15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2935 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

259. mál, skattkerfisbreyting

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera nokkrar aths. við ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Hann ræddi aðallega tvö atriði. Hann rifjaði upp, að við stjórnarandstæðingar hefðum haldið fram, að ríkisstj. ætti að segja af sér, þar sem hún gæti ekki komið málum sínum fram. Það er alveg rétt, við höfum haldið þessu fram, og ég skil raunar ekkert í hæstv. forsrh. einmitt sem slíkum að fallast ekki á þetta með okkur. Ríkisstj., sem ekki kemur málum sínum fram, er ekki fær um að stjórna landinu. Þetta liggur svo í augum uppi, að um þetta þarf ekki að deila.

Við höfum ekki fundið að því, að hæstv. ríkisstj. hafi rætt við launþegasamtökin um breytingar á skattal. í kjölfar eindreginnar kröfu launþegasamtakanna um að fá framgengt lækkun beina skatta, vegna þess að skattabyrðin var óþolandi áður og er að óbreyttum lögum. Við höfum hins vegar gagnrýnt hæstv. ríkisstj. fyrir það að hafa ekki hafist handa fyrr um breytingar á skattalöggjöfinni, hafist handa fyrr um að gera till. um lækkun beinna skatta. Og sé það svo sem mér fannst koma fram af orðum hæstv. forsrh., að hann væri ekki ánægður með það, hve mikils launþegasamtökin hefðu metið skattabreytingarnar, þá held ég, að sökin sé hæstv. ríkisstj., vegna þess að hún hófst í raun og veru ekki í alvöru handa í þessum málum, fyrr en boðað var til verkfalls með tveggja vikna fyrirvara, eftir að samningaumleitanir höfðu staðið yfir í 4–5 mánuði.

Ég held líka, að ef um það er að ræða, að kjarasamningarnir séu verðbólgumyndandi, og ég held því miður, að menn þurfi ekki að skilorðsbinda það og segja „ef“ í því sambandi, — þeir eru því miður verðbólguhvetjandi, — þá var hægt að koma í veg fyrir það með því að hafa fyrra fallið um till. til skattbreytinga. Og auðvitað þurfti að fullnægja því skilyrði, að skattbreytingarnar væru ekki þannig, að að þeim væri lítill hagur fyrir launþegana sjálfa. Ef ríkisstj. hefði haft söluskattshækkunina minni, þá er ég viss um, að launþegasamtökin hefðu metið skattkerfisbreytinguna meira en raun ber vitni. Ég skal ekki endurtaka þau rök, sem við höfum hér flutt um, að það var ekki nauðsyn að hafa söluskattshækkunina svo háa sem í frv. felst.

Það er ekki af okkar hálfu, eins og ég sagði áðan, gagnrýnt, að rætt sé við launþegasamtökin um áhugamál þeirra til þess að greiða fyrir heilbrigðum og eðlilegum kjarasamningum, miðað við ríkjandi ástand. En það er gagnrýnt, að farið er þannig að í þeim efnum að hafa ekki samráð við Alþ. meira en svo, að þegar á hólminn er komið og frv. um skattkerfisbreytingu er flutt á Alþ., kemur í ljós, að frv. hefur ekki einungis andstöðu stjórnarandstæðinga, heldur og mætir andstöðu í flokki stjórnarsinna. Ríkisstj. vanrækti samhliða samráði við launþegasamtökin að hafa samráð við Alþ. sjálft, og að því leyti til gat Alþ. ekki virðingar sinnar vegna viðurkennt, að frv. væri þannig, að engum staf í því mætti breyta. Ef sú var skoðun ríkisstj., var í raun og veru verið að flytja löggjafarvaldið úr sölum Alþ., þar sem það á að vera samkv. stjórnskrá landsins, og til samtaka úti í bæ, sem eru góðra gjalda verð og hafa sínu mikla hlutverki að gegna, en eiga ekki þrátt fyrir það að hafa löggjafarvaldið í sínum höndum. Það er fyrir þetta, sem við höfum gagnrýnt ríkisstj. Það er á þessum grundvelli, sem við segjum, að ríkisstj. eigi að segja af sér, vegna þess að hún hefur sniðgengið Alþ. og henni hefur mistekist að koma þessu sínu máli fram. Ríkisstj., sem kemur ekki málum sínum fram, er ekki fær um að stjórna landinu.

Varðandi hitt atriðið, sem hæstv. forsrh. drap á, till. okkar sjálfstæðismanna um niðurskurð á útgjöldum ríkisins, vil ég segja það, að við sjálfstæðismenn höfum mætt tvenns konar gagnrýni fyrir þennan tillöguflutning: Annars vegar þeirri gagnrýni, að það væri auðvelt að segja, að það væri hægt að lækka útgjöld ríkissjóðs um 11/2 milljarð kr., en tiltaka ekki, hvernig það skyldi gert. Hins vegar hefur sú gagnrýni verið borin fram, og á þá gagnrýni lagði hæstv. forsrh. megináherslu, slík till. væri í raun og veru óvenjuleg, hún bæri vitni um traust á ríkisstj.

Það er kannske ekki rétt að segja. að þetta sé gagnrýni af hálfu hæstv. forsrh., því að væntanlega finnst engum forsrh. það gagnrýnisvert, ef menn bera traust til hans eigin ríkisstj. En hins vegar skulum við a.m.k. segja, að hér hafi verið um aths. að ræða. En ef sú aths. á við rök að styðjast, þá hljóta það að vera mikil vonbrigði fyrir hæstv. forsrh., að hann fékk í lið með sér og stjórnarandstæðingum, sem báru traust til ríkisstj. að hans áliti, aðeins einn sinna flokksmanna.

Við berum fram þessa till. í framhaldi af ábendingum okkar og raunar tillöguflutningi fyrr um það, að ríkisútgjöld hafi vaxið allt of ört í tíð núv. ríkisstj., þegar fjárlög hafa þrefaldast. Við afgreiðslu hvers fjárlagafrv., sem ríkisstj. hefur flutt hér á Alþ., frá því að hún kom til valda, hafa talsmenn okkar í þeim efnum boðið ríkisstj., að við sjálfstæðismenn skyldum ganga að því starfi með þeim að skera niður útgjöld fjárl. og bera fulla ábyrgð á slíkum niðurskurði, þótt við værum í stjórnarandstöðu. Mér er sérstaklega minnisstætt við umr. um fjárl. 1974 rétt fyrir s.l. jól, þegar hv. þm. Matthías Bjarnason gerði það að till. sinni, að fjvn. væri falið að eyða jólaleyfi sínu til þess að gera till. um niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs. Það var ekki hlustað á þetta tilboð hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, sem hann gerði í umboði okkar allra sjálfstæðismanna.

Mér er minnisstætt, að við sjálfstæðismenn vildum leysa fjárþörf vegna Vestmannaeyjagossins og afleiðinga þess með því að skera niður útgjöld ríkissjóðs fremur en að leggja svo mikla viðbótarskatta á landsmenn sem upprunalega var tilgangur og ætlan ríkisstj., og raunar var um meiri skattlagningu að ræða í því sambandi en við sjálfstæðismenn vildum, að hefði verið. Við fengum því framgengt, að ríkisstj. féllst á niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs að upphæð 160 millj. kr. — Það var allt og sumt — í sambandi við fjáröflun til Viðlagasjóðs.

Ég nefni þessi dæmi til þess að sýna fram á, að við höfum fyrr gert slíkar till. og talað fyrir daufum eyrum. Okkur hefur ávallt verið bent á, að þarna væri um að ræða till., sem auðveldara væri að flytja en framkvæma. Hinu síðara höfum við svarað með því að bjóðast til að bera fulla ábyrgð á slíkum niðurskurði, þótt við séum í stjórnarandstöðu. En nú er ekki lengur dregið í efa, að unnt sé að spara 11/2 milljarð í útgjöldum ríkissjóðs. Sjálfur hæstv. forsrh. telur það unnt. Hann hrósar sér meira að segja af því að hafa bent á þetta í áramóagreinum og oftar. En það sorglega við það er, að hann hefur ekkert gert til að framkvæma þessi orð sín og ábendingar og vilja, sem ég skal ekki draga í efa, að sé góður í þessum efnum.

Nú bjóðumst við sjálfstæðismenn enn einu sinni til þess að standa að slíkum niðurskurði, og ekki getur hæstv. forsrh, sett það fyrir sig, að það beri vitni um traust á hans eigin stjórn. Það skiptir minnstu máli, hvernig hann túlkar það, og ég hirði ekki um að leiðrétta það. Það er að vísu misskilningur af hans hálfu. Aðalatriði málsins er að fá þessa till. samþ. og framkvæmda.

Það hefur áreiðanlega ekki átt sér stað í þingsögunni, að forsrh. ásamt einum öðrum úr stjórnarliði snýst á sveif með stjórnarandstöðu og greiðir atkv. með brtt. stjórnarandstöðu í blóra við vilja annarra stjórnarstuðningsmanna, að því er virðist. Ég vil ekki gera út af fyrir sig aths. við það, heldur miklu fremur lýsa yfir ánægju minni yfir því, hvernig hæstv. forsrh. greiddi atkv. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að hann er hættur við þá ágætu fyrirætlan, sem birtist í atkv. hans með till. okkar sjálfstæðismanna um niðurskurð á ríkisútgjöldum, og hefur nú gefist upp á því í bili, þangað til bornar verða fram till. í efnahagsmálum, sem hann boðaði, á næstunni. Það hefði ekkert sakað, þótt strax hefði verið farið að vinna að þessum niðurskurði ríkisútgjalda og hafist væri handa um framkvæmd á þeim niðurskurði nú þegar, og því eru þetta okkur mikil vonbrigði.

Það eru líka mikil vonbrigði, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera sterkari í sínum flokki og meðal stuðningsflokka ríkisstj. en svo, að hann geti ekki talið stuðningsmönnum sínum bughvarf og leitt þá inn á sína stefnu, niðurskurð á ríkisútgjöldum, heldur þarf hann, sjálfur forsrh., að beygja sig fyrir stuðningsliðinu.

Það fer ekki á milli mála, að það er rétt hjá hæstv. forsrh., að nauðsyn er á víðtækum samræmdum aðgerðum í efnahagsmálum. Þetta er skoðun, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram nú mjög lengi. — Á þá skoðun hefur ekki verið hlustað, undir hana ekki tekið. Áfram hefur verið siglt í andvaraleysi og hverjum degi látin nægja sín þjáning og ávallt vonast eftir, að einhver óvænt höpp hleyptu ríkisstjórnarfleytunni yfir sker og boða. Nú verður ekki lengur umflúið að hlusta á aðvörunarorð stjórnarandstöðunnar. Nú er sjálfur hæstv. forsrh. kominn á okkar skoðun. Nú loksins er honum ljós alvaran, sem við blasir. Yfir því ber að gleðjast, um leið og vonbrigði eru látin í ljós, að svo lengi dróst, að hann gerði sér þessar staðreyndir ljósar, vegna þess að sá dráttur, sem orðið hefur á því, að ríkisstj. hafi horfst í augu við vandamálin og gert tilraun til að leysa þau, er til þess fallinn að gera lausn mála erfiðari og þungbærari þjóðinni allri en ella.