15.03.1974
Efri deild: 79. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2861 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

210. mál, umferðarlög

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Um mál þetta hefur allshn. þessarar hv. d. haldið nokkra fundi. Hún hefur auk þess fengið umsagnir frá flestum, ef ekki öllum bifreiðatryggingafélögum, svo og FÍB, Félagi ísl. bifreiðaeigenda og Tryggingaeftirliti ríkisins.

Frv. fjallar um þrjú höfuðatriði:

Í fyrsta lagi, að vátryggingafjárhæðir fyrir hinar lögboðnu ábyrgðatryggingar ökutækja hækki þannig, að þær tvöfaldist. Frá 1970 hefur engin hækkun orðið á þessum vátryggingarfjárhæðum. Vegna þeirrar verðlagsþróunar, sem hefur átt sér stað frá þeim tíma til þessa dags, þykir ekki verða komist hjá þessari hækkun. 1. gr. frv. fjallar einmitt um þessar hækkuðu ábyrgðartryggingar, og n. hefur fallist á að mæla með þessu ákvæði.

Ég vil, áður en ég held lengra, aðeins minnast á þær umsagnir, sem hafa borist um 1. gr. Umsagnir aðila, sem leitað var til, hneigjast yfirleitt að því, að þetta ákvæði verði samþykkt. Einn umsagnaraðili, Tryggingaeftirlit ríkisins, hefur í umsögn sinni látið að því liggja, að þessar vátryggingarfjárhæðir, ef samþykkt væri tvöföldun frá 1970, væru allt of lágar, miðað við það tjón, sem kann að hljótast af ökutæki, sem lendir í slysi. Tryggingaeftirlitið rökstyður þessa skoðun sína allitarlega. Það verður að segja eins og er, að það er mikið rétt í þessu hjá eftirlitinu. En okkur í allshn. þótti þó að athuguðu máli rétt að halda okkur við ákvæðið í 1. gr, frv. En okkur kom til hugar, að síðar þyrfti nánar að breyta ákvæðinu og hækkaðar yrðu enn vátryggingafjárhæðir og færu þær eftir því á hverjum tíma, hvert verðgildi peninga væri, og fylgdu verðlagsþróuninni. N. sýndist þetta eðlilegt og heilbrigt framtíðaráform, en vildi ekki koma með brtt. að þessu sinni, vegna þess að það mundi tefja framgang málsins um of. Eins og hv. dm, er kunnugt, átti þessi löggjöf að koma til framkvæmda 1. mars s.l.

— En vegna þess að við biðum í n, eftir umsögnum og enn fremur eftir viðtölum við sérfræðinga, þá dróst nokkuð á langinn að afgreiða málið, þó að það kæmi nokkru fyrir 1. mars til n. til athugunar. — Mér þótti rétt að geta um þessa umsögn sérstaklega frá Tryggingaeftirlitinu, að því er varðar tryggingafjárhæðir.

Í 2. gr. frv. er svo gert ráð fyrir því, að tekinn verði upp nýr háttur að því er varðar fjármögnun til Umferðarráðs, þannig að vátryggingafélögum sé skylt að greiða 11/2% af iðgjaldatekjum vegna lögboðinna ábyrgðartrygginga ökutækja til umferðarslysavarna, sem renni óskipt til Umferðarráðs. Um þetta ákvæði frv. ræddum við mjög í n. Sú varð niðurstaðan að lokum, að n. þótti ekki rétt að leggja þetta gjald á og hafði þá höfuðástæðu uppi, að Umferðarráð ynni ekki aðeins að slysavörnum í sambandi við bifreiðar og önnur ökutæki, heldur væri þar um nánast almennar slysavarnir að ræða, og af þeirri sök ætti ríkissjóður að greiða til Umferðarráðs það fjármagn, sem það þyrfti á hverjum tíma. Í umsögnum frá tryggingafélögunum kemur það yfirleitt fram, hjá þeim flestum, að þetta gjald eigi ekki heima á þessum stað. Eitt tryggingafélagið bendir á, að það mætti e.t.v. innheimta slíkt gjald með bensínskatti, en að öðru leyti eru þau öll á því máli, að þetta gjald, eða kostnaður við Umferðarráð eigi að greiðast úr ríkissjóði. Þannig, eins og ég sagði áður, hefur allshn. lagt til, að þessi grein falli með öllu niður.

Í 3. lagi fjallar frv. um sjálfsábyrgðarákvæði laganna. Tryggingafélögin öll eru á einu máli um það að kalla og ég held alveg, að sjálfsábyrgðin hafi leitt gott af sér og eigi að halda því ákvæði sem mest óskertu. Sum tryggingafélögin segja meira að segja, að sjálfsábyrgðarákvæðið hafi orðið að verulegu gagni. Skv. ákvæðum frv. ætti sjálfsábyrgðarfjárhæðin að hækka um 100%, þ.e.a.s. úr 7 500 kr., eins og er í dag, og upp í 15 000 kr. N, þótti þetta of hátt stökk og hefur í brtt. sínum gert ráð fyrir því, að krónufjárhæðin hækki úr 7 500 upp í 12 000 kr. eða hækki um 20/00 af vátryggingarfjárhæð, eins og hún yrði, ef frv. yrði að lögum.

Það eru þessar tvær breyt., sem n. gerir á frv., í fyrra lagi að fella niður gjaldið til Umferðarráðs og í öðru lagi, að sjálfsábyrgðin miðist við 20/00 af vátryggingarfjárhæð og yrði þá, eins og ég sagði 12 000 kr.

Ég held, að ég orðlengi ekki frekar um frv. Ég vænti þess, að okkar till. í allshn. verði vel tekið af hv. dm.

Ég sé, að hér er komin á borð dm. brtt. frá hv. þm. Eggert G. Þorsteinssyni. Brtt. lýtur að því, að eiganda dráttartækis skv. 67. gr. 1. mgr. umferðarlaga sé heimilt að kaupa tryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélags skv. sjálfsábyrgðarákvæðum, þegar endurkrafa er sprottin af tjóni vegna dráttar á öðru ökutæki.

Hér er farið fram á nokkuð víðtæka undanþágu frá sjálfsábyrgðarákvæðinu. Við í n. ræddum um till., sem er að efni eins og þessi, og okkur kom ásamt um það, að n. sem slík gerði ekki till, í þessu efni, en einstakir nm. áskildu sér rétt til að bera fram till. eða fylgja till. að þessu leyti.

Ég held, herra forseti, að ég hafi ekki ástæðu til þess að ræða frekar um brtt. allshn., og ég er ekki að leggja það á dm., þar sem stærri mál og tímafrekari munu vera fram undan, að lesa upp umsagnir tryggingafélaganna, þó að í raun og veru séu þær margar á þá lund, að þær ættu að vekja eftirtekt og leiða til umhugsunar um vátryggingamál almennt. En það verður þá að biða síns tíma.