15.03.1974
Efri deild: 79. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2864 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

210. mál, umferðarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Sunnl., er ekki samstaða um það innan n., að samþykkja 11/2% nýjan skatt af iðgjaldagreiðslum bifreiðaeigenda til þess að rísa undir starfi Umferðarráðs. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú, að það var ekki talin nægileg ástæða til þess að leggja á nýjan skattstofn, miklu eðlilegra væri hitt, að undir störfum Umferðarráðs væri staðið með sameiginlegum sjóði þjóðarinnar og gert ráð fyrir því á fjárlögum. Hins vegar er ástæða til að átelja það og lýsa óánægju sinni yfir því, að afgreiðsla fjárlaga skyldi hafa orðið með þeim hætti, að Umferðarráð verði óstarfhæft á þessu ári, eins og fram hefur komið, vegna þess að ónóg framlög hafa til þess runnið. Eins og kunnugt er, hefur Umferðarráð með höndum umfangsmikla kynningar- og fræðslustarfsemi, og árangur hennar er að sjálfsögðu kominn undir því, að því takist að standa að slíkri starfsemi með eðlilegum hætti, en sé ekki svelt, eins og nú er. Það er augljóst af því, að hæstv. dómsmrh. skuli leggja þetta til. Að hans mati eru það um 6 millj. kr., sem þarna vantar upp á, og fæ ég ekki annað séð en það hvíli sú skylda á að reyna að bjarga þessu með öðrum hætti, þannig að starfsemi Umferðarráðs geti orðið á þessu ári eins og til er ætlast.