15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér í d. hafa nú þegar farið fram allítarlegar umr. um þetta mál, og er því ekki þörf á því að orðlengja frekar um það.

Í þessu máli hefur verið deilt hvað mest um fjárhag ríkissjóðs og hvernig ríkissjóður kæmi út úr þessum breytingum, ef að lögum yrðu, frá því sjónarmiði, hvað tekjur hans yrðu miklar og hve mikil útgjöld hans yrðu. Það er óumdeilt, hygg ég, eftir þessar ítarlegu umr., að söluskatturinn gefi á ársgrundvelli 400 millj. kr. Og ég hygg, að um það sé tæpast lengur deilt, þó að lengi hafi verið reynt að halda uppi deilum um það efni og reynt að vefengja það, sem fullyrt var um það, að tekjutap ríkissjóðs af þeim breyt., sem felast í hækkun tekjuskattsins og skattafslætti, nemi a.m.k. 3400 millj. kr. Hv. talsmenn Alþfl. hafa viðurkennt, að tekjutap ríkissjóðs væri nálægt því, sem ríkið fær út úr söluskattinum á árinu 1974. Á hinn bóginn hafa þeir haldið því fram, að söluskatturinn gæfi talsvert meira en tekjuskattinum nemur á árinu 1975 eða 1976 eða á ársgrundvelli. Þetta viðurkennum við fúslega, sem að þessari skattkerfisbreytingu stöndum. Þess vegna er það næsta óskiljanlegt á grundvelli þess, hve litið ber á milli annars vegar stjórnarflokkanna og hins vegar Alþfl. í þessu máli, að ekki skuli vera hægt að ná samkomulagi um, hvernig á þessu máli skuli haldið. (Gripið fram í.) Það hefur margsinnis verið boðið. Við skulum þá víkja að því.

Ég vil undirstrika það, að margsinnis hefur verið boðið, að þetta frv. gilti ekki nema til loka þessa árs. Það er það, sem ríkisstj. hefur boðið, að frv. gildi aðeins til loka þessa árs og þá verði það tekið til endurskoðunar. Um framhaldið er síðan um tvennt að ræða. Það er hugsanlegt að lækka söluskattinn í árslok. (Gripið fram í: Hvenær hefur það skeð, að skattarnir hafi lækkað?) Ég verð að játa, að mér þykja það nokkuð þungar spurningar, sem fyrir mig eru lagðar, ef ég á að rekja sögu skattamála á Íslandi á þessari öld. En ótrúlegt þykir mér, ef ekki má benda á það, að skattar hafi verið lækkaðir, og það vill nú einmitt svo til, að við erum hér að ræða breyt., sem felur í sér skattalækkun. Jafnvel þótt hægt væri að sanna það, að slíkt ætti sér fá fordæmi, þá sé ég samt ekki, eins og málin standa hér á Alþ. og miðað við það, að ríkisstj. hefur ekki öruggan meiri hl. í báðum deildum þingsins, að þá ætti ekki Alþfl. að geta verið í sams konar aðstöðu í árslok og hann er núna til þess að hafa áhrif á gang þessa máls.

En eins og ég sagði hér áðan, er næsta óskiljanlegt, þegar fyrir liggur, að um málið er ekki meiri ágreiningur en er raunverulega, og þegar fyrir liggur, að það er mikill áhugi fyrir því af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að þetta frv. verði að lögum, um það var samið í nýloknum kjarasamningum, og það má heita eitt af forsendum þeirra kjarasamninga, sem þá voru gerðir, og þegar fyrir liggur, að ekki er meiri ágreiningur um það, hvað í þessum samningum felst, að ekki skuli þá vera hægt að slá því föstu að láta tekjur og gjöld standast á á þessu ári og taka síðan málið til endurskoðunar í árslok.

Ég hef orðið var við það, að Alþfl. hefur boðin 31/2% söluskattshækkun, en þá vantar, eins og talsmenn hans vita auðvitað sjálfir fullkomlega, töluvert á, að endar nái saman. Það vantar sem nemur 11/2%. (Gripið fram í.) Ég hélt, að það hefði margsinnis komið ljóslega fram af hálfu talsmanna Alþfl., að á ársgrundvelli 1974 standast tekjur og gjöld á varðandi tekjuskattslækkunina annars vegar og söluskattshækkunina upp í 5% hins vegar, og ég varð áheyrandi að því á sameiginlegum nefndarfundi í fjh: og viðskn. beggja deilda, að formaður Alþfl., hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, lýsti því yfir, að um þetta atriði væri ekki ágreiningur, heldur hitt, að ríkisstj, ætlaði sér að reikna dæmið á ársgrundvelli og það væri ekki eðlilegt, vegna þess að þessi lög ættu að gilda til frambúðar. Hann bauð það þá fram, að söluskatturinn yrði heldur lægri, t.d. 31/2%, en síðan yrði reynt að afla tekna með öðrum hætti til þess að fylla í eyðuna. Og ég held, að ég sé ekki að segja neitt það, sem mér hefur sérstaklega verið trúað fyrir, þegar ég upplýsi það, að af hálfu Alþfl. hafa komið fram hugmyndir um það, að inn í þessa eyðu gæti kannske komið hækkun á eignarskatti, sem næmi 1%, og hugsanleg hækkun á aðstöðugjaldi. Ég skal ekki segja, hvort þarna hefur verið mælt formlega af hálfu flokksins, en t öllu falli hafa hugmyndir af þessu tagi komið fram manna á meðal og verið ræddar. Það vill hins vegar svo til, að þessar hugmyndir eru ekki aðgengilegar. Út af fyrir sig væri hægt að hugsa sér það, að eignarskatturinn væri hækkaður, en að fara að hræra í aðstöðugjaldinu sem slíku, sem fellur til sveitarfélaganna, það væri mjög óheppilegt. Þar af leiðir, að málið er enn í þeim farvegi, að það liggja ekki fyrir neinar aðgengilegar till. um það, hvernig í þessar eyður skuli fyllt.

Ég verð að segja það, að ég trúi því ekki, að mál muni standa með þessum hætti þar til leiknum lýkur og að ekki verði hægt að komast að einhverju samkomulagi í málinu. Ég vil því leyfa mér að flytja hér brtt. við frv. af hálfu meiri hl. fjh: og viðskn., sem felur það í sér, að frv. gildi til ársloka 1974. Ég trúi ekki öðru en að Alþfl. og fulltrúar hans á Alþingi geti fallist á þá lausn málsins ellegar þeir komi þá fram með einhverjar þær till., sem gefa svipaða útkomu fyrir ríkissjóð.

Brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. er á þá leið, að 20. gr., eins og hún er nú orðin eftir 2. umr., orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. I. kafli 1. kemur til framkvæmda við álagningu skatta til ríkissjóðs fyrir skattárið 1973. II. kafli kemur þegar til framkvæmda. III. kafli tekur gildi 1. apríl 1974. Gilda ákvæði 1. gr., 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 3. málsgr. 7. gr., 8. gr. og 19. gr. til loka ársins 1974. — Úr gildi falla lög nr. 61 1964, um breyt. á lögum úr. 10 1960, um söluskatt.“

Sem sagt, það er sjónarmið okkar, að óhjákvæmilegt sé að standa fast við fyrri till. um 5% söluskattauka. En hér er það boðið fram og lagt til, að sú breyting verði gerð á frv., að það gildi aðeins til áramóta og þá sé unnt að taka málið til endurskoðunar. Ég verð að segja það, að ég trúi ekki öðru en að hv. alþm., sem hafa lýst þeim skoðunum, sem talsmenn Alþfl. hafa gert í þessum umr., geti fallist á þessa lausn málsins.

Ég hef gert grein fyrir skriflegri brtt. meiri hl. fjh: og viðskn., og ég leyfi mér að leggja hana fram, herra forseti, og óska eftir því, að um hana verði leitað afbrigða.