa að hafa mörg orð. Þetta frv., sem flutt er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út að tilhlutan samgrn. 11. júlí s.l. sumar. Málið var lagt fram í hv. Ed. og hlaut þar afgreiðslu á þann veg, að allir nm. samgn. þeirrar d. lögðu til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Þá var málið einnig rætt í samgn. þessarar hv. d, og varð þar einnig fullt samkomulag um að mæla með því, að frv. yrði afgr. óbreytt.

Málið fjallar um sameiningu Flugfélags Íslands h.f. og Loftleiða h.f., og efni frv. er þegar að öllu leyti komið til framkvæmda. Flugfélögin hafa verið sameinuð samkv. þeim reglum, sem hinu nýja hlutafélagi voru settar með þessum brbl., sem hér eru til staðfestingar. Forsöguna þekkja flestir hv. þm. Það höfðu farið fram samningaumleitanir um meira en eins árs skeið undir forustu samgrn. við bæði flugfélögin um, að þau sameinuðust undir einni yfirstjórn í einu félagi. Með þessu töldu allir, sem hlut áttu að máli, að flugstarfsemin í landi okkar yrði efld og yrði afstýrt áframhaldandi t,jóni af samkeppni, harðri samkeppni á vissum flugleiðum, sem átt hafði sér stað á milli flugfélaganna um sinn og sýndist stefna frekar til ófarnaðar. Stjórnir beggja flugfélaganna féllust að lokum á þau samningsdrög, sem samgrn, lagði að lokum fram, og síðan voru samþykktir flugfélagsstjórnanna bornar í báðum félögunum undir hluthafafundi, og þar var einnig lagt samþykki á samningsgerðina.

Það þótti þó nauðsynlegt að setja ýmis lagaákvæði, þar sem ekki þótti falla alveg innan ramma hlutafélagalöggjafarinnar sá félagsrammi, sem nauðsynlegur þótti að áliti kunnugustu manna. Þess vegna voru þessi brbl. sett. Það var m.a. til þess að veita félögunum tryggingu gegn margsköttun og til þess að koma í veg fyrir þyngingu á skattbyrði hluthafa af eignarskatti, sem sameiningin gæti valdið og þeir hefðu alls ekki lent í, ef félögin hefðu haldið áfram sitt í hvoru lagi, og það þótti ekki sanngjarnt. Það þótti einnig mikilvægt að ganga sem allra vendilegast og tryggilegast frá því, að sameining félaganna tryggði lögformlegan starfsgrundvöll fyrir hið sameinaða nýja félag. Það voru færustu lögfræðingar, sem fóru í það af hendi beggja félaganna og af hendi rn. að kanna, hvaða nauðsynleg lagaákvæði þyrfti að setja sem frávik frá hlutafélagalöggjöfinni til þess að tryggja hinu nýja félagi eðlilegan starfsgrundvöll. Var ætlunin, að hið nýja sameinaða félag tæki til starfa 1. ágúst í sumar, og svo varð. Þess vegna var nauðsynlegt að setja þessi brbl. fyrir þann tíma, og það var gert, eins og ég áðan sagði, fyrir miðjan júlímánuð í sumar.

Samgn. þessarar d. hefur lagt til, að málið verði samþykkt, og ég hef ekki fleiri orð um það. Þetta er sem sé mál, sem er þannig vaxið, að það hefur aldrei verið ágreiningsmál og er samkomulagsmál, og efni frv. er að öllu leyti komið til framkvæmda, en formsins vegna þarf það þó staðfestingar þingsins að sjálfsögðu.