14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2852 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það gleður mig að heyra, að hv. þm., sem síðast talaði, virðist nú vera búinn að fá áhuga á því máli, sem hann er 1. flm. að, en þegar hann seinast tók þátt í umr. um þetta mál, virtist mér hann vera orðinn andstæðingur þess, að málið yrði afgr. Það er ágætt að taka sinnaskiptum, og ég lasta það síst af öllu.

Um það, að hann hafi ekki verið boðaður á fund n. síðast, þá stendur það nú þannig, að í félmn. eru fastir fundardagar, og það hefur öllum verið gert kunnugt, að fundir þar eru á mánudögum kl. 11, og þarf ekki að tyggja það í menn í hvert einasta skipti, að ég vona. Menn eiga það því við sjálfa sig, hvort þeir gefa sér tóm til þess að mæta á nefndarfundum eða ekki. Það hefur ekki verið haldið leyndu fyrir neinum, að þetta eru fastir fundardagar, og þá eiga menn að mæta. (Gripið fram í: Var hann ekki boðaður?) Fundurinn var ekki sérstaklega boðaður. Það hefði orðið að gerast á fimmtudegi, og ef menn eru svo minnislausir, að þeir muna ekki eftir sínum föstu fundardögum, þá á ég þess ekki von, að þeir muni það fremur frá fimmtudegi til mánudags.

Það virðist eins og einhver taugaveiklun hafi gripið um sig út af því, að það mál, sem snertir kaupstaðarréttindi fyrir Seltjarnarnes, er lagt hér fram sem sjálfstætt mál. Það er líka út af fyrir sig sjálfstætt mál. En það þarf enginn að vera hræddur um, að það hafi ekki í n. verið skoðað allt í heild. Þessi frv., sem eru 5 um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi, frv. til l. um kaupstaðarréttindi fyrir Grindavík, Eskifjörð, Dalvík og Bolungarvík eða Hólshrepp, — þessi mál hafa öll verið skoðuð í einni heild í n., og það er öllum nm. kunnugt, sem þar hafa yfirleitt mætt á fundum. Málin voru, eins og hér hefur verið upplýst, send til umsagnar réttarfarsn., og það hafði borist erindi frá dómsmrn. um að fá að fylgjast með þessum málum öllum. — Þess vegna var ráðuneytisstjóri dómsmrn. kallaður á fund til þess að ræða málin öll. Þegar við höfðum svo athugað málin gaumgæfilega hvað eftir annað, kom það í ljós, að dómsmrn. var reiðubúið til að gera till. til n. um lausn allra þessara frv., og það liggur nú fyrir og það hefur einnig verið látið ganga til formanns félmn. hv. Ed., til þess að afgreiðslan yrði með sama hætti þar, að því er varðar þau tvö mál, sem þar voru borin fram, en það var um kaupstaðarréttindi til handa Eskifirði og Grindavík. Það er því tryggt, að afgreiðslan í félmn. beggja deilda verður með sama hætti, út frá sömu grundvallarsjónarmiðum. En það verður samt nokkur breyting á frá einum stað til annars eftir staðháttum og eftir því, hvernig málin liggja þar fyrir, m.a. hvort það er lögreglustjóri á staðnum eða hvort það er þar sýslumaður sitjandi, — sýslumaður, sem þá yrði bæjarfógeti í hinum nýja kaupstað. Þá eru breyt. með öðrum hætti, en til þess að fá þó sömu réttarstöðu hins nýja kaupstaðar.

Ég held því, að það sé algerlega óþarft að vera neitt hræddur um, að sé verið að taka eitt mál út úr án tillits til hinna málanna. Það hefur einmitt verið litið á þetta allt í heild, og afgreiðslan verður öll með þeim hætti, sem við á, á hverjum þessara 5 staða. T.d. að því er snertir Bolungarvík, þá er það nú orðið alveg augljóst mál, að breyt. að því er þann stað varðar verður á þann veg, að 1. gr. verður þar óbreytt í frv., eins og það var lagt fram, en 2. gr. kemur til með að verða orðuð svo:

„Lögreglustjórinn í Bolungarvík verður bæjarfógeti í Bolungarvíkurkaupstað. Hann hefur á hendi sömu störf og öðrum bæjarfógetum eru falin í sínum umdæmum og með þeim kjörum, sem þeim eru ákveðin.“

Og svo er nánast um bráðabirgðaákvæði að ræða þar og líklegast í öllum frv. um, að dómsmrh. skipar fyrir um, hvernig málum þeim við embætti sýslumannsins, í þessu tilfelli í Ísafjarðarsýslu, sem varða hagsmuni í Hólshreppi og ekki eru útkljáð, þegar lög þessi öðlast gildi, skuli skipt milli sýslumannsins í Ísafjarðar

sýslu og bæjarfógetans í Bolungarvíkurkaupstað. Þannig er þetta með nokkuð öðrum hætti varðandi Bolungarvíkurfrv.

Það liggja fyrir till. um öll frv. að því er snertir það, að þau séu afgreidd með sama hætti. Ég sá enga ástæðu til þess að slengja saman þessum þremur frv., sem lágu fyrir n. og okkar þd., heldur afgreiða þau hvert sem sjálfstætt frv. Það skiptir engu máli um það, hvort eitt frv. er afgreitt í dag, en hin frv. á morgun eða hinn daginn, og held ég, að engin rök liggi til þess að heimta það.

Með þessu, sem ég nú hef sagt, vil ég vona, að mönnum sé ljóst, að það er ekkert verið að ota þessu máli eða pota því fram sér, þó að hin frv. verði ekki afgreidd á sama degi. Till. um lausn þeirra allra liggja fyrir og í báðum d. með sama hætti, og vona ég þá, að mönnum verði hugarhægra.