14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 470 og 494 er álit félmn. um frv. til l. um kaupstaðarréttindi til banda Seltjarnarneshreppi Þetta frv. var flutt snemma á þessu þingi af 5 þm. í Reykjaneskjördæmi og hefur verið til ítarlegrar athugunar í hv. félmn. síðan í nóv. s.l., er það fyrst var rætt, en alls hefur það verið tekið fyrir á 8 fundum n. ásamt reyndar öðrum hlið stæðum frv., sem væntanlega fá afgreiðslu frá félmn. fljótlega. N. varð sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. með þeim breyt., sem getur á þskj. 494 og ég mun skýra hér á eftir.

N. fékk á sinn fund ráðuneytisstjórann í dómsmrn., og málið var rætt ítarlega við hann, en sér stök ósk hafði komið fram við 1. umr. frá hæstv. dómsmrh. um, að dómsmrn. fengi að fylgjast með málinu. Síðar kom svo fram ósk frá hæstv. dómsmrh. þess efnis, að réttarfansnefnd yrði sent málið til umsagnar, og varð n, að sjálfsögðu við þeirri ósk. Í sem allra stystu máli má segja, að félmn. hafi tekið fullt tillit til þeirra till., sem dómsmrn. lagði fram til breyt. á frv., svo og ábendingar réttarfarsnefndar. Má því ætla, að allir geti verið ánægðir nema e.t.v. Seltirningar, sem fá ekki óskir sínar uppfylltar að fullu. Þó hef ég ástæðu til að ætla, að þeir sætti sig mætavel við það, að málið verði afgreitt með þeim hætti, sem n. leggur til, enda fæst með því sú höfuðósk uppfyllt, að Seltjarnarneshreppur fær kaupstaðarréttindi.

Eins og ég gat um, var réttarfarsnefnd sent þetta mál til umsagnar, og í umsögn n. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á landi fara sömu menn,“ — þ.e. bæjarfógetar og sýslumenn, — „með dómsstörf, lögreglustjórn og umboðsstörf ýmiss konar. Sjálfsagt verður þess ekki langt að bíða, að núverandi skipan verði breytt hér á landi í það horf, að dómsstörf og umboðsstörf verði aðskilin. Verður þá að setja á stofn héraðsdómstóla utan Reykjavíkur, er taki við dómsstörfum bæjarfógeta og sýslumanna að verulegu leyti. Er það eitt af aðalverkefnum þessarar n. (þ.e. réttarfarsnefndar) að gera till. í þessu efni. Einnig er nauðsynlegt að taka til endurskoðunar núverandi mörk lögsagnarumræma, sem eru víða mjög óeðlileg miðað við staðhætti og breyttar aðstæður, t.d. í samgöngumálum. Við endurskoðun á þessu verður að hafa í huga hagsmuni þjóðarheildarinnar jafnt sem einstakra landshluta. Þess vegna telur réttarfarsn. æskilegt frá réttarfarslegu sjónarmiði, að sem allra minnstar einstakar breyt. verði gerðar á núverandi dómstóla- og lögsagnarumdæmaskipan, meðan heildarendurskoðun er ekki lokið, þar sem slíkt gæti valdið erfiðleikum við endurskipulagningu síðar. N. telur einnig óæskilegt, að umdæmi dómara og lögreglustjóra séu mjög fámenn, auk þess hefur fjölgun umdæma í för með sér veruleg útgjöld fyrir ríkissjóð. N. mælir því gegn því, að sett verði á stofn að svo stöddu ný bæjarfógeta-, sýslumanns- eða lögreglustjóraembætti.“

N. hefur tekið tillit til þessara skoðana réttarfarsnefndar, og eru brtt. hennar í samræmi við þetta. En áfram segir í umsögn réttarfarsnefndar:

„Það er hins vegar utan verksviðs réttarfarsnefndar að gera till. um skipan sveitarstjórnarmála, en benda má á, að mörk lögsagnarumdæma og sveitarstjórnarumdæma þurfa ekki nauðsynlega að fara saman. Ekki virðist heldur óhjákvæmilegt að stofna bæjarfógetaembætti, þó að sveitarfélag, þar sem sýslumaður hefur ekki aðsetur, fái kaupstaðarréttindi. Slíkt yrði ákveðið í l. um viðkomandi kaupstað. Sami maður gæti verið bæjarfógeti í tveimur kaupstöðum á líkan hátt og hann getur í senn verið bæjarfógeti og sýslumaður. Mætti þá setja upp í hinum ný,ja kaupstað skrifstofu í tengslum við aðalskrifstofu bæjarfógetans.“

Þetta var ár umsögn réttarfarsnefndar. Mér þótti rétt að lesa upp úr umsögn n., vegna þess að brtt. n. ganga beint í þessa sömu átt.

Till. þær, sem félmn. fékk frá dómsmrn., eru mótaðar af þessu sama sjónarmiði, þ.e. að ekki verði stofnað sérstakt embætti í hinum nýja kaupstað. Þarna var um tvo möguleika að ræða, og ég þarf aðeins að skýra það, hvers vegna félmn. hefur gefið út tvö álit. Fyrra álitið er á þskj. 470, en síðara álitið, framhaldsálitið, á þskj. 494 og þær till., sem þar greinir, koma í stað till. á þskj. 470. Fyrra álitið gerði ráð fyrir, að hin ýmsu embætti ríkisvaldsins í Reykjavík sinntu Seltjarnarneskaupstað eða Seltjarnarneskaupstaður fengi þjónustuna þaðan. Þetta voru till. dómsmrn., sem félmn. gerði að sínum. En það, sem varð þess valdandi, að félmn. athugaði málið að nýju, eins og segir á þskj. 494, var það, að hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps hélt fund í gær og þar var m.a. til meðferðar bréf, sem hv. 1. þm. Reykn. hafði ritað hreppsnefndinni fyrir hönd þm. Reykn. af því tilefni, að komið hafði upp ágreiningur eða skiptar skoðanir í Seltjarnarneshreppi um það, hvort þeir ættu heldur að fá þjónustu frá embættunum í Reykjavík eða Hafnarfirði. Hreppsnefndin samþykkti einróma að óska frekar eftir þjónustu frá Hafnarfirði, og við það eru þessar till. félmn. miðaðar.

Með samþykkt þessa frv. eins og félmn, leggur til, að það verði samþ., fær Seltjarnarneskaupstaður að öllu leyti þau réttindi, sem kaupstaðir hafa samkv. sveitarstjórnarlögum, og af sjálfu leiðir einnig, að þau lög, sem kveða á um sérstök réttindi eða skyldur kaupstaða á annan veg en gilda um hreppa, eiga einnig hér við. Í því sambandi nefni ég þjónustu sjúkrasamlags, tryggingaumboð almannatrygginga o.fl. Ein meginástæðan fyrir óskum íbúa Seltjarnarness, að sveitarfélagið fái kaupstaðarréttindi, er einmitt sú, að þessi og önnur þjónusta, sem ríkið lætur íbúum bæjarfélagsins í té, færist inn í sveitarfélagið, auk þess sem sveitarfélagið öðlast meira sjálfstæði samkv. sveitarstjórnarlögum.

Ég legg áherslu á, að bæjarfógeti, þótt hann sitji í Hafnarfirði, hafi ákveðna þjónustu innan hins nýja kaupstaðar. Ég á þar sérstaklega við, að veðmálabækur verði þar, en ekki í Hafnar firði, enda verði skrifstofa bæjarfógeta opin þar um einhvern tiltekinn tíma í viku hverri.

Ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál. Ég vil aðein.s undirstrika, að hér er farið inn á nokkuð nýja braut, sem snertir réttarstöðu sveitarfélaganna og þó kannske sérstaklega skipan dómsvaldsins, án þess að nokkru sé haggað við lögum um það efni. Það er viðurkennt, að stofnun nýs bæjarfógetaembættis þarf ekki nauðsynlega að fara saman við öflun kaupstaðarréttinda, eins og áður hefur verið reglan. Þau mörgu frv., sem lögð hafa verið fram á þessu þingi um kaupstaðarréttindi fyrir ýmis sveitarfélög, vekja menn einnig til umhugsunar um nauðsyn þess, að hraðað verði endurskoðun á umdæmaskiptingu landsins yfirleitt, skipan dómsvaldsins o.fl. og ekki síst réttarstöðu sveitarfélaganna.

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að öll sveitarfélög, hvort sem um er að ræða í dreifbýli eða þéttbýli, ættu að hafa sömu réttarstöðu. Við búum nú við stjórnkerfi, sem hefur orðið til við allt aðra þjóðfélagshætti en nú eru og er af skiljanlegum ástæðum að ýmsu leyti orðið úrelt. En þótt heildarendurskoðun hafi ekki farið fram og jafnvel þótt hún standi yfir, þá er ekki ástæða til að standa í vegi fyrir úrbótum, sem útlátalaust er að láta í té. Ég segi þetta vegna þess, að þær raddir hafa heyrst, að ástæðulaust væri að samþykkja þetta frv. eða önnur hliðstæð á þessu þingi, heldur bíða eftir nefndri endurskoðun. Á þetta fellst ég ekki, einfaldlega vegna þess, að það er ekki hægt að benda á, að neinu sé spillt eða komið verði í veg fyrir frekari umbætur með samþykkt þessara frv. — Þetta er útlátalaust fyrir ríkissjóð og eindreginn vilji íbúa þessa uppvaxandi sveitarfélags og annarra þeirra, sem farið hafa fram á hliðstæð réttindi. Ég vonast því til, að frv. með þeim breyt., sem getur á þskj. 494, fái greiða leið í gegnum hv. þd.