14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti Samgn. fjallaði á einum fundi um frv. um happdrættislán ríkissjóðs til þess að fullgera Djúpveg og opna þannig hringveg um Vestfirði á einum fundi og varð sammála um að mæla með því, að það yrði samþ., með tveimur breyt. þó.

Í frv., sem var flutt snemma þings, hafði verið gert ráð fyrir því, að bréfaútgáfan, sem í frv. greinir, færi fram fyrir marslok 1974, en þar sem sá tími var liðinn, þegar n. afgreiddi málið, varð fullt samkomulag um það, að þessi tímamörk yrðu sett við 15. maí. Fyrir n. lá uppdráttur af Djúpvegi, einkanlega þeim kaflanum, sem hálfgerður og ógerður er enn, en það er frá bænum Skarði við Skötufjörð og Eyri við Seyðisfjörð. Þetta er rösklega 50 km vegalengd. Á þessu vegarstæði er búið að fullundirbyggja veginn að miklum hluta og aðeins eftir að leggja á hann malarslitlag, og einnig er svo með veginn að Eyri í Seyðisfirði. Það er búið að fullgera hann þangað og fullgera hann að öðru leyti en því, að eftir er að leggja á hann slitlag að bænum Kleifum við Seyðisfjarðarbotn. Algerlega er eftir að leggja veg um 4.2 km vegalengd, eftir að fullgera nokkra tugi km, en búið þó að undirbyggja veginn að öðru leyti en að 4.2 km haft er þarna af alveg ógerðum vegi. Fyrir lá líka áætlun frá Vegamálaskrifstofunni um það, að til þess að ljúka vegagerðinni þyrfti a.m.k. rúmar 105 millj. kr. Á þessa árs vegáætlun er nokkurt fé enn til Djúpvegar, og til þess að sú skuldabréfaútgáfa, sem frv. er gert ráð fyrir, nægði til þess að fullljúka Djúpvegi, þá féllst n. á að breyta upphæðinni úr 60 í 80 millj. Á þessum nefndarfundi var fjarverandi Sverrir Hermannsson, en hann lét þau boð berast fundinum, að hann væri eindreginn fylgjandi þessa máls, og virðist mér því mega fullyrða, að n. hafi verið sammála um þessa afgreiðslu málsins, að fresturinn til bréfaútgáfunnar yrði til 15. maí og upphæðin, 60 millj., hækkaði í 80 millj. Ef hv. d. fæst til að samþykkja þetta frv. svo breytt, ættu að liggja fyrir heimildir til fjáröflunar til þess að geta lokið Djúpvegi, en sú vegagerð er búin að standa yfir hátt á annan áratug og margir orðnir langeygir eftir því, að fyrir endann sjáist, eða réttara sagt, endarnir nái saman og Djúpvegur verði .opnaður til umferðar. Það er líkt með þennan veg og eins og með Miklubrautina hér í Reykjavík. Það var haft sem skrýtla eftir krakka, þegar hann var spurður, — krakkinn, — að því, hvað hann ætlaði að gera, þegar hann yrði stór. Ja, hann ætlaði að vinna í Miklubrautinni eins og hann pabbi og hann afi höfðu gert.

Djúpvegurinn hefur sem sé tekið langan tíma, og enn sér ekki fyrir endann á honum. En nú reynir á það, hvort Vestfirðingar sjálfir heima fyrir eru reiðubúnir til þess að leggja nokkuð á sig til þess að ljúka þessari vegagerð, þessari nauðsynlegu samgöngubót, bæði fyrir íbúa Norður-Ísafjarðarsýslu og Ísafjarðarkaupstaðar, sem báðir hljóta gagnsemd af þessum vegi. Það er auðvitað mikils virði fyrir Ísafjarðarkaupstað að fá vegasamband við sveitabyggðirnar við Djúp og Djúpmönnum að fá beint akvegasamband við sína aðalverslunarmiðstöð. Það stendur hvorum tveggja aðilanum fyrir þrifum, að þessi vegagerð hefur ekki orðið að veruleika fyrr.

Það er von okkar flm., — en allir Vestfjarðaþm. standa að þessu frv., — að bréfasalan gangi vel og með þessum hætti takist að útvega nokkra tugi millj. kr. til þess að geta hraðað þessari vegagerð, sem svo lengi hefur staðið yfir. Um þetta vitum við auðvitað ekki, en það er okkar von, að bæði Vestfirðingar búsettir utan heimahaganna og Vestfirðingar heima í héraði hafi áhuga á þessu máli og leggi þarna líknarlófann á, að þessu verki megi fást lokið. Algert samkomulag er sem sé um málið, og ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 3. umr., þegar þessari umr. lýkur.