15.03.1974
Efri deild: 79. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

210. mál, umferðarlög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef um sjálft aðalfrv. engu við bað að bæta, sem hv. frsm. n. hefur þegar gert grein fyrir og fram kemur á þskj. 489, í brtt, n. við frv.

Ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er aðeins vegna þeirra brtt., sem ég hef flutt á þskj. 482 og varða eitt einstakt atríði í þessu máli. En svo háttaði til á síðasta þingi, þegar sömu lög voru til umr., að erindi Sendibílstjórafélagsins Trausta kom inn við lokaafgreiðslu málsins. Þótti ekki fært þá að stöðva framgang málsins, þó að nm. þá eins og nú hefðu ekki aths. við erindi þetta að gera, og margir létu í ljós samþykkt sína á þeirri breyt., sem þar var lögð til. En það var talið, að það mundi geta torveldað framgang lagabreytinganna, sem þá voru til umr.

Ég hef þess vegna nú með sama vilja og á síðasta þingi tekið upp þessa till., þar sem hún er komin mun fyrr fram nú en þá, og kemur hún fram á þskj. 482. Ég held, að eðlilegast væri, að ég skýrði þessa brtt. mína með því bréfi, sem fylgdi beiðni umræddra aðila á síðasta þingi, og lesa það upp og hafa það sem forsendu minna till., ef til frekari skýringa mætti verða. Bréfið er dags. 9. febr. 1972 og ætti að vera, eins og ég segi, til skýringar á þeirri brtt., sem ég flyt á þskj. 482 og hafði, þó að n. flytji ekki till., að því er ég best veit og tel mig ekki halla réttu máli, fulla samúð í n., þótt ekki væri talið rétt, að n. sem slík flytti hana. A.m.k. var engum andmælum gegn henni hreyft í n. Umrætt bréf er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Til meðferðar hjá yður er nú frv. til l. um staðfestingu á brbl. um breyt. á umferðarl., nr. 40 frá 1968, er út voru gefin 11. jan. s.l. Aðalefni þessara brbl. er að leggja þá kvöð á fébótaskyldan eiganda ökutækis, að hann taki sjálfur þátt í greiðslu tjónbóta að nokkru leyti með því að endurgreiða viðkomandi vátryggingafélagi kr. 7 500, sem þá var um beðið, af hverju tjóni, er félagið bætir fyrir hann. Jafnframt banna brbl., að keypt sé trygging gegn endurkröfu vátryggingafélaganna.

Sendibílstjórar hafa um margra ára skeið veitt mörgum þá þjónustu að draga bíla þeirra í gang, þegar kalt er að vetrarlagi, svo og látið í té aðra dráttaraðstoð, þegar á þarf að halda. Er hér um að tefla varanlegan þátt í atvinnustarfsemi sendibilstjóra og jafnframt nauðsynlegan í þjónustu við almenning. Þegar bifreið dregur aðra bifreið, er sérstök slysahætta fyrir hendi. Eiga sér þá stundum stað óhöpp, sem oftast er hægt að rekja til óvarkárni eða mistaka þess, sem situr undir stýri þeirrar bifreiðar, sem dregin er. En í slíkum tilfellum lendir öll ábyrgðin á eiganda dráttartækisins, þ.e. sendiferðabifreiðarinnar, því að í 67. gr. umferðarlaga stendur:

„Ef vélknúið skrásetningarskylt ökutæki dregur annað tæki og tjón hlýst af, er eigandi dráttartækisins ábyrgur.“

Af framangreindu má ljóst vera, að brbl. koma illa við sendibílstjóra og þá um leið aðra þá, er þessa starfsemi inna af hendi. Er þetta mál svo alvarlegt í þeirra augum, að þeir munu, ef eigi fæst breyting á, hætta með öllu þeirri þjónustu að draga bifreiðar vegna þeirrar sérstöku áhættu, sem þessum störfum fylgir. Sendibílstjórar treysta sér ekki til að halda þessari starfsemi áfram við þær aðstæður að eiga yfir höfði sér margar endurheimtukröfur vátryggingafélaga.

Það er eindregin ósk félags okkar, að hæstv. allshn. beiti sér fyrir nauðsynlegri breytingu á frv., er bæti úr þeim misferlum, sem rakin er hér að framan. Sennilega væri einfaldast að gera þetta á þann hátt að heimila sendibílstjórum og öðrum, sem atvinnu hafa af því að draga ökutæki, að kaupa tryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélags í þeim tilvikum einum, þegar ábyrgð er á þá lögð sem eigendur dráttartækis.“

Þetta er það erindi, sem fyrir allshn. lá, þegar umrædd lög voru síðast til umr., og í framhaldi af því hef ég flutt þá brtt., sem birtist á þskj. 482, þar sem mér er fullljóst og veit það með vissu frá stjórn hlutaðeigandi aðila, að ef ekki fæst þessi sjálfsagða leiðrétting á, þá muni þeir draga að sér höndina, svo að ekki sé meira sagt, eða hætta með öllu þessari nauðsynlegu þjónustu. Við þekkjum þetta ósköp vel í okkar misjöfnu veðráttu, og flest okkar höfum kannske þurft að gripa til þess að kaupa þessa nauðsynlegu þjónustu. Ef henni verður hætt, er meiri vá fyrir dyrum en þó að umrædd breyt. sé gerð á l. Brtt. fjallar um það eitt, að umræddum aðilum sé heimilt að kaupa sér endurtryggingu á slíkum akstri eða þeirri þjónustu, sem hér er um að ræða.

Ég treysti því, að hv. þd. sé sama sinnis og þeir, sem ræddu um málið í n., svo að umrædd till. mín verði samþykkt.