15.03.1974
Efri deild: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

46. mál, jarðalög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við 1. umr. um mál það, sem hér liggur fyrir, flutti ég brtt. við 27. gr. frv., þar sem fjallað er um eignarnám á jörðum og mat á jörðum, sem fer þá fram samkv. l um framkvæmd eignarnáms. Brtt. var svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Aftan við 27. gr. komi:

Við matið skal ekki taka tillit til verðhækkunar, sem stafar af því, að skipulagt þéttbýlissvæði, sbr. 4. gr. þessara 1., er byggjast upp í næsta nágrenni og veldur óvenjulegri eftirspurn eftir landi, heldur ber að miða við verðmæti einstakra eigna fjarri skipulagsskyldum þéttbýlissvæðum.“

Ég geri ráð fyrir því, að öllum hv. þm. d. sé og hafi verið ljóst, hver tilgangurinn var með flutningi þessarar till. Tilgangurinn var sá að finna úrræði til að leysa það vandamál, sem upp kemur, þegar mætist þéttbýli annars vegar og landbúnaðarsvæði hins vegar og gífurlegar verðhækkanir verða á tiltölulega fáum árum. Þegar þéttbýlið er að ganga inn á landbúnaðarhéraðið, á sér stað gífurleg verðhækkun, sem verður orsök brasks í stærri stíl en yfirleitt þekkist í sveitum landsins ella. Nýjasta dæmi um fyrirbæri af þessu tagi var að sjálfsögðu Votmúlamálið svokallaða, þar sem til stóð, að jörð yrði seld sveitarfélagi fyrir 30 millj. kr. Með till. var sem sagt að stefnt að stemma á að ósi og ráðast á vandann, þar sem hann á rót sína, þ.e.a.s. tryggja það, að við matið sé miðað við verðmæti eignarinnar sem slíkrar, eins og hún hefur verið um langan aldur og er í eðlilegum tengslum við aðrar jarðir í landinu, en að ekki sé tekið tillit til þeirrar verðhækkunar, sem raunverulega stafar af því, að þéttbýli er að risa í næsta nágrenni.

Hv. landbn. hafði till. þessa til meðferðar, eins og aðrar till., sem snerta þetta frv., en skilaði ekki áliti um það atriði. Þó er mér kunnugt um, að ýmsir nm. hugleiddu þetta mál og ræddu það við fróða menn, lögfróða menn sérstaklega, út frá því sjónarmiði, hvort hér kynni að vera um að ræða brot á þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem snerta eignarréttinn, og fengu þau svör, að svo væri vafalaust ekki. Skerðing af þessu tagi væri tvímælalaust heimil samkv. okkar stjórnarskipunarlögum, enda væru okkar ákvæði í stjórnarskipunarlögum, þ.e.a.s. 67. gr. stjórnarskrárinnar, mjög svipuð og stjórnarskrárákvæði í nálægum löndum, sem varða eignarréttinn, og þar eru einmitt í lögum hliðstæð ákvæði, sem heimila, að eins sé tekið á málum og hér er lagt til.

Ég hef fengið ábendingu um það frá mönnum, sem eru reiðubúnir til þess að styðja brtt., að rétt kynni að vera að gera á henni lítils háttar breytingar varðandi síðustu orð till., þar sem segir, að miða beri verðmæti eignanna við verðmæti hliðstæðra eigna fjarri skipulagsskyldum þéttbýlissvæðum. Þetta finnst mönnum óheppilegt orðalag, finnst, að það sé kannske verið að að gefa í skyn, að það eigi að miða við jarðir uppi í afdölum eða einhvers staðar víðs fjarri þéttbýlisstöðum, og þess gerist í raun og veru engin nauðsyn, heldur beri að sjálfsögðu að miða við jarðir, sem eru á venjulegum stöðum. Þess vegna hef ég gert breytingu á gr. og hún er nú svo orðuð, að miðað er við verðmæti hliðstæðra eigna, þar sem þessar ástæður hafa ekki verulega áhrif til verðhækkunar.

Ég hef leyft mér að bera þessa brtt. fram með venjulegum hætti, en brtt. hefur enn ekki verið útbýtt, og ég vil því leyfa mér að leggja hana hér skriflega fram. Þetta er sem sagt brtt. við brtt. á þskj. 105 við frv. til jarðalaga um það að gr. orðist eins og hér stendur skrifað.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að þessi brtt. verði borin undir atkv., ég treysti því, að þdm. veiti stuðning sinn svo sjálfsögðu málefni.