14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2859 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það, að þessi tvö mál hafa farið sitt til hvorrar n., er, eins og hér var sagt rétt í þessu, ekkert einsdæmi. Við Vestfjarðaþm. höfum lagt til, að málið færi til samgn., og það hefur þingheimur samþ. Ég minnist þess ekki, að hv. þm., sem gerði aths. við þetta, hafi borið fram aðra uppástungu, sem hefði staðið honum opið, einkanlega þegar hann vissi um, að mál, sem hann bar fyrir brjósti, hafði farið til annarrar n., svo að þessi aths. var dálítið síðborin hjá honum, verð ég að segja.

En úr því sem komið er, held ég, að þetta mál geti aðeins með einu móti komið hinu málinu að gagni, nefnilega með því, að þetta mál verði sem allra hraðast samþykkt og rösklega. Það opnar heldur hinu málinu leið. En það að fara að leggja þetta mál á meltu með hinu, gæti orðið til þess að leggja þau bæði í eina gröf, og með því væri Norðlendingum enginn greiði gerður. Auk þess er dálitill eðlismunur á þessum tveimur málum. Djúpvegarmálið á bráðum sitt 25 ára afmæli. Vegleysur um sveitarfélögin sunnan Djúps eru búin að hrjá þetta byggðarlag, frá því að þessi vegur var tekinn á vegalög fyrir um það bil 25 árum. Það er enginn velgerningur við Vestfirðinga að leggja stein í götu þess, að þessari vegagerð verði lokið, og það veit ég, og það tók nú hv. þm. fram, að hann vildi ekki gera, og þakka ég honum það.

Þetta mál er um það að opna mjög þarfa og langþráða samgönguleið og afla fjár til þess hjá heimamönnum eða freista þess a.m.k. Þetta mál er þannig samgöngumál fyrst og fremst. Og allar upplýsingar, sem við þurfum að sækja í sambandi við afgreiðslu þessa máls, urðum við að sækja til Vegamálaskrifstofu. Rökin, sem málið hvílir á, komu þaðan, m.a. fyrir brtt., sem hér voru fluttar, byggðar á upplýsingum frá samgrn. og frá Vegamálaskrifstofunni.

Frv. um að endurbæta Norðurlandsveginn, sem er mikið nauðsynjamál, er eingöngu um fjáröflun til þess og hefur þess vegna farið á sinn rétta stað, til fjh: og viðskn. Það eru samgöngur um Norðurlandsleiðina núna í fullum gangi, en fjárhagshliðin er óleyst: Á að gera hana að malbikuðum vegi eða olíumalarvegi? (LárJ: Er það ekki jafngilt samgöngumál?) Nei, það er eðlismunur á þessu, og ég vona, að hv. þm. játi það innra með sér, þó að bann geri það kannske ekki með vörunum, af því að honum finnst það ekki henta á þessari stundu. En ég álít, að það hafi verið mjög eðlilegt, að þetta samgöngumál, stærsta samgöngumál Vestfjarða í augnablikinu, Djúpvegurinn, hafi átt heima í samgn., og þaðan hefur það nú verið afgreitt. Ég vil biðja þess, að menn leggi engan stein í götu þess, því að með því mundu menn sennilega vinna Norðurlandsmálinu ógagn. Ef þetta mál er afgreitt, þá er hitt málið a.m.k. að einhverju leyti nær því að fá einnig lausn.