15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég get nú ekki látið hjá líða að segja örfá orð um ræður þeirra, sem hér hafa talað á undan mér, með hliðsjón af því, hversu mjög þær hafa beinst að því, sem ég sagði hér áðan, enda þótt ég vilji síst af öllu fara að teygja allt of mikið úr þessum umr., þær eru víst orðnar nógu langar.

Ég stóð hér áðan upp til þess að gera grein fyrir ákveðinni till., sem við höfum þegar flutt, meiri hl. fjh: og viðskn., um það, að frv. það, sem hér liggur fyrir, gildi til áramóta og skuli þá tekið til endurskoðunar. Ég verð að segja það, að mér þóttu viðbrögð manna við þessum tillöguflutningi merkilega einkennileg. Fyrstur spratt upp hv. þm. Jón Árnason og var töluvert æstur, eins og hér væri einhver mikil hætta á ferðinni, og leyfði sér jafnvel að brigsla mér um það, að ég hefði verið fjarverandi úr þinghúsinu í allan dag, — ég hef satt að segja ekki vikið héðan úr þinginu í allan dag, en ég held, að menn hljóti að virða mér það til vorkunnar, að ég taki mér stundum svolitla hvíld, þegar maraþonræður eru fluttar hér, án þess að í þeim finnist varla neisti af rökum. Ég býst við, að það sé svo um fleiri en mig, að menn þurfi að fá sér örlitla hvíld stundum, þegar slíkt flóð steypist yfir menn. En ég verð að segja, að ég varð svo sannarlega ekkert hissa á því í sjálfu sér, að hv. þm. Jón Árnason skyldi bregðast við á þennan máta. Ég hef ekki orðið var við, að hann eða hans líkar vildu yfirleitt ræða þetta mál með neinum rökum, og þar af leiðandi kom mér þetta ekki á nokkurn hátt á óvart. Viðbrögð hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar voru aftur á móti kannske eilítið einkennilegri. Það var greinilegt, að hann vildi ekki viðurkenna þá till., sem hér var borin fram, sem nein smyrsl á sárin, eins og hann orðaði það, og það má vel vera. Það fer eftir því, hvernig till. er tekin. Það má vel vera, að í raun réttri verki þessi till. eins og salt í sárin, en það stafar þá fyrst og fremst af því, að till. kemur þeim Alþfl: mönnum í töluvert mikinn vanda. Það stafar þá ekki af neinu öðru en því. Þetta er sem sagt tilboð, sem þarna er gert og kemur þeim óneitanlega í nokkurn vanda, sem vill hafa hreina samvisku í þeim rökræðum, sem hér fara fram.

Um málflutning hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar er það kannske einna helst að segja, að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það hefur verið sagt um menn fyrr, að sú ræða, sem þeir flytja, kunni að segja meira um hugarangur þeirra en það, sem þeir eru sjálfir að tala um. Í fyrri hluta ræðu minnar hér var ég að rekja tölulegar staðreyndir þessa máls (Gripið fram í.) Jú, ég var í fyrri hluta ræðu minnar að tala um tölulegar staðreyndir þessa máls, og hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson kom hér upp og sagði: Fyrri hluti ræðunnar var almennt kommúnistahjal. Það var svar hans við þeim tölulegu upplýsingum, sem ég rakti hér. Það skyldi nú ekki vera svo, að viðbrögð hv. þm. beri fyrst og fremst vott um, að hann finnur, að með till. af þessu tagi hlýtur hann að vera settur í mikinn vanda?

Hv. þm. hélt því hér blákalt fram, að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hefðu verið blekktir í þeim samningum, sem áttu sér stað um þetta mál milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar og stóðu vikum saman, þar sem allt var gert til þess að gera mönnum eins fært og hugsast gat að reikna þessi dæmi út (EggÞ: Einn dag.) Það er ekki rétt. (EggÞ: Það hefur fjmrh. sagt.) Það er ekki rétt. Menn höfðu tekið sér mjög góðan tíma til þess að skoða þetta mál, höfðu skoðað það vikum saman. En út af fyrir sig er það rétt, að lokasamkomulagið, endanlegur frágangur málsins gekk fyrir sig á síðasta degi þess undirbúnings, svo sem ævinlega hlýtur að vera. Nei, ég verð að segja það, að menn eru í æðimiklum rökþrotum, þegar menn hampa fullyrðingum af þessu tagi, og ég held, að ég verði að láta mér nægja að vitna til orða ráðuneytisstjórans í fjmrn., Jóns Sigurðssonar, sem einmitt tjáði okkur nm. í fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. á fyrsta fundinum, sem haldinn var um málið, að hann væri þeirrar skoðunar, að engin breyting hefði áður verið gerð á löggjöf, sem snerti verkalýðshreyfinguna, breyting á löggjöf, sem gerð væri með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, þar sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hefðu fengið jafngott tækifæri til þess að kynna sér málið, hefðu haft jafngóða aðstöðu til þess að kanna það til botns og verið jafnljóst, hvað þeir raunverulega voru að gera. Ég var ekki viðstaddur þessa samninga, en ég held, að fullyrðing þessa embættismanns segi áreiðanlega töluvert meira um sannleik þessa máls heldur en þessi blábera fullyrðing hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar, sem hann vissi sjálfur, að var sögð algerlega út í bláinn.

Ég held, að það sé sannleikur málsins, sem ég hélt hér fram í minni fyrri ræðu við þessa 3. umr. Það er ekki umdeilt í sjálfu sér, hverjar eru tölur þessa máls, milli stjórnarflokkanna og Alþfl. Það er dálítill munur á því, hvernig aftur á móti Sjálfstfl. hefur haldið á þessu máli, því að hann vill engum rökum taka, og þær tölur, sem sjálfstæðismenn setja fram, það verður hvergi hönd á fest hvað þær snertir. En það kom skýrt fram t.d. í nál. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, og það kom einnig skýrt fram í ræðu hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar áðan, að á 12 mánaða grundvelli gerir söluskatturinn, sem hér er um að ræða, 4000 millj., og það er tala, sem eðlilegt er að miða við, það er viðurkennd staðreynd. Þar af leiðandi er það einfalt reikningsdæmi, að á 91/2 mánuði gerir þessi söluskattur 3160 millj. eða minna en tekjuskattslækkuninni nemur. Það er viðurkennt í því nái., sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur lagt hér fram, að tekjuskattslækkunin nemi 2700 millj. Og það er einnig viðurkennt hér, að útgjöldin af skattaafslættinum nemi 550 millj., þ.e.a.s. samanlagt um 3250 millj., þannig að með þessum tölum, sem hér hafa verið lagðar fram í þskj., er það viðurkennt, að 5% söluskattur á 91/2 mánuði gefur minna en tekjuskattslækkunin nemur. Um þetta er ekki deilt, þetta blasir við og á ekki að þurfa að deila neitt um. (Gripið fram í: Hvað gefur hann mikið?) Ég veit að vísu vel, ég þarf varla að endurtaka það, ég var að enda við að segja það hér, að á 91/2 mánuði gefur 5% söluskattur, miðað við 400 millj. kr. ársgrundvöll, 3160 millj. kr. Ég veit hins vegar vel, að í þessu nál. Gylfa Þ. Gíslasonar hefur hann að vísu patentlausnir á málinu, sem eru ekki í fyllsta samræmi við það, sem við í stjórnarflokkunum viljum í þessu máli, því að hann segir ósköp einfaldlega: Jú, 31/2 stig á ársgrundvelli nægja til þess að jafna upp þessar 2700 millj., sem er út af fyrir sig rétt. Og svo bætir hann við: En 550 millj., í þau útgjöld er hægt að fá peninga einhvers staðar annars staðar, t.d. með því að fá þá út úr hækkun á fasteignamati, útreikningi á eigin húsaleigu miðað við 3% fasteignamat o.s.frv. Hann vill, að ríkið taki þessa peninga einhvers staðar annars staðar en þar sem áður hefur verið reiknað með þeim.

Ég held sem sagt, að ég geti undirstrikað það, sem ég sagði hér áðan, að um töluleg atriði þessa máls er í raun og veru alls ekki deilt á milli okkar og Alþfl. Það er hins vegar deilt um það, hvort eigi að reikna þetta á grundvelli ársins 1974 eða á ársgrundvelli miðað við 1975 og 1976. Og við teljum, að á þessu stigi málsins verði að miða dæmið við grundvöll ársins 1974 og bera fram till. um það, að skattkerfisbreytingin nái þá ekki lengra en til ársloka, þannig að þá sé hægt að reikna dæmið aftur.

Ég endurtek það ósköp einfaldlega, að það má vel vera, að till. af þessu tagi falli ekki í góðan jarðveg, það má vel vera, að fulltrúum Alþfl. finnist, að að sér sé sneitt með till. af þessu tagi og þeir bregðist þá illir við og reiðir. En það stafar þá ekki af neinu öðru en því, að þeir eiga erfitt með að greiða atkv. gegn þeirri sanngirnislausn, sem í till, felst.