14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég skil ekkert í þeirri ókyrrð, sem hefur gripið þá félaga, hv. þm. Sverri Hermannsson og Stefán Valgeirsson.

Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem hv. formaður félmn. sagði hér áðan. Hann hefur rakið það, að það er ekki verið að taka þetta mál út úr. En það er heldur ekkert óeðlilegt við það, þótt það frv., sem fyrst var flutt af öllum þessum frv., komi fyrst til umr. hér í d. Er nokkuð óeðlilegt við það?

Hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur kannske ekki áttað sig á því nógu snemma, að frv., sem varðar sveitarfélagið í hans kjördæmi, er alls ekki í Nd., það er í Ed. Þm. Austf. talar um það hér í ræðustól á þingi, að Seltjarnarneshreppur ætti að sameinast Reykjavík. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Þetta er talað alveg út í vindinn og engin ástæða til þess að ansa því. Það er ekki verið að skáskjóta hér neinu í gegn, eins og ýmsir reyna nú reyndar hér á hv. Alþ., það er ekki verið að gera það í þessu máli.

Hv. formaður n. einnig svaraði hv. þm. Stefáni Valgeirssyni varðandi fundahöldin í félmn. Það eru fastir fundartímar á mánudögum, — ekki kl. 11 að vísu, heldur kl. 9, — en ég sagði hér áðan, að þessi frv. hefðu verið rædd á 8 fundum n. Af þeim hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson setið tvo. Það er því kannske ekki að furða, þó að honum þyki, að nú þurfi hann að fara að skoða málið, eftir að það er komið hingað til umr. og út úr n. Þessi fjarvera hv. þm. Stefáns Valgeirssonar er ekki að öllu leyti af því, að hann hafi vanrækt sínar skyldur, heldur voru tveir af þessum fundum haldnir, meðan hann sat ekki á þingi, og varamaður hans tók þá þátt í störfum n. En síðustu fundi hefur hann ekki setið, og hann hefur vafalaust sínar ástæður fyrir því.

Ég þarf ekki að bæta meiru við þetta. Það hefur verið rakið, að öll þessi frv., sem eru til meðferðar í hv. félmn. Nd., hafa verið athuguð. Það hefur verið haft samráð við ráðuneytisstjórann í dómsmrn., og hann hefur skilað sínum till. og ábendingum til n. Ég held, að það sé ekki ástæða til að ætla annað en félmn. afgreiði þessi mál á næsta fundi eða næstu fundum sínum.