15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

259. mál, skattkerfisbreyting

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér láðist að vísu að hafa með mér nokkra árganga af dagblöðum til þess að teygja tímann fyrir hv. stjórnarliði, enda ætlaði ég mér ekki að taka til máls í þessum umræðum. Það var sá spakvitri formaður Alþb., sem kom mér til þess að stiga í stólinn og segja hér örfá orð. Ég skildi nú takmarkað fyrri hluta ræðu hans, vegna þess að það var almennt kommúnistahjal. en svo kom raunverulega erindið í lokin, sem átti að vera eins konar smyrsl á sár þeirra, sem hér deila um þetta skattalagafrv. Ég vil segja honum í eitt skipti fyrir öll og það strax, að þessi till. skiptir engu máli. Hún breytir engu í afstöðu okkar Alþfl.-manna, því að við erum sannfærðir um það, að hér er verið að svíkjast aftan að verkalýð Íslands.

Það er talað um það, að verkalýðshreyfingin hafi sérstakan áhuga á því, að þetta frv. nái fram að ganga, og ræðumaður tví- eða þrítók þetta fram. Verkalýðshreyfingunni íslensku er ætlaður einn dagur til að komast í gegnum efnahagsvandamál núv. ríkisstj., sem er búin að láta alla sína sérfræðinga vinna í þessu síðan í sept. í haust. Sannleikurinn er sá, að verkalýðshreyfingin lagði mat á það eitt, að hún vildi kerfisbreytingu í skattakerfinu. Um það eru allir íslenskir alþm. sammála. Við erum öll sammála um það, að kerfisbreyting eigi að eiga sér stað. En það, sem við deilum um, er, hvað þessi kerfisbreyting kosti. Við teljum hana kosta 2700–2800 millj., og við erum tilbúnir að samþykkja þá skattahækkun, en ekki krónu meira. Króna á móti krónu. Við samþykkjum það ekki, að verið sé að stela fé almennings til annars en skattbreytingarinnar. Það er það, sem við eigum við.

Hafi þessi hv. þm., framsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., átt að bera hér einhver smyrsl á sárin, þá held ég, að hann hafi ekki haft erindi sem erfiði. Hann bætir því við, að ríkisstj. hafi boðið það, að á ársgrundvelli, að til ársloka skyldu gilda 5%. Hvað á að gera við þetta 11/2 stig, sem á að stela af almenningi? Vill ræðumaðurinn ekki svara því? Hvað á að gera við 11/2 stig umfram það, sem þarf vegna sjálfrar breytingarinnar? Þessu verður forustumaður láglaunafólksins, lægst launuðu verkamannanna á Íslandi, að svara. Hann hefur ekki sparað okkur orðin í stjórnarliði fyrri ára um níðingshátt okkar í garð þessa fólks. Vill hann ekki nú svara því, hvers vegna hann vill stuðla að því, að þessum stuldi sé komið á? Geri hann grein fyrir því. Og svo þetta: Það stendur ekki til að stela af ykkur þessu lengur en til ársloka 1974, þá ætlum við að hætta þessum stuldi. — Hver trúir því? Hvenær hefur það gerst, að sláttur hafi verið afnuminn, sem á hefur verið lagður, nema honum hafi verið breytt í annað heiti? Ég spyr hv. þm., því að ég veit, að hann er löglærður maður og þekkir vel til í þessum málum og ætti að geta svarað þessu. Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að hætta að stela af ykkur um áramótin. Það er búið þá þegar að stela 11/2 stigi í tæpt ár. Og það hefur enginn skattur verið lagður niður, sem á hefur verið lagður, aðeins breytt um nafn á honum. Þetta veit þm. ósköp vel. Þess vegna þýðir ekkert svona hráskinnaleikur kringum hluti, sem hann veit miklu betur um, ekki síst sem forustumaður í samtökum láglaunafólks.

Ef einhver efast um réttmæti þeirra orða, sem ég nú hef sagt, ætti hann eins og næsti ræðumaður hér á undan að líta yfir farinn veg til óðaverðbólgu núv. ríkisstj. og trúa því svo, að skatt, sem þeir leggja á í dag, eigi að afnema um næstu áramót að einhverju eða öllu leyti. Ætli það veiti af í verðbólguhítina að bæta þá einhverju við þennan skatt? Sú er reynslan á þeim 21/2 ári, sem núv, ríkisstj. hefur stjórnað, og ég hygg, að svo verði áfram, því að ekki er úr verðbólgubálinu dregið, síst af öllu með ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds, frsm, meiri hl. nefndarinnar.