15.03.1974
Efri deild: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér er nú ekki alveg ljóst, hvern hv. þm. Ragnar Arnalds var að sannfæra hér áðan, þegar hann var að hafa sem flest orð um það, að ríkisstj. væri ekki að falli komin. Það er a.m.k. að minni hyggju alveg öruggt mál, að hann hefur ekki fullvissað þá þm. aðra, sem hér voru inni, að svo væri ekki. Sennilega hefur hann verið að fullvissa sjálfan sig, enda munu nú miklar umr. um það innan þessarar ríkisstj., bæði vegna efnahagsmálanna og þess svarta útlits, sem þar er, einnig vegna ágreinings í varnarmálum og loks út af þessu frv., sem hér liggur fyrir núna, að endadægur ríkisstj. skuli vera skammt undan. Þetta eru ekki mín spádómsorð, sem ég hef hér, heldur var ég í gær staddur á fundi, þar sem mætti fulltrúi Alþb., og lét hann svo ummælt, að ef ekki mundi takast samkomulag við Framsfl. í þeim viðræðum, sem nú fara fram um varnarmálin, muni Alþb. kljúfa stjórnarsamvinnuna. Ekki veit ég, hvort þessi ummæli voru rétt höfð eftir, en greinilegt er, að það er mikil ólga þar inni, ekki aðeins út af þessu máli, heldur ýmsum öðrum.

Ég mun, eftir því sem tækifæri gefst, leiðrétta ýmsar missagnir, sem fram komu í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds síðar í máli mínu. Í upphafi máls míns tel ég nauðsynlegt að víkja nokkrum orðum að því, hverjar eru ástæðurnar fyrir þeim umfangsmiklu brtt., sem við í 1. minni hl. fjh: og viðskn. leggjum til á þskj. 506.

Þá vil ég fyrst segja það almennt, að sú var stefna fyrrv. ríkisstj., að almennar launatekjur skyldu verða skattfrjálsar. Það var sú undirstaða, sem viðreisnin var byggð á og byggðist á þeirri heilbrigðu stefnu, að það bæri fremur að skattleggja eyðslu en verðmætasköpun. Fólk, sem leggur mikið á sig við það stundum að bjarga verðmætum við framleiðsluna eða á annan hátt leggur á sig langan vinnudag, á að njóta þessarar vinnu sinnar, og það á að gera því kleift með heilbrigðri og réttlátri skattalöggjöf að leggja nokkuð fyrir og eignast eitthvað.

Það er eins og kunnugt er einhver helsta frumhvöt mannsins og hefur verið mjög einkennandi fyrir Íslendinga að vera ekki í rónni, fyrr en tekist hefur a.m.k. að eignast eigin híbýli og búa þau vistlega. Það er það, sem allir stefna að, og til þess að örva þessa heilbrigðu og skynsamlegu viðleitni einstaklinganna á ríkissjóður að koma þar á móti með því að skattleggja ekki verðmætasköpunina.

Eins og ég sagði, var þetta þungamiðjan í efnahagsmálastefnu fyrrv. ríkisstj. Með stjórnarskipfunum, þegar vinstri stjórnin kom til valda, settist hins vegar í stólinn ríkisstj., sem ekki vildi hafa aðhald í ríkisrekstrinum og stefndi þegar í stað til mikillar þenslu á ríkisbákninu og óhóflegrar eyðslu. Afleiðingin af því varð svo sú, að þeir tekjustofnar, sem áður höfðu verið, nægðu engan veginn þessari eyðsluglöðu ríkisstj., og af þeim sökum var í mikilli skyndingu í árslok 1971 hlaupið til og breytt skattalögum í grundvallaratriðum. Svo mikið lá á, að ekki var einu sinni haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, hvað þá að talað væri við aðila vinnumarkaðsins, eins og ríkisstj. hrósar sér nú svo mikið af að hafa gert, og mun ég koma síðar að því, hvernig á því stendur. Þessi vinnubrögð hæstv. ríkisstj. voru.. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þm., því miður, að gera hlé á máli sínu, vegna þess að það hafa komið fram óskir um að fresta þingfundi til kl. 5, og þá fær hv. þm. að halda áfram máli sínu. Þingfundi er frestað til kl. 5.) — (Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var síðast kominn í ræðu minni, þar sem ég minnti á það, hvernig staðið var að skattafrv. núv. hæstv. ríkisstj., sem hún bar fram í árslok 1971. Frv. var, eins og ég sagði, ekki samið í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, með þeim afleiðingum, að verulega þrengdi að sveitarfélögunum. Urðu þau að grípa til þess mörg hver að nota álagsheimildir fasteignagjalda að fullu, og hrökk sums staðar ekki til. Á hinn bóginn voru með þessu rofin eðlileg tengsl milli atvinnurekstrarins og sveitarfélaganna, þannig að sveitarfélögin höfðu ekki sama ábata af því og áður, að atvinnureksturinn gengi vel. Má í því sambandi minna á, og mér er t.d. kunnugt um það í kauptúni úti á landi, að þar voru á s.l. ári greiddar 2 millj. kr. til ríkisins í tekjuskatt af því frystihúsi, sem þar er. Hins vegar stendur nú fyrir dyrum endurnýjun frystihússins og aðstöðunnar þar, og þess vegna kemur skattlagning af þessu tagi sér mjög illa fyrir sveitarfélagíð, og þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Á hinn bóginn vakti skattalagabreytingin mikla óánægju hjá launþegum, þegar fram í sótti, eins og ég mun koma síðar að í ræðu minni. En í þessu sambandi er það einkum eitt, sem ástæða er til að átelja mjög harðlega, og það er, eins og ég sagði, að endurskoðun þeirra skattalaga skyldi ekki höfð í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, í samráði við aðila vinnumarkaðarins og í samráði við bændastéttina, eins og hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði við þá endurskoðun, sem hún hafði undir höndum á skattalögum.

Það kom líka fram í umr. á Alþingi þegar við 1. umr., að tilgangurinn með nýju tekjuskattslögunum var að hækka beinu skattana. Vil ég í því efni vitna í Tímann 19. des. 1971, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í lok ræðu sinnar sagði hæstv. fjmrh., að það hefði verið mjög gengið inn á það á síðustu árum að gera neysluskattana ráðandi í tekjuöflun okkar, en að dómi núv. ríkisstj. væri slík stefna á margan hátt ekki æskileg. Tekjuskattarnir væru eðlilegri leið til að jafna bilið milli borgaranna í þjóðfélaginu. Ég tel hins vegar, að með þessu frv. hafi verið stillt í hóf í þessum efnum og e.t.v. finnst mörgum of skammt gengið í tekjuöfluninni,“ sagði fjmrh. „Það verður að metast eins og það er, en ég held, að það orki ekki tvímælis, að þetta skattafrv. er þeim verulega í hag, sem lægstar hafa tekjurnar. Það er heldur ekki gengið það langt að þeim, sem hafa verulega góðar tekjur, að ráðstöfunartekjur þeirra séu ekki neitt verulegar.“

Eins og fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum, var það hreinn tilgangur þessara skattalaga frá sjónarmiði hæstv. fjmrh., að gera tekjuskattinn hlutfallslega meiri en neysluskattana í heildartekjuöflun ríkissjóðs. Við umr. um þessar skattalagabreytingar hélt Sjálfstfl. uppi mjög harðri gagnrýni á bæði vinnubrögð í sambandi við skattabreytingarnar og einni hitt, að þessar breytingar væru að mörgu leyti svo vanhugsaðar, að þær gætu ekki staðið til lengdar. Var í því sambandi einkum bent á, hversu óréttlát ákvæði skattalaganna eða skattafrv. voru gagnvart ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Það kom m.a. til af því, að nefskattarnir komu þessu fólki ekki til góða, en einnig átti verulegan þátt í þessu, að hæsta skattprósentan kom á raunverulegt láglaunafólk, ef það skuldaði ekki né hafði annan afslátt.

Strax og skattskráin hafði verið lögð fram sumarið 1972, mátti sjá í blöðum viðtöl við ellilífeyrisþega og voru þeir ómyrkir í máli um þessi skattalög eða þessar álögur hæstv. ríkisstj. Þannig sagði einn ellilífeyrisþeginn: „Mín heildarútgjöld hafa hækkað úr tæplega 1 þús. kr. í fyrra í um 53 þús. kr. í ár.“ Annar sagði: „Þetta er miklu hærra en ég bjóst við og var mun betra í fyrra. Þá borguðum við ekkert útsvar og engan skatt, en í ár þurfum við að borga aftur til ríkisins milli 20–30 þús. kr. af því, sem við fáum í ellilaun.“ 72 ára gömul ekkja, komst að orði á þessa leið: „Ég vissi ekki fyrr en nú, að ég væri ein af þessum, sem þeir kalla breiðu bökin.“ Hjá henni hafði tekjuskatturinn hækkað úr 2 þús. kr. í rúmlega 71 þús. kr. og auk þess hækkuðu fasteignagjöld verulega.

Strax og skattskráin hafði verið lögð fram, kom fram hörð gagnrýni á þessar niðurstöður frá Sjálfstfl., og gerði þingfl. hans sérstaka ályktun í því sambandi. Einnig var í Morgunblaðinu haldið uppi harðri gagnrýni á þessa stefnu ríkisstj. Það fór líka svo, að hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess að standa við skattalöggjöfina, og þegar kom fram á sumarið 1972, lagði hann fram brbl., þar sem nokkuð var komið til móts við óskir aldraðra og öryrkja, þótt það væri engan veginn nægilegt eða jafnmikið og við sjálf stæðismenn höfðum lagt til og teljum nauðsynlegt.

Í heild komu skattaálögurnar þannig út, að tekjuskatturinn í Rvík þrefaldaðist frá árinu á undan, úr 534 millj. kr. í 1637 millj.

Þegar þessar niðurstöður lágu fyrir, var þess skammt að bíða, að hinn almenni launamaður í landinu risi upp. Menn gerðu sér grein fyrir því, hvaða misrétti launamenn voru beittir, en það fólst einkum í því, að persónufrádrátturinn var ákveðinn allt of lágur í tekjuskattsfrv. Skattstigarnir voru of knappir og of fáir, þannig að fólk með miðlungstekjur, og jafnvel lágtekjur, lenti í hæstu skattþrepum. Loks kom það í ljós, að t.d. fólkið í fiskiðnaðinum, sem oft verður að leggja á sig langan vinnudag og vinna fram eftir nóttu, sætti sig ekki við að fá ekki að bera eitthvað úr býtum eftir þá erfiðu vinnu. Svo var komið á s.l. sumri eða á s.l. ári, að fólkið í þessum atvinnuvegi, t.d. á Snæfellsnesi, lýsti því hreinlega yfir, að ef það fengi ekki verulega leiðréttingu á sínum skattamálum, t.d. í þá veru, að eftirvinna og næturvinna í frystihúsunum yrði tekjuskattsfrjáls, mundi það ekki vinna eftirvinnu á þeirri vertíð, sem nú stendur yfir.

Innan launþegasamtakanna fóru einnig á þessum tíma að koma fram æ háværari raddir um, að tekjuskattarnir yrðu lækkaðir. Ég minnist í því sambandi þings Landssambands framhaldsskólakennara, sem haldið var vorið 1973 og samþykkti mjög einarðlegar ályktanir í þessa veru. Um þetta urðu einnig mjög miklar umræður á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Algerum straumhvörfum ollu svo tillögur um skattamál, sem fram komu á þingi Landssambands verslunarmanna og hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Till. þessara aðila urðu síðan undanfari þeirrar ályktunar, sem kjaramálaráðstefna Alþýðusambands Íslands samþykkti á fundi sínum, sem haldinn var um miðjan októbermánuð. En þar var gerð svo hljóðandi áætlun um skattamál. með leyfi hæstv. forseta:

„Við gerð hverra nýrra kjarasamninga leitast verkalýðshreyfingin við að tryggja sem best varanleik þeirra kjara, sem um semst, svo sem kaupmátt launa. Verkalýðshreyfingin hefur ávallt lýst því yfir og gerir enn, að hún meti ekki síður en beinar kauphækkanir hverjar þær ráðstafanir, er tryggi kjarabætur eftir öðrum leiðum, og þá sérstaklega ef þær væru síður verðbólguvaldandi. Ráðstefna Alþýðusambands íslands, haldin í Reykholti 27. og 28. ágúst s.l., gerði þá kröfu, að gagngerð breyting yrði gerð á skattlagningu á landinu, þannig að á almennum launatekjum yrðu skattar verulega lækkaðir. Verkalýðshreyfingin ítrekar nú þessa kröfu og telur nauðsynlegt:

a) að persónufrádráttur til skatts fyrir einstakling verði ekki lægri en 300 þús. kr. Fjárhæð þessi er miðuð við núverandi kaupgjald og vísitölu, en breytist síðan í samræmi við almennar kaupbreytingar og framfærsluvísitölu. Sama hlutfall haldist milli persónufrádráttar einstaklings og hjóna eins og er. Auk þess fái verkafólk, er vinni við fiskvinnslu sérstakan skattfrádrátt, þannig að þeir, er vinni allt að 20 vikur á ári, fái 9%, og þeir, er starfi 20 vikur á ári eða lengur, 18%.

b) Að á viðbótartekjur umfram persónufrádrátt allt að hálfum persónufrádrætti verði skatthlutfall stórlækkað.

c) Að fyrirframinnheimta opinberra gjalda verði miðuð við skattvísitölu, er fylgi framfærsluvísitölu, og við útborgun launa verði aldrei meira dregið frá til greiðslu beinna opinberra gjalda hvers árs en nemi 2/5 hlutum launa.

d) Að heimildarákvæðið um lækkun og/eða niðurfellingu fasteignaskatts, sem núna nær til elli- og örorkulífeyrisþega, nái einnig til ekkna, ekkla, einstæðra foreldra og þeirra, sem búa við langvarandi veikindi eða verða fyrir slysum.

e) Að húsaleiga af íbúðarhúsnæði verði að hluta frádráttarbær til skatts.

f) Að tannlækningakostnaður verði frádráttarbær til skatts.

g) Að vaxtafrádráttur til skatts verði takmarkaður við ákveðið hámark.

h) Að heimildarákvæði í 52. gr. laga um tekju- og eignarskatt verði rýmkuð.

i) Að hraðað verði undirbúningi að því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta, heildarinnheimta opinberra aðila verði ákveðin af meiri tillitssemi til þegnanna en gert hefur verið, og að framkvæmdir og starfsemi hins opinbera verði aðhæft eðlilegri tekjuöflun. Jafnframt því sem verkalýðshreyfingin lýsir yfir fyllsta stuðningi við hverjar þær ráðstafanir sem gerðar væru til að koma í veg fyrir skattsvik.“

Á þeim tíma, sem þessi ályktun Alþýðusambands Íslands kom fram, stóðu yfir samningaviðræður milli ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í þeim samningaviðræðum, kom það einnig í ljós, enda var það álit margra aðildarfélaga þessara samtaka, að nauðsynlegt væri til þess að tryggja eðlilega samninga milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins, að skattalögum yrði breytt í þá átt, sem nefnt hefur verið og einnig að gerðar yrðu nauðsynlegar ráðstafanir í húsnæðismálum.

Ríkisstj. hélt þó algerlega að sér höndum í þessu efni og var raunar ekki til viðtals við opinbera starfsmenn, fyrr en allt var komið í eindaga. Af þeim sökum var síðan hlaupið til á síðustu stundu, og í samkomulagi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var lagt fram á Alþingi frv. um að gefa þriggja vikna frest til þess að reyna til hlítar, hvort ekki næðust samningar við BSRB. Eins og öllum er kunnugt náðust þessir samningar í desembermánuði. Það er allra manna mat og er raunar ekki hægt að áfellast hæstv. ríkisstj. fyrir, að þeir samningar voru ákaflega lélegir í alla staði, og má í því sambandi benda á, að BSRB lét algerlega undir höfuð leggjast að fylgja eftir kröfunni um lækkaða skatta og einnig um aðgerðir í húsnæðismálum. Jafnframt voru ákvæði þeirra samninga um vísitöluna mjög óviðunandi fyrir opinbera starfsmenn. Loks fylgdi sá böggull skammrifi í þeirri samningagerð, að ósamíð var við Bandalag háskólamanna. Fóru þær kjaradeilur til Kjaradóms og féll sá dómur nú í febrúarmánuði. Það er eftirtektarvert í sambandi við þann dóm, að þar er fjölgað launaflokkum í hæstu flokkunum fyrir ofan 28. launaflokk. Skv. kjaradómi verða þar 9 launaflokkar í stað 5, eins og er í samningunum við BSRB. Virðist skv. því, sem heyrst hefur frá hæstv. ríkisstj., að hún ætli að halda þannig á málum í sambandi við flokkaskipan opinberra starfsmanna, að þar skuli aðrar reglur gilda um þá, sem háskólamenntaðir eru, heldur en hina. Er með þeim hætti verið að leggja grundvöll að nýrri mismunun í launastéttunum, sem verður að harma mjög. Þá er það einnig áberandi við þessa samningagerð, að opinberir starfsmenn hafa dregist mjög aftur úr miðað við hinn frjálsa launamarkað, en það er annað mál sem er ekki þessu beint viðkomandi.

En því minnist ég á þetta, að það var ljóst, að eftir samningana við BSRB hafði skapast jarðvegur fyrir því á hinum almenna launamarkaði, að samningar ættu að takast milli vinnuveitenda og Alþýðusambandsins. Ef ríkisstj. hefði á því stigi gripið inn í um áramótin eða fyrir þau og boðið fram verulegar úrbætur í tekjuskattsmálum og húsnæðismálum, er enginn vafi á því, að samningagerðinni á hinum frjálsa vinnumarkaði hefði flýtt verulega og niðurstaða þeirra samninga hefði orðið allt önnur en hún síðar varð. Verður í því sambandi að líta á, hvað fólk á hinum frjálsa vinnumarkaði tapaði á því, hversu þeir samningar drógust, enda fóru nú að koma sérsamningar, þar sem gert var ráð fyrir allt öðrum og meira verðbólguhvetjandi og miklu hærri kjarasamningum en áður hafði verið.

Ef við síðan athugum nokkuð, hvernig andrúmsloftið var, þegar samið var á hinum almenna vinnumarkaði í febrúarmánuði, þá stóðu sakir þannig, þegar verkfall var boðað, að hvorki hafði gengið né rekið, og allt, sem ríkisstj. hafði til málanna lagt, var svo viðalítið, að engum úrslitum gat ráðið um gang mála. Það var á þeirri stundu, sem verslunarmenn gripu til þess að knýja á skjóta lausn kjarasamninganna að standa við verkfallsboðun. Enda lá það fyrir og var samþykkt einróma t.d. í trúnaðarráði Verslunarmannafélags Reykjavíkur, að hjá því yrði ekki komist, nema eitthvað nýtt yrði boðið fram, og var nægilegur frestur gefinn til þess, að svo mætti verða.

Þar sem ekkert nýtt var borið fram, var óumflýjanlegt, að til vinnustöðvunar yrði að koma, og vitum við svo niðurstöðuna. Það eru þeir verðbólgusamningar, sem nú eru í gildi og eru kallaðir svo af sjálfum verkalýðsleiðtogunum. Áður og um leið og þessir samningar voru undirskrifaðir, hafði farið fram annar baksamningur milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins, sem ég mun nú víkja að.

Áður en ég get haldið áfram með sjálf skattamálin, er nauðsynlegt að athuga nokkuð, hvernig atvinnuvegirnir eru búnir undir þá miklu kauphækkun og margvíslegu auknu fríðindi, sem náðust með febrúarsamningunum. Í því sambandi er nauðsynlegt að rifja upp, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir hér á hinu háa Alþingi strax á haustþinginu 1971, að ástandið í atvinnumálunum hefði veríð þannig við stjórnarskiptin, að atvinnuvegirnir ættu að geta staðið undir 20% kjarabótum á 2 árum. Það var skýrt tekið fram í þessu sambandi af hæstv. forsrh., að þessi yfirlýsing væri gefin að vandlega íhuguðu máli og að öll gögn hefðu verið við höndina, þegar frá þessu var gengið. Um þetta er sem sagt enginn ágreiningur, og ég hef ekki heyrt, að þessi yfirlýsing forsrh. hafi verið vefengd. Vegna óheppilegra afskipta hæstv. ríkisstj. af kjarasamningunum 1971 fór þó svo, að það stefndi brátt í verðbólguátt, kannske fyrst og fremst vegna þeirrar stefnu, sem núv. hæstv. ríkisstj. hafði tekið upp í ríkisfjármálunum.

Þegar kom fram á árið 1972, varð æ meira áberandi í umr. manna og yfirlýsingum, að menn voru mjög kvíðnir fyrir því, sem fram undan var. Er skemmst að minnast í því efni yfirlýsingar, sem fram kom í ársskýrslu KEA fyrir árið 1971, en hún kom út snemma árs 1972. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Útlit er fyrir, að ríkisstj, vilji mæta Hrunadansi kostnaðarverðbólgu með taprekstri fyrirtækja, sem því miður hlýtur að leiða til atvinnusamdráttar, þegar til lengdar lætur.“

Núv. hæstv. félmrh. var í júlímánuði í sjónvarpsþætti, þar sem hann vék m.a. að þróuninni í verðbólgumálunum og atvinnumálunum, eins og þau komu honum þá fyrir sjónir, en þá var hann forseti Alþýðusambands Íslands. Eftir að hann hafði lýst þeirri óheillaþróun, sem orðið hafði í efnahagsmálum, komst hann svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sannleikurinn er nú sá, að ef eitthvað fer úrskeiðis, þá koma þessi miskunnarlausu lögmál efnahagslífsins og segja til sín og knýja sitt fram, hvort sem hann er ljúfur eða leiður.“

Ég hef hér nefnt til vitnis annars vegar hæstv. félmrh. og hins vegar kaupfélagsstjóra og stjórnarformann Kaupfélags Eyfirðinga um það, hvernig verðbólguþróunin var og hvert stefndi á árinu 1972. Það kemur fram m.a. á framfærsluvísitölu, og hún sýnir að sjálfsögðu þessa óheillavænlegu þróun, en á því ári hækkaði framfærsluvísitalan um 12.8%. Þetta var þó aðeins byrjunin, því að á árinu 1973 seig enn meira á ógæfuhliðina. Það ár hækkaði framfærsluvísitalan um 28.9%, og á tímabilinu frá 1. nóv. til 1. mars s.l. hækkaði hún um 7%. Hefur verið reynt að halda fram, að þetta stafi aðallega af erlendum verðhækkunum. Það hefur að sjálfsögðu ekki við rök að styðjast eins og fram kemur í nál. 1. minni hl. fjh: og viðskn. Nd., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í skýrslu hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins „Þjóðarbúskapurinn, yfirlit 1972 og horfur 1973“, frá í júlí 1973, á bls. 61, er að finna svar við þessum staðhæfingum ríkisstj. Þar er spáð hækkun vísitölu vöru og þjónustu um 22% frá nóv. 1972 til nóv. 1973, sem varð raunar meiri. Hlutfallsleg áhrif einstakra þátta á hækkunina eru talin þessi:

1. Bein áhrif á gengisbreytingar 22.7%.

2. Bein áhrif breytinga innflutningsverðs í erlendri mynt 18.2%.

3. Bein áhrif breytinga á óbeina skatta 13.6%.

4. Áhrif annarra þátta, einkum launakostnaðarbreytinga, m.a. vegna verðlagsuppbóta, 45.5%.

Samtals 100%.“

Í þessum tölum kemur fram, að minna en 1/5 af verðbólgunni er af erlendum toga spunninn, svo að það má öllum ljóst vera, að þær fullyrðingar, sem hæstv. viðskrh. hefur leyft sér að hafa um hið gagnstæða, bæði hér á hinu háa Alþ. og þegar hann kemur fram á opinberum vettvangi annars staðar, eru allar úr lausu lofti gripnar. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, að ríkisstj. hefur heykst á því markmiði sínu, sem hún setti sér í upphafi ferils síns og lýst er í málefnasamningnum svofelldum orðum: „Ríkisstj. leggur mikla áherslu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt til síendurtekinna verðhækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum.“ Í þessum nágranna- og viðskiptalöndum okkar hækkaði verðlag á vöru og þjónustu um 5% 1972, á sama tíma og það hækkaði um 14% hér á landi. Árið 1973 hækkaði verðlag á vöru og þjónustu um 8% í nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Samsvarandi tala hér á landi er 24%.

Það fór eins og forustumenn Kaupfélags Eyfirðinga spáðu, að ekki leið langur tími, áður en þess fór að gæta í atvinnurekstrinum, að of mikið hafði verið á hann lagt, og varð þó meiri dráttur á því en hægt var að sjá fyrir vegna mjög hagstæðrar verðlagsþróunar á íslenskum útflutningsafurðum erlendis. Samt sem áður er nú svo komið, að frystiiðnaðurinn, sem hefur verið rekinn með góðum ábata undanfarið, stynur nú undan auknum framleiðslukostnaði, og þar við bætist einnig, að undanfarið hefur átt sér stað óhagstæð verðþróun erlendis. Er blokkin á Bandaríkjamarkaði nú komin niður í 78 cent, en var um 82 cent á miðju s.l. ári. Það er því ekki að sjá, að framleiðendurnir, útgerðarmennirnir, geti lagt frekari byrðar á hraðfrystiiðnaðinn en nú er gert. Hraðfrystiiðnaðurinn getur einfaldlega ekki borgað meira fyrir sjávarafurðirnar en hann gerir nú, og er miklu fremur, að þar þurfi eitthvað að draga úr.

Um afkomu togaraútgerðarinnar er það að segja, að sjútvrh. hefur í höndum skýrslu um fyrirsjáanlegt tap togara á þessu ári, og er það tap verulegt, þótt í skýrslunni sé byggt á verðlagi og kaupgjaldi fyrir samningana í febrúar. Má í því sambandi minna á, að algengt er nú orðið hér á Alþingi, að menn mæti útgerðarmönnum, sem hingað eru komnir til þess að knýja á um það, að hið opinbera geri einhverjar ráðstafanir til að tryggja grundvöll togaraútgerðarinnar. Einkum á þetta við á ýmsum plássum úti um land.

Það er rétt, sem ríkisstj. hrósar sér af, að það fylgdi mikil bjartsýni nýju skuttogurunum víðs vegar um landið. Menn byggðu bjartar vonir við það, að þessir skuttogarar gætu verið á stöðunum til frambúðar og útvegað nægilegt hráefni í frystihúsin, til þess að hægt væri að halda uppi stöðugri atvinnu. Nú horfir því miður svo, ef ekkert verður að gert, að þessir staðir verði að gefast upp á þessari útgerð. Er þá miklu verr af stað farið en heima setið og hætt við, að það högg, sem slíkt yrði atvinnuvegunum víðs vegar um landið, mundi hafa mjög óheillavænleg áhrif á byggðaþróunina í landinu.

Ef litið er á verðlagsþróun á lýsi, hefur hún — að vísu verið hagstæð, en hins vegar hefur mjölverð mjög farið niður á við, og er talið, að u.þ.b. helmingur þess sé óseldur, m.a. vegna þess, að — beðið var eftir viðskiptasamningi við Pólverja, sem brást. Eins og sakir standa, er algjört vafamál, hvort um meiri áföll verður að ræða eða hvort mjölið stígur á nýjan leik. Einnig þetta bitnar að sjálfsögðu á frumframleiðendunum og hlýtur að valda því, að þeir fá ekki nauðsynlega hátt verð fyrir sína framleiðslu, og hvetur einnig til þess, að nauðsynlegt sé, að gengisfelling verði á þessu ári, eins og raunar er sagt, að ríkisstj. hafi lofað ýmsum atvinnurekendum í febrúarsamningunum.

Þar má minnast á lagmetisiðnaðinn. Þm. hafa fengið frá Sölustofnun lagmetisiðnaðarins fréttabréf, sem dags. er 25. febr., og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er bersýnilegt, að þær forsendur, sem fyrir gengishækkuninni lágu, m.a. hjá hraðfrystiiðnaðinum og mjölframleiðendum, voru ekki fyrir hendi hvað lagmetisiðnaðinn snertir. Þá er spurningin: Á að fórna lagmetisiðnaðinum á altari þess stjórnunartækis, sem gengishækkun er, eða ætla stjórnvöld að sýna sérstöðu lagmetisiðnaðarins og annarra útflutningsgreina skilning og gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru? Eitt er ljóst, lagmetisiðnaðurinn þolir ekki þá skráningu á gengi ísl. krónu, sem gildir nú, enda er allt útlit fyrir, að stóru samningarnir séu nú komnir í strand vegna óhagstæðrar gengisskráningar. Ef ekkert verður að gert, verður sá mikli söluárangur, sem náðst hefur, og hið árangursríka uppbyggingarstarf, sem hófst á árinu 1973, að engu og alvarleg vá og rekstrarstöðvun fyrir dyrum hjá lagmetisiðnaðinum í landinu.“

Nú lítur að vísu svo út sem samningar hafi tekist um sölu á niðursoðnu lagmeti til Japans í lok febrúarmánaðar. Að vísu hef ég ekki séð það staðfest, en ég hef fregnað það. Ef svo er, þá hlýtur það að vera gert í fullvissu þess, að um gengisbreytingu krónunnar verði að ræða, því að án þess hefðu slíkir samningar verið útilokaðir, nema með stórkostlegri styrkjapólitík ríkisvaldsins.

Annar útflutningsiðnaður er einnig dauðadæmdur, nema gengisfelling komi til. Um aðrar atvinnugreinar er það að segja, að þær, sem geta sett kauphækkanirnar út í verðlagið, munu að sjálfsögðu standa sig eitthvað, og má í því sambandi minna á, að það var einn hluti af kaupgjaldssamningunum af hendi ríkisstj. að lofa versluninni 10% hækkun á álagningu, eins og allir vita.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds, að hann hafði einnig mjög miklar áhyggjur af ástandinu í efnahagsmálunum. Hann játaði, að það væri ekki eins gott og vera þyrfti, og gat þess, að skortur á vinnuafli og almenn umframeftirspurn gætu haft alvarlegar afleiðingar. Þó svo að þessi hv. þm. sé stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar ríkisins, hefur þess ekki gætt, hvorki í störfum hans hér á Alþingi né heldur sem slíks, að hann hafi verið neinn sérstakur hvatamaður þess að fara varlega í þessum efnum. Hv. þm. sagði enn fremur, að á tímum eins og þessum væri þörf á því. að ríkissjóður skilaði nokkrum afgangi til þess að draga úr umfram eftirspurn. Nú vita allir, að síðustu fjárlög hæstv. ríkisstj, voru slík, að þau voru síður en svo til þess að draga úr þenslunni, ekki afgreidd með þeim hætti, að um nokkurn afgang yrði að ræða.

Því hefur verið haldið fram af hv. þm. Ragnari Arnalds, og ýmsum fleiri talsmönnum stjórnarflokkanna, að sú verðlagsþróun, sem orðið hefur á þessu ári, hafi orðið til þess að staða ríkissjóðs sé verri nú en hún hafi verið, miðað við óbreytt verðlag og kaupgjald. Þetta er síður en svo, og eru staðreyndir málsins þær, að eftir því sem verðbólgan leikur meira lausum hala, batnar heldur hagur ríkissjóðs, svo þokkalegt sem það nú er, og var það beinlínis tekið fram af forstöðumanni hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, að ef verðbólguþróunin yrði nógu mikil í landinu á yfirstandandi ári, mundi það að lokum enda með því, að staða fjárl. mundi breytast ríkissjóði í hag. Hann tók það á hinn bóginn fram, að slík verðbólguþróun væri að sjálfsögðu ekki æskileg og miklu meiri en svo, að atvinnuvegirnir gætu með góðu móti risið undir því, og hefði að sjálfsögðu miklu skaðlegri áhrif á efnahagslífið en hitt. En eigi að síður kemur það fram í þessu, að hin mikla verðbólguþróun, sem orðið hefur, hefur öll orðið til þess að bæta stöðu ríkissjóðs, og vísa ég því á bug öllu, sem sagt hefur verið um hið gagnstæða í þessu efni, en tek undir það með hv. þm. Ragnari Arnalds, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til þess, eins og nú er komið, að nokkuð dragi úr þenslunni og umframeftirspurninni. Ég fæ ekki betur séð en eðlilegt sé, að ríkissjóður sjálfur gangi þar á undan með góðu fordæmi, en margfaldi ekki erlendar lántökur til hins gagnstæða, eins og nú virðist vera stefnan. Og af þeim toga er flutt heimildartillaga okkar Sjálfstæðismanna um niðurskurð á ríkisfjárlögunum, eins og ég kem að síðar.

Í nál. 1. minni hl. fjhn. um frv. ríkisstj. um tekju- og eignarskatt, sem lagt var fram snemma árs 1972, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, það er dagsett 2. mars 1972, — um þær till., sem Sjálfstfl. flutti þá til breyt. á tekju- og eignarskattsfrv. hæstv. ríkisstj., þau lög, sem nú eru í gildi:

„Þar sem ljóst er, að frv. þessi, ef að l. verða, munu auka skattbyrði einstaklinga og félaga, og með hliðsjón af því, sem að framan hefur verið sagt, og því ástandi, sem skapast hefur í skattamálum þjóðarinnar vegna ósæmandi vinnubragða ríkisstj. leggjum við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. til, að frv. verði vísað frá og endurskoðun skattal. fram haldið. Við álagningu skatta ársins 1972 vegna tekna, sem aflað var á árinu 1971, verði skattvísitalan á grundvelli gildandi l. ákvörðuð 121.5 stig í stað 106.5.“

Þetta er nú ekki málinu viðkomandi hér. Síðar í þessu nál. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Við undirritaðir leggjum til, að heildarendurskoðun á tekjum ríkis og sveitarfélaga haldi áfram á þeim grundvelli, sem fyrrv. ríkisstj. markaði, með nánu samstarfi við samtök sveitarfélaga, landshlutasamtök, samtök launþega, vinnuveitenda og bænda. Við vitnum til þess, að Sjálfstfl. telur, að skattlagningunni til ríkis og sveitarfélaga eigi að haga á þann veg, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar, og búið sé að atvinnurekstrinum þannig, að áhugi almennings fari vaxandi á því að vera beinn aðili að atvinnufyrirtækjunum. Til að gera þennan ásetning að veruleika ber fyrst og fremst að skattleggja eyðsluna og gæta hófs í skattlagningu sparnaðar. Í samræmi við þetta þarf að halda áfram þeirri viðleitni að draga úr beinum sköttum, og stefna þarf að ákveðnu marki á tilteknu árabili.

Gera þarf ákveðnar till. um breytta tekju- og verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum að auka hlut sveitarfélaga eða landshlutasamtaka í stjórn opinberra mála og jafnframt ábyrgð á þjónustu, framkvæmdum og fjármögnun til þeirra. Í þessu sambandi kemur mjög til athugunar, hvort ekki sé rétt, að sveitarfélögin fái ein alla beinu skattana til sinna þarfa, en ríkissjóður byggi í framtíðinni tekjuöflun sínar eingöngu á óbeinni skattlagningu.

Kannað verði, hvort virðisaukaskattkerfið henti íslenskum aðstæðum betur en núverandi söluskattskerfi.

Í stað þess að gera skattkerfið flóknara, eins og frv. núv. ríkisstj. stefnir að, minnum við á stefnu fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum um einföldun skattkerfisins, m.a. vegna fyrirkomulags staðgreiðslukerfis, ef upp verður tekið.

Við leggjum því til, að skattar og útsvör á tekjur einstaklinga og félaga verði ávallt miðuð við nettótekjur, og teljum eðlilegt og sanngjarnt, að tekjum hjóna verði skipt til helminga á milli þeirra við álagningu skatts til ríkis og sveitarfélaga. Við teljum, að eignarskattar hafi með löggjöfinni frá s.l. vori verið ákvarðaðir út frá eðlilegu og sanngjörnu sjónarmiði.

Frv. núv. ríkisstj. hefur mjög íþyngjandi áhrif í sambandi við eignarskatta, sem við teljum að komi óréttlátlega niður og geti dregið úr sparnaði almennings.

Það er skoðun okkar, að fasteignaskattar séu þjónustuskattar til sveitarfélaga og beri að stilla þeim í hóf. Sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett innan ákveðins hámarks í l., hvort og að hve miklu leyti þau nýta þennan tekjustofn. Við vörum við svo mikilli hækkun fasteignaskatta eins og gert er ráð fyrir í frv., sérstaklega ef aðrir tekjustofnar sveitarfélaga eru svo naumir, að þau neyðast almennt til að nota heimildir til álags á fasteignaskatta.

Við leggjum ríka áherslu á, að hinum ýmsu formum atvinnurekstrar verði ekki mismunað í skattgreiðslum, eins og frv. gerir ráð fyrir, og við höfum varað alvarlega við því á fundum n.

Jafnframt því að sveitarfélögin fái allar beinar skattatekjur, er eðlilegt, að aðstöðugjöld lækki meira en frv. gerir ráð fyrir. Samfara því sé sveitarfélögunum séð fyrir réttlátari tekjustofni vegna þjónustu þeirra við atvinnufyrirtækin.

Frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, að atvinnurekstrinum sé verulega íþyngt. Sú stefna verður að teljast háskaleg með tilliti til þeirrar gífurlegu dýrtíðaraukningar, sem orðið hefur í kjölfar þeirrar stjórnarstefnu, sem nú hefur verið tekin upp, samfara sívaxandi samkeppni á erlendum mörkuðum.

Í nokkrum tilvikum teljum við eðlilegt og nauðsynlegt, að tiltekin frávik sé skylt að gera frá hinum almennu skattálagningarreglum. Er það skoðun okkar, að ellilífeyrir og bætur örorkulífeyrisþega eigi að vera undanþegin skattlagningu, og við erum andvígir þeirri till. ríkisstj., að niður verði felldur sérstakur frádráttur vegna aldraðs fólks.

Þá teljum við að auka þurfi persónufrádrátt einstæðra foreldra.“

Ég taldi nauðsynlegt, að sú stefnumótun, sem felst í þessum tilvitnuðu orðum, kæmi fram nú við þessar umr. til þess að skýra þann grundvöll, sem brtt. okkar sjálfstæðismanna eru byggðar á og ég mun nú víkja að.

Ég vil þá fyrst ræða nokkuð um sjálft efni þess frv., sem hér liggur fyrir, og sýna fram á, að sá útreikningur, sem hæstv. ríkisstj, hefur á því tekjutapi, sem frv. ber með sér, stenst ekki.

Það liggur fyrir, að í fjárl. yfirstandandi árs er gert ráð fyrir því, að tekjuskattur einstaklinga nemi 5 milljörðum 806 millj. kr. án byggingarsjóðsgjalds. Ef reiknað er með byggingarsjóðsgjaldi, er þessi upphæð nokkru hærri, eða 5 milljarðar 864 millj. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að sá tekjuskattur, sem innheimtist eftir frv. til l. um skattkerfisbreytingu sé 4.1 milljarður. Mismunurinn á þessu tvennu er 1764 millj. kr., og þótt hætt sé við 550 millj. kr. vegna skattafsláttarins, er ekki hægt að fá þessa tölu hærri en í 2.3 milljarða kr. Hins vegar er því haldið fram, m.a. af hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, form. þingflokks Framsfl., að það, sem ríkissjóður muni græða á tekjuskattshækkuninni, sé nokkru meira eða 3.4 milljarðar, það sé sú eðlilega viðmiðun, sem rétt sé að tala um að hafa í þessu sambandi. Það er því augljóst af þessum tölum, að skattalagabreyt. er fram borin af ríkisstj. ekki aðeins til að lækka beinu skattana, heldur einnig til þess að afla nokkurra tekna aukreitis til þess að rétta af þann halla, sem er á ríkisbúskapnum. Að sjálfsögðu getur Alþ. ekki fallist á slíka málsmeðferð, og þeirri skoðun hlýtur að vera hafnað algjörlega sem óaðgengilegri, að með því sé stjórnarandstaðan að leggjast á ASÍ eða reyna að koma í veg fyrir þær tekjuskattslækkanir, sem hér er um að ræða, svo sem ég mun koma að síðar.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram ítarlegar brtt. á þskj. 506. Þessar brtt. fela í sér verulega lækkun á tekjuskatti, sem nemur því, að auk óinnheimts tekjuskatts frá s.l. árum, sem innheimtist á þessu ári, munu samkv. okkar brtt. koma í ríkissjóð 3 milljarðar og 60 millj. kr. á yfirstandandi ári. Endurgreiðslur samkv. frv. munu nema 150 millj. kr., þannig að þar er um 2 milljarða 910 millj. kr. að ræða. Við leggjum til. að tekjumissirinn, sem samþykkt okkar till. hefur óneitanlega í för með sér, sé bættur annars vegar með 2% söluskatti, 1400 millj. kr., og hins vegar með niðurskurði á fjárl. um 1500 millj. kr. Samtals gerir þetta 5 milljarða 810 millj. kr., en á fjárl. er gert ráð fyrir samsvarandi tölu, 5 milljarðar 806 millj.

Þær fullyrðingar, sem hv. stjórnarsinnar hafa haft í frammi um það, að með þessu sé verið að skerða hag ríkissjóðs, eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar og sagðar gegn betri vitund, enda liggur ekkert fyrir um það, hvernig komist er að slíkum niðurstöðum, og væri rétt, að hv. frsm. meiri hl., Ragnar Arnalds, gerði nokkru betri grein fyrir því reikningsdæmi, sem hann setti upp í ræðu sinni áðan til þess að villa um fyrir mönnum í því efni. Eins og ég segi, höfum við sýnt fram á það, að annars vegar með niðurskurði og hins vegar með nýjum tekjustofnum, söluskatti 2%, auk sjálfrar tekjuskattstill., þá bætum við ríkissjóði að fullu upp þann tekjumissi, sem hann verður fyrir, ef okkar till. verða samþ., þegar gengið er út frá fjárlagatölunni, 5 milljörðum 806 millj. kr.

Þegar rætt er um. einstök atriði þessa frv., vil ég geta þess strax í sambandi við þær till., eins og þær koma fram hjá hæstv. ríkisstj., — fyrst um skattafsláttinn, eins og hann er kallaður, að þær hugmyndir, sem hæstv. ríkisstj. er með í frv., eru mjög óaðgengilegar að okkar áliti. Í fyrsta lagi er það vegna þess, að í frv. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir því, að þeir menn fái hæstan skattafslátt, sem mestar hafi tekjurnar, en síðan minnki skattafslátturinn smátt og smátt, uns hann verði ekki að neinu, þegar komið er niður í það, að menn hafi engar tekjur. Margvíslegar ástæður geta legið til þess, að slíkt komi fyrir, t.d. að menn séu ekki komnir á ellilífeyrisaldur, en forfallist eigi að síður frá vinnu, námsmenn o.fl.

Í till. okkar á þskj. 506 leggjum við til, að skattafslátturinn sé hugsaður alveg öndvert þessu. Hann grundvallast á 2% söluskattaukanum og er miðaður við það, að þeir, sem hafi undir 250 þús. kr. í tekjur, fái fullan skattafslátt og síðan fari skattafslátturinn minnkandi, þangað til komið er upp í 310 þús. kr. tekjur, ef miðað er við einstakling. Nemur þá skattafslátturinn 4800 kr., en hjá hjónum 6800 kr. og þá séu 3400 kr. til hvors. Auk þess er 960 kr. skattafsláttur fyrir hvert barn, sem foreldri hefur á framfæri sínu. — Jafnframt er svo gengið frá í okkar till., að þeir, sem komast niður í lágar tekjur vegna fyrninga í atvinnurekstri, njóti ekki skattafsláttarins. Við teljum, að þessar reglur séu miklu eðlilegri. Hugsunin á bak við skattafsláttinn hlýtur að vera 5:í að koma til móts við þá, sem minnstar hafa tekjurnar, og er þess vegna eðlilegt að hafa hann með þessum hætti.

Þá er jafnframt nauðsynlegt í sambandi við skattafsláttinn að víkja nokkuð að mjög villandi upplýsingum, sem gefnar eru í frv. til l. um skattkerfisbreytingu á bls. 13. Þar er látið líta svo út, sem persónufrádráttur sé miklu hærri en hann raunverulega er með því að reikna skattafsláttinn inn í dæmið með vafasömum hætti. Ábending um þetta hefur m.a. komið fram í aths. ríkisskattstjóra. Þetta er með þeim hætti, að hjá einhleypum manni er svo komið við 364 þús. kr. nettótekjur, að þá byrjar hann að tapa vegna skattafsláttarins, og þetta skatttap hans hækkar síðan smátt og smátt, uns komið er í 480 þús. kr. tekjur, og verður þá þessi tala 5800 kr. Samsvarandi tap hjá barnlausum hjónum er 9500 kr. eftir 625 þús. kr., en minnkar smám saman frá hálfri millj. kr. Ástæðan fyrir því, að skattafslátturinn kemur út með þessum hætti, er sú, að tilkoma hans veldur því, að minni tekjur en ella koma á það bil, sem er upp í 100 þús. kr. af nettótekjum, í 20% skatt, og skýrist af því. Eðlilegra hefði verið að draga skattafsláttinn frá á eftir, en leyfa einstaklingunum eða skattþegnunum að njóta 20% álagningar af fyrstu 104 þús. kr. óskertum. Þetta veldur, eins og ég segi, þessu tapi og minnkar því þetta bil, þannig að raunverulegur persónufrádráttur er minni en fram kemur í frv.

Þá vil ég geta þess, að sá persónufrádráttur, sem gert er ráð fyrir í till. okkar, er samsvarandi því, sem gert var ráð fyrir í till. Alþýðusambands Íslands á kjararáðstefnunni, eða um 310 þús. kr., en þar var gert ráð fyrir 300 þús. kr.

Ástæða er til að vekja athygli á ákvæðinu um sérsköttun hjóna, sem er að finna í okkar till. Þá er verulegur munur á skattprósentum, eins og gert er ráð fyrir í okkar till. Skattprósenta samkv. till. okkar er frá 15% upp í 38% og öll þrepin miklu breiðari en í till. hæstv. ríkisstj. Ég þarf ekki að nefna tölur um það, hversu miklu munar á þessum tveimur till. Það var ítarlega gert í frv. Matthíasar Á. Mathiesen og Matthíasar Bjarnasonar, sem lagt var fram fyrr á þessu þingi, og er ástæðulaust að endurtaka það hér.

Hins vegar er nauðsynlegt, að það komi fram, að í frv., eins og það er lagt fram af ríkisstj., er ekki verið að bjóða neitt það, sem skattþegnarnir áttu ekki raunverulega, ef reiknað hefði verið með réttri skattvísitölu. Ef miðað hefði verið við skattvísitölu 166 stig, hefð persónufrádrátturinn verið ívið hærri að óbreyttum lögum en gert er ráð fyrir í skattbreytingafrv, ríkisstj. Hins vegar er rétt, að nokkru munar að því leyti til. að s'kattþrepin eru rýmilegri í frv.

Hæstv. ríkisstj. hefur mjög gagnrýnt það, að sjálfstæðismenn skuli leggja fram till. um, að draga úr ríkisútgjöldunum. Eigi að síður hefur þessi till. sjálfstæðismanna hlotið meirihlutafylgi í Nd., fékk 22 atkv. gegn 18, og komst hv. frsm. meiri hl. n. svo að orði um það, „að við meðferð málsins í Nd. hefðu gerst hinir furðulegustu hlutir og frv. tekið ýmsum kostulegum breyt.“ — Breyt. hefðu verið frekar kostulegar. Ég verð að segja það, að þetta er mjög harður áfellisdómur, sem þessi hv. þm. hefur á hæstv. forsrh., sem er maður að meiri, vegna þess að hann var maður til þess að standa með stjórnarandstöðunni, með því, að ákvæði um niðurskurð yrði tekið inn í þessi skattalög.

Eins og ég gat um í fyrri hluta ræðu minnar, er þensla í ríkisbúskapnum svo mikil, að leita verður allra bragða af opinberri hálfu til að draga þar úr, og er þá einfaldasta leiðin að draga úr ríkisútgjöldunum. Hv. stjórnarandstæðingar hafa haldið því fram, að við höfum ekki bent á neitt, sem draga mætti úr, í því sambandi. En ég hlýt að vísa slíku algerlega á bug. Hvort tveggja er það, að við afgreiðslu fjárl. hefur Matthías Bjarnason, hv. þm. Vestf., boðist til þess og lagt það fyrir að fresta afgreiðslu fjárl. fram yfir hátíðar til þess að athuga um það, hvort ekki finnist einhver leið, eitthvert samkomulag um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að draga úr ríkisútgjöldunum. Og ég vil jafnframt benda á það, að þannig var staðið að fjárl. í tíð fyrrv. ríkisstj., að hagur ríkissjóðs var mjög góður og verulegur greiðsluafgangur mörg árin.

Það má auðvitað alltaf varpa fram þeirri spurningu, hvernig auðveldast sé að draga úr ríkisútgjöldum. Enginn vafi er á því, að eitt besta ráðið í því efni er að reyna að standa á móti nýjum mannaráðningum. Það er nú einu sinni svo, að það er erfiðara að segja fólki upp stöðum, sem einu sinni er búið að ráða. Miklu auðveldara og eðlilegra er hitt, að reyna að halda þannig á málunum, að ekki þurfi að fjölga mönnum, þótt einhver hætti af einhverjum ástæðum eða verkefnum fjölgi. Að þessu leyti hefur hæstv. fjmrh. alls ekki staðið sig nógu vel. Eins er hitt, að hann hefur verið of eftirlátssamur við einstaka ráðh., m.a. hæstv. ráðh. Alþb., um margvíslegar mannaráðningar. Þeir hæstv, ráðh. hafa hópað í kringum sig alls konar sérfræðingum, flokksbræðrum sínum, og hálfpartinn falið þá fyrir Alþ. með því að lausráða þá. Mér er sagt, að ástæðan fyrir því, að þessum sérfræðingum fari meir fjölgandi en mörgum öðrum, sé m.a. sú, að þeir hafi ekki fengið innangengt í Framkvæmdastofnunina og þess vegna hafi þeir brugðist þannig við. Um þetta veit ég ekki, en á þetta hefur verið giskað.

Eins vil ég benda á það, að menntakerfið hefur bólgnað allt of mikið út. Og svo er að sjá sem í frv. um grunnskóla eigi að halda áfram á þessum sama vegi. Enginn vafi er á því, að það má stytta daglegan námstíma nemenda verulega, án þess að það komi niður á námsefninu, og ég vil í því sambandi minna á eða vitna til þess, að í Noregi er nú verið að taka upp nýja stefnu í þessum málum, m.a. með því að fækka námsgreinum og stilla vikulegum námsgreinum nemenda nokkuð í hóf. Er talað um 30 stundir í því sambandi. Á sama tíma og verið er að gera þetta í okkar nágrannalöndum, er núv. hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir samþykkt grunnskólafrv., sem mun hafa í för með sér, að menntakerfið bólgnar enn út.

Annars má segja, að það komi ekki beinlínis á óvart, þótt ríkiskerfið hafi bólgnað út undir stjórn núv. hæstv. ríkisstj. Það er tilhneiging vinstri stjórna að þenja út ríkisbáknið, og af þeim sökum er erfiðara að koma við sparnaði, þegar vinstri stjórn er við völd, en ella. Þar að auki hefur sú tilhneiging gert vart við sig nú upp á siðkastið að fjölga opinberum stöðum, einfaldlega vegna þess, að menn hafi útskrifast af margvíslegum tískufögum, eins og þjóðfélagsfræði og öðru því um líku, félagsfræði, og ber að gjalda mjög varhuga við því. Að sjálfsögðu eigum við að stefna að því að gera allt ríkisbáknið einfaldara, og ég er sannfærður um það, að ef núv. hæstv. ríkisstj. liti á það í alvöru og kæmi til samstarfs um það við stjórnarandstöðuna, mundi reynast kleift að koma fram þeim niðurskurði, sem við leggjum til í okkar frv. og hæstv. forsrh. með sinni yfirlýsingu, og með sínu atkv. í Nd. hefur jafnframt stutt.

Mér eru það þess vegna mikil vonbrigði, að meiri hl. í fjh: og viðskn. skyldi ekki treysta — sér til þess að standa á bak við forsrh. sinn í þeirri sparnaðarviðleitni, sem hann vissulega hafði í Nd. Það er enginn vafi á því, að hæstv. forsrh. meinti það, þegar hann greiddi atkv. með niðurskurðarheimildinni. Hann var og er áreiðanlega reiðubúinn til þess að draga úr þenslunni og til þess að draga úr ríkisbákninu. Þess vegna vonast ég til þess, að meiri hl. fjh.og viðskn. þessarar d. sjái að sér, dragi till. sínar til baka og gangi til móts við stjórnarandstöðuna og sjálfan hæstv. forsrh. um það að reyna að taka til hendinni og minnka ríkisútgjöldin.

Núv. hæstv. ríkisstj. og einkum hæstv. fjmrh. hefur mjög haldið því fram, að það sé komið undir stjórnarandstöðunni, hvort takist að standa við þá samninga, sem tókust milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar. Ég vil í því sambandi segja það, að það er alltaf vafasamt af ríkisstj. að gera samkomulag við slíka aðila án þess að tryggja sér fyrst, að eðlilegur þingmeirihluti sé á bak við slíka ákvörðun. Ríkisstj. gat að sjálfsögðu sagt sér það fyrir, þar sem hún lagði dæmið fram með þeim hætti, sem hún gerði, að hún ætlaði sér að fá fleiri krónur í ríkiskassann í stað þeirra, sem hún léti af hendi, að meiri hl. Alþ. mundi ekki á það fallast. Stjórnarandstaðan var búin að lýsa því bæði við afgreiðslu fjárl. og eins oft í umr. nú í vetur, að ekki kæmi til greina að ljá máls á því, að ríkisálögurnar yrðu auknar. Ríkisstj. hefur því við enga um að sakast nema sjálfa sig, ef frv. það um skattkerfisbreyt., sem nú liggur fyrir, verður fellt. Og það er síður en svo snúist gegn beiðni Alþýðusambands Íslands eða verkalýðshreyfingarinnar, þótt svo fari. Verkalýðshreyfingin hefur lagt á það áherslu í sínum málflutningi, að tekjuskattur af almennum launatekjum verði afnuminn. Ríkisstj. hefur ekki treyst sér að verða við þessu, en hins vegar eru till. sjálfstæðismanna um það. Alþýðusambandið gerði tilraun til þess eða fulltrúar launþega að ræða við ríkisstj., hvort ekki mætti draga úr þenslunni og ríkisútgjöldunum. Um það var ríkisstj. ekki til viðræðu. Þess vegna sætti Alþýðusambandið sig við þetta samkomulag, eins og það var, þar sem það gat ekki fengið meira fram. Nú er það hins vegar komið í ljós hér á hinu háa Alþ., að í Nd. er ekki meiri hl. fyrir þessari skattkerfisbreytingu, og í sumum dæmum, eins og í sambandi við hækkun launaskattsins, er beinlínis meiri hl. fyrir því að lækka hann, þannig að hann hefur verið skorinn niður um 11/2%.

Ríkisstj. verður að taka afleiðingunum af þessu. Hún verður að söðla um, ef hún vill sitja áfram og reyna að stjórna í samræmi við vilja Alþ. Það er rétt, sem fram hefur komið, að það kann að vera, að 31 þm. sé hlynntur þessu frv., þó er það mjög vafasamt, og mér er ekki kunnugt um nema 30 hv. þm., sem hafa lýst yfir stuðningi við frv. En hvað sem um það er, þá er stjórnarskráin íslenska og þingræðisvenjur hér á landi með þeim hætti, að ætlast er til þess, að mál fari í gegnum tvær þd., og það er ævinlega svo um talað, að þinglegur meiri hl. sé 32 þm. eða meiri hl. í báðum þd. Þetta verður hæstv. ríkisstj. að sætta sig við.

Hv. þm. Ragnar Arnalds hafði stór orð um þetta og sagði m.a., að ef frv. félli, breytti það hvorki einu né neinu hvað snerti líf ríkisstj., en létti af henni. Ríkisstj. yrði vegna laganna allmörgum milljónahundruðum fátækari. Hér fer hv. þm. rangt með, eins og vikið hefur verið að. Ríkissjóður hagnast miklu meira á þessari skattkerfisbreyt. eins og ég hef áður sýnt fram á, heldur en hann tapar. En þetta er ekki eins einfalt og hv. þm. vill vera láta. Það er auðvitað mjög alvarlegt, ef ríkisstj, hefur með jákvæðum hætti skipt sér af gangi kjarasamninga og greitt fyrir lausn þeirra með því að bjóða fram verulegar breyt. á skattalögum. Það er ekki hægt að líta öðruvísi en svo á, að með þessu setji ríkisstj. líf sitt undir. Hún hlýtur að leita allra bragða, áður en hún bregst Alþýðusambandinu að þessu leyti, og útilokað er, að hún geti setið, eftir að slíkt frv. hefur verið fellt.

Það er að sjálfsögðu algerlega fáránlegt, að ein ríkisstj. sé þess umkomin að setja Alþ. úrslitakosti. Samkv. okkar þingræðisvenjum er það svo, að það er Alþ., sem setur ríkisstj. úrslitakosti. Þótt hv. 4. þm. Norðl. v. kunni að þykja málsmeðferðin í Nd. undarleg, þá mun þó hitt sönnu nær, að hæstv. forsrh. hefur annan og betri skilning á þingræðisvenjum heldur en við eigum að venjast úr stjórnarherbúðunum, og ber að virða það.

Í sambandi við þær brtt., sem við lögðum fram á þskj. 506, hefur fallið niður ein brtt. svo hljóðandi:

„Við 17. gr. Á eftir 17. gr. frv. komi ný gr., svo hljóðandi:

Við útreikning kaupgreiðsluvísitölu skal kauplagsnefnd ekki taka tillit til þeirrar hækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar, sem hlýst af 2% söluskattauka samkv. 8. gr. þessara l. Kauplagsnefnd skal meta hverju sinni, hve miklu þessi hækkun nemur.“

Ef svo fer, sem ég vona, að till. þær, sem eru á þskj. 506, verði samþykktar, þá mun ég bera þessa till. fram til samræmis við 3. umr.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu. Ég vil aðeins ítreka það, að í fyrsta lagi er það algerlega úr lausu lofti gripið, að í till. okkar sjálfstæðismanna sé ekki fyllilega mætt þeirri tekjurýrnun, sem ríkissjóður verður fyrir við þær skattkerfisbreyt., sem við leggjum til. Eins og ég sagði áðan, virðist þeirri tekjurýrnun mætt annars vegar með hækkun söluskatts um 2% og hins vegar með niðurskurði fjárl. um 1500 millj. kr., auk þess sem álagning tekjuskatts eftir okkar till. mun nema þeirri upphæð, sem á vantar. Ég vil einnig rifja það upp, að ég hef sýnt fram á það, að sú áætlun eða þeir útreikningar, sem hv. stjórnarsinnar hafa lagt fram um tekjutap ríkissjóðs samkv. því frv., sem ríkisstj. hefur lagt fram, standast ekki. Það nemur ekki nema 2.2 eða í mesta lagi 2.3 milljörðum kr., en hins vegar telja þeir sig fá 3.4 milljarða kr. með söluskattsaukningunni. Ég hlýt að átelja það, að hæstv. ríkisstj. skuli með þessum hætti ætla að nota sér samningsvilja og þá öldu, sem komið hefur fram fyrir lækkun beinna skatta, til þess beinlínis að koma aftan að launþegum í landinu og auka heildarskattbyrði landsmanna. Ég geri mér vonir um það, að hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hér á Alþ. skilji það, að eins og þeir hafa lagt þetta mál fyrir hið háa Alþ., hefur það ekki við meiri hl. að styðjast, og hagi sér í samræmi við það.

Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til samstarfs um það, með hvaða hætti megi draga úr ríkisútgjöldunum, og hörmum einungis, að ekki skuli hafa komið til slíkra aðgerða fyrr en raun ber vitni.

Að lokum hafna ég því enn sem algerlega órökstuddri og rangri skoðun, að það sé stjórnarandstaðan, sem um sé að sakast í þessu máli, ef svo fer, að þetta frv. fellur. Það er algerlega á valdi ríkisstj.. að fallast á þær till., sem við höfum flutt hér fram og allar eru við það miðaðar, að ríkissjóður fái það upp bætt, sem hann mundi tapa við þá skattkerfisbreytingu. Hins vegar getur stjórnarandstaðan að sjálfsögðu ekki fallist á það, að í ríkissjóð komi svo og svo stórar upphæðir til viðbótar því, sem gert var ráð fyrir í fjárl., og með þeim hætti eigi að reyna að mæta þeim útgjöldum, sem svikist var um eða látið var hjá líða að gera ráð fyrir í fjárlagafrv.