15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

259. mál, skattkerfisbreyting

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki, þó að tilefni hafi verið gefið til, teygja þessar umr. öllu lengur. Mér þykir leitt að heyra í hæstv, forsrh., að hann vill ekki steiktar gæsir nema í Nd. Hann talaði um það, að þær væru gómsætar fyrir núv, ríkisstj., þær sparnaðartill., sem samþ. voru í Nd. með hans atkv. m.a. En af því að þær hefðu verið felldar út hér af hans eigin flokksmönnum m.a., þá vildi hann þær ekki lengur. Ég tel þetta ekki vera nógu rökrétt fyrir þann þjóðréttarprófessor, sem ég veit, að hann er, og þekkir alþingissöguna kannske okkar allra best, að hafa skoðanaskipti á þessum hlutum á milli deilda. En það er hans mál.

Hann sagði enn fremur, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði hér í kvöld, að stjórnarliðið mundi reyna að standa við gerða samninga við verkalýðsfélögin. Í grg. stjórnarliðsins sjálfs er það skýrt tekið fram, með leyfi hæstv. forseta orðrétt:

„Í samráði við fulltrúa ASÍ við endanlega gerð frv. kom það fram, að þeir telja fleiri aðferðir koma til greina til að jafna mun söluskattshækkunar og tekjuskattslækkunar.“

Þetta er frá stjórnarliðinu sjálfu. Ekki höfum við búið þetta til, stjórnarandstæðingarnir. Það er m.ö.o. upplýst, að verkalýðshreyfingin sjálf taldi fleiri hluti koma til greina. Og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hér í kvöld, er vart mögulegt fyrir nokkurn mennskan mann að gera sér grein fyrir jafnflóknu og margbrotnu efni og hér er um að ræða á einum degi, þegar það kostar sérfræðinga 4–5 mánuði að kanna málið fyrir hönd ríkisstj. Þetta er orðrétt upp úr frv. sjálfs fjmrh., ef hann vill lesa það upp.

Það er og vitað af umr. frá fyrri þingum, að verkalýðshreyfingin taldi sjálf, að allt fikt við vísitöluna væri svik við verkalýðinn. Fékk núv. hæstv. ríkisstj, leyfi verkalýðshreyfingarinnar til þess að gera það fikt við vísitöluna, sem nú er gert? (Gripið fram í: Já.) Já, það er ekki sama hver er (Gripið fram í: Hún er vinsæl stjórnin.) Hún er vinsæl, ríkisstj., það fer ekkert milli mála. Það eru til langar ræður og ekki síst eftir hæstv. núv. félmrh., sem við urðum að sitja hér undir þing eftir þing, um þau svik, sem það væri við verkalýðshreyfinguna, að við nokkrum hlut væri þar hreyft. Nú má vera með endalaust fikt við þessa hluti.

Það er svo önnur saga, sem kannske tekur ekki að vera að tala um, þegar manni er jafnvel í skinn komið og ég er sjálfur, að ég minnist þess ekki á 22 ára þingferli, að hafður hafi verið af manni matartími til þess að þræla stjfrv. í gegn. En maður lifir allt einu sinni fyrst, og sjálfsagt er mér manna best í skinn komið ásamt vini mínum hér fyrir framan mig til þess að standa það af sér að svelta eina vorvertíð eða svo.

Forsrh. sagði hér áðan og frsm. meiri hl. einnig, að það hefði verið leitað samstöðu um þá brtt., sem meiri hl. lagði fram við 3. umr. Þetta kann vel að vera. En við vitum ósköp vel. sem hér sitjum á þingstólunum, að það hafa verið langtum víðtækari samningaumleitanir á göngum hér fyrir utan þingsalina. Og við vitum líka, á hverjum þessar samkomulaksumleitanir hafa strandað. Alþb. hefur einfaldlega svarað því til: Við erum búnir að berja bað mikið á okkar fólki um þessi 5%, að við getum ekki snúið við. — Það eru ekki rök fyrir því, að 31/2% dugi ekki, heldur pólitísk innbyrðis átök í Alþb. Og þá fer maður að skilja, hvers vegna hv. þm. hefur af hálfbræðrum sínum í pólitík, sem standa að blaði, sem heitir Stéttabaráttan, verið nefndur þar á sínum tíma öreigaforinginn með pappírshendurnar. Þetta er að vísu óviðkomandi þessu máli og óþarft að hafa eftir, enda er mér illa við slíkt. En sannleikurinn er sá, að á þessu máli hefur verið tekið með pappírshöndum. Ef einlægur vilji stjórnarliðsins til að ná samkomulagi um framkvæmd málsins hefði verið fyrir bendi, hefði það náðst.

Það eru allir flokkar sammála um sjálft skattbreytingakerfið, sem er meginatriði frv. Deilan stendur um, hvað þessi breyting kosti. Það er viðurkennt af ríkisstj. sjálfri, að söluskattsstigið gefi 800 millj. Þrisvar 8 eru 24 og helmingurinn af 8 eru 4. Þar með duga 31/2 stig. Þessu hefur ekki verið hnekkt hér í kvöld og ekki í umr. í Nd. heldur. Sannleikurinn er því sá, að ef nokkur minnsti vilji hefði verið til þess að ganga fram hjá því að stela í leiðinni aukapeningum til annarra hluta, hefði þetta frv. verið samþ. hér einróma.

Það á að segja frá því, þegar verið er að afla tekna, til hvers þær eru ætlaðar. Við höfum boðist til þess, Alþfl.- menn, og það boð stendur enn, að styðja það, að þessar skattkerfisbreytingar geti átt sér stað, og fylgja þeim tekjuhækkunum, sem til þess þurfa, og það er einsdæmi í 20 ára sögu stjórnarandstöðu á Íslandi. Hingað til höfum við heyrt það, ef við höfum setið í stjórnarliði, að peningarnir eigi að koma hvergi að, þó að gerðar séu kröfur um síaukin útgjöld. Í dag bjóðumst við til þess að standa við tekjuþörfina til þess að koma þeirri tekjuskattsbreytingu á, sem allir eru sammála um. En þá er því hafnað. Þá þarf að fá fleiri aura til annars, en því neitum við.