15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

259. mál, skattkerfisbreyting

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en það hafa komið raddir fram um það, að stjórninni væri sæmst að segja af sér ef þetta frv. næði ekki fram að ganga. Út af því vil ég aðeins segja örfá orð.

Ég hef fallist á að fylgja þessu frv. um skattkerfisbreytingu, eins og það liggur fyrir, eða réttara sagt, ég féllst á það í þeirri von, að það mundi greiða fyrir kjarasamningum, í þeirri trú, að það mundi verða einhvers metið í þeim kjarasamningum, sem fram fóru. Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar um það hér, hvort svo hafi verið eða ekki. En samkomulag hefur verið gert við verkalýðsfélögin um þessa skattkerfisbreytingu, sem hér liggur fyrir, og við það samkomulag munu að sjálfsögðu stjórnarsinnar standa. Hins vegar tel ég enga ástæðu til að leggja launung á það, að ef ég óbundinn af öllu samkomulagi hefði átt að gera till. um breytingar á skattkerfi, þá hefðu þær verið á aðra lund en þær, sem hér liggja fyrir. En þetta eru þær till., sem byggjast á samkomulagi við verkalýðsfélögin, og við höfum heitið í því samkomulagi að beita okkur fyrir því, að yrðu samþ. á Alþ. Við það heit munum við standa. Viðsemjendum okkar var ljóst, hver staða okkar var á Alþ., og þess vegna verður ríkisstj, ekki sökuð um nein brigð gagnvart verkalýðssamtökunum, þótt henni takist ekki að koma þessu fram, hafi hún gert allt, sem í hennar valdi stóð til þess.

Að mati ríkisstj. og hennar sérfræðinga er hér ekki um auknar eða nýjar álögur að tefla, heldur aðeins um það að ræða að hverfa frá fyrra kerfi að verulegu leyti með innheimtu beinna skatta og fara yfir í óbeina skatta. Þess vegna er það, að þó að þetta frv. verði fellt, verður ríkisstj. eftir það ekkert verr í stakk búin að því er fjárráð snertir en áður. Þess vegna er engin ástæða til fyrir ríkisstj. að segja af sér, þó að þetta frv. verði fellt.

Ég heyrði líka áðan, að það var minnst á það, hvernig ég hefði greitt atkv. í Nd. um bráðabirgðaákvæði það, sem sjálfstæðismenn fluttu um niðurskurð á útgjöldum. Þar sem grg, mín fyrir atkv. mínu var í styttra lagi og þar sem blöð hafa nokkuð hvert með sínum hætti lagt út af því, þykir mér ástæða til þess að fara aðeins örfáum orðum um það.

Ég verð að segja það, að ég tel till. frá stjórnarandstöðu um að veita ríkisstj. heimild til að skera niður útgjöld, jafnt ólögbundin sem lögbundin, mjög athyglisverða. Ég tel, að í slíkri till. felist mjög óvenjuleg traustsyfirlýsing til ríkisstj. Ég veit, að það eru sjálfsagt margir mér fróðari í stjórnmálasögu hér. Ég veit, að það eru mörg fordæmi fyrir því, að ríkisstj. hafi flutt og fengið samþykktar till. sér til handa um heimild til þess að skera ríkisútgjöld niður, og það er alveg rétt, sem kom fram í umr. í Nd., að það var gert með brbl. um efnahagsmál frá því sumarið 1972, þó að þar væri um aðra og miklu óveglegri upphæð að tefla heldur en í till. sjálfstæðismanna. En það var þó heimild til þess að skera útgjöld, jafnt ólögboðin sem lögbundin, niður um 400 millj.

Þessi brbl. voru lögð fyrir Alþ., eins og stjórnarskráin mælir fyrir um. Þau þjónuðu sínum tilgangi og höfðu sinn takmarkaða gildistíma og féllu þá úr gildi. Það skiptir þess vegna engu máli um gildi þeirra, þingræðislegt eða annars konar, hvort þau voru samþ. á Alþ. eða ekki. Ég hygg, að það sé varla of í lagt, að um 1/6 hluti af brbl. hafi dagað uppi á Alþ. af þeim sökum, að þau hafi þjónað sínum tilgangi og gildistími þeirra hafi verið útrunninn. Ef Alþ. gerir ekki aths. við þau, þá leggur það blessun sína yfir þau, þannig að það er hér við skýr fordæmi að styðjast, það viðurkenni ég. Hins vegar er mér ekki kunnugt um nein dæmi þess, hvorki úr íslenskri stjórnmálasögu né erlendri, að stjórnarandstaða hafi flutt till. um að veita ríkisstj., sem hún annars hefur ekki mjög mikið álit á, heimild til þess að skera niður útgjöld með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í till. þeirra sjálfstæðismanna. En sú till. var svo hljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði fjárl. ársins 1974 (l. nr. 110/1973) er ríkisstj. heimilt að lækka fjárveitingar samkv. þeim um allt að 1500 millj. kr. Tekur þetta einnig til fjárlagaliða, sem jafnframt eru ákveðnir í öðrum lögum en fjárlögum.“

Lengri er nú þessi tillgr. ekki. Hér er um mjög víðtækt valdaframsal af hálfu löggjafa til framkvæmdavaldshafa að ræða. Ég veit, að það er talsvert rætt um það og umdeilt atriði á meðal lögfræðinga, hversu víðtækt valdframsal löggjafa til framkvæmdarvaldshafa megi vera. En ég held þó, miðað við fordæmi og miðað við eðli þessa máls, þar sem ekki er um eiginlega lagasetningu að tefla, heldur fjárveitingar, þá verði ekki dregið í efa, að það sé heimilt að gera þetta. Og það er engin takmörkun í þessari heimild. Stjórninni er með henni veitt vald til þess að breyta hvaða lögum sem er algerlega upp á sitt eindæmi. Það veitir enga stoð, þó að það kunni að hafa verið gert ráð fyrir því í nál., að þetta yrði gert í samráði við fjvn., né þó að slíkt hafi komið fram í umr. Lagagr. stendur og er skýr. í henni eru engar takmarkanir. Hitt er það, að þessari ríkisstj. hefði vitaskuld aldrei dottið í hug að misnota slíka heimild sem þessa. Henni hefði auðvitað aldrei dottið í hug að framkvæma þetta með öðrum hætti en þeim að hafa samráð við fjvn. En heimildin stendur eftir sem áður, a.m.k. sem minnisvarði, og er athyglisverð.

Ég held, að það hafi verið Magnús heitinn Jónsson, sem sagði eitthvað á þá lund, að þegar steiktar gæsir flygju upp í munninn á manni, þá væri varla hægt að ætlast til þess, að maður skyrpti þeim út úr sér. Og ég verð að segja það, að þegar mér er boðið slíkt á silfurbakka, þá slæ ég ekki umhugsunarlaust á þá hönd, sem réttir mér þann silfurbakka. Ég treysti mér vel til þess að framkvæma þetta vald og fara trúverðuglega með það og vil ekki hafa á móti því út af fyrir sig, að stjórnarandstaðan sýni ríkisstj. þetta traust. Þess vegna taldi ég það og gerði þá grein fyrir atkv. mínu í Nd., að ég teldi rétt, að þetta færi til Ed. til skoðunar. Ég held, að það þurfi engum að koma á óvart viðhorf mitt til þess að reyna að draga úr útgjöldum ríkisins. Ég hef margoft prédikað það, í áramótagrein, í áramótaræðu og öðrum ræðum, að það væri mitt álit, að það þyrfti að draga úr þeirri þenslu og þeirri spennu, sem hér hefur ríkt og verið ríkjandi. Og ég hef ekki skipt um skoðun í því efni. Ég veit, að það er afskaplega erfitt að skera niður fjárveitingar, sem samþykktar eru af Alþ. Ég veit, að það er alveg sérstaklega erfitt, ef sú heimild er eingöngu bundin við ólögboðin útgjöld, vegna þess að staðreyndin er sú, að það er búið að binda í lögum svo geysilega mikið af útgjöldum ríkisins, að fjvn. og fjmrh. hafa í því efni við samningu fjárl. ákaflega lítið svigrúm, nema þetta sé einnig og einmitt tekið með, að það megi draga úr hinum lögbundnu útgjöldum. En vitaskuld er það ákaflega erfitt, og ég ásaka ekki stjórnarandstöðuna fyrir að hafa þó ekki gengið lengra en þetta og bent alveg ákveðið á þá liði, sem hún vildi skera niður. En mér finnst þetta út af fyrir sig allrausnarlega boðið hjá henni. Þess var varla að vænta, að hún treystist til þess að benda alveg ákveðið á þá liði, sem hún vildi skera niður. En ég fyrir mitt leyti held, að það eigi ekki að vera óframkvæmanlegt með fjárl., sem eru eins há og þau eru, að lækka útgjöld um svo sem einn milljarð eða hálfan annan milljarð, eins og hér er gert ráð fyrir. Það er sannfæring mín, að það sé hægt með góðum vilja, alveg sérstaklega þegar einmitt er um að ræða, að það má fara í hin lögbundnu útgjöld einnig.

Ég tel ástand og horfur þannig, að það verði naumast hjá því komist að gera á næstunni tilraun til þess að fá samþykktar ráðstafanir í efnahagsmálum. Ég tel ekki ólíklegt, að einn liður í þeim ráðstöfunum yrði einmitt að freista þess að reyna að skera útgjöld eitthvað niður. Og þá verð ég að segja það, að ég tel mikilsverða og ég met þá stefnuyfirlýsingu, sem í þessu efni hefur komið fram frá stjórnarandstæðingum. Mér dettur ekki eitt andartak í hug annað en þeir standi við þá stefnuyfirlýsingu, þó að á reyni um þetta atriði í öðru frv. og öðrum lögum en þessum. Og þetta var ástæðan fyrir því, að ég vildi veita með atkv. mínu viðurkenningu á þeim vilja, sem þarna hafði komið fram.

Ég verð hins vegar að segja það, að þar sem þessu frv. hefur nú verið breytt í það horf, sem það var upphaflega lagt fram hér í Ed., og frv. fer í þeim búningi til Nd., þá tel ég þann einan hátt eðlilegan, að í Nd., þegar hún fær málið héðan til einnar umr., sé skorið alveg á hnútinn og örlög þessa frv. ráðin. Þess vegna mun ég greiða atkv. þá gegn öllum brtt., sem koma fram, vegna þess að samþykkt þeirra þýddi það, að frv. færi aftur hingað til Ed., og að því get ég ekki með neinu móti stuðlað, þó að ég teldi hættulaust og meira en það, að þetta ákvæði færi til Ed. í fyrrilotu og fengi þar athugun.

Ég hef hér leitast við að gera grein fyrir því, hvers vegna ég taldi mér eftir atvikum rétt að greiða atkv. með þessari brtt. Ég taldi mér það rétt upp á seinni tímann. Ég taldi það rétt að veita þeirri viðleitni, sem þarna kom fram, viðurkenningu, og ég spái því, að hver sem örlög þessa frv. verða, þá muni reyna á það innan skamms, hvort menn eru fúsir eða ekki að ganga í þá raun, sem óneitanlega er að skera nokkuð niður af útgjöldum. Eins og ég hef sagt, held ég, að það sé ekki ógerningur, og ég held a.m.k., að mörgum hv. alþm. muni ganga erfiðlega að sannfæra hv. kjósendur um, að það sé ekki hægt. Ég mundi a.m.k. fyrir mitt leyti telja það nokkuð erfitt. En með því að hafa þessi orð hér yfir í Ed., að gefnu tilefni, get ég sparað mér að hafa grg. um þetta í Nd., þegar frv. kemur þangað.